Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2010, mánudaginn 5. júlí, var haldinn 5124. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 15.05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Óttarr Ólafur Proppé og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Samþykkt að skipa Margréti Kristínu Blöndal og Benedikt Geirsson í stjórn hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar til loka kjörtímabilsins og Erlu Þórðardóttur og Elínbjörgu Magnúsdóttur til vara. Jafnframt eru Gunnar Ingi Gunnarsson, Erla Þórðardóttir, Elínbjörg Magnúsdóttir og Kristján Guðmundsson kosin í fulltrúaráð Skógarbæjar til loka kjörtímabilsins, S. Björn Blöndal, Ahmed Hafez Awad, Benedikt Geirsson og Jórunn Frímannsdóttir til vara. R10060127
2. Samþykkt að kjósa Söndru Hlíf Ocares, Guðlaugu Magnúsdóttur, Þóri Hrafn Gunnarsson, Halldór Frímannsson og Kolbrúnu Baldursdóttur í barnaverndarnefnd til loka kjörtímabilsins, Sandra Hlíf verði formaður nefndarinnar. Til vara eru kosin Guðrún Ögmundsdóttir, Rán Ingvarsdóttir, Guðni Kristinsson, Svanhvít Axelsdóttir og Katrín Helga Hallgrímsdóttir. R10060163
3. Samþykkt að kjósa Björk Vilhelmsdóttur og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í fulltrúaráð Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, til vara Óttarr Proppé og Júlíus Vífil Ingvarsson. Jafnframt eru Páll Hjaltason og Júlíus Vífill Ingvarsson kosnir í svæðisskipulagsráð samtakanna, Hjálmar Sveinsson og Gísli Marteinn Baldursson til vara. R10060131
- Kl. 15.15 taka Kjartan Magnússon og Sóley Tómasdóttir sæti á fundinum.
4. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 30. f.m.:
Borgarráð leggur til að samþykktar verði breytingar á fjárhagsáætlun í því skyni að veita fleiri vinnufúsum höndum störf við mannaflsfrekar framkvæmdir í borginni á næstunni. Breytingarnar hafa í för með sér að 500 milljónum króna verður varið til átaksverkefna til viðbótar við 150 milljónir á fjárhagsáætlun þessa árs.
Greinargerð fylgir tillögunni. R10060150
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það er í samræmi við fjárhags- og framkvæmdaáætlun fyrri meirihluta að forgangsraða í þágu mannaflsfrekra framkvæmda. Það er ánægjulegt að sjá að ekki er gengið fram með hugmyndir Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni um auknar lántökur til framkvæmda enda ekki svigrúm fyrir miklar lántökur hjá Reykjavíkurborg. Forgangsröðun í þágu mannaflsfrekra framkvæmda hefur verið í gangi sl. tvö ár og ljóst að traust fjármálastjórn undanfarinna ára hefur tryggt getu borgarinnar til slíkra áherslna. Þær tillögur sem nú liggja fyrir eru því í samræmi við þær áherslur margar eru verkefni sem voru á áætlun. Þá er það staðreynd að ýmsar verklegar framkvæmdir hafa kallað á minni kostnað en áætlað var. Að auki fela þessar tillögur í sér að fallið er frá áformum um uppkaup á skipulagseignum, en til stóð að ganga til slíkra verka sérstaklega með það að markmiði að halda áfram varðveislu og uppbyggingu eldri húsa undir merkjum verkefnisins Völundar sem skapað hefur mörg ný störf í höfuðborginni og haft áhrif til góðs í borgarumhverfinu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja áherslu á að ný verkefni í framvæmdum taki mið af því sama, atvinnusköpun samhliða fegrun og umbótum, sem auka ekki rekstrarkostnað borgarinnar.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Mannaflsfrekar framkvæmdir eru mikilvægar við núverandi aðstæður og jákvætt að meirihlutinn skuli leggja metnað sinn í að endurskoða framkvæmdaáætlun borgarinnar með tilliti til þess. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna hefur þó mikinn fyrirvara á fjármögnun verkefnanna, þar sem til stendur að tæma alveg þann sjóð sem borgaryfirvöld hafa upp á að hlaupa vegna skipulagseigna. Að sama skapi hefði farið betur á því að hvert og eitt verkefni yrði greint með tilliti til hlutfalls launakostnaðar af heildarkostnaði áður en forgangsröðunin færi fram. Að lokum ítrekar fulltrúinn þá afstöðu Vinstri grænna að atvinnuátaksverkefni í þágu einstakra hópa megi ekki leiða til frekari hagræðingar á kostnað annarra hópa eða stétta sem starfa hjá Reykjavíkurborg. Reynslan sýnir að slík vegferð getur undið upp á sig og leitt til verri þjónustu og meira atvinnuleysis á öðrum sviðum og meðal annarra hópa eins og kemur fram í skýrslu atvinnumálahóps um forgangsröðun í atvinnumálum sem kynnt var í borgarráði fyrir skemmstu. Brýnt er að kjörnir fulltrúar séu meðvitaðir um þessa hættu og gæti fyllstu varúðar við ákvarðanatöku og forgangsröðun í málaflokknum.
5. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Ljóst er að lækkun fasteignamats hefur þau áhrif að tekjur borgarsjóðs lækka. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði óska eftir greinargerð frá fjármálaskrifstofu um nákvæma upphæð lækkunar skatttekna fyrir 2011, svigrúm í fjárhagsáætlun til að mæta slíkum lækkunum og heildaráhrif lækkunar fasteignamats. Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að mæta lækkun fasteignaskatts með hagræðingu enda ekki hægt að bjóða borgarbúum upp á skattahækkanir nú þegar heimilin eiga sérstaklega erfitt fjárhagslega. R10050098
Fundi slitið kl. 15.41
Dagur B. Eggertsson
Björk Vilhelmsdóttir Elsa Hrafnhildur Yeoman
Kjartan Magnússon Óttarr Ólafur Proppé
Sóley Tómasdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir