Borgarráð - Fundur nr. 5133

Borgarráð

BORGARRÁÐ

Ár 2010, fimmtudaginn 7. október, var haldinn 5133. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.35. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 15. september. R10010009

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 23. september. R10010015

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 27. september. R10010018

4. Lagðar fram fundargerðir skipulagsráðs frá 29. september og 6. október. R10010027
B-hlutar fundargerðanna samþykktir.

5. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 16., 17. og 27. ágúst og 21. september. R10010031

6. Lögð fram fundargerð stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 20. september. R10010032

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 27. september. R10010029

8. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 24. september. R10010033

9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 8 mál. R10090148

- Kl. 9.43 tekur Hanna Birna Kristjánsdóttir sæti á fundinum.

10. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 23. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 22. s.m., um breytt deiliskipulag Austurhafnar TRH vegna gatna- og stígatengsla á svæðinu milli Hafnarstrætis og tónlistarhússins. R10020096
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 5. þ.m., ásamt fylgiskjölum, þar sem lagt er til að dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu verði gefið fyrirheit um úthlutun lóðar á Hólmsheiði undir fangelsi. R07100307
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 5. þ.m., varðandi stofnun Menningarsjóðsins Imagine Peace - Reykjavík. R10090051
Samþykkt.

Bókun borgarráðs:

Friður, menning og mannréttindi í anda John Lennon og Yoko Ono er leiðarljós nýs menningarsjóðs, Imagine Peace – Reykjavík sem nú er orðinn að veruleika. Markmið sjóðsins er að styðja við og styrkja menningarverkefni tengd börnum, ungmennum, grænum gildum og hreinni orku og verkefnum sem stuðla að eflingu mannréttinda og friðarstarfs. Það verður vart betra. Borgarráð gleðst yfir þessu samstarfi borgarinnar og Yoko Ono og þakkar þeim sem unnið hafa að Imagine Peace – Reykjavík.

13. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs frá 28. f.m., sbr. samþykkt menningar- og ferðamálaráðs 27. s.m., varðandi umferðarrétt um svokallaðan Skáldastíg. R09100194
Vísað til skipulagsráðs.

14. Lagður fram samstarfssamningur menningar- og ferðamálasviðs og Menningarfélagsins Tjarnarbíós um rekstur Tjarnarbíós, dags. 20. ágúst sl. R10100010
Afgreiðslu samningsins frestað.

Bókun borgarráðs:

Borgarráð fagnar því að rekstur sé að hefjast að nýju í Tjarnarbíói, enda hefur borgarstjórn verið samstíga í þeim vilja sínum að þetta hús fái aukið og öflugt hlutverk í samræmi við sögu þess og mikilvægi. Sú uppbygging, sem nú hefur staðið í nokkur ár, hefur tekist afar vel og er til sóma fyrir þá sem að hafa komið. Borgarráð væntir þess að borgarbúar muni um ókomin ár njóta þessa húss og kraftmikillar starfsemi þess, sem vafalítið mun auðga borgarlífið og vera mikilvægur vettvangur fyrir sviðslistir, tónlist, kvikmyndir og ýmiss konar menningartengt fræðslustarf.

15. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 22. f.m. um skipan fulltrúa í þjónustuhóp aldraðra. R08020042
Samþykkt.

16. Lagt fram svar borgarstjóra frá 5. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um þróun barnafjölda á frístundaheimilum o.fl., sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. f.m. R10020043

17. Lagt fram svar borgarstjóra frá 5. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um áhrif gjaldskrárhækkunar Orkuveitu Reykjavíkur á rekstrarkostnað Reykjavíkurborgar, sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. f.m. R10080089

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Nú er ljóst að rekstrarkostnaður Reykjavíkurborgar mun aukast um rúmlega 200 milljónir króna vegna gjaldskrárhækkunar Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta eru mjög háar fjárhæðir sem munu hafa verulega áhrif á þá vinnu sem framundan er vegna fjárhagsáætlunar. Til að setja þessa upphæð í samhengi, þá er þetta sambærilegur kostnaður og Reykjavíkurborg ber af rekstri tveggja leikskóla í Reykjavík. Ekkert liggur fyrir um það hvernig Reykjavíkurborg hyggst mæta þessum stórauknu greiðslum til Orkuveitu Reykjavíkur, hvort þessu verður mætt með hærri gjaldskrám til íbúa, uppsögnum starfsfólks eða skattahækkunum. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka þá afstöðu sína að gengið hafi verið til þessara gjaldskrárhækkana Orkuveitu Reykjavíkur af alltof mikilli hörku og litlum skilningi á því hvaða keðjuverkanir slíkar ákvarðanir hafa.

18. Samþykkt er að Karl Sigurðsson, Kristín Soffía Jónsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson og Sóley Tómasdóttir skipi stýrihóp um mótun heildarstefnu í umhverfis- og auðlindamálum, sbr. 3. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 21. f.m. Karl Sigurðsson verði formaður hópsins. Hópurinn ljúki störfum fyrir 1. apríl 2011. R10090140

19. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R10090001

20. Lagt fram að nýju bréf lögmanns Roks ehf. frá 14. júní sl. þar sem óskað er endurupptöku á þeirri ákvörðun borgarráðs frá 19. febrúar 2009 að hafna kröfu félagsins um innlausn á fasteigninni að Eddufelli 8. Jafnframt lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 5. þ.m. þar sem lagt er til að endurupptökubeiðninni verði hafnað. R10060105
Umsögn borgarlögmanns samþykkt og er því endurupptökubeiðninni hafnað.

21. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 4. þ.m. varðandi niðurstöðu Eftirlitsstofnunar EFTA í kærumáli vegna meintrar ríkisaðstoðar Reykjavíkurhafnar til Stáltaks hf. R09110011

22. Lögð fram samþykkt hverfisráðs Árbæjar frá 15. f.m. varðandi byggingu Norðlingaskóla, sbr. bréf ráðsins dags. s.d. R07010167

23. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 20. f.m. varðandi framtíðarnýtingu söluturnsins á Lækjartorgi. R10080018
Samþykkt.

24. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 28. f.m. um úthlutun lóðar nr. 20-24 við Skyggnisbraut gegn afsali lóða nr. 53 við Friggjarbrunn og 2-6 við Skyggnisbraut. R10100014
Júlíus Vífill Ingvarsson víkur af fundi við meðferð málsins.
Samþykkt.

25. Lagt fram bréf skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs frá 30. f.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 28. s.m., um gjaldskyldu á bílastæði á lóð Olís við Skúlagötu. R10100031
Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna samþykkir fyrir sitt leyti að tekin verði upp gjaldskylda, á þeim bílastæðum sem þegar hafa verið gerð, gegnt Skúlagötu 7 en tekur að öðru leyti undir bókun umhverfis- og samgönguráðs þar sem framkvæmdin er gagnrýnd sem og sú ákvörðun að fjölga bílastæðum í miðborginni.

26. Rætt er um starfsmannamál á leikskólum í Reykjavík. R10010084

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu eftir að staðan í leikskólunum yrði rædd á þessum fundi borgarráðs, þar sem undanfarið hafa borist fréttir frá starfsfólki leikskólanna og foreldrum um að senda hafi þurft börn heim af leikskólum. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir að þessi mál verði tekin til sérstakrar meðferðar á vettvangi menntaráðs og leitað verði til starfsfólks og stjórnenda leikskólanna um hvernig vinna megi með þessa stöðu svo tryggt sé að hún bitni sem minnst á þeirri mikilvægu þjónustu sem í leikskólum borgarinnar er veitt.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Besta flokksins þakka Sjálfstæðisflokknum fyrir að setja starfsmannamál leikskólanna á dagskrá. Samkvæmt nýjustu upplýsingum vantar nú starfsfólk í um 20 stöðugildi af 1500 stöðugildum. Á leikskólasviði er nú í gangi viðamikil og mikilvæg rýning á áhrifum hagræðingaraðgerða síðustu ára og annarra þátta í starfsumhverfi leikskóla. Starfsfólk leikskóla er lykilfólk í þeirri rýningu og verður borgarráð og menntaráð upplýst með reglulegu millibili í aðdraganda framlagningar fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár.

27. Lögð fram að nýju tillaga borgarstjóra frá 31. ágúst sl. um stofnun stýrihóps um mótun leiksvæðastefnu fyrir Reykjavíkurborg, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. f.m. Jafnframt lögð fram umsögn umhverfis- og samgönguráðs frá 14. f.m., sbr. bréf skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs 16. s.m. R10060068
Tillaga borgarstjóra er samþykkt með þeirri breytingu að stýrihópurinn verði skipaður fjórum fulltrúum. Þá verði við vinnu hópsins byggt á fyrirliggjandi vinnu starfshóps um leikjastefnu borgarinnar. Hópinn skipi Stefán Benediktsson, Karl Sigurðsson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Kristín Þorleifsdóttir. Stefán Benediktsson verði formaður hópsins.

28. Lagðar fram tillögur úthlutunarnefndar um úthlutun til verkefna í þágu ungs fólks, alls 10.606 þ.kr., sbr. bréf verkefnisstjóra dags. 5. þ.m. R10080059
Tillögur úthlutunarnefndar samþykktar.

29. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra vegna aksturs Strætó á menningarnótt, dags. 5. þ.m.:

Lagt er til að fjárheimild vegna framlaga til Strætó bs. verði hækkuð sem nemur kr. 3.500.000. Fjárhæðin færist til hækkunar á kostnaðarstað 10500 en til lækkunar á handbæru fé á móti.

Greinargerð fylgir tillögunni. R10080023
Samþykkt.

30. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er upplýsinga um innheimtumál borgarinnar og ferli þeirra. Hversu mörg fyrirtæki og heimili eru í nú vanskilum vegna fasteignaskatta og hvar standa þau mál í innheimtuferlinu? Í hversu mörgum uppboðsmálum er Reykjavíkurborg uppboðsbeiðandi? Lögum um tekjustofna var breytt á síðasta ári með viðauka með þeim hætti að borgin hefur lögveð í fasteign í fjögur ár vegna vangoldinna fasteignaskatta 2008–2010. Þetta eykur svigrúm greiðenda. Óskað er eftir tillögum frá borgarstjóra um það hvernig Reykjavíkurborg getur komið til móts við þá sem þurfa á enn frekari aðstoð að halda til þess að standa undir fjárskuldbindingum sínum að þessu leyti. R10100117

31. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði óska eftir fjárhagsáætlun og kynningu á þeim fjárfestingum sem áætlaðar eru hjá Strætó bs. og Sorpu bs. Ljóst er að mikið hefur verið fjallað um eflingu almenningssamgangna fyrir Reykjavík og auknar áherslur á endurvinnslu. Ýmis loforð þar um hafa fallið í aðdraganda kosninga, í fjölmiðlum og í samstarfsyfirlýsingu Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Þessar áætlanir munu kalla á aukið fjármagn til rekstrar þessara byggðarsamlaga auk þess sem þær kalla á auknar fjárfestingar. Óskað er eftir ítarlegum áætlunum í ljósi þessa og hversu mikill kostnaðarauki er væntanlegur á næstu árum vegna þessara áætlana. R09110053

Fundi slitið kl. 13.13

Óttarr Ólafur Proppé
Björk Vilhelmsdóttir Elsa Hrafnhildur Yeoman
Hanna Birna Kristjánsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Oddný Sturludóttir Sóley Tómasdóttir