Borgarráð - Fundur nr. 5122

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2010, fimmtudaginn 24. júní, var haldinn 5122. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.33. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Oddný Sturludóttir, Óttarr Ólafur Proppé og Sóley Tómasdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 11. júní. R10010004

2. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 7. júní. R10010008

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 2. júní. R10010011

4. Lagðar fram fundargerðir íþrótta- og tómstundaráðs frá 21. maí og 11. júní. R10010020

5. Lögð fram fundargerð mannréttindaráðs frá 2. júní. R10010023

6. Lögð fram fundargerð menningar- og ferðamálaráðs frá 7. júní. R10010024

7. Lögð fram fundargerð menntaráðs frá 9. júní. R10010025

8. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 23. júní. R10010027
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

9. Lögð fram fundargerð umhverfis- og samgönguráðs frá 25. maí. R10010034

10. Lagðar fram fundargerðir velferðarráðs frá 9. og 18. júní. R10010035

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 3 mál. R10050145

12. Lögð fram til síðari umræðu svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar, dags. 16. þ.m.:
Lagt er til að 2. mgr. 68. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar hljóði svo:
Formaður borgarráðs er staðgengill borgarstjóra. Í fjarveru formanns borgarráðs eru skrifstofustjóri borgarstjórnar, borgarlögmaður og skrifstofustjóri borgarstjóra staðgenglar borgarstjóra. R10060071
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum og vísað til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til staðfestingar.

13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að skipuð verði rekstarstjórn yfir Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Borgarstjóri verði formaður en auk hans sitji í rekstrarstjórninni tveir fulltrúar tilnefndir af borgarráði, auk áheyrnarfulltrúa. Rekstrarstjórnin skal starfa í umboði borgarráðs, fara með stefnumótun í málefnum garðsins og bera fjárhagslega ábyrgð á rekstri hans. Borgarlögmanni og skrifstofustjóra borgarstjóra er falið að vinna drög að þjónustusamningi milli borgarráðs og rekstrarstjórnarinnar, þar sem m.a. verði kveðið nánar á um starfshætti, hlutverk og valdsvið rekstrarstjórnarinnar og stöðu hennar og garðsins í stjórnkerfi borgarinnar. Við gerð þjónustusamningsins verði haft samráð við starfsmenn og viðkomandi fagsvið borgarinnar og gætt að margþættu hlutverki hans og sérstöðu á sviði fræðslumála, umhverfismála, dýrahalds og afþreyingar. R10060070
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

14. Samþykkt að tilnefna, auk borgarstjóra, Dag B. Eggertsson og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í stjórn Samstarfssjóðs Nuuk, Reykjavíkur og Þórshafnar til loka kjörtímabilsins. R10060072

15. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 2. þ.m. um kjör fulltrúa á landsþing sambandsins. R10060022
Samþykkt að borgarfulltrúar verði fulltrúar Reykjavíkurborgar á landsþinginu og varaborgarfulltrúar til vara.

- Kl. 9.42 tekur Júlíus Vífill Ingvarsson sæti á fundinum.

16. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að fela framkvæmda- og eignasviði, í samvinnu við íþrótta- og tómstundasvið og Orkuveitu Reykjavíkur, að undirbúa leiksvæði fyrir börn í Perlunni. R10060069
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar:
Lagt er til að oddvitum framboðslista í borgarstjórn verði veittur sjálfstæður réttur til áheyrnarsetu í forsætisnefnd, eigi þeir þar ekki sæti fyrir. R10060123
Samþykkt.

18. Lagt fram erindisbréf stjórnkerfisnefndar, dags. 21. þ.m. R10060061
Samþykkt.

19. Lagt fram erindisbréf eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 21. þ.m. R10060067
Frestað.

20. Lagt fram erindisbréf stýrihóps um 111 Reykjavík, ódags. R10060053
Frestað.

21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. þ.m.:
Lagt er til að borgarráð samþykki aukinn þjónustustyrk til Fjölsmiðjunnar vegna aukins húsaleigukostnaðar að fjárhæð 3 m.kr. Þessi viðbótarkostnaður færist af liðnum ófyrirséð 09205.
Greinargerð fylgir tillögunni. R07050008
Samþykkt.

22. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að hefja þegar í stað úrbætur á grænum svæðum og leikvöllum. Framkvæmda- og eignasviði verði falin útfærsla og framkvæmd verkefnisins í samvinnu við hlutaðeigandi svið borgarinnar. R10060068
Frestað.

23. Lagt fram að nýju bréf mannréttindastjóra frá 26. f.m. varðandi fyrirkomulag þjónustu við innflytjendur til næstu áramóta ásamt minnisblaði innkaupaskrifstofu frá 3. s.m. Jafnframt lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna frá 6. f.m. um að fela þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða rekstur ráðgjafarhluta Alþjóðahúss frá 1. júlí til 31. desember 2010. Loks er lagt fram að nýju bréf mannréttindastjóra frá 17. f.m., sbr. samþykkt mannréttindaráðs 10. s.m., þar sem lagt er til að mannréttindaskrifstofu verði falið verkið. R09070058
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að fela þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða, sem er þekkingarmiðstöð í fjölmenningu, rekstur ráðgjafarhluta Alþjóðahúss frá 1. júlí til 31. desember 2010. Mannréttindaráði verði falið að gera tillögu að framtíðarskipan þessara mála á vegum Reykjavíkurborgar og skal tillaga þess efnis liggja fyrir eigi síðar en í lok desember 2010. Ennfremur er mannréttindastjóra falið að gera þjónustusamning við velferðarsvið um tímabundna ráðgjöf við erlenda borgarbúa á vegum þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða. Samningurinn taki gildi 1. júlí nk. og gildi til sex mánaða.
Samþykkt.

24. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar til ríkisskattstjóra frá 20. apríl sl. varðandi verkefni framtalsnefndar Reykjavíkurborgar. Jafnframt lagt fram svar ríkisskattstjóra frá 19. f.m. R10060122
Vísað til stjórnkerfisnefndar.

25. Lagður fram dómur Hæstaréttar frá 10. þ.m. í máli nr. 501/2009, Rok ehf. gegn Reykjavíkurborg. Jafnframt lagt fram bréf lögmanns Roks ehf. frá 14. s.m. þar sem óskað er endurupptöku á fyrri ákvörðun Reykjavíkurborgar í málinu. R06090277
Erindi lögmannsins er vísað til borgarlögmanns.

26. Lagður fram dómur Hæstaréttar frá 10. þ.m. í máli nr. 646/2009, Vátryggingafélag Íslands hf. gegn A. R07080031

27. Lagður fram úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. f.m. í máli nr. E-895/2010, Verkland ehf. gegn Reykjavíkurborg. R10010165

28. Lagt fram að nýju bréf bæjarstjóra Sveitarfélagsins Álftaness frá 20. apríl sl., sbr. samþykkt bæjarstjórnar sveitarfélagsins 30. mars sl., varðandi ósk um viðræður um vilja og mögulega hagræðingu af sameiningu sveitarfélagsins og Reykjavíkurborgar. R10040093
Borgarráð tekur vel í það að kannaðir verði kostir sameiningar sveitarfélaganna og lýsir sig tilbúið til viðræðna við bæjarstjórn Álftaness.

29. Kynnt er rekstraruppgjör fyrstu fjögurra mánaða ársins 2010. R10020043

30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 22. þ.m.:
Lagt er til að borgarráð samþykki heimild til fjármálastjóra, á grundvelli samþykktar borgarstjórnar frá 3. desember 2009, til að taka allt að 2.500.000.000 kr lán með stækkun á verðtryggðum skuldabréfaflokki Reykjavíkurborgar RVK 09 1. Jafnframt staðfestir borgarráð umboð fjármálastjóra f.h. Reykjavíkurborgar til þess að undirrita nauðsynlega gerninga sem tengjast þessari skuldabréfaútgáfu í samræmi við það umboð sem borgarstjórn veitti 3. desember 2009, m.a. til þess að móttaka og undirrita, gefa út og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar sem tengjast lántöku þessari. Þá er lagt til að borgarráð samþykki fyrirliggjandi tilboð að fjárhæð 600.000.000 kr. á ávöxtunarkröfunni 3,9#PR. R09110126
Samþykkt.

31. Lagt fram minnisblað fjármálastjóra varðandi tillögur um viðbrögð sem byggja á áhættumati A-hluta vegna Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 22. þ.m. R09120028
Vísað til eigendanefndar.

32. Rætt er um undirbúning aðalfundar Orkuveitu Reykjavíkur. R10060137
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:
Í starfi Orkuveitu Reykjavíkur leggur nýr meirihluti borgarstjórnar megináherslu á þrennt:
1. Auðlindir verði nýttar með þeim hætti að ekki sé gengið á framtíðarmöguleika til nýtingar þeirra.
2. Allar ákvarðanir um nýtingu auðlinda og nýtingin sjálf einkennist af ást og virðingu fyrir umhverfinu.
3. Borgarbúar njóti öruggrar þjónustu frá traustum aðilum og geti gengið að upplýsingum um störf og stöðu orkufyrirtækja í eigu borgarinnar.
Orkuveita Reykjavíkur er snilldarfyrirtæki sem sér borgarbúum fyrir rafmagni, yl, vatni, frárennsli og gagnaveitu. Líklega er engin höfuðborg í heiminum jafn vel sett hvað varðar þessa mikilvægu grunnþjónustu sem er bæði hagkvæm, umhverfisvæn og örugg. Borgaryfirvöld vilja tryggja að Reykvíkingar og aðrir viðskiptavinir Orkuveitunnar njóti þess um ókomna tíð að eiga aðgang að öruggri orku, vatni, gagnaveitu og frárennsli. Sammæli eru um að þessu markmiði sé best náð með því að OR sé áfram í eigu almennings. Hlutverk OR er fyrst og fremst að sinna þörfum íbúa fyrir orku, vatn, frárennsli og gagnaveitu. Þátttaka í áhættusömum framkvæmdum kann að vera spennandi en á ekki að vera þáttur í reglulegri starfsemi OR. Kjarnastarfsemi er almannaþjónusta. Almannahagsmunir koma fyrst. Lykilatriði í starfi stjórnar er að leita allra leiða til að styrkja rekstur Orkuveitunnar, að halda Orkuveitunni í eigu almennings og tryggja grunnþjónustu á sanngjörnu verði. Veganesti borgaryfirvalda til nýrrar stjórnar Orkuveitunnar er að snúa sér þegar í stað að eftirfarandi verkþáttum:
- Skilgreina skal úttekt á rekstrinum með það að markmiði að skýra stöðu mála og draga fram þær áskoranir og þá möguleika sem eru í stöðunni. Meta þarf ýmsa þætti í skipulagi og rekstri starfseminnar þegar í stað, með það fyrir augum að komast hjá frekari vanda. Í úttektinni verður að taka á skipulagi, rekstri og stöðu framkvæmda þannig að ljóst sé við hvaða búi er tekið.
- Fjármögnun verður sérstakur þáttur í starfi stjórnar. Bráðavanda Orkuveitunnar má ekki vanmeta. Mikilvægt er að ná utan um þau mál hratt og örugglega. Ná verður ásættanlegu jafnvægi milli tekna og gjalda sem allra fyrst.
- Úttekt er eitt, framkvæmd stefnu er annað. Hlutverk stjórnar er að innleiða stefnu borgarstjórnar og áherslur hinnar nýju orku- og auðlindanefndar í starfsemi Orkuveitunnar. Sveigja á af stóriðjustefnu, til aukinnar fjölbreytni í orkusölu og að sjálfbærri almannaþjónustu.
- Brýnar breytingar kalla á skýra forystu stjórnar Orkuveitunnar. Stjórnarformaður mun fyrst um sinn sinna því verkefni í fullu starfi til að meta stöðuna með stjórn fyrirtækisins og vinna að nauðsynlegum breytingum.
Orkuveitan er frábært fyrirtæki og við erum vel sett að eiga umhverfisvæna orku og gott vatn. Ný stjórn fyrirtækisins er skipuð fólki með faglega þekkingu og reynslu. Starfsfólk Orkuveitunnar býr yfir gríðarlegri þekkingu, reynslu og metnaði. Við byggjum þess vegna á traustum grunni og hlökkum til að geta gert allskonar í framtíðinni þegar rekstur Orkuveitunnar er kominn á beinu brautina.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óska bókað:
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna mótmæla harðlega þeirri tillögu að stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur verði gerður að starfandi stjórnarformanni og verði þannig hluti af launuðu stjórnendateymi fyrirtækisins. Þessi ráðstöfun er algjört einsdæmi og í miklu ósamræmi við það eftirlitshlutverk sem stjórnarformanni ber að sinna gagnvart stjórnendum fyrirtækisins, auk þess hlutverks sem hann hefur í stjórn fyrirtækisins. Það vekur einnig furðu að á tímum hagræðingar og sparnaðar skuli meirihlutinn ákveða að bæta við manni í annars fjölmenna yfirstjórn Orkuveitunnar sem fær þá greiddar kr. 920.000,- mánaðarlega. Þessi ákvörðun er í mikilli andstöðu við fyrri stefnumörkun og þá viðleitni hjá Reykjavíkurborg að lækka launa- og stjórnendakostnað. Einnig benda fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna á þá lagalegu óvissu sem ríkir um slíka tillögu, enda hafa lög verið samþykkt á Alþingi sem heimila ekki að stjórnarformenn taki að sér önnur störf fyrir félagið.
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:
Stjórnarformaður OR verður ekki starfandi hluti af framkvæmdastjórn fyrirtækisins eins og gefið er til kynna í bókun minnihlutans. Í raun er furðulegt að minnihlutinn skuli nota það orðalag þvert á ábendingar og staðreyndir málsins. Hið rétta er að meirihlutinn hefur fengið þriggja manna teymi reynslumikils fagfólks til að leiða umfangsmikla endurskipulagningu á starfsemi og rekstri Orkuveitu Reykjavíkur með því að taka sæti í stjórn fyrirtækisins. Fyrst um sinn verður stjórnarformanni gert kleift að gera það í fullu starfi og munu launakjör hans taka mið af launum næstu undirmanna borgarstjórans í Reykjavík. Besti flokkurinn og Samfylkingin leggja áherslu á að um tímabundna ráðstöfun er að ræða. Hún er engu að síður nauðsynleg vegna umfangs þeirra brýnu og umfangsmiklu verkefna sem öllum ætti að vera ljóst að ráða þarf fram úr á næstu vikum og mánuðum.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óska bókað:
Fulltrúum Samfylkingar og Besta flokksins er tamt að tala um þriggja manna teymi með sérstakri áherslu á stjórnarformanninn. Hið rétta er að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur er fjölskipað stjórnvald þar sem sex einstaklingar eiga sæti. Hvernig sem hið nýtilkomna fulla starf stjórnarformannsins er skilgreint er ljóst að þar er verið að fara á svig við anda nýsamþykktra laga sem eiga að aðgreina hlutverk stjórnar og framkvæmdastjórnar. Ekki hefur verið tilgreint hversu lengi þessi ráðstöfun á að vara og er vandséð að ákvörðunin verði dregin til baka í náinni framtíð. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna ítreka að verkefni stjórnar Orkuveitunnar hafa um langt skeið verið umfangsmikil án þess að nokkurn tíma hafi komið til að greiða einum manni gríðarhá laun til að ráða fram úr þeim.
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:
Minnihlutinn vill vísa á hlutafélagalög sem kveða á um að stjórnarformanni sé óheimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem formanns félagsstjórnar. Um það er ekki að ræða í þessu tilviki heldur er þvert á móti það að stjórnarformanni verði gert kleift að sinna starfsskyldum sínum sem stjórnarformanni í fullu starfi, tímabundið. Annað er útúrsnúningur.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óska bókað:
Lagaleg óvissa um málið er aðeins ein hlið þess. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna eru algjörlega á móti ákvörðuninni, telja hana ranga og í raun ekkert annað en pólitíska ráðningu eins af fulltrúum meirihlutans.

- Kl. 12.08 víkur Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi.

33. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að fela menningar- og ferðamálaráði að hefja undirbúning að kvennakvöldi í Reykjavík sem haldið verði í haust. Mannréttindaskrifstofa vinni að undirbúningi kvennakvöldsins ásamt menningar- og ferðamálasviði. Við nánari útfærslu verði haft samráð við þau samtök sem koma að skipulagningu viðburða tengdum kvennafrídeginum. R10060055

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi frestunartillögu:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur til að tillögu um kvennakvöld í Reykjavík verði frestað og ítrekar bókun sína frá síðasta fundi borgarráðs um nauðsyn þess að samráð verði haft við þau kvennasamtök sem um langt skeið hafa skipulagt viðburði í tengslum við 24. október áður en tillagan verður samþykkt.
Frestunartillagan er felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Tillaga meirihlutans um sérstakan kvennaviðburð í lok október, þvert ofan í fyrirhugaða viðburði á vegum kvennahreyfingarinnar án þess að samráð hafi verið haft við grasrótarsamtök á þeim vettvang, er til marks um slæleg vinnubrögð og afturför hvað samráð og samstarf varðar, þrátt fyrir fögur fyrirheit. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna bendir á að fyrir liggur bréf frá regnhlífarsamtökum kvennahreyfingarinnar með beiðni um stuðning borgarinnar við fyrirhugaða viðburði sem hvorki hefur verið tekið fyrir í borgarráði né brugðist við með öðrum hætti. Þessi vinnubrögð eru með öllu óforsvaranleg.

Tillaga borgarstjóra samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.
Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:
Áhyggjur Vinstri grænna eru með öllu óþarfar enda kemur það fram í tillögu um kvennakvöld að við undirbúning þess verði haft samráð við þau samtök sem málin eru skyld.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óska bókað:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna telur eftir sem áður að vinnulag meirihlutans sé óviðunandi, enda hefur ákvörðun um kvennakvöld verið tekin hér í borgarráði án þess að regnhlífarsamtök kvennaheyfingarinnar hafi verið spurð álits og er því vandséð í hverju samráðið á að felast.

34. Lagt er til að Einar Örn Benediktsson taki sæti Gunnars Lárusar Hjálmarsson sem aðalmanns í stjórn Strætó bs. R10060088
Samþykkt.

35. Lagt er til að Oddný Sturludóttir taki sæti aðalmanns í stjórn Sorpu bs. í stað Einars Arnar Benediktssonar og að Einar taki sæti varamanns í stjórninni í stað Oddnýjar. R10060087
Samþykkt.

Fundi slitið kl. 12.45

Dagur B. Eggertsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Hanna Birna Kristjánsdóttir
Oddný Sturludóttir Óttarr Ólafur Proppé
Sóley Tómasdóttir