Borgarráð - Fundur nr. 5119

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð


Ár 2010, fimmtudaginn 3. júní, var haldinn 5119. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.45. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram afgreiðslufundargerð byggingarfulltrúa frá 1. júní. R10010027
Samþykkt.

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 20. maí. R10010009

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 17. maí. R10010012

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 26. maí. R10010017

5. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Vesturbæjar frá 9. apríl og 14. maí. R10010018

6. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 28. maí. R10010033

7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. R10050145

8. Lögð fram umsögn umhverfis- og samgöngusviðs frá 28. f.m. um tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012. R10050009
Samþykkt.

9. Lögð fram stöðuskýrsla stýrihóps um búsetuúrræði fyrir eldri borgara í Reykjavík, dags. 3. f.m., ásamt bréfi verkefnastjóra hópsins, dags. 11. s.m. R09030124

10. Lagt fram bréf skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs frá 14. f.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 11. s.m., um breytingar á gjaldsvæðum á almennum bílastæðum við Skálholtsstíg, Þingholtsstræti milli Amtmannsstígs og Spítalastígs og við Skuggasund og efri hluta Skúlagötu. R10050094
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs frá 14. f.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 11. s.m., þar sem lagt er annars vegar til að almenn bílastæði við götukanta á Grettisgötu, Njálsgötu og Bergþórugötu á milli Frakkastígs og Barónsstígs ásamt efri hluta Frakkastígs og hins vegar við Smiðjustíg, Sölvhólsgötu og Lindargötu, verði gjaldskyld. R10050093
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf garðyrkjustjóra frá 31. f.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 25. s.m., um endurskoðaðar reglur um bílastæðakort íbúa. R10060003
Samþykkt.

13. Lagðar fram að nýju niðurstöður og tillögur starfshóps um yfirferð reglna um styrki vegna fasteignaskatta, dags 18. f.m. R10020057
Samþykkt.

14. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 28. f.m., sbr. samþykkt menntaráðs 26. s.m., um að nýr skóli í Úlfarsárdal verði nefndur Dalskóli. R10050154
Samþykkt.

15. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 31. f.m. varðandi drög að samkomulagi Reykjavíkurborgar og Laugardalsbrautar ehf. um frestun þróunar og uppbyggingar í Fjölskyldugarðinum í Laugardal og uppgjör milli aðila vegna hennar. R09010078
Frestað.

16. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 1. þ.m. varðandi umsögn um frumvarp til umferðarlaga. R10050102
Samþykkt.

17. Kynnt er umsókn Reykjavíkurborgar um að verða græna borgin í Evrópu 2012-2013. R09110015
Bókun borgarráðs:
Borgarráð fagnar þeim árangri Reykjavíkur að komast í úrslit sem ein af grænu borgunum í Evrópu. Borgarráð þakkar einnig öllu því fjölmarga starfsfólki borgarinnar sem komið hefur að þessari miklu vinnu og lagt nótt við dag við að auka líkurnar á því að Reykjavík hljóti þann eftirsótta titil að vera græna borgin í Evrópu.

18. Lagt fram bréf sviðsstýru umhverfis- og samgöngusviðs frá 1. þ.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 25. f.m., varðandi 3ja ára framkvæmdaáætlun vegna hjólaborgarinnar Reykjavíkur. R07090080
Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

19. Lagt fram bréf garðyrkjustjóra frá 31. f.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 25. s.m., varðandi gerð reiðhjólastíga á Hofsvallagötu frá Hringbraut að Ægissíðu o.fl., sbr. einnig tillögu borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna frá 8. apríl sl. R10040019
Tillaga umhverfis- og samgönguráðs samþykkt.

20. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 26. f.m., sbr. samþykkt velferðarráðs s.d., varðandi annars vegar drög að þjónustusamningi um rekstur þjónustukjarna fyrir eldri borgara við Sléttuveg og hins vegar drög að leigusamningi um þjónustukjarnann. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra, dags. 2. þ.m. R10050139
Frestað.

21. Lagt fram bréf Frjálslynda flokksins frá 14. f.m. varðandi fjárframlög til stjórnmálaflokka. R08120099
Vísað til borgarlögmanns.

- Kl. 11.10 víkur borgarstjóri af fundi.

22. Lögð fram erindi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins frá 18. mars sl., framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins frá 15. apríl sl., borgarstjórnarflokks Vinstri grænna frá 16. s.m. og gjaldkerum fulltrúaráðs og borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar í Reykjavík, dags. 30. s.m., vegna þeirra tilmæla borgarráðs til stjórnmálasamtaka, sem fengu fulltrúa kjörna í borgarstjórn við borgarstjórnarkosningar 2006, að þau geri grein fyrir því hvernig framlögum borgarinnar til þeirra á tímabilinu 2006-2009 hefur verið varið, sbr. 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. febrúar. R08120099

23. Lagðar fram tillögur aðgerðahóps um málefni barna um verkefni í tilefni af því að árið 2010 er tileinkað velferð barna, ódags. Jafnframt lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna, sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 1. þ.m.:
Í tilefni þess að borgarstjórn hefur tileinkað árið 2010 velferð barna leggja borgarfulltrúar Vinstri grænna til að öllum börnum í Reykjavík verði boðið að stunda sundlaugar borgarinnar sér að kostnaðarlausu frá og með 1. júní til 1. september.
Greinargerð fylgir tillögunni. R10010063
Frestað.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Greining á stöðu áhættuhópa úr röðum reykvískra barna þar sem þarfir eru skilgreindar og brugðist við þeim eru mikilvæg viðbrögð borgaryfirvalda á tímum efnahagshruns. Það sama gildir í raun um lýðræðislegan rétt og þjóðfund þeirra. Aðgerðahópur um velferð barna hefur komið sér saman um þessar tillögur. Auk þess ákvað hópurinn að bjóða öllum börnum í sund frá og með 1. júní. Formaður aðgerðahópsins, Jórunn Frímannsdóttir sagði frá því í borgarstjórn á þriðjudag að tillögur hópsins hefðu verið lagðar tímanlega fyrir formann borgarráðs fyrir fund ráðsins, fimmtudaginn 27. maí. Þrátt fyrir það voru þær ekki lagðar fram á fundinum. Borgarráðsfulltrúi VG tók málið því fyrir í borgarstjórn og lagði til að tillagan um sund yrði samþykkt þar vegna þess að 1. júní væri runninn upp. Tillögu hans var vísað til borgarráðs og er á dagskrá þessa fundar en nú leggur formaður borgarráðs til að málinu verði frestað um viku. Með þessum ótrúlegu vinnubrögðum er meirihlutinn í raun að svíkja börn um fríar sundferðir með hverjum deginum sem líður eftir 1. júní sl.

24. Kynnt er staða við undirbúning skipunar nefndar sem yfirfara á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. R10040061
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráð samþykkti fyrir tæpum mánuði síðan að skipa nefnd til að framkvæma viðamikla rannsókn á stjórnsýslu, stjórnkerfi og aðkomu stjórnmálafólks að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum. Til stóð að skipa í nefndina á borgarstjórnarfundi 18. maí en þegar ljóst var að það tækist ekki lagði borgarráðsfulltrúi VG til á borgarstjórnarfundinum að auglýst yrði eftir þremur sérfræðingum í nefndina. Tillagan var samþykkt einróma og jafnframt að borgarráð skyldi skipa í nefndina á fundi sínum 27. maí. Borist hefur fjöldi umsókna og tilnefninga í nefndina og um það var rætt að málið hefði forgang þegar tímafrestur væri liðinn. Í borgarráði 6. september var verkefnið vistað hjá skrifstofu borgarstjóra en meirihlutinn bókaði á síðasta fundi ráðsins að undirbúningur þess væri í höndum alls aðgerðahóps borgarráðs, en hann hefur ekki haldið fund síðan 15. maí sl. Úr þessu fer best á því að ný borgarstjórn klári verkið og skipi í nefnd sérfræðinga. Borgarráðsfulltrúi VG hvetur það góða fólk sem kemur nýtt inn í borgarstjórnina að taka málið föstum tökum þannig að stjórnsýsla borgarinnar endurheimti traust borgarbúa.

25. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 2. þ.m. varðandi framkvæmdir í Víðidal vegna landsmóts hestamanna árið 2012. R08100234
Samþykkt.

26. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 2. júní. R10010031
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Borgarráð áréttar þá stefnu Reykjavíkurborgar að gjaldskrár Orkuveitu Reykjavíkur hækki ekki á árinu 2010. Í samræmi við þessa stefnu gerir fjárhagsáætlun ársins 2010 ráð fyrir óbreyttum gjaldskrám og stendur ekki til að breyta þeim. Gjaldskrár Orkuveitunnar hafa ekki hækkað í langan tíma, í samræmi við aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar, og því lækkað að raungildi. Það eru því engin ný tíðindi fólgin í því að gjaldskrár þurfi að taka breytingum þegar horft er til næstu fimm ára, eða til ársins 2015, sem heildarstefna Orkuveitunnar nær til. Í svari stjórnenda Orkuveitunnar við fyrirspurn stjórnarmanns um arðsemi er því svarað hversu mikið gjaldskrár þyrftu að breytast ef bættri afkomu væri einungis mætt með gjaldskrárhækkunum en ekki einnig með hagræðingu, bættu gengi o.s.frv. Við mat á gjaldskrárbreytingum er skv. svarinu því ekki tekið tillit til annarra þátta, s.s. hagræðingar í rekstri, heimsmarkaðsverðs á áli, stöðu gjaldmiðla eða vaxtakjara á lánamörkuðum. Útilokað er að bættri afkomu yrði einungis mætt með gjaldskrárhækkunum. Gjaldskrárhækkunarþörfin samkvæmt svarinu er því stórkostlega ofmetin. Ekki kemur til greina að samþykkja hana án undangenginnar skoðunar á því með hvaða hætti hægt verði að draga úr rekstrarkostnaði þannig að fyrirtækið velti ekki allri fjárþörf sinni yfir á almenning. Við þetta má bæta að svar stjórnenda Orkuveitunnar miðast við afkomu samkvæmt árinu 2009 en fjárhagslegur styrkur og greiðsluhæfi Orkuveitunnar hefur vaxið verulega síðan samkvæmt þriggja mánaða uppgjöri ársins 2010. Það hefur verið stefna Reykjavíkurborgar að Orkuveita Reykjavíkur, sem er í eigu almennings, leiti allra leiða til hagræðingar, áður en frekari byrðum verður velt yfir á almenning, jafnvel þótt það eigi að gerast á svo löngu tímabili. Stjórn og stjórnendur Orkuveitunnar hafa staðið sig mjög vel undanfarin ár við að leita leiða til að hagræða í rekstri og skera niður þrátt fyrir miklar fjárfestingar. Mikill árangur hefur náðst af þessum aðgerðum sem hefur þegar skilað sér og mun skila sér enn frekari til lengri tíma og treystir borgarráð stjórnendum Orkuveitunnar til að halda áfram á sömu braut í stað þess að leggja fram hugmyndir um að velta allri fjárþörfinni yfir á almenning.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Þann 28. janúar 2010 lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði fram fyrirspurn um arðsemismarkmið Orkuveitu Reykjavíkur og þörf á gjaldskrárbreytingum. Ítrekað hefur Samfylkingin gengið eftir þeim svörum, bæði í borgarráði og í stjórn OR. Nú heilum fjórum mánuðum síðar, skömmu eftir kosningar, skýrir stjórnarformaður OR og fulltrúi meirihlutans frá því að þörf fyrir gjaldskrárbreytingar er staðreynd, lág arðsemi og óbreytt gjaldskrá stendur fyrirtækinu fyrir þrifum og gerir fyrirtækinu erfitt um vik um að sækja sér lánsfé. Það blasir við að fráfarandi meirihluti hefur dregið það í fjóra mánuði að svara fyrirspurnum Samfylkingarinnar. Það ber vott um pólitískt hugleysi. Skuldir Orkuveitunnar hafa vaxið gríðarlega í tíð fráfarandi meirihluta og nú hefur Reykvíkingum verið birtur reikningurinn.

- Kl. 12.03 víkja Júlíus Vífill Ingvarsson og Oddný Sturludóttir af fundi.
- Kl. 12.14 víkja Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Gísli Marteinn Baldursson af fundi.


Fundi slitið kl. 12.30

Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Þorleifur Gunnlaugsson