Borgarráð
BORGARRÁÐ
Ár 2009, fimmtudaginn 26. nóvember, var haldinn 5093. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.44. Viðstödd voru Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Gunnar Hólm Hjálmarsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 10. nóvember. R09010006
2. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 12. nóvember. R09010007
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 17. nóvember. R09010013
4. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 24. nóvember. R09010018
5. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 25. nóvember. R09010026
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
6. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 20. nóvember. R09010027
7. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 16. nóvember. R09010028
8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 13 mál. R09110004
9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarráð samþykkir að fara þess á leit við ríkisstjórn og iðnaðarráðherra að gefinn verði þriggja ára frestur á áformaðri uppskiptingu Orkuveitu Reykjavíkur. Jafnframt verði lagaákvæði hvað þetta vaðar endurskoðuð.
Greinargerð fylgir tillögunni. R09050088
Vísað til umsagnar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.
10. Lagt fram svar borgarstjóra frá 24. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um eignasjóð og fleira, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. f.m. R09050032
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi bókun:
Húsnæðiskostnaður borgarinnar hefur aukist um 94#PR frá árslokum 2005 til ársloka 2009 eða úr 4,6 milljörðum í 8,8 milljarða. Þannig er ljóst að kostnaður borgarinnar vegna húsnæðis hefur aukist mikið á þessu kjörtímabili og langt umfram verðlagshækkanir. Enda er hluti húsnæðiskostnaðar af heildarútgjöldum í árslok 2009 14#PR en var 10#PR í ársbyrjun 2005. Því fer stærri og stærri hluti af því fjármagni sem ætlað er til þjónustu við íbúa í húsnæðiskostnað og má nefna að 22#PR af rekstrargjöldum menntasviðs Reykjavíkur rennur til húsnæðis. Augljóst er jafnframt að húsnæðiskostnaður en verulega vanáætlaður í fjárhagsáætlun næsta árs. Ekki er gert ráð fyrir verðlagsbreytingum, jafnvel þótt slíkar skuldbindingar séu sannarlega í einstökum samningum. Þá bendir flest til að kostnaður vegna rekstrar nýrra mannvirkja sé vanáætlaður en gert er ráð fyrir auknum útgjöldum upp á 238 milljónir króna sem er minna en síðustu ár, þrátt fyrir að framkvæmdastigið hafi verið sambærilegt. Samfylkingin lagði fram eftirfarandi tillögu við afgreiðslu síðustu fjárhagsáætlunar, fyrir um ári síðan: Borgarstjórn samþykkir að við endurskoðun fjárhagsáætlunar fyrir 1. mars verði unnar tillögur að hagræðingu í húsnæðismálum þannig að 2-5#PR sparnaður náist á næstu þremur árum. Sérstaklega verði hugað að bættri nýtingu húsnæðis og endurskoðun dýrra leigusamninga við einkaaðila sem taka til sín mikið fé, s.s. Höfðatorg, Íþrótta- og sýningahöll og Egilshöll í Grafarvogi. Ekkert hefur verið gert með tillöguna en ljóst að hún hefði getað leitt til árlegs sparnaðar sem skiptir hundruðum milljóna. Gríðarleg hækkun húsnæðiskostnaðar vitnar hins vegar um taumlausa útþenslu og algeran skort á fyrirhyggju þegar kemur að steinsteypu á kjörtímabilinu. Enda kemur í framlögðu svari að verklagsreglum hefur ekki verið fylgt þannig að nýframkvæmdir hafa verið samþykktar án þess að nokkur grein hafi verið gerð fyrir rekstrarkostnaði sem af þeim myndi leiða. Þannig hefur húsnæðiskostnaður aukist í blindni hjá borginni eftir að sjálfstæðismenn tóku við stjórn hennar.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Fyrir liggja tillögur um endurskoðun á verðbótum innri leigu og verður fjárhagsáætlun afgreidd á grundvelli leikreglna um þetta efni. Ljóst er að innri leiga hefur vaxið í takt við nýbyggingar og stærri viðhaldsverkefni sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum, ekki síst í skólum borgarinnar. Góður aðbúnaður að börnum í leikskólum og grunnskólum hefur verið kappsmál og hluti af því að veita góða grunnþjónustu. En mikilvægt er að finna leiðir til aukinnar ráðdeildar og sparnaðar á þessu sviði sem öðrum. Í vinnslu eru vegna þessa tillögur sem munu hvetja til hagkvæmari nýtingar á húsnæði borgarinnar í samræmi við samþykktir borgarstjórnar frá 1. mars sl. og verklag varðandi ákvarðanaferil vegna fjárfestinga verður eflt til að draga úr þessum kostnaði.
11. Rætt um fjárhagsáætlun 2010. Jafnframt lögð fram bókun velferðarráðs frá 24. þ.m., sbr. bréf sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. í dag. R09050032
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar eftir að yfirlit yfir eftirfarandi verði lagt fram samhliða fjárhagsáætlun í borgarráði á mánudag: Yfirlit yfir allar gjaldskrárhækkanir sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun, yfirlit yfir fjölda stöðugilda hjá borginni í janúar, apríl, júlí og október 2009 og áætlun um fjölda stöðugilda hjá borginni á sama tíma árið 2010, upplýsingar verði greindar eftir sviðum, yfirlit yfir alla þá þjónustuskerðingu sem fjárhagsáætlunin mun leiða af sér gagnvart borgarbúum, s.s. styttri opnunartíma þjónustustofnana eða annað í þeim dúr. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar eftir upplýsingum um hvort og þá hve hárri upphæð sé gert ráð fyrir í miðlægan atvinnumálapott þannig að borgin geti staðið að atvinnuskapandi átaksverkefnum í samstarfi við Vinnumálastofnun.
- Kl. 12.35 víkur Dagur B. Eggertsson af fundi og Oddný Sturludóttir tekur þar sæti.
12. Kynnt er fjárhagsáætlun Bílastæðasjóðs fyrir árið 2010. R09110072
13. Kynnt er fjárhagsáætlun Jörundar ehf. fyrir árið 2010. R09110102
14. Lögð fram skýrsla atvinnumálahóps borgarráðs frá 15. þ.m. um leiðbeinandi viðmið um forgangsröðun í atvinnumálum, ásamt bréfi borgarhagfræðings, dags. 17. s.m. R08080073
Bókun borgarráðs:
Borgarráð þakkar atvinnumálahópi Reykjavíkurborgar fyrir þá miklu vinnu sem unnin hefur verið um leiðbeinandi viðmið um forgangsröðun í atvinnumálum vegna fjárhagsáætlunargerðar og tekur undir mikilvægi þess að borgin uppfylli sínar skyldur sem vinnuveitandi gagnvart ungu fólki og forgangsraði í þágu atvinnu eins og kostur er. Niðurstöðu skýrslunnar er vísað til borgarstjóra til frekari úrvinnslu við gerð fjárhagsáætlunar og til umræðu í borgarstjórn.
15. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R09110002
16. Lagt fram bréf Þorleifs Gunnlaugssonar frá 22. þ.m. þar sem lagt er til að Óli Gneisti Sóleyjarson taki sæti í hverfisráði Breiðholts í stað Salmanns Tamimi og að Lilja Mósesdóttir taki sæti varamanns í ráðinu í stað Sóleyjar Tómasdóttur. R09040080
Vísað til borgarstjórnar.
17. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að afturkölluð verði kvörtun borgarlögmanns vegna forstjóra Barnaverndarstofu sem send var til félags og tryggingamálaráðuneytisins.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur jafnframt fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að fjölgað verði í Barnavernd Reykjavíkur um eitt stöðugildi lögfræðings og tvö stöðugildi félagsráðgjafa.
Greinargerðir fylgja tillögunum. R09040086
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fram kom í borgarráði síðastliðið vor á fundi með forstjóra Barnaverndarstofu og framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur (BR) að fjöldi barna að baki hverjum starfsmanni sem vinnur að beinni vinnslu barnaverndarmála er mun meiri í Reykjavík en annars staðar þekkist. Þetta er svo þrátt fyrir að margt bendi til þess að þyngd barnaverndarmála sé að jafnaði meiri hér í borg en annars staðar vegna félagslegrar samsetningar höfuðborgarinnar. Borgarráð hefur ekki fjallað efnislega um málið á grundvelli ábendinga forstjóra Barnaverndarstofu, þó hefur borgarráð með fjárveitingar að gera til stofnana borgarinnar. Nú hefur borgarlögmaður sent formlega kvörtun til félags- og tryggingamálaráðuneytisins vegna ummæla forstjóra Barnaverndarstofu í fjölmiðlum um eitt einstakt mál. Þó er það hlutverk forstjóra Barnaverndarstofu að rýna til gagns þegar kemur að barnavernd í víðu samhengi og ekki verður hjá því litið að hann hefur einnig látið eftir sér hafa í fjölmiðlum að BR vinni faglega og af miklum heilindum og alls ekki sé ástæða til að dæma þjónustu við um 1500 börn út frá hugsanlegum mistökum í einu máli. Af þessu tilefni vilja fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði spyrja: Er dæmi um að borgarlögmaður sendi ráðuneyti kvörtun vegna einstakra starfsmanna ríkisins, og ef svo er, óska fulltrúar Samfylkingar eftir yfirliti um slíkar kvartanir. Er vilji til þess að afturkalla þetta bréf og sameinast í umræðu um mikilvægt hlutverk BR og nauðsyn þess að skapa henni viðunandi stuðning svo hún geti sinnt sínum brýnu málum og umræðan snúist um ágæti BR frekar en hugsanleg mistök í einu máli? Í hvers umboði skrifar borgarlögmaður umrætt bréf?
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu vegna tillögu borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um kvörtun borgarlögmanns:
Borgarlögmaður hefur það hlutverk í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar að annast réttargæslu fyrir Reykjavíkurborg. Borgarlögmaður var í því hlutverki þegar hann gerði athugasemd við það að forstjóri Barnaverndarstofu, eftirlitsaðili með barnaverndarstarfi í Reykjavík, tjáði sig efnislega, í hlutverki sínu sem þessi óháði eftirlitsaðili, um tiltekið barnaverndarmál sem hann hafði vikið sæti í vegna fjölskyldutengsla. Verður því með engu móti séð að kvörtun borgarlögmanns hafi verið tilefnislaus enda laut hún einvörðungu að þessu tiltekna einangraða tilviki en ekki að störfum Barnaverndarstofu almennt. Kvörtun borgarlögmanns tók hvorki til þess hvort gera eigi úttekt á Barnavernd Reykjavíkur né til almenns hlutverks Barnaverndarstofu og forstjóra hennar enda samstarfið við Barnaverndarstofu og forstjórann gott og enginn ágreiningur milli aðila um mikilvægi barnaverndarstarfs í borginni og eftirlits Barnaverndarstofu með því. Það væri að auki brotið blað í sögu stjórnsýslu borgarinnar ef borgarráð tæki fram fyrir hendur borgarlögmanns með þeim hætti sem tillagan gerir ráð fyrir. Tillögunni er því vísað frá.
- Kl. 14.16 víkur Óskar Bergsson af fundi og Jórunn Frímannsdóttir tekur þar sæti.
Frávísunartillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.
Tillögu borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna varðandi stöðugildi hjá Barnavernd Reykjavíkur vísað til velferðarráðs.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Viðbrögð borgarstjóra við upplýsingum frá Barnaverndarstofu um mál, sem í raun er áfall fyrir barnavernd í Reykjavík, eru þau að skjóta sendiboðann. Í stað þess að bregðast skjótt við til varnar börnum í vanda er borgarlögmanni sigað á virtasta talsmann barnaverndarmála á landinu, Braga Guðbrandsson, forstjóra Barnaverndarstofu. Bréf Barnaverndarstofu sem sent var í júní og fréttamaður Ríkisútvarpsins náði í krafti upplýsingarlaga um helgina innihalda upplýsingar sem kjörnir fulltrúar í borgarráði og velferðarráði hefðu átt að fá strax í kjölfar þess að sviðstjóri velferðarsviðs fékk það í hendur. Þetta á ekki síst við þar sem bréfið var sent í beinu framhaldi af áhyggjum og miklum umræðum af stöðu barnaverndarmála í Reykjavík sem fram komu í velferðarráði, borgarráði og borgarstjórn í vor. Þann 24. apríl var lagt fram erindi í borgarráði þar sem meðal annars var spurt um fjölda barnaverndarstarfsmanna í Reykjavík, fjölda barnaverndartilkynninga sem fara í könnun, og hvort það hlutfall væri talið ásættanlegt. Í svari sem kynnt var í borgarráði 7. maí segir m.a. að hlutfall barnaverndarmála sem fara í könnun sé talið ásættanlegt. Í beinu framhaldi af þessu kom forstjóri Barnaverndarstofu á fund borgarráðs þann 17. maí. Þar sem hann lýsti áhyggjum af stöðu mála. Á borgarstjórnarfundi 19. maí var málið til umræðu þar efaðist borgarstjóri um fullyrðingar Braga Guðbrandssonar en sagðist hafa óskað eftir svörum. Formaður velferðaráðs tjáði sig á svipaðan hátt og sagðist vilja „að farið yrði yfir það hvort það sé eitthvað sérstakt sem Barnaverndarstofa hafir athugasemdir við vinnslu mála hjá Barnavernd Reykjavíkur. Það er auðvitað það sem að mínu mati væri sannur mælikvarði á hvort unnið sénægilega vel að málum.“ Mjög alvarlegar athugasemdirnar komu svo frá barnaverndarstofu til velferðarsviðs í júní og þar kom m.a.s fram að álagið á barnaverndarstarfsfólk í Reykjavík er mun meira en annars staðar á landinu. Hlutfall þeirra barna sem tilkynnt er um og fer í könnun er lægra en hjá flestum öðrum barnaverndarnefndum og að hugsanlegar skýringar á því séu álagið á starfsfólk vegna fjölda mála og þyngd þeirra. Þrátt fyrir alvarleika málsins hefur þessum upplýsingum verið haldið leyndum fyrir minnihlutanum í velferðarráði og borgarráði og þó svo að fjölgað hafi verið í Barnaverndarnefnd Reykjavíkur eru miklar líkur á því að meira þurfi til. Borgarstjórinn og borgarstjórn öll á að taka ábendingum Barnaverndarstofu fagnandi og lýsa yfir samstarfi um endurskoðun á Barnavernd Reykjavíkur og draga til baka klögumál borgarlögmanns á hendur forstjóra Barnaverndarstofu. Á þann hátt og engan annan geta borgaryfirvöld endurheimt traust borgarbúa hvað barnaverndarmál varðar.
- Kl. 14.50 víkur Gunnar Hólm Hjálmarsson af fundi.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Í bréfi frá Barnaverndarstofu til velferðarsviðs sem barst um miðjan júní sl. var samantekt á því sem forstjóri Barnaverndarstofu hafði farið yfir í borgarráði þann 14. maí 2009. Í bréfinu kom ekkert nýtt fram og þær ábendingar sem þar komu fram rúmuðust allar innan verklags og reksturs Barnaverndar Reykjavíkur og áréttað var að Barnaverndarstofa bæri fullt traust til Barnaverndar Reykjavíkur. Í niðurlagi bréfsins segir: „Þrátt fyrir ofangreindar vísbendingar telur Barnaverndarstofa ekki rétt að hrapa að þeirri niðurstöðu að barnaverndarstarfi Reykjavíkur sé verulega ábótavant og alls ekki í samanburði við aðrar barnaverndarnefndir. Barnaverndarstofa hefur átt gott samstarf við starfsfólk Barnaverndar Reykjavíkur og stofan ber fullt traust til þess sem og framkvæmdastjóra nefndarinnar. Barnaverndarstarf í Reykjavík hefur frá upphafi verið í forystu á Íslandi. Barnaverndarstofa er sannfærð um að það sé vilji Reykjavíkurborgar að svo verði áfram.“ Ummæli borgarráðsfulltrúa í garð borgarlögmanns eru óviðeigandi og ósæmandi í garð embættismanns borgarinnar. Borgarráðsfulltrúinn getur í engu efnislegra ástæðna þess að borgarlögmaður sendi kvörtun til félags- og tryggingamálaráðuneytisins.
18. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Þjónusta við innflytjendur í Reykjavík hefur verið til umræðu í borgarráði frá því í júlí sl. þegar ráðið fól mannréttindaráði og mannréttindastjóra að taka út þjónustu Reykjavíkurborgar við innflytjendur og tryggja að framkvæmdin væri í samræmi við mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og stefnu mannréttindaskrifstofunnar í málefnum innflytjenda. Mannréttindaráð skilaði úttekt á þjónustu við innflytjendur og tillögur um framtíðarfyrirkomulag þjónustunnar í upphafi októbermánaðar. Þá hefur komið fram að endurskoða átti þjónustusamning Alþjóðahúss fyrir 1. október sl. Nú í lok nóvembermánaðar hefur úttekt og tillaga mannréttindaráðs ekki verið tekin fyrir í borgarráði, en óskað var umsagnar Alþjóðahúss. Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði sjá ástæðu til að spyrja: Hvenær mun borgarráð fjalla um úttekt mannréttindaráðs og tillögur, sem og umsögn Alþjóðahúss? Hver er afstaða borgarstjóra til tillagna mannréttindaráðs sem samstaða ríkti um? R09090064
Fundi slitið kl. 15.10
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Björk Vilhelmsdóttir Jórunn Frímannsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Kjartan Magnússon
Oddný Sturludóttir Þorleifur Gunnlaugsson