No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2010, fimmtudaginn 18. mars, var haldinn 5109. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram afgreiðslufundargerð byggingarfulltrúa frá 16. mars. R10010027
Samþykkt.
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 9. mars. R10010013
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 9. mars. R10010014
4. Lögð fram fundargerð stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 5. mars. R10010032
5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R10030005
6. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 10. s.m., þar sem lagt er til að eigendum fasteignarinnar að Baldursgötu 32 verði gefinn 30 daga frestur til þess að rífa húsið og undirstöður þess og hreinsa lóðina, að viðlögðum dagsektum. R08110055
Samþykkt.
7. Lagðar fram skýrslur byggingarfulltrúa um byggingarframkvæmdir í Reykjavík árin 2008 og 2009, dags. í janúar og mars 2010. R10030069
8. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 17. þ.m., við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um lóðaskil, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. f.m. R09040060
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir lista yfir þær lóðir sem eru á bak við hvern lið í svarinu og samantekt um fjölda í hverjum flokki.
9. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 11. þ.m., við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um áhættugreiningu á stöðu Orkuveitu Reykjavíkur o.fl., sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. f.m. R09120028
10. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 16. þ.m., við fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar um lántökur Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. þ.m. R10020076
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Þakkað er fyrir svörin við fyrirspurn minni um atkvæðagreiðslur í tengslum við lántökur Orkuveitu Reykjavíkur. Ég vil minna á að Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum 16. desember árið 2008 skuldabréfaútboð Orkuveitu Reykjavíkur með 14 samhljóða atkvæðum fjórflokksins. Þessa er ekki getið í svarinu.
11. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 17. þ.m., við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um stöðu vanskila og innheimtuaðferðir, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. þ.m. R10030062
Bókun borgarráðs:
Borgarráð þakkar fjármálastjóra Reykjavíkurborgar fyrir fróðlega samantekt á innheimtuaðferðum Reykjavíkurborgar og stöðu vanskila við borgina. Samantektin sýnir fram á að fagleg vinnubrögð hafa skilað sér í sífellt minnkandi vanskilum síðustu ár. Eins og samantektin sýnir fram á þarf að jafnaði aðeins að grípa til innheimtuaðgerða í 5-7#PR tilvika. Áfram verði leitað leiða til að mæta vanda þeirra sem eru í vanskilum vegna alvarlegs greiðsluvanda, bæði af hálfu ÍTR, mennta-, leikskóla- og velferðarsviðs.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Um leið og minnt er á ítrekaðar tillögur borgarfulltrúa VG um gjaldfrjálsar skólamáltíðir áréttar borgarráðsfulltrúi VG að tryggt verði að börn fái skólamáltíðir án tillits til þess hvort foreldrar þeirra geti staðið í skilum.
12. Lagður fram ársreikningur Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2009, ásamt greinargerðum hafnarstjóra, dags. 25. og 26. f.m., og umsögn fjármálastjóra, dags. 3. þ.m. R10010055
13. Lögð fram að nýju drög að samningi Reykjavíkurborgar og Knatthallarinnar ehf. um afnot af Egilshöll, dags. í febrúar 2010, ásamt bréfi framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 9. þ.m., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs s.d., umsögn fjármálastjóra, dags. s.d., og bréfi borgarstjóra, dags. s.d. Jafnframt lagt fram minnisblað fjármálastjóra, dags. 17. þ.m. R08050109
Borgarráð samþykkir samningsdrögin fyrir sitt leyti með 6 samhljóða atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fagna samþykkt borgarráðs um að gengið verði til samninga um aukin afnot af Egilshöll fyrir Ungmennafélagið Fjölni og önnur íþróttafélög borgarinnar, sem og aðstöðu fyrir frístundastarf í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Samningurinn tryggir áframhaldandi öfluga íþróttastarfsemi í höllinni á vegum Reykjavíkurborgar og aukinn aðgang fyrir barna- og unglingastarf íþróttafélaga, m.a. knattspyrnuæfingar, skautaiðkun, fimleika, frjálsar íþróttir, bardagaíþróttir o.fl. Þá felur samningurinn í sér afnot af gervigrasvelli, battavöllum og tennisvöllum við Egilshöll. Fjölni er þannig tryggð framtíðaraðstaða í og við Egilshöll en þess í stað hefur félagið fallið frá fyrri áformum um uppbyggingu kostnaðarsamra íþróttamannvirkja í hverfinu. Þá hefur frístundaheimili fyrir fötluð börn og ungmenni úr Grafarvogi og nærliggjandi hverfum verið flutt í glæsilegt húsnæði í Egilshöll.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Samfylkingin styður samning um frekari leigu á Egilshöll fyrir börn og unglinga en hefði stutt mun ýtarlegri skoðun á kostum þess að Reykjavíkurborg keypti eignina til rekstrar út úr þrotabúinu í stað þess að gera nýjan langtímaleigusamning. Sá fyrirvari kom fram í bókunum Samfylkingarinnar á fyrstu stigum málsins. Þá vekur sérstaka athygli að helstu rök meirihlutans fyrir nýjum samningi um Egilshöll séu að komast undan samningi borgarinnar og íþróttafélagsins Fjölnis sem sami meirihluti gerði á árinu 2007. Þessi samningur er nú sagður hafa falið í sér skuldbindingar fyrir Reykjavíkurborg fyrir allt að 3 milljörðum króna og 400 milljóna króna rekstur árlega, ef hann hefði orðið að veruleika. Undir hann skrifaði borgarstjóri Sjálfstæðisflokksins ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þáverandi formanni Fjölnis, sem jafnframt var stjórnarformaður Orkuveitunnar og frambjóðandi til þingkosninga. Sjálfsagt var ekki tilviljun að undir þann samning var skrifað örfáum dögum fyrir alþingiskosningar vorið 2007. Minna en þriðjungur af þessum fjárskuldbindingum var hins vegar kynntur borgarráði þegar samningurinn var lagður fyrir vorið 2007 eða 950 milljónir. Virðist því hafa verið um að ræða gamaldags kosningavíxil sem nú hefur verið afturkallaður.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna telur ekki ráðlegt að ganga til samninga vegna Egilshallar á þeim forsendum sem hér hafa verið settar fram. Starfsemin í húsnæðinu er allra góðra gjalda verð, brýnt er að áfram verði aðstaða til frístundastarfs á vegum borgarinnar og Fjölnis, en samningur til svo langs tíma getur vart talist réttlætanlegur við þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Í apríl 2006, rétt fyrir kosningar, undirritaði þáverandi borgarstjóri samning Reykjavíkurborgar við Fjölni að upphæð 350 m.kr. vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja. Það var öllum ljóst að miðað við efnisinnihald samkomulagsins þyrfti verulega aukna fjármuni til þeirra uppbygginga sem fjallað var um í þeim samningi. Sá samningur sem minnst er á í bókun Samfylkingar hljóðaði upp á 950 m.kr. og tók í meginatriðum mið af fyrra samkomulagi.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Meirihlutinn kemst ekki framhjá því að „kosninga-samningurinn“ frá 2007 gerði ráð fyrir gríðarlegum fjárskuldbindingum sem nú er verið að koma borginni undan með ærnum tilkostnaði, eða svo vitnað sé beint í umsögn fjármálaskrifstofu um að markmið núverandi samnings hafi verið „að falla frá eldri samningum um uppbyggingu á næstu misserum á íþróttamiðstöð og aðstöðu fyrir félagsstarf fyrir 2,5-3,0 milljarða og þar af leiddan árlegan kostnaðarauka borgarinnar vegna rekstrar og leigu að fjárhæð 400 m.kr.“
14. Lögð fram að nýju drög að samningi við Grjótháls ehf. um leigu á húsnæði við Norðlingabraut 12, dags. í mars 2010, ásamt bréfi framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 9. þ.m., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs s.d., og umsögn fjármálastjóra, dags. s.d. R09050124
Borgarráð samþykkir drög að leigusamningi um MEST-húsið með 6 samhljóða atkvæðum með þeim fyrirvara að kveðið verði á um í samningnum að Reykjavíkurborg geti sagt honum upp eftir 5 ára leigutíma. Endanlegur samningur verði lagður fyrir borgarráð.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fagna samþykkt borgarráðs um að gengið verði til samninga um afnot af húsnæði á Norðlingaholti, vegna aðstöðu fyrir fimleika og aðrar inniíþróttir í þágu barna- og unglingastarfs í austurhluta borgarinnar. Í húsnæðinu verður einnig bætt úr skorti á húsnæði fyrir frístunda- og félagsstarf fyrir börn og unglinga í Norðlingaholti.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Því er fagnað að bætt verði úr íþrótta- og tómstundaaðstöðu barna og ungmenna í Norðlingaholti og Árbæjarhverfi. Í því hefur hingað til ekkert hreyfst á kjörtímabilinu þrátt fyrir samninga við Fylki og fjármagn á þriggja ára áætlunum Reykjavíkurborgar. MEST-húsinu var í upphafi ætlað að brúa bil í aðstöðuleysi fimleika í austurhluta borgarinnar en framtíðarsýn Fylkis hafði falist í því að byggja upp alla starfsemi félagsins á félagssvæðinu í Lautinni. Þá má minna á að nú er að rísa íþróttahús og félagsaðstaða í Norðlingaskóla. Þess vegna er mikilvægt að borgarráð hafi samþykkt að hægt verði að segja leigusamningnum um MEST-húsið upp að 5 árum liðnum. Þannig er tryggt að öðrum framtíðarmöguleikum sé ekki ýtt út af borðinu til 25 ára.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna hefur mikla samúð með þeirri starfsemi sem hér um ræðir, telur brýnt að áfram verði börnum og ungmennum gert kleift að iðka sem flestar íþróttagreinar og að starfsemi frístundaheimila og félagsmiðstöðva sé við sómasamlegar aðstæður. Vinstri græn hafa því lagt til að aukinn kraftur verði settur í framkvæmdir við Norðlingaskóla þannig að börn og unglingar þar fái sómasamlega aðstöðu til framtíðar. Rekstri borgarinnar er þröngur stakkur sniðinn um þessar mundir. Ekki er útséð um að hagræðingarkrafa á menntasvið geri grunnskólum borgarinnar kleift að veita lögbundna grunnþjónustu, grunnupphæð fjárhagsaðstoðar á velferðarsviði hefur ekki fylgt hækkun lægstu launa og svona mætti lengi telja. Við slíkar aðstæður verður því miður eitthvað undan að láta.
15. Lögð fram að nýju drög að nýjum samningi milli Reykjavíkurborgar og Golfklúbbs Reykjavíkur um stækkun golfvallarins á Korpúlfsstöðum ásamt bréfi framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 9. þ.m., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs s.d., auk umsagnar fjármálastjóra, dags. s.d. R09030061
Borgarráð samþykkir samningsdrögin með 4 atkvæðum gegn 3.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Hjá GR er unnið öflugt starf í þágu barna, unglinga og eldri borgara auk þess sem tugþúsundir einstaklinga á öllum aldri nýta sér aðstöðu GR árlega. Með nýjum samningi við GR er Reykjavíkurborg að efna samning um stækkun golfvallarins á Korpúlfsstöðum, sem undirritaður var 3. apríl 2006 af Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, þáverandi borgarstjóra R-listans. Með samningnum er jafnframt fallið frá fyrri ákvörðunum og skuldbindingum frá árinu 2007. Fallið er frá 450 m.kr. framkvæmdum og ekki gert ráð fyrir neinum framkvæmdum nema við stækkun Korpúlfsstaðavallar. Jafnframt skilar GR Reykjavíkurborg verðmætu landi til baka, til ráðstöfunar í framtíðinni, í Staðarhverfi. Með nýjum samningi mun GR þannig fá 230 m.kr. á 4 árum í stað 450 m.kr. á 5 árum eins og fyrri samningar gerðu ráð fyrir. Samningurinn er því mjög til hagsbóta fyrir Reykjavíkurborg og dregur verulega úr skuldbindingum hennar en jafnframt er samkomulag frá árinu 2006 efnt. Eins og kemur fram í umsögn fjármálastjóra rúmast umrædd tillaga innan fjárhagsáætlunar. Það er sérkennilegt að fulltrúar VG og Samfylkingarinnar greiði nú atkvæði gegn fullnustu samnings frá árinu 2006 sem þeir höfðu forgöngu um á sínum tíma.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Í tillögu borgarstjóra felst að leggja fram 230 milljónir króna úr borgarsjóði í nýjan golfvöll. Það getur Samfylkingin ekki stutt á sama tíma og laun og þjónusta hafa verið skert og þrengt mjög að mikilvægri starfsemi í allri borginni. Samningar við íþróttafélög hafa þar ekki verið undanskildir og mörg brýn verkefni sem verða að bíða. Golf er góð íþrótt sem margir hafa áhuga á en það er ekki hægt að ætlast til þess að borgarbúar, foreldrar, starfsfólk og önnur íþróttafélög sætti sig við erfiðan sparnað og áframhaldandi aðhald þegar borgarstjóri snarar fram 230 milljónum í golfvöll.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Þau mál sem hér hafa verið til umræðu á fundinum varða útgjöld á þessu ári upp á 115 milljónir króna umfram það sem samþykkt var í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir árið 2010. Þá er rétt að benda á að borgarfulltrúar Vinstri grænna lögðu fram breytingartillögu milli umræðna um fjárhagsáætlunina sem varðaði sömu upphæð og sneri að bættri þjónustu á vegum borgarinnar í þágu barna og ungmenna. Meðal annars var þar lagt til að starf fyrir börn í 5.-7. bekk yrði eflt um alla borg, að fjöldi barna á hvern starfsmann í frístundaheimilum héldist óbreyttur og að atvinnumál ungs fólks yrðu efld. Þessum tillögum var hafnað af meirihluta borgarstjórnar sem nú kýs að verja sambærilegri upphæð í mannvirki og stækkun golfvallar.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Ekki er rétt að ekki hafi verið gert ráð fyrir fjármunum til þessara samninga í fjárhagsáætlun. Það var gert undir liðnum ófyrirséð, þar sem samningar voru í vinnslu og ekki tímabært á þeim tíma að samþykkja þá í fjárhagsáætlun.
16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að veita allt að 120 m.kr. aukafjárveitingu til sérstaks hreinsunarátaks í miðborginni og hverfum borgarinnar. Borgarstjóra, ásamt sviðsstjórum, er falið að útfæra með hvaða hætti hreinsunarátakinu verði háttað og fjármagni ráðstafað og leggja síðan fyrir borgarráð. Markmiðið skal vera að veita sem flestum tímabundna atvinnu vegna átaksins og fjölga sumarstarfsfólki. Fjárveitingin verður færð af liðnum 09205, ófyrirséð. R10030077
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Með samþykkt tillögunnar staðfestir meirihlutinn réttmæti gagnrýni Samfylkingarinnar á 60#PR niðurskurð á framlögum gegn veggjakroti, stórfelldan niðurskurð á sumarstörfum og öðrum framlögum til hreinsunar borgarinnar sem, líkt og víða, sér því miður stað í borginni. Mikilvægt er að lagðar verði fram útfærðar tillögur um hvernig þeim verkefnum sem fyrir liggja á þessu sviði verði sinnt.
17. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. þ.m.:
Í ljósi fram kominna óska íbúa og umræðu á Hugmyndaþingi um áherslu á hverfi borgarinnar, sérkenni þeirra og stöðu, samþykkir borgarráð að auka þjónustu og upplýsingagjöf við íbúa í einstökum hverfum. Það verður gert með því að opna sérstaka hverfavefi í tengslum við hverfavefi þjónustumiðstöðvanna. Hverfavefirnir munu hafa að geyma upplýsingar um þjónustu, nýlegar og fyrirhugaðar framkvæmdir í hverfunum, framgang lýðræðisverkefnisins Kjóstu verkefni í þínu hverfi, aðgengi að hverfisráðum og þjónustuaðilum Reykjavíkurborgar í hverfunum og sérstaka ábendingagátt. Til verkefnisins verði varið allt að 4 m.kr. af fjárhagsramma skrifstofu borgarstjóra. R09090017
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Það er ánægjuefni að endurvaktar verði hverfasíður á vef Reykjavíkurborgar. Þær voru virkar og töluvert notaðar á síðasta kjörtímabili en hafa legið undir skemmdum á þessu. Öflugar síður fyrir hvert hverfi eru í anda stefnu Samfylkingarinnar um heilsteypta og góða hverfaþjónustu þótt ástæða sé til að benda á að þær koma ekki í stað hverfafunda borgarstjóra sem synd væri að leggja af.
18. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. 16. þ.m., við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um þriggja ára áætlun, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. þ.m. R10010062
19. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 10. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs s.d., varðandi 12 m.kr. fjárveitingu til sviðsins vegna undirbúnings á yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Jafnframt lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags 12. s.m.:
Borgarráð samþykkir 12 m.kr. fjárveitingu til velferðarsviðs vegna yfirfærslu málaflokks fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga, sbr. meðfylgjandi tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs sem samþykkt var á fundi velferðarráðs þann 10. mars sl. Fjárhæðinni verður varið til ráðningar verkefnisstjóra til undirbúnings yfirfærslunnar. Fjárveitingin verði færð af liðnum 09205, ófyrirséð. Ríkið hefur lýst því yfir að kostnaði sveitarfélaga við undirbúning yfirfærslunnar verði mætt með svokölluðu „breytingarfé“ en ekki hefur verið gengið formlega frá því hvernig staðið verði að úthlutun þess kostnaðar til sveitarfélaga. R09030071
Samþykkt.
20. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 12. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að skipa stýrihóp kjörinna fulltrúa til að fara með yfirumsjón með yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til Reykjavíkurborgar. Hópnum verði falið að greina áhrif yfirfærslunnar á skipulag og þjónustu borgarinnar og vinna að nauðsynlegri stefnumótun vegna breytinganna. Hópinn skipi fimm fulltrúar, þrír frá meirihluta og tveir frá minnihluta. Starfsmaður hópsins verður verkefnisstjóri á velferðarsviði. Jafnframt mun sviðsstjóri velferðarsviðs starfa með hópnum eftir þörfum til að tryggja upplýsingaflæði á milli verkefnastjórnar ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem vinnur að undirbúningi yfirfærslunnar og stýrihópsins. Stýrihópurinn mun ennfremur kalla til embættismenn og sérfræðinga víða að úr borgarkerfinu eftir því sem þurfa þykir. Stýrihópurinn tekur til starfa eigi síðar en 20. mars næstkomandi.
Greinargerð fylgir tillögunni. R09030071
Samþykkt.
Í stýrihópinn eru skipuð Jórunn Frímannsdóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Valgerður Sveinsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson.
- Kl. 12.35 víkur borgarstjóri af fundi.
21. Lagt fram bréf ritara framkvæmda- og eignaráðs frá 9. þ.m., sbr. samþykkt ráðsins frá 8. s.m., varðandi útboð byggingarréttar á lóðum í grónum hverfum og útboðsskilmála. R10030055
Frestað.
22. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs vegna ársins 2010, dags. í dag. R09110055
23. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R10030001
24. Kynnt er rekstraryfirlit janúarmánaðar. R10020043
25. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð felur fulltrúa sínum í stjórn Veiðifélags Elliðavatns að beita sér fyrir því að veiðitíma í vatninu verði breytt þannig að hann hefjist 1. apríl í stað 1. maí nú í ár og framvegis.
Greinargerð fylgir tillögunni. R09090102
Samþykkt.
26. Samþykkt borgarráðs:
Í tilefni af 20 ára afmæli Stígamóta samþykkir borgarráð að styrkja þessi mikilvægu samtök, sem hafa staðið að ráðgjöf og forvörnum fyrir þolendur kynferðisofbeldis, að upphæð 2 m.kr. Fjárhæðin verði tekin af liðnum ófyrirséð. R10030012
27. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarráðsfulltrúi VG leggur til að sá kostur verði skoðaður að borgarbúum verði gert kleift að veiða í Elliðavatni sér að kostnaðarlausu. R09090102
Vísað til umhverfis- og samgönguráðs.
Fundi slitið kl. 13.40
Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Gísli Marteinn Baldursson Kjartan Magnússon
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson