No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2010, fimmtudaginn 21. janúar, var haldinn 5099. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.45. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Oddný Sturludóttir, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Kjartan Eggertsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 19. janúar. R10010027
Samþykkt.
2. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 15. desember. R09010006
3. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 11. janúar. R10010008
4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 12. janúar. R10010013
5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 12. janúar. R10010014
6. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 15. janúar. R10010019
7. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 15. janúar. R10010028
8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R09120071
9. Lagt fram svar borgarstjóra frá 19. þ.m. við fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar um launakostnað í ráðum borgarinnar o.fl., sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. nóvember sl. R08060011
10. Lagt fram bréf sviðsstjóra leikskólasviðs frá 19. þ.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um ræstingar í leikskólum, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. s.m. R10010072
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi VG þakkar sviðstjóra leikskólasviðs greinargóð svör. Liður 2 í svarinu vekur athygli. Þar kemur fram að í fyrstu hafi kostnaður verið metin svipaður hvort sem borgin hefði ræstingu á sínum vegum eða með vertaka síðan hafi aðkeypt ræsting hækkað. Fulltrúi VG óskar því eftir mati á því hvort það myndi hugsanlega verða sparnaður eða á pari ef borgin tæki ræstingar leikskóla aftur í sína umsjá.
11. Lagt fram svar borgarstjóra frá 19. þ.m. við fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar um ferðakostnað, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. s.m. R09120060
12. Lögð fram samantekt af vinnufundi atvinnumálahóps borgarráðs um atvinnumál aldurshópsins 13-18 ára, dags. 14. þ.m. R09050023
Vísað til íþrótta- og tómstundaráðs, velferðarráðs og menntaráðs.
13. Lagt fram svar innri endurskoðanda við fyrirspurn forseta borgarstjórnar um samþykkt stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 3. nóvember 2007 varðandi kaup í orkufyrirtækinu PNOC-EDC, dags. 5. október sl., ásamt bréfi forseta borgarstjórnar, dags. 18. þ.m. R10010113
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson óskar bókað:
Ég óskaði eftir því við innri endurskoðanda Reykjavíkur að farið yrði yfir afgreiðslu stjórnar OR á fundum sínum þann 2. og 3. nóvember 2007 á erindi REI þar sem óskað var eftir heimild til að kaupa hlutabréf í filippseysku ríkisreknu orkufyrirtæki, PNOC-EDC, fyrir 12,8 milljarða króna. Undirritaður lagði fram nokkrar spurningar til innri endurskoðanda í þessu sambandi. Svar innri endurskoðanda barst mér þann 5. október sl. Svör innri endurskoðanda við fyrirspurn minni voru lögð fram á stjórnarfundi Orkuveitunnar þann 30. des. sl. Ég tel bæði rétt og nauðsynlegt að kynna þessa skýrslu fyrir borgarráði þar sem í skýrslunni kemur fram að ekki hafi verið ástunduð góð og upplýst vinnubrögð við afgreiðslu málsins, auk þess sem það vekur mikla athygli að meirihluti stjórnar OR hafi talið eðlilegt að veita svo miklum fjármunum til kaupa á hlutabréfum í erlendu ríkisreknu orkufyrirtæki sem stóð í einkavæðingarferli. Það vekur einnig sérstaka athygli að í bókun meirihluta stjórnar OR sé m.a. í rökstuðningi fyrir þessari ákvörðun tekið fram #GLað fulltrúar félagsins muni gæta þess að verkefnið standist þær kröfur sem gera verður til verkefna sem tengjast OR, m.a. með tilliti til samfélagslegrar ábyrgðar.#GL Við afgreiðslu málsins í stjórn OR var á engan hátt sýnt fram á hvernig þessi fyrirhuguðu kaup á hlutabréfum í filippseysku orkufyrirtæki sem stóð í einkavæðingarferli fullnægðu þessari kröfu, ekkert arðsemismat lá fyrir og málið var aldrei kynnt eða afgreitt í borgarráði og borgarstjórn.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Kaup á filippseyska orkufyrirtækinu PNOC-EDC var eitt af nokkrum útrásarverkefnum REI og OR sem stofnað var til í borgarstjóratíð Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Í hans tíð var keypt fyrir 500 milljónir í þessu fyrirtæki og er það eina fjármagnið sem farið hefur til fyrirtækisins. Aðfinnslur hans nú um að verkefnið hafi verið of lítið kynnt á vettvangi OR og borgarinnar hitta hann sjálfan fyrir. Það kom í hlut hundrað daga meirihlutans að hreinsa upp eftir Sjálfstæðisflokkinn í þessu máli einsog öðrum og til þess gafst vissulega ekki mikið ráðrúm eða tími einsog úttekt innri endurskoðunar ber með sér. Í fyrstu heimilaði stjórn OR í nóvember 2007 fjármögnun á þessum kaupum sem var gjörningur sem var nauðsynlegur vegna fyrri skrefa, en síðar tókst að falla frá kaupunum og koma OR út úr fyrirtækinu og verkefninu því að skaðlausu. Upphlaup Sjálfstæðisflokksins nú er tilraun til að varpa ábyrgð yfir á þá sem fengu það erfiða hlutverk að greiða úr REI-klúðrinu í stað þess að gangast við eigin verkum. Í skýrslu Innri endurskoðunar eru hins vegar ýmsar ábendingar sem vert er að vinna áfram með á vettvangi OR og borgaryfirvöld þurfa að draga lærdóm af þessu máli eins og REI málinu öllu.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Bókun borgarfulltrúa Samfylkingarinnar er spuni og sett fram til þess að koma sér undan ábyrgð í þessu alvarlega máli þar sem neitað er að gangast við eigin verkum. Hún svarar engu um þá staðreynd að í 100 daga meirihlutanum samþykkti meirihluti stjórnar OR, þar með fulltrúi Samfylkingarinnar, að heimila REI að taka þátt í einkavæðingu ríkisrekins orkufyrirtækis á Filippseyjum með því að kaupa hlutabréf fyrir 12,8 milljarða króna án fyrirvara! Til þess átti meðal annars að taka lán fyrir 6,4 milljarða króna en að öðru leyti kæmu fjármunirnir að mestu frá OR. Fullyrðingar Samfylkingarinnar um að þessi háskalegi gjörningur hafi verið „nauðsynlegur vegna fyrri skrefa“ eru hrein ósannindi, sem sjá má af gögnum málsins. Engar slíkar ákvarðanir höfðu verið teknar eða heimildir gefnar. Í bókun Samfylkingarinnar segir einnig að síðar hafi tekist að falla frá kaupunum sem er enn ein rangfærslan í bókuninni. Staðreyndin er sú að fulltrúum REI mistókst að kaupa hlutabréfin þar sem samstarfsaðilar þeirra vildu bjóða á hærra gengi en fulltrúar REI höfðu heimild til að bjóða. Það var því einungis þess vegna að ekki var 12,8 milljörðum króna ráðstafað til hlutabréfakaupa á Filippseyjum, en síður en svo ætlun REI að falla frá kaupunum eins og borgarfulltrúar Samfylkingarinnar reyna nú að búa til sem eftiráskýringu. Þessu til áréttingar er rétt að birta eftirfarandi úr skýrslu innri endurskoðanda Reykjavíkurborgar, bls. 2, þar sem segir: „Með samþykkt sinni [3. nóvember 2007] gaf stjórn OR heimild án fyrirvara um samþykki eigenda til handa REI fyrir ráðstöfun fjármuna allt að 12,8 milljörðum kr. til kaupa á 8#PR hlut í PNOC-EDC og að auki veðsetningu eigna REI, sbr. meðfylgjandi erindi og greinargerð REI.“ Samfylkingin vill greinilega reyna að eyða þessu máli með útúrsnúningum og rangfærslum í stað þess að gangast við eigin verkum og ræða málin út frá þeim staðreyndum sem liggja fyrir í skýrslu innri endurskoðanda og hafa ekki verið véfengdar.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Þessi málflutningur mun ekki firra Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og núverandi og fyrrverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ábyrgð af REI málinu. Það var og er á þeirra ábyrgð. Það eru einnig kaup á hlut í filippseyska orkufyrirtækinu sem hér er til umræðu. Málið er til umfjöllunar í stjórn OR og ítreka fulltrúar Samfylkingarinnar nauðsyn þess að skoðun á því muni verða OR og Reykjavíkurborg lærdómur.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Í gagnbókun Samfylkingarinnar er engu svarað í bókun borgarfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þrátt fyrir að lagðar séu fram skýrar staðreyndir sem sýna að ”hundrað daga meirihlutinn” beri alla ábyrgð á fyrirhuguðum kaupum á hlutabréfum í filippseysku orkufyrirtæki fyrir 12,8 milljarða króna, er sagt út í hött að aðrir geri það. Lítið leggst fyrir Samfylkinguna í þessu máli. Það mun frekari umræða um þetta mál sýna með skýrum hætti.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Það segir meira en mörg orð að Sjálfstæðisflokkurinn sé að reyna að gera þetta mál tortryggilegt tveimur árum eftir að atburðirnir áttu sér stað. Í millitíðinni var að störfum sérstakur starfshópur um REI með þátttöku fulltrúa allra stjórnmálaflokka án þess að Sjálfstæðisflokkurinn óskaði eftir því að þessi atriði kæmu til skoðunar. Það var væntanlega vegna þess að þá var í fersku minni forsaga þessa máls og skilningur á því að þessar ákvarðanir, sem snérust um að taka áfram þátt í útboðsferli, en ekki tilteknar skuldbindingar, voru liðir í því að verja hagsmuni Reykvíkinga, eins og kom á daginn. Augljóst er að fennt hefur yfir ýmislegt í REI-málinu í huga Sjálfstæðisflokksins og er full ástæða til að óska eftir því að þau verði rifjuð upp í heild sinni með sérstakri kynningu fyrir borgarráði.
14. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 11. þ.m. um skiptingu í kjördeildir o.fl. í Reykjavíkurkjördæmum suður og norður við þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010, sem fram fer 6. mars nk. R10010079
Samþykkt.
15. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 11. þ.m. um skipan hverfiskjörstjórna og undirkjörstjórna í Reykjavíkurkjördæmum suður og norður við þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010, sem fram fer 6. mars nk. R10010079
Samþykkt.
16. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 11. þ.m. um laun hverfiskjörstjórna og undirkjörstjórna í Reykjavíkurkjördæmum suður og norður við þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 1/2010, sem fram fer 6. mars nk. R10010079
Samþykkt.
17. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R10010036
18. Lögð fram bókun framkvæmda- og eignaráðs frá 11. þ.m. varðandi álagningu gatnagerðargjalds á sérhæft húsnæði fyrir umhverfisvæna framleiðslustarfsemi, sbr. bréf ritara ráðsins frá 12. s.m. R09110037
Framkvæmda- og eignasviði er falið að útfæra tillögu að breytingu á gjaldskrá.
19. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 18. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 13. s.m., varðandi yfirfærslu á verkhluta II í málefnum geðfatlaðra. R10010117
Samþykkt.
Borgarráð fagnar þessum áfanga og þakkar þeim sem að verkefninu hafa komið, um leið og tekið er undir bókun velferðarráðs.
20. Lagt fram bréf innri endurskoðanda frá 18. þ.m. varðandi úttekt á innra eftirliti hjá Félagsbústöðum hf. R10010119
21. Lögð fram drög að tímabundnum þjónustusamningi Reykjavíkurborgar við Alþjóðahúsið ehf., ódags., ásamt tillögu mannréttindaráðs frá 7. þ.m. um að fram fari skoðun á því hvernig framtíðarskipan þjónustu við innflytjendur verði best háttað, sbr. bréf mannréttindastjóra, dags. 20. s.m. R09070058
Tillaga mannréttindaráðs samþykkt með þeirri breytingu að 2. setning hennar fellur brott. Þá er þjónustusamningurinn jafnframt samþykktur.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar í borgarráði lýsa óánægju sinni með þá töf sem orðið hefur í því að leysa úr málum Alþjóðahúss og þar með innflytjenda í borginni. Meirihlutinn við stjórn borgarinnar hefur tekið alltof langan tíma til að afgreiða málið og skila tillögum og af því leiðir að óvissa ríkir enn í málaflokknum, þrátt fyrir skýra afgreiðslu mannréttindaráðs fyrir þremur mánuðum.
22. Lagður fram dómur Hæstaréttar frá 8. október sl. í máli nr. 118/2009, Hörður Jónsson gegn Uppsalamönnum ehf., Ofjarli ehf. og Sjónlinsunni ehf. R09100264
23. Áheyrnarfulltrúi F-lista leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er upplýsinga um ferðakostnað borgarfulltrúa, varaborgarfulltrúa og annarra kjörinna fulltrúa í fagráðum borgarinnar og hjá stjórnarmönnum í fyrirtækjum borgarinnar á árunum 2007, 2008 og 2009. Að gefnu tilefni er spurt hvort rétt sé að tveir kjörnir fulltrúar af F-lista, sem nú starfa ekki með framboðinu (Margrét Sverrisdóttir og Ásta Þorleifsdóttir) hafi haft umtalsvert meiri ferðakostnað en aðrir fulltrúar F-listans samanlagt í ráðum, nefndum og stjórnum fyrirtækja borgarinnar. Er það rétt að Margrét hafi farið sem varamaður í Hafnarstjórn til Kína? Ef svo er, hver greiddi þá kostnaðinn? Einnig hafa birst í fjölmiðlum upplýsingar um háar greiðslur vegna Ástu Þorleifsdóttur hjá fyrirtækjum borgarinnar. Hversu háar eru þessar greiðslur? Sérstaklega er óskað eftir að ferðakostnaður þessara tveggja fyrrverandi meðlima borgarstjórnarflokks F-listans á kjörtímabilimu sé borinn saman við ferðakostnað vegna allra annarra fulltrúa F-listans og að allur ferðakostnaður vegna fulltrúa F-listans verði sundurliðaður. Loks er spurt hvort ferð núverandi borgarstjóra með skipulagsráði, eftir að hún hætti í ráðinu sé einsdæmi. Sé um önnur tilvik að ræða óskast þau tilgreind. Telur borgarstjóri það verjandi, að hún fari í slíkar aukaferðir umfram 6 ferðir sem borgarstjóri á einu ári á tíma niðurskurðar hjá starfsmönnum borgarinnar í ferðakostnaði. Það síðastnefnda er sagt stafa af kreppuástandi í landinu. Á það þá ekki að gilda um núverandi borgarstjóra, sem æðsta starfsmann borgarinnar? Eru skilaboðin þau, að aðeins skuli draga saman hjá hinum lakar settu en bæta í hjá borgarstjóraembættinu? R09120060
24. Áheyrnarfulltrúi F-lista tilkynnir að Sigurður Þórðarson taki sæti áheyrnarfulltrúa F-lista í hverfisráði Grafarvogs í stað Ómars Sveinssonar og að Sigurlaug Sigurðardóttir taki sæti Sigríðar Jósefsdóttur sem varaáheyrnarfulltrúi í hverfisráðinu. R09040082
Fundi slitið kl. 12.00
Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Gísli Marteinn Baldursson
Kjartan Magnússon Oddný Sturludóttir
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson