Borgarráð - Fundur nr. 5090

Borgarráð

BORGARRÁÐ


Ár 2009, fimmtudaginn 12. nóvember, var haldinn 5090. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.45. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:


1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 22. október. R09010008

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 8. október. R09010010

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 3. nóvember. R09010012

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Á fundi hverfisráðs Háaleitis 3. nóvember sl. kynnti ég fyrir fundarmönnum tillögu sem ég flutti síðar um daginn um umferðaröryggi og hraðahindrandi aðgerðir í Háaleitis- og Bústaðahverfi í Borgarstjórn Reykjavíkur. Í tillögunni var gert ráð fyrir 30 km svæði á Háaleitisbraut allri, á Bústaðavegi frá Háaleitisbraut að Reykjanesbraut, á Réttarholtsvegi öllum og á Stjörnugróf allri. Sumar aðgerðir í anda þessara tillagna hófust í borgarstjóratíð minni, m.a. velheppnaður 30 km kafli á Háaleitisbraut norðan Miklubrautar, auk hraðahindrandi aðgerða á Fellsmúla og Réttarholtsvegi. En eftir að núverandi meirihluti tók skyndilega við stjórnartaumum í borginni var jafn skyndilega skrúfað fyrir allar umferðaröryggisaðgerðir í Háaleitishverfi, sem og annars staðar í borginni, en þessar tillögur hafði ég sett á dagskrá eftir fundi mína með íbúum í öllum hverfum Reykjavíkurborgar vorið 2008.Tillaga mín í borgarstjórn 3. nóvember sl. var svæfð eins og fjölmargar aðrar tillögur sem ég hef flutt í borgarráði og borgarstjórn á þessu og síðasta ári. Það virðist engin áhrif hafa á meirihlutann í borgarstjórn þó að hverfisráð Háaleitis, að meðtöldum fulltrúum íbúasamtaka Háaleitis- og Bústaðahverfa, hafi á fundi sínum fyrr um daginn lýst eindregnum og einróma stuðningi við tillögu mína um hraðahindrandi aðgerðir í Háaleitis- og Bústaðahverfi.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Umferðaröryggismál eru forgangsmál fyrir meirihlutann í Reykjavík. Á undanförnum árum hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða til að auka umferðaröryggi, bæði á þessu kjörtímabili og fyrr. Þrjátíu kílómetra hverfum hefur verið fjölgað og nýlega var samþykkt að gera tilraunir með að lækka hámarkshraða úr 50 km/klst í 40 km/klst á safngötum í borginni. Ólafur F. Magnússon bar upp tillögu á síðasta borgarstjórnarfundi, samhljóða bókun þeirri sem hann leggur nú fram. Þar samþykktu allir borgarfulltrúar að vísa tillögunni til umsagnar samgöngustjóra borgarinnar, sem mun leggja til aðgerðir með hliðsjón af því hvað breytingarnar gætu þýtt fyrir nærliggjandi íbúahverfi, en ýmsir óttast að 30 km hámarkshraði á stofnbrautum og safngötum geti aukið hraða inni í hverfunum. Tryggja verður að það gerist ekki.

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 4. nóvember. R09010014

5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 28. október. R09010016

6. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 3. og 10. nóvember. R09010018

7. Lagðar fram fundargerðir skipulagsráðs frá 4. og 11. nóvember. R09010026
B-hlutar fundargerðanna samþykktir.

8. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 30. október. R09010030

9. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 2. nóvember. R09010028

10. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Strætó bs. frá 30. október og 4. nóvember. R09010032

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R09110004

12. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 28. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi skipulag svæðis undir nýjan Landspítala. R09100192
Frestað.

13. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 4. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi á lóð Vesturbæjarskóla vegna boltagerðis. R09110031
Samþykkt.

14. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 4. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Öskjuhlíðar vegna göngu- og hjólastíga. R09110034
Samþykkt.

15. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 4. s.m., um breytta skilmála deiliskipulags í Húsahverfi, svæði C. R09010108
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

16. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 4. s.m., um tillögu að deiliskipulagi Urðarstígsreita 1.186.0 og 1.186.4. R09070082
Samþykkt.

17. Lagður fram dómur Hæstaréttar frá 5. þ.m. í máli nr. 27/2009, Helgi Kristján Pálsson gegn Reykjavíkurborg. R07060079

18. Lagt fram svar borgarstjóra frá 10. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um húsnæðismál, sbr. 20. lið fundargerðar borgarráðs frá 22. f.m. R07020171

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Fulltrúi VG þakkar svarið en óskar eftir svörum við því hvaða annað húsnæði í eigu eða leigu borgarinnar stendur laust. Beðið er um upplýsingar um staðsetningu, fermetra hverrar byggingar og leiguverð ef um leiguhúsnæði er að ræða.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Það liggur fyrir að flutningur á miklum hluta starfsemi borgarinnar í rándýrt leiguhúsnæði Eyktar ehf. með tilheyrandi samningum til langs tíma, samrýmist ekki hagsmunum borgarbúa. Öllum átti að vera ljóst að fyrir jafn stóra rekstrareiningu og Reykjavíkurborg, er það hagkvæmast að eiga það húsnæði sem hún þarf að nota. Samfara stórfelldum flutningum í leiguhúsnæði stendur húsnæði í eigu borgarinnar laust út um allan bæ. Það liggur því fyrir að einkavæðingarstefna meirihlutans hefur og mun stórskaða borgarbúa.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Höfðatorgsmálið ber í senn vott um svæsna fyrirgreiðslupólitík í þágu byggingarfélagsins Eyktar og óráðsíu allra flokka í borgarstjórn nema F-listans. Það lýsir yfirgengilegum skorti á ráðdeildarsemi með almannafé að borgin taki á leigu húsnæði fyrir milligöngu pólitískra fyrirgreiðslumanna í stað þess að nýta vel eigið húsnæði.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Ekkert er hæft í fullyrðingum minnihlutans og skal vakin athygli á því að einn leigusamningur á Höfðatorgi var gerður í meirihlutatíð þeirra. Upphaf málsins má rekja til áranna 2004 og 2005 þegar unnið var að hugmyndum um að færa starfsemi skipulags- og byggingarsviðs, umhverfis- og samgöngusviðs og framkvæmda- og eignasviðs undir sama þak. Á þeim tíma bjó skipulags- og byggingarsvið við þröngan kost í Borgartúni 3 og umhverfis- og samgöngusvið var í leiguhúsnæði með leigusamning fram á mitt ár 2007. Talin voru veruleg tækifæri felast í því að þessi svið, auk annarrar starfsemi borgarinnar, nýttu sameiginlegt húsnæði. Metnir voru kostir þess að Reykjavíkurborg myndi byggja sjálf undir starfsemina. Voru það einkum tveir kostir sem til greina komu, annars vegar að byggja á lóð borgarinnar við Tryggvagötu og hins vegar að rífa Borgartún 1 og 3, byggja á lóðinni nýjar byggingar og tengja þær yfir í Skúlatún 2, sem einnig var í eigu borgarinnar. Hvorugur þessa kosta var af sviðsstjórum fyrrnefndra sviða talinn fýsilegur. Því var leitað eftir því að leigja eða kaupa húsnæði. Á þessum tíma voru aðeins tvö hús í byggingu í Reykjavík nægilega stór fyrir þessa starfsemi og sem bauð upp á hentuga staðsetningu. Það voru Borgartún 8–16 og Borgartún 26. Því var ákveðið að leita eftir annað hvort kaupum eða leigu á þessum húsum og bjóða eignir Reykjavíkurborgar til kaups á móti. Framkvæmda- og eignasvið gerði verðkönnun hjá þessum aðilum auk þess að láta fasteignasala meta söluverðmæti þeirra eigna sem Reykjavíkurborg hugðist selja á móti. Hvorugt húsanna var til sölu en eigendur voru tilbúnir að leigja Reykjavíkurborg og var tilboð Höfðatorgs ehf. hagstæðara er varðar leiguverð. Í Borgartúni 12–14 er mjög fjölbreytt starfsemi Reykjavíkurborgar og með leigu á því voru húsnæðismál sviða og deilda sem þá voru í of litlu húsnæði leyst. Alls eru starfsstöðvar fyrir um 450 starfsmenn borgarinnar í húsinu. Í augnablikinu er ekkert rými á Höfðatorgi ónotað en talið er að það mætti þrengja frekar á ýmsum starfsstöðvum og koma fleira starfsfólki fyrir. Eina leiðin til að auka nýtinguna á Höfðatorgi er með uppsögn leigusamninga við þriðja aðila eða sölu húsnæðis. Unnið er að útfærslum sem hafa það að markmiði að ná fram frekari hagræðingu í húsnæðismálum borgarinnar til framtíðar og þar með talið að auka nýtinguna á Höfðatorgi. Allar skrifstofur í Ráðhúsi eru í notkun en nokkur opin rými eru laus til afnota. Hins vegar mætti þétta betur í húsinu, eins og á Höfðatorgi og nýta það þannig betur. Tjarnargata 12 er ekki í notkun sem stendur en Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur lýst yfir áhuga á að koma upp safni í húsinu og einnig hefur Bílastæðasjóður áhuga á að færa sig úr Höfðatorgi og taka húsnæðið við Tjarnargötu á leigu. Varðandi annað laust húsnæði í eigu Reykjavíkurborgar þá er framkvæmda- og eignasvið að undirbúa ýmist sölu eða leigu á því húsnæði.

- Kl. 11.30 víkur Kjartan Magnússon af fundi.

19. Kynnt er fjárhagsáætlun Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. fyrir árið 2010. R09110046

20. Kynnt er fjárhagsáætlun Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2010. R09100258

21. Kynnt er starfs- og fjárhagsáætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. fyrir árið 2010. R09110047

22. Lagt fram bréf formanna Útvegsmannafélaga Reykjavíkur og Akraness frá 21. f.m. þar sem óskað er eftir að útvegsmenn fáið að skipa fulltrúa í stjórn Faxaflóahafna sf. R09100254

Samþykkt borgarráðs:

Borgarráð getur ekki fallist á að félög útvegsmanna í Reykjavík og á Akranesi fái heimild til að skipa áheyrnarfulltrúa í stjórn Faxaflóahafna sf. Stjórn félagsins er samkvæmt lögum og samþykktum félagsins vettvangur eigenda þess. Þar er m.a. fjallað um ýmis viðskiptamál fyrirtækja á starfssvæði Faxaflóahafna sf. sem lúta reglum um trúnað og því ekki fært að hagsmunaaðilar einnar starfsgreinar hafi rétt til setu á þeim fundum. Þá verður einnig að hafa í huga að á starfssvæði Faxaflóahafna sf. eru auk útgerðarfyrirtækja starfandi stór og smá fyrirtæki á ýmsum sviðum. Borgarráð lýsir ánægju með það sem fram kemur í erindinu að útvegsmenn hafi lengi átt gott samstarf við hafnir Faxaflóahafna sf. og telur mikilvægt að það dafni áfram. Er því beint til stjórnar Faxaflóahafna sf. að skoða með hvaða hætti megi styrkja frekar formleg samskipti fyrirtækisins og hagsmunaaðila varðandi almenna stefnumótun Faxaflóahafna sf. og áætlanir fyrirtækisins um uppbyggingu á hafnarsvæðum.

23. Lagt fram bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 30. f.m., sbr. samþykkt stjórnar Orkuveitunnar s.d., þar sem óskað er staðfestingar á þeirri ákvörðun stjórnarinnar að gefa út skuldabréf að fjárhæð allt að 10 milljörðum króna. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra, dags. 11. þ.m. R08120034
Vísað til borgarstjórnar.

Bókun borgarráðs:

Borgarráð óskar eftir því að fjármálastjóri útbúi minnisblað um fjárhagslega stöðu Orkuveitunnar, fjárfestingaráform næsta árs og umsögn um áhrif nýs lánshæfismats. Minnisblaðið verði lagt fyrir borgarfulltrúa fyrir borgarstjórnarfund þar sem innlent skuldabréfaútboð OR verður afgreitt.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Ég mótmæli harðlega fyrirætlunum um lántökur til ósjálfbærra og óarðbærra orkuframkvæmda og orkusölu á undirverði hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Það lýsir fullkomnu ábyrgðarleysi af hálfu meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í borginni að ætla að skuldsetja Orkuveitu Reykjavíkur svo rækilega að komandi kynslóðir þurfa að bera skuldabaggann um langan aldur.

24. Lagt fram bréf menningar- og ferðamálasviðs frá 28. f.m., sbr. samþykkt menningar- og ferðamálaráð 26. s.m., þar sem lagt er til að Reykjavíkurborg sæki um að verða Bókmenntaborg UNESCO árið 2011. R09040074
Vísað til meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar.

25. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 3. þ.m. varðandi tillögu um að Kristínu Sigurey Sigurðardóttur verði seldur byggingaréttur fyrir einbýlishús á lóð nr. 94 við Haukdælabraut, með nánar tilgreindum skilmálum. R07020085
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

26. Lagt fram bréf ritara framkvæmda- og eignaráðs frá 5. þ.m., sbr. samþykkt framkvæmda- og eignaráðs 2. s.m., varðandi tillögu um að Berglindi Björk Halldórsdóttur verði seldur byggingarréttur fyrir einbýlishús á lóð nr. 102 við Haukdælabraut, með nánar tilgreindum skilmálum. R07020085
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

27. Lagt fram bréf ritara framkvæmda- og eignaráðs frá 5. þ.m., sbr. samþykkt framkvæmda- og eignaráðs 2. s.m., varðandi tillögu um að Styrktarfélagi vangefinna verði úthlutað byggingarrétti fyrir sambýli fatlaðra á lóð nr. 18 við Lautarveg, með nánar tilgreindum skilmálum. R07090098
Samþykkt.

28. Lagðar fram að nýju niðurstöður stýrihóps um orkustöðvar í Reykjavík, dags. 29. maí sl. Jafnframt lagðar fram umsagnir umhverfis- og samgönguráðs frá 27. f.m., skipulagsráðs frá 28. f.m. og framkvæmda- og eignaráðs frá 2. þ.m. R09060003

29. Lögð fram skýrslan Valddreifing og aukin lýðræðisleg ábyrgð, dags. sumarið 2009, ásamt minnisblaði skrifstofustjóra borgarstjóra, dags. 5. þ.m. R07100311

30. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar:

Hver er kostnaður borgaryfirvalda eða fyrirtækja á vegum borgarinnar vegna boðsferða kjörinna fulltrúa í Elliðaárnar? Hvaða borgarfulltrúar hafa þegið boð um veiði í Elliðaánum á þessu kjörtímabili þ.e. sumrin 2006, 2007, 2008 og 2009? Hver má áætla að sé kostnaður vegna sérhvers þeirra? Hverjir aðrir eru boðnir til veiða í Elliðaánum en borgarfulltrúar í Reykjavík á þeim dögum sem ætlaðir eru til veiða fyrir kjörna fulltrúa? Hefur í þeim kostnaði sem ætla má að felist í ókeypis veiðum á fráteknum veiðidögum fyrir borgarfulltrúa verið tekið tillit til veiða annarra aðila, s.s. embættismanna Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur ásamt stjórnarmönnum og starfsmönnum Orkuveitunnar? Brýnt er að fá kostnað vegna boðsferða í Elliðaárnar fram í dagsljósið, þannig að borgarfulltrúum gefist hér eftir tækifæri til að greiða allan kostnað vegna boðsferða sem þeir þiggja úr eigin vasa. Á sama hátt er spurt um kostnað vegna leikhúsferða borgarfulltrúa (oft ásamt mökum) á þessu kjörtímabili þ.e. árin 2006, 2007, 2008 og 2009. Hvaða borgarfulltrúar hafa þegið boð í leikhúsferðir hjá Leikfélagi Reykjavíkur á þessu kjörtímabili og á hversu margar sýningar? Hver má áætla að sé kostnaður vegna leikhúsferða sérhvers borgarfulltrúa eða annarra kjörinna fulltrúa (og maka þeirra) á þessu kjörtímabili, miðað við að fulltrúarnir hefðu greitt kostnað sinn (og maka) úr eigin vasa? R09090102

31. Lagt fram bréf Ólafs F. Magnússonar frá 10. þ.m. þar sem tilkynnt er að frá og með 1. desember nk. taki Ásdís Sigurðardóttir sæti Kjartans F. Ólafssonar sem áheyrnarfulltrúi F-lista í mannréttindaráði. Frá og með sama tíma tekur Guðsteinn Haukur Barkarson sæti Kjartans F. Ólafssonar sem áheyrnarfulltrúi F-lista í hverfisráði Vesturbæjar. Einnig tekur Guðsteinn Haukur Barkarson sæti Ólafs F. Magnússonar sem áheyrnarfulltrúi í vinnuhópi Reykjavíkurborgar um velferð barna. Loks tekur Jens Guðmundsson sæti varaáheyrnarfulltrúa í hverfisráði Breiðholts í stað Helgu Þórðardóttur. R09010096

32. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 11. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að greiða Strætó bs. auka stofnframlag, kr. 59.510.000 krónur til að styrkja stöðu fyrirtækisins í samræmi við ákvörðun stjórnar Strætó bs. frá 28. nóvember 2008. Framlagið fer af liðnum ófyrirséð, 09205.

Greinargerð fylgir tillögunni. R09110035
Frestað.

33. Lögð fram að nýju skýrsla starfshóps mannréttindaráðs og mannréttindaskrifstofu um þjónustu við innflytjendur dags. í október 2009. R09090064
Vísað til umsagnar stjórnar Alþjóðahúss.

34. Lagt fram bréf innkaupastjóra frá 20. f.m., sbr. samþykkt innkauparáðs 6. s.m., varðandi þátttöku í Procura+ verkefni ICLEI um innleiðingu vistvænna innkaupa. Jafnframt lagt fram bréf skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs frá 27. s.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs s.d., varðandi málið. R09010126
Samþykkt.

35. Lagt fram minnisblað innri endurskoðanda frá 12. f.m. um málsmeðferð varðandi úthlutun framlaga Reykjavíkurborgar til stjórnmálasamtaka. Jafnframt lagðar fram greinargerðir Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl. frá 16. desember sl. og 29. f.m. Þá er lagt fram minnisblað innri endurskoðanda frá 9. þ.m. R08120099

36. Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í fyrsta lagi er spurt um ferða-, dagpeninga- og annan kostnað vegna einnar ferðar Ólafs F. Magnússonar til Færeyja í borgarstjóratíð hans. Til samanburðar er spurt um samsvarandi kostnað vegna ótiltekins fjölda ferða Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í borgarstjóratíð hennar. Í öðru lagi er spurt í hversu margar ferðir Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur farið, samanlagða tímalengd ferða beggja borgarstjóranna og þar með fjarvistardaga frá störfum í Ráðhúsinu vegna þessara ferðalaga. Í þriðja lagi og til samanburðar er spurt um það hvort greitt hafi verið fyrir sérstaka fylgdaraðila borgarstjóranna í ferðalögum þeirra í nafni borgarstjóraembættisins. Og að gefnu tilefni er spurt hverjir greiddu þá þann kostnað? Í fjórða lagi er spurt hversu margir hefðbundnir borgarráðsfundir á fimmtudögum hafa verið felldir niður í tíð borgarstjóranna tveggja, fyrir utan þá hefð að tveir borgarráðsfundir eru jafnan felldir niður um hásumarið í júlí og/eða ágústmánuði? Í fimmta lagi er spurt um tíðni aukafunda borgarráðs vegna fjárhagsáætlunarvinnu árin 2006, 2007 og 2008, en í borgarstjóratíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur hafa þessir fundir verið felldir niður. Þar með hefur borgarráð sem er raunveruleg framkvæmdastjórn borgarinnar verið sniðgengið um að taka þann þátt í vinnu við undirbúning fjárhagsæáætlunar sem áratugahefð er fyrir. Þannig hefur borgarráð sett stórlega niður bæði sem lykilaðili í allri stjórnsýslu borgarinnar og sem lýðræðislegur vettvangur fyrir fulltrúa allra framboða, sem eiga kjörinn borgarfulltrúa. Sú tíð er nú liðin að allir borgarstjórnarflokkarnir hafi aðkomu að fjárhagsáætlunarvinnunni. Í sjötta lagi er spurt með hvaða rökum Hanna Birna Kristjánsdóttir kaus að senda sjálfa sig ásamt borgarfulltrúanum Degi B. Eggertssyni til útlanda að veita viðtöku viðurkenningu fyrir verkefnið 1, 2 og Reykjavík, sem Dagur B. Eggertsson átti hugmyndina að. Það var Ólafur F. Magnússon sem kom verkefninu 1, 2 og Reykjavík í framkvæmd og sat í því sambandi opna fundi með íbúum í öllum hverfum borgarinnar. Verkefnið hefur eins og mörg fleiri verkefni legið að mestu í dvala eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir varð borgarstjóri. Ennfremur er spurt með hvaða rökum Ólafi F. Magnússyni var ekki gefinn kostur á að veita viðtöku verðlaunum fyrir það mikla hreinsunar- og öryggisátak, sem hann stóð fyrir í miðborginni sumarið 2008. Í staðinn og án minnsta samráðs var framsóknarmaðurinn, Gestur Guðjónsson, sem aldrei hefur átt sæti í borgarstjórn og er nú horfinn af vettvangi nefndarstarfa fyrir Framsóknarflokkinn, sendur í ferðina. Ljóst er að Ólafur F. Magnússon hefði greitt sjálfur kostnað af slíkri ferð. Því er spurt: Hver greiddi ferð Gests Guðjónssonar til að veita viðtöku verðlaunum fyrir verkefni sem snerist um að snúa við því ófremdarástandi, sem verk Framsóknarflokksins í miðborginni allt frá árinu 1994 höfðu skapað? R09010053

37. Ályktun borgarráðs:

Í framhaldi af umræðu undanfarna daga um málefni Knattspyrnusambands Íslands áréttar borgarráð það ákvæði í mannréttindastefnu Reykjavíkur, sem skuldbindur borgaryfirvöld til að vinna gegn klámvæðingu og vændi. Í ljósi þess getur borgarráð ekki annað en brugðist við þegar slík mál komi upp hjá mikilvægum samstarfsaðila borgarinnar um íþróttir, uppeldi og forvarnir. Reykjavíkurborg hefur ætíð stutt myndarlega við íþróttahreyfinguna, enda brýnt að borgaryfirvöld stuðli að bættri heilsu og vellíðan borgarbúa í hvívetna. Starf í þágu barna og ungmenna er þar sérstaklega mikilvægt, enda forvarnargildi íþrótta óumdeilt. Brýnt er því að forsvarsfólk íþróttafélaga og sambanda ástundi þau vinnubrögð sem eru þessu góða og mikilvæga starfi til sóma. Í ljósi þess hvetur borgarráð Knattspyrnusambandið og önnur samtök íþróttahreyfingarinnar til að marka sér skýra stefnu um þessi mál og leita þannig leiða til að slík atvik, sem varpa skugga á annars afbragðs störf íþróttahreyfingarinnar, endurtaki sig ekki. R09110061


Fundi slitið kl. 14.30

Óskar Bergsson

Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Gísli Marteinn Baldursson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson