Borgarráð - Fundur nr. 5125

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð


Ár 2010, fimmtudaginn 8. júlí, var haldinn 5125. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.30. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Kjartan Magnússon, Óttarr Ólafur Proppé, Sóley Tómasdóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:


1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 26. júní. R10010009

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 6. júlí. R10010011

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 14. júní. R10010012

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 29. júní. R10010015

5. Lögð fram fundargerð menningar- og ferðamálaráðs frá 28. júní. R10010024

6. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 7. júlí. R10010027
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

7. Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 30. júní. R10010035

8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 2 mál. R10060151

9. Lagt fram bréf samstarfshóps um Regnbogann bíótek, dags. 21. f.m., þar sem leitað er eftir stuðningi Reykjavíkurborgar við verkefnið. Jafnframt lagðar fram umsagnir sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs frá 6. þ.m. og fjármálastjóra frá 7. s.m. Þá er lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að veita hlutafélagi um rekstur kvikmyndahúss í Regnboganum 12 milljón króna rekstrar- og framkvæmdastyrk. Þessi ráðstöfun er til helminga færð á liðinn 07160 (atvinnuþróunarátak/sóknaráætlun) og liðinn 09205 (ófyrirséð) og fjármögnuð af lausafé. Menningar- og ferðamálasviði er falið að gera samning við hlutafélag um rekstur Regnbogans. Jafnframt er því beint til menntasviðs að kannaðar verði forsendur þess að grunnskólabörn í Reykjavík nýti sér fyrirhugaða fræðsludagskrá í Regnboganum.

Greinargerð fylgir tillögunni. R10050082
Tillaga borgarstjóra samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja ekki rétt að gengið verði á lausafé borgarsjóðs til að styrkja stofnun og rekstur nýs kvikmyndahúss í borginni. Eðlilegt væri að fyrirliggjandi hugmyndir væru skoðaðar og þarfagreindar betur. Skoða mætti hvort unnt væri að koma slíkri starfsemi fyrir í samstarfi við þau kvikmyndahús og menningarstofnanir sem fyrir eru starfandi í borginni í stað þess að stofna sérstakt margra sala kvikmyndahús fyrir umrædda starfsemi. Minnt er á að endurbygging Tjarnarbíós stendur nú yfir en reiknað hefur verið með að þar verði m.a. kvikmyndasýningar, t.d. í tengslum við kvikmyndahátíðir.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:
Bókun Sjálfstæðisflokksins byggir á misskilningi. Regnbogaverkefnið byggir einmitt á samstarfi allra þeirra sem koma að kvikmyndagerð og dreifingu á Íslandi. Rými og þarfagreing hefur farið fram og staðist skoðun.

10. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs frá 30. f.m., sbr. samþykkt menningar- og ferðamálaráðs 28. s.m., varðandi umsókn Reykjavíkurborgar um titilinn bókmenntaborg UNESCO. R09040074
Samþykkt og vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra velferðarmála frá 7. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs s.d., um sumarstyrk fyrir þá sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu. R10070018
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

12. Lagt fram samkomulag ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 6. þ.m. um fjárhagsramma tilfærslu þjónustu við fatlaðra. Jafnframt lagt fram minnisblað fjármálastjóra, dags. í dag.
Þá er lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar:
Borgarráð samþykkir að skipa stýrihóp til að fara með yfirumsjón með yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til Reykjavíkurborgar, sbr. viljayfirlýsingu og samkomulag ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga þar um. Stýrihópurinn á að tryggja að við flutning þjónustunnar til Reykjavíkurborgar verði nýtt það tækifæri sem gefst til að bæta aðgengi og þjónustu við fatlað fólk í nærumhverfi sínu. Tryggja þarf réttindi allra borgarbúa til virkrar þátttöku í samfélaginu, á forsendum hvers og eins. Þar með verði rödd fatlaðra við mótun þjónustunnar tryggð. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði hafður að leiðarljósi í starfinu til að þjónustan uppfylli mannréttindi fatlaðs fólks. Stýrihópnum er ætlað að starfa að undirbúningi yfirfærslunnar út árið 2010 og einnig til ráðgjafar á fyrstu mánuðum ársins 2011 á meðan þjónustan er að mótast. Helstu verkefni stýrihópsins eru að greina áhrif yfirfærslunnar á skipulag og þjónustu borgarinnar, vinna að nauðsynlegri stefnumótun, markmiðssetningu og framtíðarsýn vegna breytinganna. Það er á ábyrgð hópsins að tryggja gott samráð við notendur þjónustunnar. Stýrihópurinn og aðrir starfshópar sem vinna að undirbúningi yfirfærslunnar munu leggja tillögur fram í borgarráði eða velferðarráði, eftir eðli máls hverju sinni. Hópinn skipi tveir kjörnir fulltrúar, sviðsstjóri velferðarsviðs, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis og mannréttindastjóri. Starfsmaður hópsins verður verkefnisstjóri um yfirfærslu málefna fatlaðra á velferðarsviði. Jafnframt samþykkir borgarráð að skipa ráðgjafarteymi sem starfi með stýrihópnum. Hópurinn veiti ráðgjöf og verði leiðbeinandi vegna þátta sem snúa að stoðþjónustu borgarinnar í tengslum við yfirfærsluna, s.s. fjármálum, starfsmannamálum og lögfræðilegum málum. Ráðgjafarhópinn skipi fjármálastjóri, mannauðsstjóri og borgarlögmaður. Stýrihópurinn kalli ráðgjafarhópinn til starfa eftir þörfum. R09030071

Tillagan samþykkt, Björk Vilhelmsdóttir og Áslaug Friðriksdóttir eru skipaðar í stýrihópinn.

Bókun borgarráðs:
Borgarráð fagnar því að samkomulag liggi fyrir um tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga um nk. áramót. Borgarráð vill nýta tækifærið til að bæta aðgengi og þjónustu við fatlað fólk í sínu nærumhverfi. Tryggja þarf réttindi allra borgarbúa til virkrar þátttöku í samfélaginu á forsendum hvers og eins. Mikilvægt er að rödd fatlaðra heyrist við mótun þjónustunnar í aðdraganda yfirfærslunnar. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði hafður að leiðarljósi í starfinu til að þjónustan uppfylli mannréttindi fatlaðs fólks.

13. Lagt fram svar borgarstjóra við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna um stjórnarformann Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 7. þ.m., sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. þ.m. R10060067
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óska bókað:
Í svari borgarstjóra kemur ekki fram rökstuðningur fyrir þeirri ákvörðun Besta flokksins og Samfylkingarinnar að laun stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur séu margfölduð á sama tíma og stórátak stendur yfir við að ná fram sparnaði og hagræðingu í útgjöldum hjá fyrirtækinu sem og sviðum Reykjavíkurborgar, þ.m.t. launakostnaði. Svo virðist sem um hreina geðþóttaákvörðun sé að ræða.
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:
Það kemur skýrt fram í svari borgarstjóra að launin eru í samræmi við ábyrgð og umfang starfsins.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna óska eftir ýtarlegum rökstuðningi á því hvort sjónarmið þau sem Alþingi setti inn í lög um hlutafélög í vetur um starfandi stjórnarformann séu ekki þau sömu í sameignarfélagi og hlutafélagi. Grundvallarmunur þessara rekstrarforma er ekki þannig að hann hafi áhrif á starfandi stjórnarformann, en sameignarfélag er samkvæmt lögum um sameignarfélög samstarfsform sem byggist á samningi tveggja eða fleiri aðila um sameiginlega fjárhagslega starfsemi þar sem allir félagsmenn bera beina, óskipta og ótakmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins en hlutafélag merkir í lögum félag þar sem enginn félagsmanna ber persónulega ábyrgð á heildarskuldbindingum félagsins. Nokkur svonefnd opinber hlutafélög starfa eftir lögum um hlutafélög og því ekki hægt að hafa starfandi stjórnarformann í opinberum hlutafélögum.

14. Lagt fram að nýju erindisbréf eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 21. f.m.
Samþykkt. R10060067

15. Kynnt er vinna við áhættumatsáætlun Reykjavíkurborgar vegna Orkuveitu Reykjavíkur. Jafnframt lagt fram að nýju minnisblað fjármálastjóra varðandi tillögur um viðbrögð sem byggja á áhættumati A-hluta vegna Orkuveitunnar, dags. 22. f.m. R09120028

- Kl. 10.44 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundi og Hjálmar Sveinsson tekur þar sæti.

Í samræmi við minnisblað fjármálastjóra frá 22. júní sl. samþykkir borgarráð eftirfarandi:

Settur verði á laggir sérstakur stýrihópur, áhættustýringarhópur Reykjavíkurborgar, til að fylgjast með og miðla til borgarstjóra og borgarráðs upplýsingum og tillögum á grundvelli áhættugreininga fjármálaskrifstofu. Erindisbréf hópsins verði lagt fyrir borgarráð.
Hafin verði markviss vinna við að auka trúverðugleika Reykjavíkurborgar sem bakábyrgðaraðila gagnvart lánamörkuðum, m.a. með því að viðhalda sterkri lausafjárstöðu A-hluta borgarsjóðs á árinu í a.m.k. 10-12 milljörðum króna, en sú aðgerð mun einnig hafa áhrif á aðgengi og lánskjör við samningsgerð um endurfjármögnun.

16. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 21. f.m. um afnot af landspildu fyrir ferða- og afþreyingarstarfsemi á Hólmsheiði. R10060134
Samþykkt, enda verði greitt hóflegt leigugjald fyrir landið.

17. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 29. f.m. um frestun á innheimtu gatnagerðar- og fráveituheimæðargjalds af Skógarvegi 16. R10040024
Samþykkt.

18. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 23. f.m., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs 11. s.m., varðandi lóðina nr. 1 við Keilugranda. R10060144

19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Lagt er til að stofnaður verði starfshópur er hafi það verkefni að endurskoða framkvæmd styrkveitinga og samstarfssamninga hjá Reykjavíkurborg með það að markmiði að gera hana markvissari og tryggja virkt árangursmat og eftirlit. Starfshópurinn verði skipaður fimm fulltrúum og skili borgarráði tillögum sínum eigi síðar en 15. september nk. Meðfylgjandi er erindisbréf starfshópsins. R10060153
Samþykkt, tilnefningu í starfshópinn frestað.

20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:
Borgarráð samþykkir að breyta nafni Miklatúns í Klambratún. Í tilefni af nafnabreytingunni og því að Christian H. Christensen, síðasti bóndinn á bænum Klömbrum, hefði orðið 100 ára þann 18. júlí nk. verði hannað og sett upp söguskilti á túninu síðar í sumar. R10060051
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja þessa nafnabreytingu enda flestir borgarbúar sammála um að nafnið Miklatún hafi aldrei fest í sessi. Í umfangsmikilli vinnu á síðasta kjörtímabili var unnið ýtarlegt vinnuplagg um þau verkefni sem þarf að ráðast í til að bæta Klambratún. Eftir íbúafund og hugmyndavinnu með þeim var sett fram framkvæmdaáætlun sem fól í sér breytingar sem henta ólíkum notendum túnsins. Þar eru m.a. settar fram tillögur um aðgengi og tengsl, tengingu þjónustu Kjarvalsstaða og túnsins, flutning hverfabækisstöðvar framkvæmdasviðs af túninu og starfsemi ÍTR þar í staðinn, yndisgarð fyrir eldri borgara og að settur verði niðurgrafinn hjólabrettagarður á túnið. Ein hugmynd til viðbótar var að nefna stíga túnsins eftir nokkrum túnum sem á sínum tíma mynduðu Klambratún. Mikilvægt er að kynna þessar hugmyndir á sama tíma og menningarmerkingin um Klambratún verður sett upp.

21. Lögð fram yfirlitsskýrsla yfir störf hverfisráðs Grafarvogs kjörtímabilið 2006-2010. R09020077

22. Lagt fram að nýju bréf Framtíðarorku ehf. frá 30. apríl sl. þar sem óskað er eftir stuðningi Reykjavíkurborgar við árlega ráðstefnu um vistvænar samgöngulausnir. Jafnframt lögð fram umsögn umhverfis- og samgönguráðs frá 24. f.m., sbr. bréf skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs 25. s.m. R10050022
Samþykkt að veita styrk að fjárhæð 910 þ.kr. vegna ársins 2010.

23. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. f.m. í máli nr. E-14277/2009, framkvæmda- og eignasvið Reykjavíkurborgar gegn Bakarameistaranum fasteignum ehf. R08100288

24. Lögð fram greinargerð upplýsingatæknistjóra frá 5. þ.m. um stefnumótun í nýtingu upplýsingatækni hjá Reykjavíkurborg, ásamt drögum að erindisbréfi starfshóps, dags. s.d. R10070014

25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að styrkja Tónlistarþróunarmiðstöð um 6 milljónir króna til greiðslu eftirstöðva á húsaleigu vegna starfsemi miðstöðvarinnar í ár. Niðurstaða um framhaldssamning vegna miðstöðvarinnar liggi fyrir eigi síðar en 1. september nk. Þessi ráðstöfun er færð á liðinn 09205 (ófyrirséð) og fjármögnuð af lausafé.

Greinargerð fylgir tillögunni. R09050062
Samþykkt.

26. Samþykkt að skipa Diljá Ásmundsdóttur og Evu Baldursdóttur til vara í stjórn Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins til loka kjörtímabilsins. R10060125

27. Samþykkt að skipa Óttarr Proppé og Stefán Einar Stefánsson í samstarfsnefnd Reykjavíkurprófastsdæma til loka kjörtímabilsins. R10060130

28. Lagt fram bréf Sigurjóns B. Sigurðssonar (Sjón) frá 5. þ.m. þar sem hann óskar leyfis frá störfum í mannréttindaráði tímabilið 15. júlí 2010 til 15. júlí 2011. R10060077
Samþykkt.

29. Samþykktar eru eftirfarandi breytingar á skipan í nefndir og ráð:
Marta Guðjónsdóttir taki sæti aðalmanns í íþrótta- og tómstundaráði í stað Björns Gíslasonar, Björn taki varamannssæti Mörtu í ráðinu.
Björn Gíslason taki sæti aðalmanns í mannréttindaráði í staði Mörtu Guðjónsdóttur, Sveinn H. Skúlason taki varamannssæti Björns í ráðinu.
Sigríður Hallgrímsdóttir taki sæti Pawels Bartoszek í hverfisráði Hlíða. R10050151
Borgarráð beinir þeim tilmælum til stjórnkerfisnefndar að leita leiða til að móta starfsreglur um skipan í ráð og nefndir á vegum borgarinnar með tilliti til nýrra laga um jöfn hlutföll kynjanna.

30. Kynnt er fréttatilkynning borgarstjóra frá 5. þ.m. varðandi laxveiðar samfélagshetja í Elliðaánum. R09090102

31. Lagt fram bréf skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs frá 6. þ.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 23. febrúar sl., varðandi gerð göngugatna í miðborginni með tímabundnum lokunum fyrir bílaumferð. R10070026

32. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að fela umhverfis- og samgöngusviði að móta verklagsreglur um hvernig almenningur geti fóstrað leiksvæði í hverfum borgarinnar. Samþykkt umhverfis- og samgönguráðs um verkefnið gleym-mér-ei verði haft til hliðsjónar við útfærslu verklagsreglnanna.

Greinargerð fylgir tillögunni. R10060068
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Eitt af grænum skrefum 2009 var verkefnið gleym-mér ei sem felur í sér aukið samstarf íbúa og borgar um að bæta umhverfi grænna svæða, leikvalla og gróðurs í borginni. Annars vegar felur samstarfið í sér að bjóða íbúum sem hafa áhuga á að fóstra leikvelli, stíga eða garða að gera samning við umhverfis- og samgöngusvið um samstarf sem felur í sér í grunninn verkefni hvors um sig. Hins vegar felur samstarfið í sér að bjóða íbúum að kaupa bekk eða tré af borginni og merkja að eigin vali til minningar eða til heiðurs einhverjum. Verkefnið er í góðum farvegi hjá umhverfissviði og framkvæmdasviði nú þegar.

33. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs vegna ársins 2010, dags. 5. þ.m. R09110055
Samþykkt að veita styrki sem hér segir:

Sveinbjörg Þórhallsdóttir, 2 m.kr., til að koma á fót danshúsi við Skúlagötu.
Félag tónskálda og textahöfunda, 200 þ.kr. vegna árlegra sumartónleika í Hljómskálagarðinum.

34. Lagt fram að nýju bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 31. maí sl. varðandi drög að samkomulagi Reykjavíkurborgar og Laugardalsbrautar ehf. um frestun þróunar og uppbyggingar í Fjölskyldugarðinum í Laugardal og uppgjör milli aðila vegna hennar. R09010078
Samþykkt.

35. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 7. þ.m. varðandi áætlaðar tekjur af fasteignagjöldum 2011. Jafnframt lagt fram bréf fjármálastjóra, dags. s.d., varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks um málið, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. þ.m. R10050098

36. Lagt fram yfirlit fjármálastjóra yfir liðinn ófyrirséð í fjárhagsáætlun ársins 2010, dags. í dag. R10010158

37. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Á undanförnum misserum hefur verið í undirbúningi á samgönguskrifstofu borgarinnar tilraunaverkefni á Bústaðavegi í samstarfi við Vegagerðina sem felur í sér að á háannatímum umferðar við Breiðholtsbraut er vinstri beygju af Bústaðavegi inn á Breiðholtsbraut í norður lokað. Undirbúningurinn sem var ágætur fól í sér samtöl og kynningar við íbúa Fossvogs- og Bústaðahverfis enda líkur á að umferð færist a.m.k. tímabundið í norðurátt í gegnum Réttarholtsveg sérstaklega og/eða aðrar götur sem skera íbúahverfið. Einhverjar mótvægisaðgerðir fyrir Réttarholtsveg voru gerðar í sumar en íbúar eru eðlilega áhyggjufullir yfir þessum breytingum enda ferðast mörg ungmenni um hverfið. Frá Reykjavíkurborg kom fréttatilkynning í síðustu viku um að mjög hefði dregið úr myndun raða við gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar. Ekki er minnst á neitt varðandi gangandi vegfarendur eða mælingar á aukningu umferðar á Réttarholtsvegi. Þetta verður að laga tafarlaust og skoða árangurinn í samhengi við íbúahverfið sjálft, gangandi, hjólandi og notendur Strætó. Til dæmis hefur þjónusta við notendur Strætó nú þegar verið skert þar sem leið 18 fer ekki lengur Bústaðaveg vegna þessarar breytinga. Óskað er eftir yfirliti um áhrif þessara breytinga til borgarráðs á alla þá þætti er tengjast breytingunni. R07090112


Fundi slitið kl. 13.05

Dagur B. Eggertsson

Elsa Hrafnhildur Yeoman Hjálmar Sveinsson
Kjartan Magnússon Óttarr Ólafur Proppé
Sóley Tómasdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir