No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2010, fimmtudaginn 18. febrúar, var haldinn 5103. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11.06. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 1. febrúar. R10010008
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 11. febrúar. R10010009
3. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Grafarvogs frá 14. janúar og 8. febrúar. R10010012
4. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 10. febrúar. R10010019
5. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 17. febrúar. R10010027
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R10010161
- Kl. 11.08 tekur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sæti á fundinum.
7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 10. s.m., varðandi breytt deiliskipulag á lóð nr. 26 við Haðaland, lóð Fossvogsskóla. R09120047
Samþykkt.
- Kl. 11.10 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum.
8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 10. s.m., varðandi breytt deiliskipulag Elliðaárdals vegna lóða fyrir borholuhús Orkuveitu Reykjavíkur. R09120046
Samþykkt.
9. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 10. s.m., þar sem lagt er til að eigendum eins eignarhluta fasteignarinnar að Bólstaðarhlíð 12 verði gefinn tímafrestur að viðlögðum dagsektum til að sækja um byggingarleyfi fyrir þegar gerðum breytingum. R10020046
Samþykkt.
10. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 10. s.m., þar sem lagt er til að eigendum fasteignarinnar að Laufásvegi 68 verði gefinn tímafrestur að viðlögðum dagsektum til að koma mannvirkjum á suðurhluta lóðarinnar til samræmis við samþykkta aðaluppdrætti. R10020045
Samþykkt.
11. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs frá 2. þ.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um bílastæðahús Bílastæðasjóðs, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. f.m. R08090151
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Borgarráðsfulltrúi VG þakkar svörin en ítrekar spurninguna um raunkostnað v/gjaldskyldra bílastæða. Svara þarf spurningunni um það hver raunkostnaður yrði ef tekin væri eðlileg leiga af stæðunum.
12. Lögð fram að nýju greinargerð fjármálaskrifstofu frá 11. f.m. um samanburð á eiginframkvæmd sveitarfélags og einkaframkvæmd, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. s.m. Jafnframt lagt fram bréf fjármálastjóra frá 2. þ.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um málið. R08050109
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Það er grundvallaratriði í fyrirliggjandi úttekt að hún tekur ekki á offjárfestingu í viðkomandi mannvirkjum, hvorki í fjölda fermetra né íburði. Aðeins eru borin saman dæmi þar sem tiltekin bygging væri byggð af borginni annars vegar eða einkaaðilum hins vegar. Ekki er því tekið á þeirri offjárfestingu í húsnæði sem viðgengist hefur í borgarrekstrinum á undanförnum árum. Jafnframt er ljóst að nágrannasveitarfélög hafa verið að ná fram gríðarlegum sparnaði með því að leysa til sín óhagstæða einkaframkvæmdasamninga frá síðasta áratug. Nýlegt dæmi frá Hafnarfirði sýnir árlegan sparnað upp á hundruð milljóna króna og milljarða sparnað til lengri tíma. Óskað er upplýsinga um þessi dæmi og hvernig þessi árangur hefur náðst.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Það kemur fram í svari fjármálastjóra að hvað varðar Höfðatorg þá er það hagkvæmt að leigja af einkaaðila ef miðað er við 25 ár en dæmið snúist við ef miðað er við 50 ár. Það er ljóst að líftími bygginga á Íslandi er margfalt lengri en 25 ár og sem dæmi er enn rekin blómleg starfsemi í Austurbæjarskóla og Miðbæjarskóla og svo mun verða um langa framtíð. Þegar upp er staðið er það því hagkvæmara fyrir borgina að reka starfsemi í eigin húsnæði en að leigja af öðrum. Reykjavíkurborg rekur eitt stærsta fasteignafélag landsins. Það væri áfellisdómur fyrir framkvæmda- og eignasvið ef það næði ekki að reka eigið húsnæði hagkvæmar en einkaaðilar.
- Kl. 12.09 víkur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi.
13. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 15. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 12. s.m., um breytingu á 3. gr. reglna um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. R07090064
Samþykkt.
14. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 15. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 12. s.m., um leiguverð öryggis- og þjónustuíbúða fyrir aldraða og leigugjald fyrir þjónusturými að Fróðengi 1-11. R10020049
Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Sérstakar húsaleigubætur munu tryggja að leiguverð nýrra þjónustuíbúða eldri borgara í Fróðengi verður viðráðanlegra en ella fyrir tekjulága leigjendur. Það fyrirkomulag að Félagsbústaðir taki íbúðirnar á leigu og framleigi síðan gera þetta mögulegt. Að gefnu tilefni óskuðum við eftir því í velferðarráði að verð á íbúðum fyrir eldri borgara yrði kannað sérstaklega og kynnt á þeim vettvangi. Beðið er svara við þeim spurningum.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði telur að varlega þurfi að stíga til jarðar í samningum við þriðja aðila um þjónusturými. Ljóst er að þau reynast dýrt úrræði bæði fyrir Reykjavíkurborg og notendur þjónustunnar eins og leigugjald fyrir Fróðengi 1-11 sýnir glöggt. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að útvistun verkefna sé til hagsbóta fyrir skattgreiðendur, notendur þjónustu eða starfsfólk, heldur þveröfugt. Þetta verður að hafa í huga áður en lengra er haldið á þessari braut.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vísa til bókunar fulltrúa sinna í velferðarráði.
- Kl. 12.18 tekur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson sæti á fundinum.
15. Lagt fram yfirlit yfir styrkveitingar velferðarráðs vegna ársins 2010, sbr. samþykkt ráðsins 10. þ.m. og bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 15. s.m. R10020053
16. Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Nokkuð langt er liðið síðan ég lagði fram fyrirspurn í borgarráði um ferðakostnað kjörinna fulltrúa á vegum nefnda og ráða borgarinnar og ekki síður um ferðakostnað stjórnarmanna í fyrirtækjum borgarinnar sem allt of mikil leynd hefur hvílt yfir eins og ég kynntist í borgarstjóratíð minni. Spurt er hvenær megi vænta svars við þessari þýðingarmiklu fyrirspurn um ráðstöfun almannafjár til kjörinna fulltrúa, en sérstaklega var spurt um ferðakostnað vegna áranna 2007, 2008 og 2009. Óskað er upplýsinga um stöðu málsins á næsta borgarráðsfundi. R09120060
17. Lagt fram bréf slökkviliðsstjóra Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, dags. í dag, varðandi beitingu heimildar í 24. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000 til að tryggja brunavarnir á Reykjavíkurflugvelli. R09090041
Bókun borgarráðs:
Borgarráð vísar til fyrri bókunar varðandi öryggismál á Reykjavíkurflugvelli frá 24. september 2009 þess efnis að lögð verði áhersla á lykilþátt öryggismála í þjónustu flugvallarins og nauðsyn þess að virða þau. Borgarráð tekur því undir fyrirhugaða beitingu slökkviliðsstjóra á heimild í 24. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir til að leggja sérstakar skyldur á Flugstoðir ohf. varðandi mönnun og skipulag öryggismála á Reykjavíkurflugvelli.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi VG þakkar slökkviliðsstjóra fyrir greinargóðar upplýsingar og ítrekar tillögu sem legið hefur í borgarráði síðan 22.10. sl. þess efnis að kannaðir verði kostir þess að Reykjavíkurborg yfirtaki rekstur Reykjavíkurflugvallar.
18. Lögð fram greinargerð innri endurskoðanda frá 15. þ.m. varðandi afstemmingar lánardrottna A-hluta borgarsjóðs. R10020055
19. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. þ.m.:
Lagt er til að borgarráð samþykki að framlengja gildistíma reglna um niðurfellingu fasteignaskatta af friðuðum íbúðarhúsum til ársloka 2010. Um er að ræða bráðabirgðalausn til eins árs með því skilyrði að íbúðarhúsnæði uppfylli öll formleg skilyrði um friðun með samþykki þar til bærra aðila.
Greinargerð fylgir tillögunni. R10020031
Samþykkt.
20. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 17. þ.m., varðandi rekstrarleyfisumsókn veitingastaðarins Monte Carlo, Laugavegi 34a. R08030056
Samþykkt.
21. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 17. þ.m., varðandi rekstrarleyfisumsókn veitingastaðarins Mónakó, Laugavegi 78. R08030057
Samþykkt.
22. Samþykkt er að Valgerður Sveinsdóttir taki sæti í starfshópi sem móti tillögur um framtíðarnotkun Höfða í stað Sigrúnar Magnúsdóttur. R09090171
- Kl. 13.15 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundi og Oddný Sturludóttir tekur þar sæti.
23. Lagðir fram úrskurðir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í málum nr. 27/2009, Brimborg ehf. gegn Reykjavíkurborg, og nr. 20/2009, Arney Einarsdóttir og Gísli Gíslason gegn Reykjavíkurborg. R09040060
- Kl. 13.58 víkur Gísli Marteinn Baldursson af fundi.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks telja að úrskurðir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins varðandi meintan skilarétt á íbúðahúsa- og atvinnuhúsalóðum séu byggðir á röngum forsendum og niðurstaðan þar af leiðandi ekki rétt. Borgarráðsfulltrúarnir minna á að í desember síðastliðnum gekk dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem var komist að þveröfugri niðurstöðu en í úrskurði ráðuneytisins í kærumáli Brimborgar. Því er uppi lagaleg óvissa um hvort Reykjavíkurborg sé skylt að taka við þessum lóðum. Reykjavíkurborg hefur ekki í sínum samþykktum viðurkennt að til staðar hafi verið einhliða skilaréttur hjá lóðarhöfum íbúðahúsalóða, þar sem byggingarréttur var seldur í kjölfar útboðs, eða atvinnuhúsalóða. Sú afstaða er staðfest í nýföllnum héraðsdómi. Borgarlögmaður fer áfram með fyrirsvar í þessum málum og metur hvort og þá hvernig skuli bregðast við úrskurðum ráðuneytisins og kynnir borgarráði.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Samfylkingin hefur alla fyrirvara á málsmeðferð og framkomu borgarstjóra og meirihlutans gagnvart fjölskyldum sem neitað var um að skila lóðum sem úthlutað var eftir útboð. Sú neitun er þvert á framkvæmd borgarinnar gagnvart fjölskyldum sem fengu úthlutað lóðum á föstu verði. Þetta hefur Samfylkingin talið hæpið út frá ójafnræði enda brýtur það gegn almennri réttlætiskennd að hafa mismunandi reglur eftir aðferðum við úthlutun lóðanna. Samfylkingin hefur ítrekað setið hjá við afgreiðslu þessara mála og bókað ofangreinda afstöðu sína, auk þess að óska eftir því að útfærðar yrðu tillögur að því hvernig standa mætti að endurgreiðslu lóða til þessara fjölskyldna í júní sl. Þannig hafa önnur sveitarfélög staðið að málum. Ekkert af þessu hefur skipt meirihlutann máli, frekar en nýir úrskurðir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem álítur ákvarðanir borgarinnar ólögmætar. Minnt er á að núverandi meirihluti var ekki síst myndaður utan um sérstakar aukagreiðslur til verktakafyrirtækja úr borgarsjóði og Orkuveitu Reykjavíkur svo slagaði hátt í milljarð. Þá mátti ekki fara dómstólaleiðina því það væri tafsamt og dýrt. Þegar venjulegt fólk og fjölskyldur eru annars vegar er þeim hins vegar vísað á að leita réttar síns fyrir dómstólum hverjar sem afleiðingar af frekari drætti þessara mála kunni að vera fyrir þær og framtíð þeirra.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Ábyrgðarleysi Samfylkingarinnar í þessu máli er með hreinum ólíkindum og ber því miður vott um lítinn skilning á því umhverfi sem sveitarfélögin búa við nú. Eins og ítrekað hefur komið fram í málflutningi borgarlögmanns er hvergi í samþykktum Reykjavíkurborgar kveðið á um einhliða skilarétt lóðarhafa íbúðahúsalóða, þar sem byggingarréttur var seldur í kjölfar útboðs, eða atvinnuhúsalóða. Þessa afstöðu Reykjavíkurborgar og borgarlögmanns hefur Héraðsdómur þegar staðfest með dómi í desember sl. Á tímum sem þessum, þar sem Reykjavíkurborg verður að forgangsraða í þágu grunnþjónustu og þess sem mestu skiptir, væri ábyrgðarleysi að ganga til endurgreiðslu þeirra lóða og ganga þannig á sameiginlega sjóði Reykvíkinga á meðan fullkomin lagaóvissa ríkir um skyldu í þeim efnum.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Afstaða Samfylkingarinnar í málefnum fjölskyldna í vanda vegna lóðamála hefur verið ljós frá upphafi. Hún hefur byggt á sjónarmiðum jafnræðis og sanngirni. Nú hefur bæst við lagaleg óvissa, spurningar um óvandaða stjórnsýslu auk þess sem ljóst er að dráttur á niðurstöðu getur verið afar afdrifaríkur fyrir viðkomandi fjölskyldur. Erfið staða borgarsjóðs er að sjálfsögðu hluti af þeirri dökku heildarmynd sem blasir við eftir efnahagshrunið. Það er þó ekki síður ábyrgðarhluti hjá borgarstjóra og meirihluta borgarstjórnar á láta viðkomandi fjölskyldunum einum eftir að axla ábyrgð á þeirri stöðu og þeirri óvissu sem óumdeilanlega er uppi í málinu.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Kjarni málsins er sá að þessi mál eru nú til meðferðar hjá borgarlögmanni og dómsstólum landsins. Niðurstaða í þeim málum verður að liggja fyrir, áður en borgin getur tekið afstöðu til þess að endurgreiða lóðir sem henni er ekki talið skylt að greiða, en augljóslega myndi draga úr getu sveitarfélagsins til að sinna lögbundinni þjónustu við íbúa.
24. Kynnt er rekstraryfirlit desembermánaðar. R09020033
Fundi slitið kl. 15.00
Óskar Bergsson
Dagur B. Eggertsson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Kjartan Magnússon Oddný Sturludóttir
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson