Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2010, fimmtudaginn 4. mars, var haldinn 5105. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Óskar Bergsson, Björk Vilhelmsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Sóley Tómasdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 16. febrúar. R10010007
2. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R10030005
3. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 24. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar nr. 20 við Breiðagerði. R10020097
Samþykkt.
4. Lagt fram bréf ritara framkvæmda- og eignaráðs frá 24. f.m., sbr. samþykkt ráðsins frá 22. s.m., um sölu byggingarréttar fyrir einbýlishús á lóð nr. 100 við Haukdælabraut. R10020093
Samþykkt.
5. Lagt fram bréf ritara framkvæmda- og eignaráðs frá 24. f.m., sbr. samþykkt ráðsins 22. s.m., um breytingar á samþykkt um gatnagerðagjald í Reykjavíkurborg nr. 725/2007. R10020095
Samþykkt.
6. Lagt fram að nýju bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs og fræðslustjóra frá 17. desember sl. varðandi tillögur um rekstur frístundaheimila, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar sl. Jafnframt lagðar fram bókanir íþrótta- og tómstundaráðs frá 12. f.m., sbr. bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. s.d., og menntaráðs frá 10. s.m., sbr. bréf fræðslustjóra, dags. 12. s.m. Þá er lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. s.m.:
Lagt er til að borgarráð samþykki tillögur fræðslustjóra og framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs um rekstur frístundaheimila, með vísan í samþykkt menntaráðs frá 10. febrúar sl. og íþrótta- og tómstundaráðs frá 12. febrúar sl. Borgarstjóra verði falið að útfæra einstaka þætti tillögunnar og leggja fyrir borgarráð til staðfestingar. R09060117
Tillaga borgarstjóra samþykkt.
- Kl. 9.50 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum.
7. Kynnt er vinna við framtíðarsýn Sorpu bs. R10020038
8. Lögð fram að nýju heildarstefna Orkuveitu Reykjavíkur, sem samþykkt var á fundi stjórnar fyrirtækisins 30. desember sl., sbr. bréf stjórnarformanns og forstjóra, dags. 31. s.m. R10010054
Vísað til starfshóps eigenda Orkuveitunnar.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Þakkað er fyrir þann grunn sem lagður hefur verið að stefnumörkun fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Samfylkingin er eindregið þeirrar skoðunar að heildarstefna Orkuveitu Reykjavíkur þurfi að koma til kasta borgarstjórnar, sem fulltrúa eigenda. Áður en hægt er taka afstöðu til hennar þarf að draga fram fjárhagslega þætti og áhrif arðsemiskröfu á rekstur fyrirtækisins og gjaldskrár, sbr. fyrirspurn Samfylkingarinnar þar um. Þá þarf að taka á þeim athugasemdum og ábendingum sem fram komu í kjölfar REI-málsins auk þess sem taka þarf afstöðu til álitamála um þær auðlindir sem Orkuveitan fer með og nýtir. Öll þessi atriði kalla á stefnumörkun eigenda, eigendastefnu.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks taka undir ánægju með fyrirliggjandi heildarstefnumörkun stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og ítreka þakkir til allra sem að þeirri vinnu hafa komið. Það er afar mikilvægt að svo góð sátt hafi náðst í þessari stefnumörkun fyrirtækisins sem nú hefur verið vísað til eigendahóps borgarinnar, sem einnig hefur það hlutverk að formgera stefnumörkun eigenda og ganga frá eigendastefnu.
9. Lagt fram bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 15. f.m., sbr. samþykkt stjórnar Orkuveitunnar s.d., varðandi undirbúning uppskiptingar fyrirtækisins. R09050088
10. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Ungmennafélags Íslands frá 28. janúar sl. þar sem óskað er eftir því að UMFÍ verði úthlutað lóð nr. 13 við Tryggvagötu. R08050037
Sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs er falið að ræða við fulltrúa UMFÍ um forsendur upphaflegs lóðarfyrirheits, samhliða því að skoða möguleika á annarri staðsetningu fyrir umrædda starfsemi.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Ég fagna því að loks hafi verið brugðist við ábendingum mínum varðandi þetta mjög svo sérkennilega mál þar sem félag sem kennir sig við ungmennahreyfingu er misnotað í þágu persónulegra og pólitískra hagsmuna. Aldrei kom til greina að mínu mati að úthluta lóðinni Tryggvagötu 13 til UMFÍ.
11. Borgarráð leggur til að eftirtaldir verði skipaðir í yfirkjörstjórn vegna borgarstjórnarkosninganna 29. maí nk.:
Kristín Edwald
Þuríður Jónsdóttir
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Til vara:
Heimir Örn Herbertsson
Guðrún Alda Elísdóttir
Katrín Theódórsdóttir
R10010083
Vísað til borgarstjórnar.
12. Lögð fram umsókn Neytendasamtakanna um rekstrarstyrk, dags. 13. október sl. R09110055
Samþykkt að veita styrk að fjárhæð 600 þ.kr.
13. Lagt fram bréf innri endurskoðanda frá 1. þ.m. varðandi ráðstefnu um sveitarstjórnarendurskoðun, sem haldin verður í Reykjavík 14.-16. ágúst nk. R10030011
14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 3. þ.m., þar sem lagðar eru til nánar tilgreindar breytingar á kjörskrám í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður vegna þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars nk. R10020089
Samþykkt.
15. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Þar sem talsvert hefur borið á kvörtunum vegna snjómoksturs á gönguleiðum að undanförnu óskar borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna eftir minnisblaði frá framkvæmda- og eignasviði um fyrirkomulag snjómoksturs á götum borgarinnar, göngu- og hjólreiðastígum. Sérstaklega er óskað eftir upplýsingum um forgangsröðun og hvort tekið sé mið af leiðarkerfi Strætó bs., gönguleiðum barna í leik- og grunnskóla og helstu þjónustusvæðum í hverfum. R08100310
16. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Lýst er furðu á því að borgarstjórn og borgarráði hafi ekki verið gerð grein fyrir frekari úrskurðum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um ólögmætar ákvarðanir Reykjavíkurborgar varðandi lóðaskil og farið yfir stöðu þessara mála. Er óskað eftir því að borgarráði verði gerð grein fyrir málunum á næsta reglulega fundi borgarráðs ásamt yfirliti um aðgerðir og viðbrögð Reykjavíkurborgar. R09040060
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Fyrir liggur að borgarlögmaður ætlar að gera grein fyrir þeim úrskurðum, sem eru að berast þessa dagana, á næsta fundi borgarráðs.
Fundi slitið kl. 13.35
Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Gísli Marteinn Baldursson Kjartan Magnússon
Sóley Tómasdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson