No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2010, fimmtudaginn 10. júní, var haldinn 5120. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Oddný Sturludóttir, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram afgreiðslufundargerð byggingarfulltrúa frá 8. júní. R10010027
Samþykkt.
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 1. júní. R10010010
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 1. júní. R10010013
4. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Kjalarness frá 28. maí og 3. júní. R10010015
5. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 31. maí. R10010029
6. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 3. júní. R10010033
7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R10050145
8. Lagt fram svar borgarstjóra frá 9. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um endurgerð Tjarnarbíós, sbr. 40. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. apríl sl. R09060133
9. Lagt fram svar borgarstjóra frá 9. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um samanburð á eiginframkvæmd sveitarfélags og einkaframkvæmd, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. febrúar sl. R08050109
10. Lagt fram svar borgarstjóra frá 9. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um einkarekna leikskóla, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. apríl sl. R10040127
11. Lagðar fram að nýju tillögur aðgerðahóps um málefni barna um verkefni í tilefni af því að árið 2010 er tileinkað velferð barna, ódags., ásamt svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa Vinstri grænna, sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 1. þ.m.:
Í tilefni þess að borgarstjórn hefur tileinkað árið 2010 velferð barna leggja borgarfulltrúar Vinstri grænna til að öllum börnum í Reykjavík verði boðið að stunda sundlaugar borgarinnar sér að kostnaðarlausu frá og með 1. júní til 1. september.
Greinargerð fylgir tillögunni. R10010063
Frestað.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Það er miður að borgarráð skuli ekki geta afgreitt tillögur sem varða mikilvæga hagsmuni barna, en úr því sem komið er, er nýr meirihluti eindregið hvattur til að taka málið á dagskrá næsta borgarráðsfundar. Ítrekað er að greining á stöðu áhættuhópa úr röðum reykvískra barna, þar sem þarfir eru skilgreindar og brugðist við þeim, eru mikilvæg viðbrögð borgaryfirvalda á tímum efnahagshruns. Það sama gildir um lýðræðislegan rétt barna og þjóðfund þeirra. Fyrir hefur legið um nokkurn tíma að aðgerðahópur um velferð barna hafi komið sér saman um þessar tillögur auk þess að vilja bjóða öllum börnum í sund frá og með 1. júní sl. Tillögum hópsins hefur ítrekað verið frestað og nú á að fresta þeim enn frekar. Nýr meirihluti er því eindregið hvattur til þess að afgreiða málið með hraði.
12. Lögð fram svohljóðandi tillaga Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 1. þ.m.:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að setja á fót Friðarstofnun Reykjavíkur og skipa fimm manna verkefnastjórn til undirbúnings. Höfði, þar sem grunnurinn var lagður að endalokum kalda stríðsins, verður tákrænn fundarstaður. Ekki verða greidd laun fyrir setu í verkefnisstjórn. Stefnt skal að stofnfundi 24. september nk. Meginverkefni starfshópsins eru eftirfarandi:
a) Semja stofnskrá, tilgang og lög stofnunarinnar.
b) Gera tillögu um fimm aðalmenn í stjórn og þrjá í varastjórn.
c) Skilgreina samstarfsaðila hérlendis og erlendis.
Ísland og þar með Reykjavík hafa alla burði til að láta að sér kveða varðandi áðurnefnd viðfangsefni enda sögulega séð ekki tengd að neinu leyti þeirri forsögu sem óneitanlega mótar öryggisvanda nútímans. Forysta Reykjavíkur í umhverfismálum, þá sérstaklega á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, mun nýtast öðrum ríkjum í náinni framtíð og skapa verðugan tilvistargrunn fyrir starfsemi Friðarstofnunar Reykjavíkur.
Greinargerð fylgir tillögunni. R06100239
Samþykkt. Skipan í verkefnisstjórn frestað.
- Kl. 9.47 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.
13. Lögð fram svohljóðandi tillaga Óskars Bergssonar sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 1. þ.m.:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að fela forsætisnefnd að yfirfara samþykktir borgarinnar með það að markmiði að skerpa betur á verkaskiptingu milli borgarstjórnar og borgarráðs. Borgarstjórnarfundir verði virkjaðir betur sem vettvangur hinnar pólitísku umræðu, en borgarráð verði fyrst og fremst sá vettvangur framkvæmda- og fjármálastjórnar borgarinnar sem lög gera ráð fyrir.
Greinargerð fylgir tilögunni. R10060009
Samþykkt og vísað til forsætisnefndar og stjórnkerfisnefndar.
14. Lagt fram að nýju bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 26. f.m., sbr. samþykkt velferðarráðs s.d., varðandi annars vegar drög að þjónustusamningi um rekstur þjónustukjarna fyrir eldri borgara við Sléttuveg og hins vegar drög að leigusamningi um þjónustukjarnann, ásamt umsögn fjármálastjóra, dags. 2. þ.m. R10050139
Frestað.
15. Lagt fram að nýju bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 31. f.m. varðandi drög að samkomulagi Reykjavíkurborgar og Laugardalsbrautar ehf. um frestun þróunar og uppbyggingar í Fjölskyldugarðinum í Laugardal og uppgjör milli aðila vegna hennar. R09010078
Frestað.
16. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs vegna ársins 2010, dags. í dag. R09110055
Samþykkt að veita Söngfuglunum, kór aldraðra, styrk að fjárhæð 100 þ.kr. vegna kórferðalags.
17. Lagt fram bréf Þríhnúka ehf. frá 17. f.m. varðandi fjármögnun næstu skrefa við að gera Þríhnúkagíg aðgengilegan almenningi. R10050090
Frestað.
18. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. þ.m., yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R10050001
19. Lagður fram úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 1. þ.m. í máli nr. E-6581/2009, Þórir J. Einarsson ehf. gegn Reykjavíkurborg. R09050107
20. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 3. þ.m. þar sem lagt er til að eiganda Laugavegs 98 verði greiddar bætur vegna skerðingar á aðkomu að bílastæði. R10040059
Samþykkt.
21. Lagðar fram tillögur starfshóps um yfirferð reglna um styrki vegna fasteignaskatta varðandi styrki vegna sérstakrar aukningar húsnæðiskostnaðar, dags. 18. f.m. R10020057
Frestað.
22. Lagt fram svar borgarstjóra frá 9. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um yfirvinnu starfsfólks og kostnað við nemendur í leik- og grunnskólum, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. f.m. R08050033
23. Lagt fram svar borgarstjóra frá 9. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um Hörpuna, tónlistar- og ráðstefnuhús, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. apríl sl. Jafnframt lagt fram bréf borgarstjóra til mennta- og menningarmálaráðherra, dags. í dag. R09010036
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Það er mjög ámælisvert að borgarstjóri hafi legið á svörum við fyrirspurnum Samfylkingarinnar um stöðu byggingar- og rekstrar tónlistar- og ráðstefnuhússins. Fyrirspurnin var lögð fram 8. apríl, svarið barst 21. apríl en er ekki lagt fram fyrr en eftir kosningar, nær tveimur mánuðum síðar, eða 10. júní. Þetta er sérstaklega ámælisvert þar sem svör um framvindu verkefnisins bera með sér að kostnaður er umfram áætlanir eða sem nemur um milljarði króna, framkvæmda- og rekstraraðili óskar eftir 580 milljónum króna í hlutafjáraukningu og ástæða er til að hafa áhyggjur af því að opnun hússins og þar með fyrstu viðburðir þess sem skila tekjum muni frestast. Allt hefði þetta átt brýnt erindi við borgarráð og borgarbúa um leið og þessar staðreyndir lágu fyrir, á síðasta ári eða í byrjun þessa. Óverjandi er að þessi gögn hafi ekki verið birt eftir að svör við fyrirspurnum Samfylkingarinnar lágu fyrir.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Eina ferðina enn gerir Samfylkingin tilraunir til að gera eitthvað úr þeirri staðreynd að svör við fyrirspurnum koma frá borgarstjóra, sem ber að skila þeim til borgarráðs með sem gleggstum upplýsingum. Eins og kemur fram í svari borgarstjóra var nauðsynlegt að óska eftir viðbótarupplýsingum og skýringum frá Austurhöfn-TR sem fyrri svör kölluðu á og bárust þau 27. maí sl. Borgarstjóri gat því ekki lagt fram svörin án umræddra skýringa. Í svörum stjórnenda Austurhafnar-TR ehf. við fyrirspurnum koma fram hugmyndir um fjárþörf og hugsanlega hlutafjáraukningu í þeim félögum sem Austurhöfn-TR fer með eignarhald á eða dótturfélögum þeirra. Eins og kemur fram í bréfi borgarstjóra til mennta- og menningarmálaráðherra er áréttað að engin fyrirheit hafa verið gefin af hálfu Reykjavíkurborgar um frekari fjárframlög til tónlistar- og ráðstefnuhússins við Austurhöfn. Eins og kemur fram í samþykkt borgarráðs um framhald byggingar tónlistar- og ráðstefnuhúss, dags. 19. febrúar 2009, fól sú ákvörðun ekki í sér nein aukin framlög frá því sem þegar var ákveðið árið 2004 þegar framkvæmdir og rekstur tónlistar- og ráðstefnuhúss voru boðin út. Áréttað er að afstaða Reykjavíkurborgar í þessum efnum er óbreytt.
24. Lögð fram að nýju greinargerð innri endurskoðanda frá 8. mars sl. um innra eftirlit með innkaupamálum. Jafnframt lagt fram bréf innri endurskoðanda frá 5. f.m. varðandi vinnulag við úttektir innri endurskoðunar. Þá er lagt fram svar borgarstjóra frá 9. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um innra eftirlit með innkaupamálum, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. mars sl. R10030035
25. Lagður fram árshlutareikningur A-hluta borgarsjóðs fyrir fyrsta ársfjórðung. R10050129
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar-mars 2010 er lagður fram í borgarráði í dag. Árshlutareikningurinn sýnir að staða borgarsjóðs er sterk. Rekstrarniðurstaðan og staðan á handbæru fé undirstrika trausta og ábyrga fjármálastjórn Reykjavíkurborgar. Samkvæmt árshlutareikningnum er rekstrarniðurstaða A-hluta borgarsjóðs nánast á pari við áætlun. Fjárhagsáætlun ársins 2010 gerir ráð fyrir hallalausum rekstri borgarsjóðs en samkvæmt venju gerir fjárhagsáætlunin fyrir fyrri hluta ársins ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu, sem leitar jafnvægis þegar líður á árið. Var rekstrarniðurstaða fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins áætluð neikvæð um 80 m.kr. en niðurstaðan var neikvæð um 88 m.kr. Rekstrarniðurstaða aðalsjóðs sem fjármagnar rekstur fagsviðanna var um 500 m.kr. betri en áætlað var. Útsvarstekjur eru um 350 m.kr. undir áætlun en fasteignagjöld tæplega 200 m.kr. yfir áætlun. Þá er verðbólga nokkuð yfir áætlaðri verðbólgu sem er meginástæða lakari afkomu eignasjóðs en áætlað var. Rekstur fagsviðanna er hins vegar innan fjárheimilda og í heildina er árangurinn því mjög góður. Staða borgarsjóðs er sterk og handbært fé A-hluta samkvæmt árshlutareikningnum er um 13,3 milljarðar. Eins og borgarstjóri hefur greint frá liggur fyrir það mat fjármálaskrifstofu að mikilvægt sé að A-hluti borgarsjóðs hafi aðgengi á árinu að 10-12 milljörðum vegna metinnar markaðsáhættu vegna Orkuveitu Reykjavíkur og því mikilvægt að Reykjavíkurborg viðhaldi sterkri lausafjárstöðu.
26. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra frá 7. þ.m. varðandi tillögur að úthlutun til verkefna í þágu ungs fólks, samtals að fjárhæð 9.640 þ.kr. R10050084
Samþykkt.
Fundi slitið kl. 11.20
Óskar Bergsson
Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Kjartan Magnússon Oddný Sturludóttir
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson