Borgarráð - Fundur nr. 5121

Borgarráð

B O R GA R R Á Ð

Ár 2010, miðvikudaginn 16. júní, var haldinn 5121. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.42. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir, Óttarr Proppé, Sóley Tómasdóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 15. þ.m. um kosningu sjö borgarráðsfulltrúa og sjö til vara til eins árs á fundi borgarstjórnar s.d. R10060090
Dagur B. Eggertsson er kosinn formaður borgarráðs og Óttarr Proppé varaformaður.

2. Samþykkt að auk borgarstjóra skipi Dagur B. Eggertsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Sóley Tómasdóttir, og S. Björn Blöndal aðgerðahóp borgarráðs. Dagur B. Eggertsson verði formaður. Erindisbréf hópsins verði lagt fyrir borgarráð síðar. R10060052

3. Samþykkt að auk borgarstjóra verði Dagur B. Eggertsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Sóley Tómasdóttir og S. Björn Blöndal fulltrúar Reykjavíkurborgar í eigendanefnd Orkuveitu Reykjavíkur. R10060067

4. Samþykkt að skipa Dag B. Eggertsson, Björk Vilhelmsdóttur, Pál Hjaltason, Diljá Ámundadóttur, Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur, Gísla Martein Baldursson og Sóleyju Tómasdóttur í stjórnkerfisnefnd. Dagur B. Eggertsson verði formaður. Erindisbréf nefndarinnar verði lagt fyrir borgarráð síðar. R10060061

5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:

Borgarráð samþykkir að skipuð verði rekstrarstjórn yfir Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Borgarstjóri verði skipaður formaður en auk hans sitji í rekstrarstjórninni tveir fulltrúar tilnefndum af borgarráði. Forstöðumaður garðsins, fulltrúi starfsmanna og framkvæmdastjóri ÍTR sitja fundi rekstrarstjórnar með málfrelsi og tillögurétt. Rekstrarstjórnin starfar í umboði borgarráðs. Rekstrarstjórnin fer með stefnumótun í málefnum fjölskyldu- og húsdýragarðsins og ber fjárhagslega ábyrgð á rekstri garðsins. Stjórnin hefur umboð til breytinga á starfsfyrirkomulagi hans, s.s að fara í nýframkvæmdir. Allar meiriháttar ákvarðanir, svo sem breytingar á gjaldskrá, skal þó bera undir borgarráð. ÍTR hefur eftir sem áður eftirlit með daglegri umsjón Fjölskyldu- og húsdýragarðsins fyrir hönd Reykjavíkurborgar, svo sem reikningsfærslum, bókhaldi, launa- og starfsmannamálum, kjarasamningum og að starfsmannastefnu Reykjavíkurborgar sé fylgt. ÍTR gegnir jafnframt aðhalds- og eftirlitshlutverki. Framkvæmdastjóri ÍTR er næsti yfirmaður forstöðumanns FHG hjá Reykjavíkurborg. Gerður skal sérstakur þjónustusamningur milli borgarráðs og ÍTR annars vegar og rekstrarstjórn og starfsmanna FHG hins vegar. Borgarlögmanni og framkvæmdastjóra ÍTR er falið að annast gerð samningsins. R10060070
Frestað.

6. Tilnefningu í stjórn samstarfssjóðs Nuuk, Reykjavíkur og Þórshafnar er frestað. R10060072

7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, dags. í dag:

Lagt er til að 2. mgr. 68. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar hljóði svo:
Formaður borgarráðs er staðgengill borgarstjóra. Í fjarveru formanns borgarráðs eru skrifstofustjóri borgarstjórnar, borgarlögmaður og skrifstofustjóri borgarstjóra staðgenglar borgarstjóra. R10060071
Vísað til síðari umræðu.

8. Samþykkt að borgarstjóri verði fulltrúi Reykjavíkurborgar á sveitarstjórnarvettvangi EFTA og formaður borgarráðs til vara. R10060094

9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:

Velferðarsviði er falið að útfæra tillögu að opnun heimilis fyrir útigangskonur í samráði við hagsmunaaðila og gera áætlun um rekstrarkostnað heimilisins. Tillaga ásamt rekstrar- og framkvæmdaáætlun verði lögð fyrir velferðar- og borgarráð. R10060083
Samþykkt.

10. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að fela leikskólasviði að endurskoða reglur um systkinaforgang á leikskólum borgarinnar. Greinargerð ásamt tillögum verði lögð fyrir mennta- og borgarráð. R10060084
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

11. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:

Borgarráð samþykkir að veita ókeypis í sund í sumar, frá 19. júní-31. ágúst næstkomandi, fyrir börn og unglinga að 18 ára aldri. ÍTR er falið að útfæra tillöguna nánar. R10010063
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

12. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:

Borgarráð samþykkir að fela framkvæmda- og eignasviði, í samvinnu við íþrótta- og tómstundasvið og Orkuveitu Reykjavíkur að undirbúa leiksvæði fyrir börn í Perlunni. R10060069
Frestað.

13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að hefja þegar í stað úrbætur á grænum svæðum og leikvöllum. Framkvæmda- og eignasviði verði falin útfærsla og framkvæmd verkefnisins í samvinnu við hlutaðeigandi svið borgarinnar. R10060068
Frestað.

14. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:

Borgarráð samþykkir að setja upp vefinn Betri Reykjavík á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Ennfremur verði vefurinn gerður notendavænni og aðlagaður vef borgarinnar. Skrifstofu borgarstjóra verði falin framkvæmd verkefnisins í samstarfi við vefteymi Reykjavíkurborgar og umsjónarmenn vefsíðunnar. R10060063
Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks styðja áfram aukna aðkomu borgarbúa að þeim málefnum sem Reykjavíkurborg sinnir. Mikið hefur verið gert nú þegar; sérstakir vefir til upplýsinga eru komnir fyrir hvert hverfi sem heita Hverfið mitt, kosning fór fram um forgangsröðun verkefna í hverju hverfi, aðalskipulag.is og verkefnið 1, 2 og Reykjavík skilaði inn mikið af ábendingum til borgarinnar og leiddi af sér miklar umbætur í hverju hverfi. Þetta er allt mikilvæg og góð viðbót við hefðbundna hverfafundi sem eru haldnir árlega um ólíka þætti og fundi er varða sérstök mál sem koma upp og þau verkefni sem íbúar hafa tekið að sér í tilraunaskyni, eins og til dæmis Lynghagaróló.

15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar, dags. í dag:

Lagt er til að skrifstofustjóra borgarstjórnar verði falið að undirbúa myndútsendingar af fundum borgarstjórnar á Netinu. Upptökur verði jafnframt aðgengilegar á vef borgarinnar. R10060062
Samþykkt.

16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:

Borgarráð samþykkir að setja af stað þróunarverkefni til að hvetja til menningarstarfsemi á leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum. Veittur verði menningarfáni sem viðurkenning á framúrskarandi menningarstarfi. Menningar- og ferðamálasviði er falin útfærsla á verkefninu, m.a. að setja viðmið um þá þætti sem þarf að uppfylla til að fá menningarfánann. Verkefnið verði unnið í samstarfi við mennta- og leikskólasvið, ÍTR og hlutaðeigandi samtök listamanna. R10060057
Samþykkt.

17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:

Borgarráð samþykkir að fela menningar- og ferðamálaráði að hefja undirbúning að kvennakvöldi í Reykjavík. Kvennakvöldið verði haldið síðustu helgina í október næstkomandi. R10060055
Frestað.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna telur brýnt að tillagan verði tekin til gagngerrar endurskoðunar, hafi markmið hennar verið að gera kvennabaráttu hærra undir höfði og tengja hana við 24. október 2010. Vel færi á því að borgin styddi af myndugleik við fyrirhugaðar uppákomur á vegum kvennahreyfingarinnar en það verður aðeins gert í nánu samráði við skipuleggjendur.

18. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 15. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að hefja þegar vinnu við fegrun og endurbætur í eldri hverfum borgarinnar. Verkefnið hefjist í Breiðholti í samráði við hverfisráð Breiðholts og íbúasamtök. Borgarstjóra er falið að skipa stýrihóp verkefnisins og setja honum erindisbréf. Erindisbréfið ásamt kostnaðaráætlun verði lagt fyrir borgarráð. R10060053
Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna tekur undir mikilvægi þess að ráðist verði í fegrun og endurbætur á eldri hverfum borgarinnar og jafnframt að Breiðholtið hljóti að vera framarlega í forgangsröðinni hvað það varðar. Sú málsmeðferð sem lögð er til hér veldur þó vonbrigðum, því þrátt fyrir fögur fyrirheit um eflingu hverfisráða virðist hverfisráð Breiðholts aðeins eiga að vera samráðsaðili gagnvart stýrihópi sem skipaður verður af borgarstjóra. Í anda nýrra vinnubragða og öflugri hverfisnálgunar hefðu þeir kjörnu fulltrúar sem í gær hlutu umboð til forgangsröðunar og áhrifa í Breiðholti átt að vera í forystuhlutverki gagnvart verkefninu.

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar óska bókað:

Stefnumörkun um eflingu hverfisráða er ekki lokið. Ekki er hægt að bíða eftir henni með endurbætur í Breiðholti en unnið verður í nánu samráði við hverfisráðið og aðra aðila í hverfinu.

Fundi slitið kl. 11.39

Dagur B. Eggertsson
Elsa Hrafnhildur Yeoman Oddný Sturludóttir
Sóley Tómasdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Óttarr Proppé Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir