Borgarráð - Fundur nr. 5091

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2009, fimmtudaginn 19. nóvember, var haldinn 5091. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Guðlaugur G. Sverrisson, Kjartan Magnússon, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram afgreiðslufundargerð byggingarfulltrúa frá 17. nóvember. R09010026
Samþykkt.

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 10. nóvember. R09010015

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 2. nóvember. R09010017

4. Lögð fram fundargerð stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 28. október. R09010031

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R09110004

6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að greiða Strætó bs. auka stofnframlag, kr. 59.510.000 krónur, til að styrkja stöðu fyrirtækisins í samræmi við ákvörðun stjórnar Strætó bs. frá 28. nóvember 2008. Framlagið fer af liðnum ófyrirséð, 09205.
Greinargerð fylgir tillögunni. R09110035
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Ég er eindregið á móti því að Reykjavíkurborg segi sig úr byggðasamlagi með hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu um Strætó. Þvert á móti þarf að herða róðurinn fyrir sameiningu sveitarfélaganna sjö á höfuðborgarsvæðinu, sem ég hef talað einn fyrir innan borgarstjórnar um árabil. Í samræmi við fyrri tillögur mínar tel ég að auka beri framlög til Strætó bs. til að gera almenningssamgöngur betri og aðgengilegri í Reykjavík og nærliggjandi sveitarfélögum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Borgarráð samþykkti í sumar einróma að tengja endurfjármögnun Strætó við almenna stefnumótun og þjónustu fyrirtækisins auk heildarendurskoðunar á stofnsamþykktum þess. Ástæða þessa var að ekki hafði tekist að fylgja eftir stefnu Reykjavíkurborgar um öflugar almenningssamgöngur í samstarfi innan stjórnar Strætó bs. eða stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH). Vegna þessa hefur tillaga um endurfjármögnun dregist í heilt ár. Nú hefur meirihlutinn gefist upp á að ná fram hagsmunum almenningssamgangna og Reykvíkinga og samþykkir endurfjármögnun án þess að komin sé ásættanleg niðurstaða í því efni. Þvert á móti er verið að festa skammsýnar þjónustuskerðingar síðustu missera í sessi og opna fyrir frekari öfugþróun í þjónustu Strætó bs. Verður ekki annað séð að borgarstjóri hafi orðið undir í samskiptum við önnur sveitarfélög og gefist upp á því verkefni sem umhverfis- og samgönguráð og borgarráð fólu honum að ná fram. Í staðinn liggur fyrir skýrsla frá ráðgjafafyrirtæki þar sem lýst er tillögum sem ganga í þveröfuga átt við þær áherslur sem Reyjavíkurborg hefur hingað til haft. Yfir fyrirtækinu vofir því að bjóða eigi alla þjónustu þess út en það þýðir uppsögn allra vagnstjóra og sölu vagna. Líkt og á aðalfundi SSH þar sem tillögur ráðgjafa voru kynntar leggjast Samfylkingin og VG gegn því að unnið verði á grundvelli ofangreindra tillagna.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það vekur furðu að Samfylking og Vinstri grænir skuli ekki styðja tillögu um aukið fé til almenningssamgangna. Aukaframlagið til Strætó bs. mun styrkja rekstrargrundvöll fyrirtækisins og gera því kleift að sinna áfram þeirri góðu þjónustu sem fyrirtækið veitir og vonandi bæta hana. Aukaframlagið er greitt af öllum sveitarfélögunum og var samþykkt samhliða fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir síðasta ár. Ef borgarráð hefði farið að vilja Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og ekki samþykkt þetta aukna framlag hefði Strætó bs. neyðst til þess að skerða þjónustu. Einkennilegt verður að teljast að þessir flokkar vilji fremur skerða þjónustu en að hjálpa þessu mikilvæga fyrirtæki borgarbúa yfir hjallann. Hugmyndir sem fram koma í ráðgjafaskýrslu, og minnst er á í bókun Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, eru algerlega ósamþykktar og fráleitt að veifa þeim sem stefnumörkun borgarinnar. Engin slík stefnumörkun hefur verið mótuð, hvað þá samþykkt, enda málefni Strætó bs. samstarfsverkefni allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og niðurstaða þessara mála verður ekki afgreidd nema með aðkomu þeirra og þverpólitískri samstöðu um þær meginlínur á vettvangi borgarstjórnar. Markmið borgaryfirvalda í þeirri vinnu er skýrt og snýst um það eitt að tryggja öflugar, hagkvæmar og þægilegar almenningssamgöngur fyrir íbúa.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Minnihlutinn leggst ekki gegn endurfjármögnun heldur situr hjá við þá afgreiðslu málsins. Það er vegna þess að meirihlutinn hefur gefist upp á því að ná fram sátt um öfluga þjónustu og framtíðarsýn fyrir fyrirtækið í tengslum við endurfjármögnunina. Um það var breið samstaða í umhverfis- og samgönguráði og borgarráði í sumar. Ábyrgð á því að málið hafi dregist í heilt ár án þess að ásættanleg niðurstaða hafi náðst verður meirihlutinn að axla, enda hefur aðkomu minnihlutans að stjórn fyrirtækisins verið hafnað. Það er furðuleg nauðvörn að halda því fram að minnihlutinn vilji skerða þjónustu. Sú skerðing er því miður þegar orðin. Af niðurstöðu málsins má ráða að ekkert bendi því miður til þess að meirihlutinn hafi metnað til að snúa ofan af þeirri stefnu sinni þrátt fyrir góð orð í því efni. Þá er lýst furðu á því að meirihlutinn vilji nú ekki kannast við tillögur ParX um að starfsemi Strætó bs. byggi í framtíðinni á útboðum. Borgarstjóri, ásamt stjórn Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sótti sérstakt umboð til aðalfundar SSH til að vinna áfram á grundvelli þeirra. Það var samþykkt gegn mótatkvæði frá minnihlutanum í Reykjavík.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Hefði tillaga borgarstjóra ekki verið samþykkt í borgarráði í dag hefði þjónusta Strætó bs. verið skert. Það vildi meirihlutinn ekki og furðar sig enn á því að fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar skuli ekki vilja taka þátt í að styrkja stöðu Strætó bs.

7. Lagt fram bréf innri endurskoðanda frá 6. þ.m. varðandi úttekt á innra eftirliti á framkvæmda- og eignasviði. R09110039
Vísað til úrvinnslu framkvæmda- og eignaráðs, innkaupaskrifstofu og fjármálaskrifstofu.

8. Lagt fram bréf innri endurskoðanda frá 16. f.m. varðandi mat á innra eftirliti hjá Malbikunarstöðinni Höfða hf. R09110040

9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra frá 11. þ.m.:
Í samræmi við samþykkt borgarráðs frá 18. júní sl. um að borgarlögmaður móti samning um tímabundin afnot áhugahóps um nýtingu Toppstöðvarinnar, ásamt því að tryggt verði að öryggiskröfur verði uppfylltar, samþykkir borgarráð meðfylgjandi samkomulag við Toppstöðina, félagasamtök, kt. 521009-2410, um afnot og leigu á 602 m² afmörkuðu rými á fyrstu og annarri hæð varaaflstöðvarinnar, Rafstöðvarvegi 4 í Elliðaárdal, til 1. október 2011. Heimilt er að framlengja samkomulagið tímabundið til eins árs í senn að þeim tíma liðnum. Leigutaka er skylt að veita eiganda upplýsingar um notkun húsnæðisins á fjögurra mánaða fresti.
Greinargerð fylgir tillögunni.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi viðaukatillögu:
Lagt er til að svæði vestan við Toppstöðina, sem í dag er nýtt sem bílastæði, verði tyrft.
Greinargerð fylgir tillögunni. R07070122
Tillaga borgarstjóra samþykkt.
Viðaukatillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna samþykkt.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Þegar ég undirritaði sem borgarstjóri um sumarið 2008 samning við Landsvirkjun um að Reykjavíkurborg yfirtæki Toppstöðina á Elliðaárbökkum, skuldbatt borgin sig til að rífa Toppstöðina. Það yrði bæði umhverfisbætandi og atvinnuskapandi verkefni sem kostar aðeins brotabrot af ýmsum þeim flottræfilsframkvæmdum sem núverandi meirihluti stendur fyrir. Í því sambandi má nefna að meirihlutinn hyggst í nánustu framtíð verja meira en hundraðföldu andvirði þess að rífa Toppstöðina í alltof fjárfrekt Tónlistar- og ráðstefnuhús.

10. Lagt fram bréf formanns stjórnar Veraldarvina frá 11. þ.m. þar sem lýst er áhuga þeirra á að standsetja hús við Hverfisgötu og bæta ímynd götunnar og óskað eftir samstarfi við Reykjavíkurborg. R09110064
Vísað til umhverfis- og samgönguráðs.

11. Lagt fram bréf formanns íbúasamtaka Norðlingaholts frá 10. f.m., sbr. samþykktir íbúasamtakanna frá 9. þ.m., um byggingaframkvæmdir við leik- og grunnskóla hverfisins annars vegar og aðstöðu fyrir félags- og tómstundastarf hins vegar. R09100186

12. Lagt fram bréf Lambhaga ehf. frá 16. þ.m. varðandi álagningu gatnagerðargjalds á gróðurhús. R09110037
Vísað til umsagnar framkvæmda- og eignasviðs.

13. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. apríl sl. í máli nr. E8494/2008, Fríður Ólafsdóttir gegn Reykjavíkurborg. R08090180

14. Lagðar fram tillögur ráðgjafahóps frá 16. þ.m. um úthlutun úr forvarna- og framfarasjóði Reykjavíkurborgar.
Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir tillögur ráðgjafahóps um úthlutanir styrkja úr forvarna- og framfarasjóði Reykjavíkurborgar. Tilkynnt verði opinberlega hverjir hljóta styrki næstkomandi mánudag, 23. nóvember. R09090044
Samþykkt.

15. Kynnt er fjárhagsáætlun Strætó bs. R09110053

16. Kynnt er fjárhagsáætlun Íþrótta- og sýningarhallarinnar. R09110071

17. Kynnt er fjárhagsáætlun skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins. R09110073

18. Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hvar eru þær hugmyndir aðgengilegar sem gestir skrifuðu á miða og settar voru á spjöld í Tjarnarsalnum?
Hvað verður gert við hugmyndirnar?
Hver var kostnaðurinn af verkefninu? R09090017

19. Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Eins og kunnugt er hefur undirritaður lagt fram tillögu í borgarstjórn um sameiningu fagráða í borginni, þannig að þau verði 7 í stað 9. Þetta fæli í sér fækkun launaðra fulltrúa um 16 (af 72) í fagráðum borgarinnar. Hvað myndi þetta lækka mikið launaútgjöld hjá borginni? Hver má ætla að yrði fjárhagslegur sparnaður fyrir borgina af því að sameina velferðar- og mannréttindasvið annars vegar og mennta- og leikskólasvið hins vegar, eins og gert er ráð fyrir í tillögu minni um sameiningu fagráða og starfssviða borgarinnar? R08060011

20. Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hver yrði sparnaður á launaútgjöldum borgarinnar með því að lækka laun áheyrnarfulltrúa F-listans, niður í 70#PR af launum annarra kjörinna fulltrúa í 9 fagráðum og 10 hverfisráðum borgarinnar? Af því tilefni er spurt hver launakostnaður borgarinnar er vegna kjörinna fulltrúa hvers framboðs (B-lista, D-lista, F-lista, S-lista og V-lista) í sérhverju fagráði og sérhverju hverfisráði borgarinnar. Einnig er spurt hver yrði útgjaldalækkun borgarinnar vegna kjörinna fulltrúa í hverfisráðum ef þau yrðu sameinuð í 5 úr 10? R08060011

Fundi slitið kl. 12.45

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Gísli Marteinn Baldursson Guðlaugur G. Sverrisson
Kjartan Magnússon Þorleifur Gunnlaugsson