Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2010, fimmtudaginn 22. júlí, var haldinn 5126. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.30. Viðstödd voru Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Óttarr Proppé og Þorleifur Gunnlaugsson .
Fundarritari var Eyþóra Kristín Geirsdóttir.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram afgreiðslufundargerð byggingarfulltrúa frá 20. júlí. R10010027
Samþykkt.
2. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 16. júlí. R10010004
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 9. júlí. R10010009
4. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Hlíða frá 11. maí og 7. júlí. R10010014
5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 8. júlí. R10010017
6. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 7., 14. og 20. júlí. R10010019
7. Lögð fram fundargerð mannréttindaráðs frá 5. júlí. R10010023
8. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 14. júlí. R10010027
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
9. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 5. og 12. júlí. R10010031
10. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 5. júlí. R10010033
11. Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 7. júlí. R10010035
12. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R10060151
13. Lögð fram bókun hverfisráðs Árbæjar frá 9. þ.m. um að byggingu 1. áfanga Norðlingaskóla verði hraðað eins og kostur er. R09070020
Samþykkt að óska eftir stöðumati frá framkvæmdasviði fyrir næsta fund borgarráðs.
14. Lagt fram bréf innri endurskoðanda frá 9. f.m. um samninga Reykjavíkurborgar og Golfklúbbs Reykjavíkur. Jafnframt lögð fram svohljóðandi tillaga að bókun:
Í tilefni af framlagningu skýrslu innri endurskoðunar um samninga Reykjavíkurborgar og Golfklúbbs Reykjavíkur telur borgarráð rétt að fallið verði frá fyrirhugaðri byggingu vélageymslu á svæði GR og að golfklúbburinn endurgreiði Reykjavíkurborg þá fjárhæð sem hann hefur þegar fengið úr borgarsjóði og ætluð var sem greiðsla vegna þeirrar framkvæmdar. Þá tekur borgarráð undir þá niðurstöðu innri endurskoðunar að fullt tilefni er til að skerpa á reglum Reykjavíkurborgar um styrki og samstarfssamninga frá 9. september 2004, ásamt sérreglum ÍTR um styrkveitingar til íþróttamannvirkja íþróttafélaga í Reykjavík. Er því verkefni og niðurstöðum innri endurskoðunar vísað til starfshóps um endurskoðun styrkjareglna borgarinnar. R09030061
Frestað.
15. Samþykkt að skipa eftirtalda fulltrúa í starfshóp um endurskoðun styrkveitinga: Björn Blöndal, Einar Örn Benediktsson, Björk Vilhelmsdóttur, Kjartan Magnússon og Sóleyju Tómasdóttur. R10060153
16. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 8. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 7. s.m., um deiliskipulag Túnahverfis. R10030119
Samþykkt.
17. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 8. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 7. s.m., um deiliskipulag reita nr. 1.170.1 og 2 vegna lóða nr. 2-4 við Þingholtsstræti og nr. 1 við Skólastræti. R10030120
Samþykkt.
18. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 8. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 7. s.m., varðandi reglur um smáhús. R10070038
Samþykkt.
19. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 8. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 7. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi á lóð nr. 32 við Borgartún. R10070039
Samþykkt.
20. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 8. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 7. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu aðalskipulagi vegna gerðar mislægra göngutengingar milli Seláss og Norðlingaholts yfir Breiðholtsbraut. R06070105
Samþykkt.
21. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 14. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi á Hólmsheiði vegna afmörkunar á svæði til jarðvegsfyllingar. R07060084
Samþykkt.
22. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 14. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi reits 1.190.3, Njálsgötureitur 3. R10070062
Samþykkt.
23. Lagt fram svar borgarstjóra frá 19. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um beygju á Bústaðavegi, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs 8. þ.m. R07090112
24. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 14. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Heiðmörk. R10070061
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarrráðsfulltrúi VG ítrekar tillögu sem ekki hefur verið tekin til afgreiðslu þrátt fyrir að hún hafi verið lögð fram í borgarráði fyrir meira en hálfu ári eða 10.12.2009. Í tillögunni segir: „Borgarráð felur borgarstjóra að leita leiða til að endurheimta þann hluta Heiðmerkur sem færður var til Orkuveitu Reykjavíkur á sínum tíma.“ Og í greinargerð segir: „Jörðina Elliðavatn keypti Reykjavíkurborg á sínum tíma til að afla vatns fyrir borgarbúa og var hún því í umsjá Vatnsveitu Reykjavíkur. Um er að ræða ómetanlegt útivistarsvæði og helsta vatnstökusvæði borgarinnar með Gvendarbrunna og Myllulæk innan sinna marka og því mikilvægt að eignarhald sé skýrt.“ Nú þegar endanlega er ljóst að Orkuveita Reykjavíkur er verulega illa stödd og sá möguleiki raunhæfur að vatnstökusvæði borgarinnar gætu lent í höndum einkaaðila er það nauðsynlegt að tillagan fái afgreiðslu og vatnstökusvæði borgarinnar fari aftur í eigu hennar.
25. Kynnt eru drög að umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um frumvarp til laga um stjórn vatnamála. R10070070
26. Lagt fram bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 13. þ.m. um úttekt og greiningu á stöðu fyrirtækisins. Jafnframt lagt fram bréf stjórnarformanns Orkuveitunnar frá 20. s.m. um málið. R10070056
Samþykkt að fjármálastjóri Reykjavíkurborgar verði annar tveggja fulltrúa Reykjavíkurborgar í rýnihópi eigenda Orkuveitu Reykjavíkur. Hinn fulltrúinn verði tilnefndur af formanni borgarráðs í samráði við oddvita Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.
27. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að nú þegar verði hafist handa við að skipa í nefnd þá er framkvæma á úttekt á stjórnsýslu og stjórnkerfi Reykjavíkurborgar samkvæmt ákvörðun borgarráðs 6. maí sl. Borgarráð skipi í nefndina eigi síðar en á fundi sínum 12. ágúst nk. Sá dráttur sem orðið hefur á því að úttektin hefjist verður ekki til að stytta vinnutíma nefndarinnar sem reiknað er með að taki 6 mánuði. R10040061
Frestað.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi VG harmar þá töf sem orðið hefur á skipan nefndar sem framkvæma á úttekt á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Í raun er um að ræða hunsun sem nýr meirihluti hefur tekið í arf frá þeim gamla. Borgarráð ákvað þann 6. maí sl. að skipa nefnd til að framkvæma viðamikla rannsókn á stjórnsýslu, stjórnkerfi og aðkomu stjórnmálafólks að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum. Til stóð að skipa í nefndina á borgarstjórnarfundi 18. maí en þegar ljóst var að það tækist ekki, lagði borgarráðsfulltrúi VG til á borgarstjórnarfundinum að auglýst yrði eftir þremur sérfræðingum í nefndina. Tillagan var samþykkt einróma og jafnframt að borgarráð skyldi skipa í nefndina á fundi sínum 27. maí. Fyrir þann tíma hafði borist fjöldi umsókna og tilnefninga í nefndina og um það var rætt að málið hefði forgang þegar tímafrestur væri liðinn sem var 24. maí. Nú eru liðnir tæpir tveir mánuðir og ekki bólar á nefndinni. Þessi seinagangur og hunsun á ákvörðunum æðstu stofnana borgarinnar er ámælisverður og ýtir enn frekar undir kröfuna að nefnd sem rannsaka á stjórnkerfi og stjórnsýslu borgarinnar taki þegar til starfa.
28. Samþykkt að skipa borgarstjóra, Ingvar Sverrisson og Hildi Sverrisdóttur í stjórn Fjölskyldu- og húsdýragarðsins. R10060070
29. Borgarráð samþykkir að styðja Skotturnar, regnhlífasamtök félaga og samtaka innan kvennahreyfingarinnar, um tvær milljónir í tengslum við kvennafrídaginn 24. október. Annars vegar verður efnt til alþjóðlegrar ráðstefnu um ofbeldi á sjálfan kvennafrídaginn – sunnudaginn 24. október. Hins vegar verður efnt til útifundar til að vekja athygli á kynbundnum launamun daginn eftir – mánudaginn 25. október. Með styrknum leggst Reykjavíkurborg á árarnar með Skottunum við framkvæmd útifundarins. Jafnframt munu framkvæmda- og eignasvið og Höfuðborgarstofa veita samtökunum liðsinni sitt við skipulagningu og framkvæmd viðburðarins. R09110055
30. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R10070003
31. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar frá 15. þ.m. varðandi umsögn um breytingu á rekstrarleyfi veitingastaðarins Indian Mango að Frakkastíg 12. R10070036
Samþykkt.
32. Lagt fram bréf formanns hverfisráðs Breiðholts og framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðvar Breiðholts frá 14. þ.m., sbr. samþykkt hverfisráðsins 22. f.m., varðandi forgang viðhaldsverkefna og framkvæmda í Breiðholti. R10060150
Samþykkt að kalla eftir upplýsingum frá framkvæmdasviði um framkvæmdir í Breiðholti.
33. Samþykkt að veita umsagnaraðilum um opnunartíma vínveitingahúsa frest til 1. september nk. til að skila umsögn. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar eftir að tillaga hans um opnunartíma sem lögð var fram á fundi borgarráðs 27. maí sl. verði send umsagnaraðilum. R09050008
34. Lagt fram og kynnt bréf borgarstjóra til Vinnumálastofnunar, dags. 16. þ.m., varðandi átaksverkefni á vegum Reykjavíkurborgar. R10020070
35. Lagt fram minnisblað skrifstofu borgarstjóra, dags. í dag, um tækifæri Íslands, og þar með Reykjavíkurborgar, sem aðildarviðræðuþjóð ESB. R10070066
36. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 20. þ.m. varðandi gjald í sund á sundvöku. R10070071
Samþykkt.
37. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Samkvæmt fréttum hefur Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR og fyrrverandi aðstoðarmaður borgarstjóra, nú hafið störf í Ráðhúsinu á ný. Fram hefur komið að hann sé í fullu starfi og skuli vinna með formanni borgarráðs vegna eigendanefndar OR og verkefna sem tengjast atvinnumálum, sem virðast nú heyra beint undir formann borgarráðs en ekki borgarstjóra. Vegna þessa er minnt á að eigendanefnd OR hefur ekki enn verið boðuð til fyrsta fundar en í erindisbréfi þeirrar nefndar kemur fram að skrifstofa borgarlögmanns skuli bera ábyrgð á undirbúningi og úrvinnslu vegna starfa nefndarinnar. Hvað varðar atvinnumálin er minnt á að í einróma samþykkt borgarstjórnar frá 15. júní kemur fram að fulltrúar minnihlutans skuli leiða starfshóp borgarráðs um atvinnumál en frá þeirri skipan hefur ekki enn verið gengið. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óska upplýsinga vegna umræddrar ráðningar og hvers vegna þessi tilhögun var ekki kynnt eigendanefnd og borgarráði.
Lagt fram svohljóðandi svar við fyrirspurn:
Eiríkur Hjálmarsson mun starfa með eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur en ekki formanni borgarráðs sérstaklega. Hann er áfram starfsmaður Orkuveitunnar en ekki ráðinn til borgarinnar. Þessi háttur var hafður á í fyrri eigendanefnd þar sem starfsfólk Orkuveitunnar vann fyrir nefndina. R10060067
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óska bókað:
Formaður borgarráðs er formaður eigendanefndar og hefur lýst því yfir að hann sé í forsvari fyrir atvinnumálin í borginni þannig að ljóst má vera, miðað við lýsingu á starfi Eiríks, að hann starfi fyrst og síðast með formanni borgarráðs í Ráðhúsinu að hans verkefnum. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óska svara við fyrirspurn sinni frá borgarstjóra og ítreka athugasemdir sínar við það að frá þessu hafi verið gengið, án þess að það væri kynnt í borgarráði, aðgerðahópi borgarráðs eða eigendanefnd.
Fundi slitið kl. 12.57
Dagur B. Eggertsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hjálmar Sveinsson Júlíus Vífill Ingvarsson
Óttarr Ólafur Proppé Þorleifur Gunnlaugsson