Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2010, fimmtudaginn 12. ágúst, var haldinn 5127. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.35. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir. Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lagðar fram fundargerðir framtalsnefndar frá 18. maí og 18. júní. R10010007
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 13. júlí. R10010016
3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 6. ágúst. R10010019
4. Lögð fram fundargerð menningar- og ferðamálaráðs frá 9. ágúst. R10010024
5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R10070088
6. Lagðar fram að nýju tillögur starfshóps varðandi styrki vegna sérstakrar aukningar húsnæðiskostnaðar, dags. 18. maí sl. R10020057
Vísað til starfshóps um endurskoðun styrkveitinga.
7. Lagt fram bréf mannréttindaskrifstofu frá 28. f.m. um hlutfall kynja í ráðum, nefndum og stjórnum hjá Reykjavíkurborg. R10070012
8. Rætt er um þá fyrirætlan að bjóða borgarbúum leikvelli til fósturs. R10060068
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja til að umhverfis- og samgöngusviði og framkvæmda- og eignasviði verði falið að hefja viðræður við þá sem þegar hafa lýst vilja til að taka þátt í verkefninu.
Frestað.
- Kl. 9.43 tekur Hanna Birna Kristjánsdóttir sæti á fundinum.
9. Kynnt er dagskrá menningarnætur 21. ágúst nk. R10080023
Jafnframt er lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að styðja við auknar strætisvagnasamgöngur á menningarnótt með því að leggja til fjárframlag til Strætó bs. sem verði nýtt til að fjölga ferðum í miðborgina. Endanleg fjárhæð verði lögð fyrir borgarráð til afgreiðslu.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillaga borgarstjóra samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka Höfuðborgarstofu góða kynningu og góðan undirbúning vegna menningarnætur. Fram kemur í kynningunni að nú verði gestir í fyrsta sinn sektaðir vegna stöðubrota í miðborginni. Þar sem þessi stefnubreyting gæti haft talsverð áhrif á hátíðina er spurt hvernig standa eigi að þessari breytingu og hvað hún felur í sér fyrir gesti menningarnætur.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja jafnframt fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í kynningu vegna menningarnætur kemur fram að í dag verður gengið til samninga við annað fyrirtæki en OR um kostun vegna flugeldasýningar. Það vekur furðu að þessi ákvörðun liggi fyrir, enda liggur ekki fyrir nein afstaða stjórnar OR – þrátt fyrir að stuðningur fyrirtækisins við menningarnótt til margra ára sé byggður á sérstökum samningi þar um. Formaður stjórnar og/eða borgarstjóri virðast því einhliða hafa tekið þá ákvörðun og tilkynnt stjórn menningarnætur niðurstöðu sína í gegnum fjölmiðlafulltrúa OR. Á fundinum fékkst ekki svar við fyrirspurn um hvaða fyrirtæki bæri umræddan kostnað, en Reykjavíkurborg virðist sjálf hafa haft samband við ákveðna aðila um kostun þrátt fyrir að mun eðlilegra hefði verið að gefa fleirum tækifæri til slíkrar aðkomu, t.d. með því að auglýsa eftir slíkum stuðningi. Þessi vinnubrögð eru fáheyrð í borgarráði og því er óskað upplýsinga um hvar umrædd ákvörðun var tekin og hvers vegna þetta óþarfa uppnám hafi skapast í kringum þetta litla verkefni, sem hefur til margra ára glatt tugþúsundir borgarbúa og felur ekki í sér meiri kostnað en þriggja mánaða laun stjórnarformanns OR.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Nokkru fyrir hrun kom upp stórt og vandræðalegt mál í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar þegar samráðsleysi, leynd og hraði í stjórnsýslunni leiddi næstum til þess að eignir og þekking Orkuveitu Reykjavíkur lentu í höndum útrásarvíkinga. Í kjölfarið var sett af stað mikil og ýtarleg vinna þar sem kjörnir fulltrúar allra flokka lofuðu bót og betrun og vinnubrögð breyttust talsvert til hins betra. Nú er kominn fram á sjónarsviðið Besti flokkurinn sem heitir sjálfbæru gagnsæi og lýðræðislegri vinnubrögðum. Frá því að samstarf Samfylkingar og Besta flokksins hófst virðast þessi fyrirheit þó hafa gleymst með öllu, enda telja einstakir kjörnir fulltrúar sig hafa umboð til að taka geðþóttaákvarðanir um stór og smá mál án þess að þær séu bornar undir fundi hins fjölskipaða stjórnvalds. Það uppnám sem nú hefur orðið vegna flugeldasýningar á menningarnótt er til komið vegna þessara vinnubragða. Með tveggja vikna fyrirvara berast skilaboð frá Orkuveitu Reykjavíkur um að hún komi ekki til með að kosta viðburðinn sem setur stjórn næturinnar í afar slæma stöðu sem ekki verður unnið úr með gagnsæjum eða viðunandi hætti. Þó þessi ákvörðun sé í sjálfu sér ekki stór, þá er hún táknræn og hefði þurft umfjöllun á þar til bærum fundi. Það var ekki gert og engin svör hafa fengist við því hvar, hvenær eða hvers vegna ákvörðunin var tekin. Það er með öllu óviðunandi og til marks um gamaldags, ólýðræðisleg og ógagnsæ vinnubrögð.
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:
Flugeldasýningin er ekki í uppnámi. Samningur við OR vegna menningarnætur rann út fyrir ári og nú er unnið að því að finna nýjan styrktaraðila. Vonandi tekst það þannig að flugeldasýning verði á menningarnótt.
10. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 9. þ.m. varðandi sölu á lausum kennslustofum við Korpuskóla, ásamt drögum að kaupsamningi og afsali. R10080022
Samþykkt.
11. Kynnt er fimm mánaða rekstraruppgjör fyrir janúar til maí 2010. R10020043
12. Kynnt er niðurstaða skuldabréfaútboðs 10. og 11. þ.m. R09110126
Borgarráð samþykkir fyrirliggjandi tilboð að fjárhæð 980 m.kr. á ávöxtunarkröfunni 3,9#PR.
13. Lögð fram skýrsla um úttekt á kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg, dags. 9. f.m., ásamt bréfi mannauðsstjóra og mannréttindastjóra frá 9. þ.m. um málið. R08020040
14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að setja á stofn stýrihóp sem undirbýr stefnumótun fyrir götu- og torgsölu í miðborginni. Formaður hópsins verði Einar Örn Benediktsson, formaður menningar- og ferðamálaráðs. Aðrir í hópnum verði fulltrúar frá Höfuðborgarstofu, hverfisráði Miðborgar, samtökunum Miðborgin okkar og frá skipulags- og byggingarsviði. Verkefnisstjóri á Höfuðborgarstofu starfi með hópnum.
Greinargerð fylgir tillögunni. R08100304
Samþykkt.
15. Lagt fram bréf skrifstofustjóra mannvirkjaskrifstofu frá 10. þ.m. varðandi sérstök átaksverkefni í framkvæmdum. Jafnframt lagt fram yfirlit framkvæmda- og eignasviðs yfir framkvæmdir í Breiðholti 2010, dags. s.d. R10060150
Vísað til umhverfis- og samgönguráðs til kynningar.
16. Lagt fram að nýju bréf innri endurskoðanda frá 9. júní sl. um samninga Reykjavíkurborgar og Golfklúbbs Reykjavíkur ásamt svohljóðandi tillögu borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar:
Í tilefni af framlagningu skýrslu innri endurskoðunar um samninga Reykjavíkurborgar og Golfklúbbs Reykjavíkur telur borgarráð rétt að fallið verði frá fyrirhugaðri byggingu vélageymslu á svæði GR og að golfklúbburinn endurgreiði Reykjavíkurborg þá fjárhæð sem hann hefur þegar fengið úr borgarsjóði og ætluð var sem greiðsla vegna þeirrar framkvæmdar. Þá tekur borgarráð undir þá niðurstöðu innri endurskoðunar að fullt tilefni er til að skerpa á reglum Reykjavíkurborgar um styrki og samstarfssamninga frá 9. september 2004, ásamt sérreglum ÍTR um styrkveitingar til íþróttamannvirkja íþróttafélaga í Reykjavík. Er því verkefni og niðurstöðum innri endurskoðunar vísað til starfshóps um endurskoðun styrkjareglna borgarinnar.
Jafnframt lagt fram bréf lögmanns stjórnar Golfklúbbs Reykjavíkur, Gests Jónssonar hrl., frá 30. f.m. Þá er lagt fram bréf borgarstjóra til golfklúbbsins, dags. 11. þ.m. R09030061
Frestað.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Óskað er formlegs álits borgarlögmanns á fyrirliggjandi tillögu meirihlutans um að krefja GR um endurgreiðslu vegna eldri samninga. Einnig er óskað álits borgarlögmanns á því hvort ekki sé rétt að afgreiða þessi mál í tvennu lagi – þ.e.a.s. fyrst greiðslu vegna samningsins sl. vor og síðan tillögu meirihlutans um endurgreiðslu vegna eldri samninga. Einnig er óskað formlegs minnisblaðs frá sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs vegna málsins.
17. Lagt fram minnisblað deildarstjóra innkaupamála um embættisbifreið borgarstjóra, dags. 11. þ.m. R10080028
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna undrast þá ákvörðun borgarstjóra að ganga til samninga við fyrirtæki um endurgjaldslaus afnot af bifreið fyrir embættið. Þessi ákvörðun borgarstjóra er ekki aðeins í andstöðu við siðareglur borgarstjórnar, heldur hlýtur hún einnig að vera í andstöðu við og vekja spurningar um það gagnsæi og jafnræði sem nauðsynlegt er að viðhafa í opinberri stjórnsýslu. Skýringar borgarstjóra vegna málsins vekja einnig upp spurningar sem nauðsynlegt er að óska svara við:
1. Borgarstjóri hefur sagt að það sé í raun ekki embætti hans sem hafi afnot af bifreiðinni, heldur Ráðhús Reykjavíkur. Í því sambandi er spurt hvers vegna það komi þá fram í samningi vegna bifreiðarinnar að um sé að ræða ,,embættisbifreið borgarstjórans“ og embættið hafi hana til umráða ,,án endurgjalds“.
2. Fyrirliggjandi samningur vegna bifreiðarinnar er gerður við Íslenska Nýorku, sem er í eigu nokkurra opinberra aðila og þriggja erlendra fyrirtækja. Þar sem Íslensk Nýorka er einnig í samstarfi við ýmis bifreiðafyrirtæki er spurt hvort eitthvert slíkt fyrirtæki eigi aðild að umræddum samningi? Einnig er spurt hver eigi bifreiðina, hver hafi flutt hana inn, hvort umrædd þjónusta hafi verið boðin út og hverjir séu hugsanlegir hagsmunir þeirra fyrirtækja sem koma að endurgjaldslausu láni á bifreiðinni.
3. Borgarstjóri hefur sagt að ekkert athugavert sé við það að ákveðin fyrirtæki hljóti í gegnum embætti hans kynningu með umræddum hætti. Því er spurt hvort fleiri slíkir samningar hafi verið gerðir eða verði gerðir.
4. Þar sem bíllinn er hluti af skilgreindum fríðindum borgarstjóra samkvæmt samþykktum borgarinnar er óskað eftir upplýsingum um með hvaða hætti þessi samningur verður túlkaður við framtal til skatts.
18. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um starfsmann eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. f.m. R10060067
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks leggja fram eftirfarandi fyrirspurn og óska um leið eftir starfslýsingu starfsmanns eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur:
1. Hver greiðir laun starfsmanns eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur?
2. Hvar er vinnuaðstaða starfsmannsins?
3. Hversu hátt er starfshlutfall starfsmannsins?
19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:
Lagt er til að borgarráð samþykki að heimila framkvæmda- og eignasviði að kaupa fasteignir Skóla Ísaks Jónssonar. Kaupverð, kr. 291.721.778, er greitt með yfirtöku á áhvílandi skuldum, kr. 253.721.778, og fjármögnun nauðsynlegra viðhaldsframkvæmda. Seljandi nýtur kaupréttar á fasteignunum á sama raunverði að fimm árum liðnum enda stefnir skólinn að því að starfa í eigin húsnæði þegar náðst hafa betri tök á fjármálum skólans. Fyrir liggur fjárhagsáætlun 2010 og drög að áætlun 2011. Borgarráð samþykkir jafnframt að heimila framkvæmda- og eignasviði að leigja Skóla Ísaks Jónssonar fasteignirnar. R09050100
Frestað.
20. Lögð fram umsögn borgarlögmanns um frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða, dags. 10. þ.m. R10060146
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna furðar sig á umsögn ráðsins og þeim ákafa sem þar kemur fram gagnvart rannsóknum og orkunýtingu á friðlýstum svæðum. Í umsögninni er lýst áhyggjum af því að friðlýst svæði séu útilokuð frá nýtingaráætluninni, þ.e. að friðlýsingin hafi þau áhrif sem henni er ætlað. Vinstri græn eru innilega ósammála þessari athugasemd og telja að með henni sé verið að lítilsvirða friðlýsingar og náttúruvernd undanfarinna áratuga og ómetanleg svæði á borð við Öskju, Fjallabak og Vonarskarð. Þetta ákvæði í frumvarpinu er sett fram til þess að standa með náttúrunni, þessum svæðum og öðrum, sem hlotið hafa þann sess sem þeim var ætlað. Sú gagnrýni sem sett er fram í þessum kafla umsagnarinnar er með öllu óháð áhrifum frumvarpsins á sveitarfélög og snýst hún aðeins um pólitíska sýn varðandi náttúruvernd á landinu öllu. Það skýtur því skökku við að borgarfulltrúar Samfylkingarinnar skuli gagnrýna frumvarp flokkssystur sinnar með þessum hætti og það vekur upp spurningar um pólitíska stefnu flokksins í umhverfismálum.
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:
Ekki er tekið undir bókun VG enda er skýrt í umsögninni að það er ekki síst með hagsmuni friðlýstra svæða sem athugasemdirnar eru settar fram.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna kannast ekki við þær orkurannsóknir sem settar hafa verið í gang með hagsmuni friðlýstra svæða að leiðarljósi. Slíkar rannsóknir eru ætíð unnar með orkunýtingu í huga og er útskýring Samfylkingarinnar því ekki aðeins óskiljanleg heldur bendir hún til þess að stóriðjuarmur flokksins sé að reyna að hafa áhrif á störf ríkisstjórnarinnar og framtíð landsins.
21. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Nú þegar tveir mánuðir eru liðnir frá því að nýr meirihluti tók við í Reykjavík og borgarráð hefur ekki enn fengið neinar upplýsingar um vinnu við gerð fjárhagsáætlunar komandi árs, er spurt hvað þeirri vinnu líður og óskað eftir því að málið verði sett á dagskrá næsta fundar borgarráðs. Einnig er þess óskað að öll fagráð borgarinnar verði sem fyrst kölluð saman vegna þeirrar vinnu sem framundan er á þeim vettvangi. Minnt er á að samkvæmt tímaáætlun vegna fjárhagsáætlunar áttu fagráðin að nota tímann frá byrjun júní til að ljúka stefnumótun og forgangsröðun vegna fjárhagsáætlunar, en nú um miðjan ágúst hafa enn ekki neinir fundir verið boðaðir vegna þeirrar vinnu í nokkru fagráði borgarinnar. Ekki hefur heldur verið haldinn neinn fundur í aðgerðahópi borgarráðs vegna fjármála í þessa tvo mánuði og því liggur formlega ekkert fyrir um þá miklu vinnu sem framundan er vegna fjárhagsáætlunar fyrir komandi ár. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gagnrýna harðlega að svo stór og mikilvæg mál er varða stefnumótun, forgangsröðun og samráð um mikilvægustu málefni borgarbúa skuli látin bíða svo lengi. Þetta er sérstaklega ámælisvert við þær aðstæður sem nú eru uppi í íslensku efnahags- og atvinnulífi þar sem ljóst er að margar stórar og mikilvægar ákvarðanir þola ekki frekari bið, svo öruggt sé að fjárhagsáætlun næsta árs tryggi Reykvíkingum áfram trausta og góða þjónustu og varðstöðu um það sem mestu skiptir. R10050098
Fundi slitið kl. 13.10
Dagur B. Eggertsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Hanna Birna Kristjánsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Oddný Sturludóttir
Óttarr Ólafur Proppé Sóley Tómasdóttir