No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2010, fimmtudaginn 27. maí, var haldinn 5116. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.45. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram afgreiðslufundargerð byggingarfulltrúa frá 25. maí. R10010027
Samþykkt.
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 18. maí. R10010010
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 18. maí. R10010011
4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 15. maí. R10010015
5. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 18. og 25. maí. R10010019
6. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 12. maí. R10010031
7. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 21. maí. R10010028
8. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 14. og 20. maí. R10010033
9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 2 mál. R10040139
10. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 20. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 19. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Mjóddar vegna lóðarinnar nr. 3 við Þarabakka. R10050118
Samþykkt.
- Kl. 9.53 tekur Ólafur F. Magnússon sæti á fundinum.
11. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 20. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 19. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar Knattspyrnufélagsins Vals að Hlíðarenda. R10050119
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar óska bókað að þeir vísi til bókana fulltrúa sinna í skipulagsráði.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Dapurlegt er að fylgjast með þeim vinnubrögðum sem viðgangast hjá ráðandi öflum í skipulagsráði. Það er út í hött að halda áfram með gersamlega óraunhæft skipulag Vatnsmýrar, byggt á þekkingar- og skilningsleysi á íslenskum aðstæðum og tillitsleysi gagnvart almannahagsmunum. Nú virðist eiga að keyra í gegn hraðbraut þvert yfir Hlíðarendasvæðið á sama tíma og ábyrgðarlaust grínframboð er líklegt til að verða ráðandi afl í skipulagsmálum borgarinnar á næsta kjörtímabili. Vituð ér enn eður hvat.
12. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 20. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 19. s.m., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi Voga sunnan Skeiðarvogs. R10050120
Samþykkt.
13. Lagt fram að nýju bréf formanns stjórnar kirkjubyggingarsjóðs frá 5. þ.m. um úthlutanir úr sjóðnum fyrir árið 2010. Jafnframt lagt fram bréf formanns sjóðsstjórnarinnar frá 21. s.m. vegna fyrirspurnar borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. s.m. R10010106
Borgarráð samþykkir tillögu sjóðsstjórnar um úthlutanir úr sjóðnum með 6 samhljóða atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Að mati borgarráðsfulltrúa VG er svar við fyrirspurn um kirkjubyggingarsjóð ekki fullnægjandi. Í samþykktum um sjóðinn segir: „Hlutverk sjóðsins er að styrkja með óafturkræfum framlögum byggingar kirkna og safnaðarheimila sókna í Reykjavík með það takmark fyrir augum að þær eignist hver sína kirkju svo fljótt sem verða má“ og „Þá er hægt að veita styrki úr sjóðnum til endurbóta og meiriháttar viðhalds kirkna samkvæmt nánari tillögum sjóðsstjórnar“. Í svarinu eru ófullnægjandi útskýringar á tillögum um styrki sem nema 6 milljónum kr. vegna „slæmrar skuldastöðu“ og ekki reynt að rökstyðja að um meiriháttar viðhald sé að ræða þar sem verið er að leggja til styrki er nema 17,5 milljónum kr. Í einu tilfella er til að mynda um að ræða málun og þrif. Fulltrúi VG í borgarráði situr hjá við afgreiðslu styrkjaúthlutana úr kirkjubyggingarsjóði og ítrekar það að sú spurning er áleitin hvort ekki sé rétt að draga verulega úr styrkveitingum til sjóðsins í því árferði sem við nú búum við.
14. Lagt fram að nýju bréf mannréttindastjóra frá 26. f.m. varðandi fyrirkomulag þjónustu við innflytjendur til næstu áramóta ásamt minnisblaði innkaupaskrifstofu frá 3. þ.m. Jafnframt lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um að fela þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða rekstur ráðgjafarhluta Alþjóðahúss frá 1. júlí til 31. desember 2010, sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. þ.m. Loks er lagt fram að nýju bréf mannréttindastjóra frá 17. þ.m., sbr. samþykkt mannréttindaráðs 10. s.m., þar sem lagt er til að mannréttindaskrifstofu verði falið verkið. R09070058
Frestað.
15. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um breytingar á kjörskrá vegna borgarstjórnarkosninga 29. maí nk. R10050111
Samþykkt.
16. Lögð fram tillaga og greinargerð stýrihóps um staðsetningu og opnunartíma áfengisveitingastaða, dags. 25. þ.m. R09050008
- Kl. 11.17 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundi og Sigrún Elsa Smáradóttir tekur þar sæti.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
1. Á þeim svæðum í miðborginni, austan Lækjargötu, þar sem afgreiðslutími vínveitingastaða hefur verið heimilaður til allt að kl. 5.30 um helgar, verði afgreiðslutíminn ekki heimilaður lengur en til kl. 3.00.
2. Rekstraraðilar fái hálftíma eða til kl. 3.30 til að koma fólki út.
3. Tryggt sé að hávaði frá veitingastöðum í miðborginni sé í lágmarki þannig að íbúar hafi svefnfrið, sbr. 4. gr. lögreglusamþykktar.
4. Við endurskoðun aðalskipulags sem nú stendur yfir og þar með endurskoðun á þróunaráætlun miðborgar frá árinu 2000, verði endurskoðaðar allar reglur um veitingastaði þannig að íbúabyggð og veitingahús geti farið saman án þess að gengið sé á rétt íbúa.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt að óska eftir umsögnum hagsmunaaðila um tillögu stýrihópsins.
Afgreiðslu málsins frestað.
17. Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar um stuðning við tilraunaverkefni um að kvikmyndahúsið Regnboginn verði kvikmyndasetur, sbr. 3. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 18. þ.m., ásamt umsögn sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs, dags. 24. s.m. Jafnframt lögð fram greinargerð samstarfshóps um Regnbogann Bíotek, dags. 25. s.m. R10050082
Samþykkt að fela sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs og borgarlögmanni að ræða við samstarfshópinn um hugmyndir þeirra um aðkomu Reykjavíkurborgar að verkefninu.
18. Lagt fram bréf sviðsstýru framkvæmda- og eignasviðs frá 26. þ.m. um endurnýjun á gólfefni íþróttahúss Seljaskóla. R10030040
Samþykkt.
19. Lagt fram bréf sviðsstýru framkvæmda- og eignasviðs frá 26. þ.m. varðandi frestun lagningar slitlags á Reynisvatnsvegi og að byggingu íþróttahúss við Sæmundarskóla verði lokið. R09110013
Samþykkt.
- Kl. 11.42 víkur Kjartan Magnússon af fundi.
20. Lagðar fram niðurstöður starfshóps um yfirferð reglna um styrki vegna fasteignaskatta, dags 18. þ.m. R10020057
Frestað.
21. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráðsfulltrúi VG leggur til að í tilefni þess að borgarstjórn hefur tileinkað árið 2010 velferð barna verði öllum börnum í Reykjavík boðið að stunda sundlaugar borgarinnar sér að kostnaðarlausu frá og með 1. júní og út árið.
Greinargerð fylgir tillögunni. R10010063
Frestað.
22. Kynnt er staða við undirbúning skipunar nefndar sem yfirfara á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. R10040061
- Kl. 12.36 víkja Dagur B. Eggertsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna fordæmir hunsun borgarstjóra á ákvörðunum borgarráðs og borgarstjórnar varðandi nefnd óháðra sérfræðinga sem rannsaka átti stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Þegar upp er staðið er það umhugsunarefni hvort nokkru sinni hafi staðið til af hálfu borgarstjóra og meðreiðarsveina hennar að standa við rannsóknina. Borgarráð ákvað þann 6. maí sl. að skipa nefnd til að framkvæma viðamikla rannsókn á stjórnsýslu, stjórnkerfi og aðkomu stjórnmálafólks að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum. Til stóð að skipa í nefndina á borgarstjórnarfundi 18. maí en þegar ljóst var að það tækist ekki, þar sem skrifstofa borgarstjóra var að draga lappirnar lagði borgarráðsfulltrúi VG til á borgarstjórnarfundinum að auglýst yrði eftir þremur sérfræðingum í nefndina. Tillagan var samþykkt einróma og jafnframt að borgarráð skyldi skipa í nefndina á fundi sínum í dag, 27. maí. Borist hefur fjöldi umsókna og tilnefninga í nefndina og um það var rætt að málið hefði forgang þegar tímafrestur væri liðinn sem var á mánudagskvöld. Borgarstjóri boðaði og afboðaði síðan fund um málið þannig að engin vinna kjörinna fulltrúa hefur farið fram vegna skipunar í nefndina og málið er ekki á auglýstri dagskrá borgarráðs þrátt fyrir ákvörðun borgarstjórnar. Þar með er það sennilega fullreynt, nú tveimur dögum fyrir kosningar, að ákvörðun um umfangsmikla rannsókn á stjórnsýslu borgarinnar var bara „djók“ í huga Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og félaga.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það er mjög miður hvernig borgarfulltrúi Vinstri grænna kýs að fjalla um þetta mál, enda ljóst af umfjöllun aðgerðahóps og embættismanna borgarinnar að nauðsynlegt er að gefa undirbúningi málsins lengri tíma. Undirbúningur þessa verkefnis hefur verið í höndum alls aðgerðahóps borgarráðs en ekki einungis borgarstjóra, líkt og borgarfulltrúinn virðist telja, og hefur sú vinna öll gengið vel og tekið eins skamman tíma og mögulegt er. Það er nauðsynlegt og mikilvægt að vanda vel til þessa stóra verkefnis og undarlegt að borgarfulltrúi Vinstri grænna skuli gagnrýna þau vinnubrögð og vilja gefa afslátt af því að vel sé að verki staðið. Forsaga málsins er kunn. Borgarráð hefur samþykkt að skipa nefnd þriggja sérfræðinga til að gera úttekt á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Skrifstofu borgarstjóra var falið að undirbúa málið. Auk þess sem leitað var að hæfum sérfræðingum var óskað eftir tilnefningum frá fulltrúum í aðgerðahópi borgarráðs. Til að fjölga valkostum var ákveðið að auglýsa eftir sérfræðingum í nefndina en tillaga þess efnis var lögð fram af borgarfulltrúa Vinstri grænna fyrir rúmri viku síðan og samþykkt í borgarstjórn þann 18. maí. Auk þess var almenningi gefinn kostur á að tilnefna einstaklinga í nefndina. Auglýsingar birtust í fjölmiðlum dagana 20. til 24. maí. Nú þegar hafa borist á fjórða tug umsókna frá einstaklingum og fyrirtækjum sem verið er að fara yfir. Það er mat skrifstofustjóra borgarstjóra að nauðsynlegt sé að vanda til verka við val í nefndina og til þess að undirbúa tilnefningar í nefndina þurfi eðlilega lengri tíma en til dagsins í dag, enda einungis tveir dagar síðan umsóknarfrestur rann út. Nefndin mun gegna afar mikilvægu hlutverki við endurskoðun á starfsháttum í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar og mjög brýnt að vandað sé til verka við val í nefndina. Auk þess að kanna hæfi einstakra umsækjenda með viðtölum og öflun gagna er nauðsynlegt að kanna tengsl þeirra við Reykjavíkurborg og helstu fyrirtæki sem borgin hefur verið í viðskiptum við. Ætla má að hægt verði að ganga frá vali á umræddum þremur einstaklingum á næstu dögum, en það verk er í höndum aðgerðahóps borgarráðs þar sem sitja fulltrúar meirihluta og minnihluta.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Formaður borgarráðs er greinilega í hefndarhug þegar hann vill slíta fundi áður en bókunum er lokið. Tilefnið er auðsjáanlega það að borgarráðsfulltrúi VG setti fram bókun á síðasta fundi sem leiddi í ljós fjarveru borgarráðsfulltrúa meirihlutans án þess að varamenn væru kallaðir til. Af þessari ástæðu situr borgarráðsfulltrúi VG undir því að fundi verði slitið og hann fái ekki tíma til að klára bókun um getuleysi meirihlutans varðandi þjónustu við innflytjendur og aðgerðahóp um málefni barna.
Fundi slitið kl. 12.45
Óskar Bergsson
Gísli Marteinn Baldursson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Sigrún Elsa Smáradóttir Þorleifur Gunnlaugsson