Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2010, fimmtudaginn 6. maí, var haldinn 5114. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.42. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Oddný Sturludóttir, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 23. apríl. R10010009
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 4. maí. R10010013
3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 5. maí. R10010027
B-hluti fundargerðinnar samþykktur.
4. Lögð fram fundargerð stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 21. apríl. R10010032
5. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 3. maí. R10010029
6. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 30. apríl. R10010033
7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R10040139
8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 15. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 14. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Austurhafnar TRH vegna gatna- og stígatengsla. R10020096
Samþykkt.
9. Lagt fram bréf sviðsstjóra leikskólasviðs frá 27. f.m., sbr. samþykkt leikskólaráðs 17. mars sl. og 21. f.m., varðandi drög að samningum við sjálfstætt starfandi leikskóla í Reykjavík. Samþykkt með 6 atkvæðum gegn 1. R09040113
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vísa til bókana fulltrúa sinna í leikskólaráði 17. mars sl.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna sér ekki ástæðu til stofnunar sérstakra ungbarnaleikskóla og enn síður að þeim sé ætlað að vera einkareknir. Leikskólar borgarinnar eru vel í stakk búnir til að taka á móti yngri börnum, húsnæðið er hannað með þarfir þeirra í huga og menntun leikskólakennara er einnig miðuð að yngstu börnunum. Að sama skapi er með öllu óásættanlegt að einkaskólum sé heimilt að rukka hærri skólagjöld en borgarreknum, en í samningunum er gert ráð fyrir að gjaldskrá ungbarnaleikskóla geti verið allt að 115#PR hærri en borgarrekinna og að gjaldskrá einkarekinna leikskóla fyrir eldri börn megi vera allt að 15#PR hærri en hinna borgarreknu. Þetta hlýtur að leiða af sér mismunun barna eftir efnahag foreldra sem getur ekki verið réttlætanlegt undir neinum kringumstæðum.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það vekur athygli að fulltrúi VG í leikskólaráði situr hjá en fulltrúi VG í borgarráði greiðir atkvæði gegn samningunum, sérstaklega þar sem ljóst er að VG hefur á fyrri kjörtímabilum samþykkt sambærilega samninga. Ungbarnaleikskólar hafa verið starfræktir í borginni í tugi ára af sjálfstætt starfandi rekstraraðilum, m.a. leikskólinn Lundur og leikskólar Félagsstofnunar stúdenta. Þeir hafa núna fengið skilgreiningu skv. samningi en áður var óljóst hvaða samningum þeir tilheyrðu. Þetta er valkostur sem margir foreldrar velja sér eftir að fæðingarorlofi sleppir og mikilvægt að hann sé skilgreindur til að tryggja jafnan rétt milli rekstraraðila og fyrir foreldra og börn. Áfram er stefnt að því að bjóða yngri börnum vistun á leikskólum borgarinnar. Í sumum hverfum eru mjög ung börn, um eins árs gömul, að komast inn á leikskóla borgarinnar og er það vel. Gjaldskrá ungbarnaleikskólanna er byggð á þeirri forsendu að um sé að ræða valkost við þjónustu dagforeldra enda er ekki greitt með börnum nema að þriggja ára aldri og verð þjónustunnar þannig sambærilegt.
10. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs vegna ársins 2010, dags. í dag. R09110055
Samþykkt að veita styrki sem hér segir:
Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs, 1,5 m.kr. til uppgræðslu o.fl.
Með oddi og egg ehf., 350 þ.kr. til útgáfu hverfisblaðs Laugardals, Háaleitis og Bústaða.
11. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 28. f.m., sbr. samþykkt velferðarráðs s.d., um breytingar á 20. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. R09010048
Samþykkt.
12. Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningar- og ferðamálasviðs frá 27. f.m., sbr. samþykkt menningar- og ferðamálaráðs 26. s.m., um breytingar á reglum um borgarlistamann.
Samþykkt. R10040117
13. Lögð fram beiðni Kristjáns Sig. Kristjánssonar frá 13. f.m. um að verða ekki tekinn á kjörskrá. Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 19. s.m. þar sem lagt er til að beiðninni verði hafnað. R10010083
Beiðninni er synjað með vísan til umsagnar skrifstofustjóra borgarstjórnar.
14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 3. þ.m. um skipan hverfiskjörstjórna og undirkjörstjórna við borgarstjórnarkosningar 29. maí nk. R10010083
Samþykkt.
15. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 3. þ.m. um fjölda kjörstaða og kjördeilda við borgarstjórnarkosningar 29. maí nk. R10010083
Samþykkt.
16. Lagt fram bréf mannréttindastjóra frá 26. f.m. varðandi fyrirkomulag þjónustu við innflytjendur til næstu áramóta. Jafnframt lagt fram minnisblað innkaupaskrifstofu frá 3. þ.m. R09070058
Tillögu borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna er vísað til mannréttindaráðs til umsagnar. Málinu er að öðru leyti frestað.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykir að fela þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða, sem er þekkingarstöð í fjölmenningu, rekstur ráðgjafarhluta Alþjóðahúss frá 1. júlí til 31. desember 2010.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Sú krafa er ítrekuð að Reykjavíkurborg yfirtaki rekstur Alþjóðahúss. Reksturinn hefur ekki verið nægilega þjónustumiðaður heldur fyrst og fremst arðgreiðslumiðaður hjá ehf. fyrirtæki sem ekki setur þjónustu við borgarbúa í öndvegi.
17. Lagður fram ársreikningur Strætó bs. fyrir árið 2009. R09030130
- Kl. 10.30 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum og Oddný Sturludóttir víkur af fundi.
18. Lagður fram ársreikningur Sorpu bs. fyrir árið 2009. R10030073
19. Lagt fram bréf bæjarstjóra Sveitarfélagsins Álftaness frá 20. f.m., sbr. samþykkt bæjarstjórnar sveitarfélagsins 30. mars sl., varðandi ósk um viðræður um vilja og mögulega hagræðingu af sameiningu sveitarfélagsins og Reykjavíkurborgar. R10040093
Borgarráð hefur móttekið erindi bæjarstjórnar Álftaness um viðræður vegna ,,mögulegrar hagræðingar af sameiningu” sveitafélaganna. Borgarráð þakkar bæjarstjóranum góðan fund og felur borgarstóra að setja málið í þann farveg að ný borgarstjórn geti tekið afstöðu til þess að loknum borgarstjórnarkosningum.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Um langt árabil hef ég beitt mér fyrir sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og m.a. flutt tillögu fyrr á þessu ári um sameiningarviðræður milli sveitarfélaganna Álftaness og Reykavíkur. Augljósir almannahagsmunir felast í þessu fyrir bæði sveitarfélögin. Ég hvet því eindregið til þess að nú þegar verði gengið til verks með markvissum hætti að sameina sveitarfélögin Álftanes og Reykjavík. Ástæða er til að þakka það frumkvæði sem íbúar Álftaness sýna með ósk sinni um sameiningarviðræður. Í því felst mikil framsýni og velvilji í garð komandi kynslóða á höfuðborgarsvæðinu.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Samfylkingin vill markvissari og nánari samvinnu og sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt verði sjálfstæði hverfa í ákvörðunum, þjónustu og rekstri aukið. Umræða um sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á því öðrum þræði að snúast um eflingu íbúalýðræðis og aðkomu íbúa að umræðu um sammeiginleg hagsmunamál íbúa alls svæðisins. Samfylkingin telur að Reykjavík eigi þess vegna að vera opin fyrir viðræðum við Álftanes og önnur sveitarfélög um sameiningu og aukna samvinnu, með eðlilegum fyrirvörum um niðurstöðu slíkra viðræðna. Það er raunar eindregin skoðun Samfylkingarinnar að nauðsynlegt sé að Reykjavík taki forystu í umræðum um nánari samvinnu og sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Stefnt verði að því að styrkja og einfalda stjórn á sameiginlegum verkefnum á sviði skipulagsmála, samgöngu- og umhverfismála og sameiginlegra verkefna byggðasamlaga. Sérstaklega þarf að tryggja að staða svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins verði styrkt og jafnframt unnið nýtt svæðisskipulag fyrir stór-höfuðborgarsvæðið sem nái frá Reykjanesi í vestri, Árborgarsvæðinu í austri og Borgarnesi í norðri. Jafnframt verði sett fram sameiginleg sýn á umhverfis-, atvinnu- og húsnæðismál á öllu svæðinu.
20. Lagður fram ársreikningur Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árið 2009. R10040038
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Fjármálaskrifstofa og innri endurskoðun Reykjavíkur hafa ár eftir ár vakið athygli borgarfulltrúa á því að fyrirtæki borgarinnar hafi stöðugt verið að fjarlægjast eigendur sína. Þetta þýðir að eftirlit og eftirfylgni borgaryfirvalda hefur stöðugt verið að minnka á sama tíma og skuldir fyrirtækjanna og þá sérstaklega OR hafa aukist. Þessar aðvaranir hefur meirihlutinn í Reykjavík kosið að hundsa og m.a. vísaði meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá tillögu borgarráðsfulltrúa VG sem lögð var fram í ágúst sl. um gerð áhættumats á OR. Það var síðan ekki fyrr en um áramót að upplýst var að fjármálaskrifstofa borgarinnar væri að vinna áhættumat vegna OR og upplýst um leið að til að standast áhættu vegna fyrirtækisins þyrfti borgarsjóður að eiga 8–12 milljarða í handbæru fé vegna ársins 2010. Eftir á að svara því hver áhætta borgarinnar er vegna áranna 2011–2013 og hvernig á að bregðast við. Það vekur athygli að í endurskoðunarskýrslu KPMG kemur fram að í miðju bankahruni á árinu 2008 var framkvæmt sérstakt endurmat á eignum OR sem jók eigið fé fyrirtækisins um rúma 40 milljarða. Upphæð sem nemur nánast öllu eigin fé fyrirtækisins í árslok 2009. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að stjórnendur bankanna hafi hækkað bókfærðar eignir, þannig að staðan sem sýnd var í bókhaldinu hafi ekki verið raunveruleg. Þar koma m.a. við sögu endurskoðendur OR, KPMG.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Það vekur furðu að meirihlutinn bregðist ekki við stöðu Orkuveitunnar og fjölmörgum ábendingum fjármálaskrifstofu með ársreikningi fyrirtækisins. Þar birtist mynd sem verið er að leyna sjónum borgarbúa í umræðunni. Minnt er á að meðal þeirra helstu eru:
1. Gera þarf áætlun um gjaldskrárhækkanir til næstu ára.
2. Til að standa við mögulega lausafjárþörf (greiðsluerfiðleika) Orkuveitu Reykjavíkur þarf Reykjavíkurborg að hafa aðgengi að 8-12 milljörðum króna í handbæru fé.
3. Lögð er áhersla á að kanna aðgengi að lánalínum í erlendum gjaldmiðlum til að geta mætt óvæntum erfiðleikum og til að auka traust og trúverðugleika gagnvart erlendum fjárfestum og lánardrottnum fyrirtækisins.
4. Stjórn OR er bent á að skoða hvort unnt sé að fresta fjárfestingum sem ekki leiða beinlínis til aukins greiðsluhæfis gagnvart erlendum skuldum til að draga úr fjármögnunarþörf 2010-2013.
5. OR stendur frammi fyrir mikilli endurfjármögnunarþörf 2010-2013 eða alls 78 milljarða króna miðað við fyrirliggjandi áætlanir.
6. Bent er á verkefnafjármögnun sem mögulegan valkost við fjármögnun nýframkvæmda á næstu árum.
Viðbrögðum við þessum þungvægu ábendingum og nauðsynlegum ákvörðunum ætlar meirihlutinn að vísa fram yfir kosningar. Það er ekki ábyrgt.
Borgarfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Gagnrýni minnihlutans er vísað á bug enda er skýrsla fjármálaskrifstofu lögð fram af borgarstjóra og í henni kemur ekki fram nein gagnrýni á borgarstjóra eða meirihlutann – heldur þvert á móti er þar lýst hvað hefur verið gert og að hverju þarf að huga í rekstri borgarinnar. Skýrsla fjármálaskrifstofu með ársreikningnum er hluti af vandaðri fjármálastjórn borgarinnar og því fullkomin öfugmæli að halda því fram að verið sé að leyna einhverju fyrir borgarbúum. Öðru nær liggja allar upplýsingar fyrir og borgin hefur, eins og ytri endurskoðendur benda á, staðið þessa vakt afar vel með hliðsjón af hagsmunum borgarbúa. Þannig fól borgarstjóri fjármálastjóra að gera áhættumat og það hefur lengi legið fyrir að það er hlutverk fjármálaskrifstofa að vakta áhættur í rekstri og rekstrarumhverfi A-hluta borgarsjóðs og samstæðunnar. Fjármálaskrifstofu hefur að ósk borgarstjóra verið í samráði við ytri endurskoðendur borgarinnar um greiningu á helstu áhættuþáttunum í rekstri og rekstrarumhverfi A-hluta borgarsjóðs og samstæðunnar. Fjármálaskrifstofa hefur síðan unnið að því að þróa matstæki til að meta fjárhagslegt umfang áhættunnar og líkurnar á því að á hana reyni. Fjármálaskrifstofa hefur einnig að ósk borgarstjóra verið að vinna tillögur til að leggja fyrir borgarráð um viðbrögð á grundvelli áhættumatsins. Það hefur ítrekað komið fram hjá fjármálastjóra að hann muni gera borgarstjóra og borgarráði grein fyrir því ef framundan eru miklar áhættur sem bregðast verði við fljótt. Fjármálastjóri hefur jafnframt sagt að greint verði frá helstu áhættum í rekstri og rekstrarumhverfi borgarinnar í skýrslum með ársreikningi og árshlutareikningum. Það er það sem birtist nú í skýrslu fjármálaskrifstofu. Hvað varðar gjaldskrárhækkanir þá liggur sú stefnumörkun fyrir að ekki eigi að hækka gjaldskrár á þessu ári en gjaldskrár OR hafa nú ekki fylgt verðlagshækkunum í tvö ár og er það í samræmi við einróma samþykkta aðgerðaáætlun borgarstjórnar.
21. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um ráðningar í sumarstörf, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. f.m. R10030028
22. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um framkvæmdir fyrir íþróttafélög í Reykjavík, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. f.m. R10020073
23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Lagt er til að skipuð verði nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem hafi það verkefni að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og leggja fram tillögur að þeim breytingum sem hún telur þörf á. Nefndin fái aðgang að skjalasafni Reykjavíkurborgar og fyrirtækja hennar og sé jafnframt heimilt að kalla fyrir sig aðila í stjórnkerfi borgarinnar. Þá leiti hún upplýsinga hjá aðilum utan stjórnkerfisins eftir þörfum. Nefndin skal leggja fram starfsáætlun fyrir 1. júní 2010, þar sem fram komi m.a. umfang og áherslur í starfinu, auk áætlaðs kostnaðar. Lokaskýrsla nefndarinnar liggi svo fyrir eigi síðar en 31. desember 2010. Kjaranefnd skal ákvarða laun og önnur starfskjör nefndarmanna.
Greinargerð fylgir tillögunni. R10040061
Samþykkt.
24. Lagður fram dómur Hæstaréttar frá 29. f.m. í máli nr. 526/2009, Dagmar Sif Ásgeirsdóttir gegn Reykjavíkurborg. R08110075
25. Lögð fram drög að samningi Reykjavíkurborgar og Bandalags íslenskra listamanna um samvinnu á sviði menningarmála ásamt bréfi borgarstjóra, dags. 3. þ.m. R08030118
Borgarráð staðfestir samninginn fyrir sitt leyti.
26. Lagt fram bréf mannauðsstjóra frá 4. þ.m. varðandi bótauppgjör vegna fyrrverandi starfsmanns. R08020130
Samþykkt.
27. Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg gangi til samstarfs við forsætisráðuneytið um viðburði tengda því að 17. júní 2011 verða 200 ár liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar. Verkefninu er ætlað að vekja athygli á sterkum tengslum Jóns við Reykjavík, sbr. hjálagða tillögu að samkomulagi. Menningar- og ferðamálasviði verði falin umsjón með aðkomu Reykjavíkurborgar og veitt verði 5 m.kr. til að standa straum af kostnaði sem fellur til árið 2011 vegna liða 1 og 3 í meðfylgjandi tillögu að samkomulagi milli forsætisráðuneytis og Reykjavíkurborgar. R08070019
Samþykkt og vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.
28. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 30. f.m., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs s.d., um leik- og íþróttaaðstöðu barna og ungmenna í Úlfarsárdal. R10050006
Samþykkt.
29. Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi tillögu:
Í samræmi við markmið Reykjavíkurborgar og starfsáætlun leikskólasviðs felur borgarráð leikskólasviði að tryggja öllum börnum sem verða tveggja ára á þessu ári leikskólapláss í haust. Borgarhagfræðingur hefur endurskoðað spá um fjölda reykvískra barna 0-6 ára á árinu 2010. Nú stefnir í að fjöldi þeirra verði meiri en forsendur fjárhagsáætlunar gera ráð fyrir. Viðbótarfjárþörf vegna þessa liggur enn ekki fyrir en leikskólasviði er falið í samráði við fjármálaskrifstofu að undirbúa tillögu til borgarráðs um nauðsynlega aukafjárveitingu. R10010158
Samþykkt.
30. Lagðar fram tillögur ráðgjafahóps um úthlutun úr forvarna- og framfarasjóði Reykjavíkurborgar, dags. 5. þ.m., ásamt bréfi borgarstjóra, dags. í dag. R10030002
Samþykkt.
31. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Í ljósi fjölmiðlaumræðu er lagt til að íbúar miðborgar verði boðaðir á fund með stýrihópi vegna reglna um staðsetningu og afgreiðslutíma vínveitingastaða. Fundurinn verði í samráði við hverfisráð og íbúasamtök svæðisins í Ráðhúsi Reykjavíkur eigi síðar en 20. maí næstkomandi. R08050023
Samþykkt.
Fundi slitið kl. 14.15
Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Gísli Marteinn Baldursson Kjartan Magnússon
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson