Borgarráð - Fundur nr. 5087

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2009, fimmtudaginn 15. október, var haldinn 5087. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 12. október. R09010007

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 1. október. R09010008

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 1. október. R09010010

4. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 13. október. R09010018

5. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 14. október. R09010026
Björk Vilhelmsdóttir víkur af fundi við meðferð málsins.
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

6. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 7. október. R09010032

7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. R09090140

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 24. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 23. s.m., um auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi útivistarsvæðis í Gufunesi. R09100180
Samþykkt.

9. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 7. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 30. f.m., þar sem óskað er heimildar til beitingar dagsekta til að knýja á um endurbyggingu eða nýbyggingu á lóð nr. 16 við Frakkastíg. R09100187
Samþykkt.

10. Lagt fram svar borgarstjóra frá 9. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um úttekt á kynbundnum launamun, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. s.m. R08020040

11. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar:
Borgarráð samþykkir að skipulags- og byggingarsviði verði falið að hraða vinnu við skipulag svæðis nýs Landspítala. Yfir standa viðræður ríkisins og lífeyrissjóða um að ráðist verði í byggingu spítalans og framkvæmdum flýtt til að mæta erfiðu atvinnustigi. Deiliskipulagi fyrir spítalann er ólokið og mikilvægt að markvisst verði unnið að málinu til að óvissa um skipulag tefji ekki hönnun og annan framgang málsins. Jafnframt verði hugað að þeim fjölmörgu sóknarfærum sem skapast geta með návígi spítalans, Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýri, sbr. fyrri tillögur Samfylkingarinnar í því efni. R09100192
Vísað til skipulagsstjóra til umsagnar.

12. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar:
Á borgarstjórnarfundi 19. maí sl. lögðu fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar fram tillögu um að skipa aðgerðahóp sem hafi það hlutverk að gera aðgerðaáætlun sem tryggi velferð barna í borginni eins og kostur er. Tillögunni var vísað til borgarráðs sem tók hana til afgreiðslu tæpum tveimur mánuðum síðar eða 2. júlí en þar var hún samþykkt og tilnefndur hópur borgarfulltrúa undir forsæti Jórunnar Frímannsdóttur. Aðgerðahópur um velferð barna hefur aðeins haldið einn fund fyrir einum og hálfum mánuði síðan og ekki hefur verið boðaður annar fundur. Þegar litið er til mikilvægis þess að kjörnir fulltrúar hafi yfirlit yfir aukinn vanda barna í vaxandi kreppu og geti lagt gott til þegar á bjátar er hægagangur í starfi hópsins skaðlegur sem rekja má til þess að enginn starfsmaður er til staðar. Því leggja fulltrúar VG og Samfylkingar til að aðgerðahópur um málefni barna fái til liðs við sig starfsmann. R08100231
Borgarráð samþykkir fyrir sitt leyti að aðgerðahópi verði fenginn starfsmaður.

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar óska bókað:
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar lýsa yfir ánægju með að nú sé aðgerðahópur um velferð barna kominn með starfsmann. Það er einlæg von okkar að þar með fari hópurinn að vinna af fullum krafti að þeim brýnu verkefnum sem fyrir liggja.

13. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarráð felur fjármálaskrifstofu borgarinnar að nálgast árshlutareikning Orkuveitu Reykjavíkur og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til glöggvunar fyrir borgarráð með tilliti til áhættu af fjárfestingaráformum OR fyrir A-hluta borgarsjóðs. Fjármálaskrifstofu er jafnframt falið að gera tillögur til ráðsins um gerð áhættumats þeirra þátta OR sem hugsanlega geta ógnað fjárhagslegu öryggi borgarinnar. R07090015

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:
Borgarráð samþykkir að vísa tillögu Vinstri grænna frá með þeim rökstuðningi að það hlýtur að teljast hlutverk fjármálaskrifstofu að greina ársreikninga og árshlutauppgjör samstæðu Reykjavíkurborgar og gera borgarfulltrúum m.a. grein fyrir því ef sérstakar áhættur eru í rekstri eða rekstrarumhverfi borgarinnar. Fjármálaskrifstofa fylgir uppgjörum úr hlaði með skýrslum sem hafa m.a. þennan tilgang. Á það skal sérstaklega bent að í skýrslu fjármálaskrifstofu með 6 mánaða uppgjöri sem lagt er fram í borgarráði í dag fylgir reifun á árshlutareikningi Orkuveitu Reykjavíkur.

Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Tillaga Vinstri grænna um möguleika á áhættumati ákveðinna þátta Orkuveitu Reykjavíkur hefur hvað eftir annað verið sett á dagskrá borgarráðs og jafnharðan tekin af henni aftur. Nú þegar tillagan fæst loksins afgreidd er það gert til að vísa henni frá. Þessi vandræðagangur meirihlutans er til marks um óöryggi þegar kemur að málefnum Orkuveitunnar. Skuldir OR eru á þriðja hundrað milljarða króna og í þessari stöðu er sú spurning áleitin hvort ekki sé rétt að hægja á fjárfestingum eða jafnvel stöðva þær um tíma á meðan fyrirtækið er að ná betra jafnvægi. Til þess að borgarráðsfulltrúar geti tekið upplýsta umræðu um þetta þurfa þeir að hafa í höndum úttekt eða áhættumat og í ljósi aðstæðna væri eðlilegt að fjármálaskrifstofa borgarinnar framkvæmdi það en hún hefur lýst áhyggjum sínum af því að B-hluta fyrirtækin hafi stöðugt fjarlægst borgina. Úr því sem komið er, er það hins vegar von borgarráðsfulltrúa VG að umræðan verði til þess að borgarfulltrúar verði betur upplýstir um stöðu Orkuveitu Reykjavíkur.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Eins og fram kemur í frávísunartillögu meirihlutans er það eftirlit og áhættugreining sem borgarfulltrúinn nefnir hluti af verkefnum fjármálaskrifstofu Reykjavíkur. Sérstök samþykkt þar um er því óþörf.

14. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 30. f.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 28. s.m., um breytingar á reglum um styrkúthlutanir úr forvarnarsjóði Reykjavíkurborgar. R07010164
Samþykkt.

15. Lagt fram bréf formanns starfshóps um skráningu siðareglna kjörinna fulltrúa frá 14. þ.m., ásamt drögum að siðareglum kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg, dags. 13. s.m., og drögum að reglum um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar, dags. 10. f.m. R07060032

Borgarráð samþykkir hjálagðar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg og að þær verði lagðar fyrir borgarstjórn til staðfestingar og borgarfulltrúa til undirritunar á fundi borgarstjórnar þann 20. október nk. Borgarráð samþykkir einnig að settar verði reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum þeirra utan borgarstjórnar, en að fyrirliggjandi drögum verði vísað til forsætisnefndar til afgreiðslu.

Bókun borgarráðs:
Borgarráð fagnar því að settar séu siðareglur fyrir kjörna fulltrúa. Samstaða hefur ríkt á vettvangi borgarstjórnar um mikilvægi slíkra reglna, eins og fram kemur í samþykkt borgarstjórar frá 5. júní 2007.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Undirritun borgarfulltrúa á siðareglum fyrir kjörna fulltrúa er ekki pappírsins virði í ljósi þeirrar staðreyndar að fimm af sjö borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokks sem undirrituðu málefnasamning árið 2008 um meirihlutamyndun með F-listanum, meintu ekki eitt einasta orð af því sem þeir undirrituðu. Miðað við það upplausnarástand, blandað mannorðsveiðum, sem ríkt hefur á þessu kjörtímabili og hefur ekki síst verið kynt undir af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins, að undanskildum Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og Kjartani Magnússyni, verður það að teljast bíræfni af hálfu borgarfulltrúa að ætla að setja fögur orð á blað og kalla það siðareglur. Enn er reynt að draga lappirnar við að upplýsa um framlög í prófkjörum til kjörinna fulltrúa. Á meðan þessi framlög eru enn á huldu eru flestir borgarfulltrúar í Reykjavík vanhæfir til að gegna þeirri skyldu sinni að hlýta ávallt sannfæringu sinni sem kjörnir fulltrúar. Þetta gildir alveg sérstaklega um borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Sérstök lög um fjárreiður stjórnmálaflokka hafa verið sett og er þeim m.a. ætlað að taka á þessum atriðum og taldi undirbúningshópur um skráningu siðareglna að 2. gr. reglnanna vísaði til þeirra eins og annarra laga sem fjalla um starfssvið sveitarstjórnarmanna. Drög að siðareglum voru send öllum borgarstjórnarflokkum til umsagnar og bárust umsagnir og ábendingar frá öllum flokkum nema borgarstjórnarflokki Ólafs F. Magnússonar. Þó hafði hann með bókun í borgarráði 4. júní sl. lýst því yfir að nýjar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa væru í sjálfu sér ágætar og boðað að afstaða hans yrði lögð fram með formlegum hætti á næsta borgarráðsfundi þar á eftir. Engin umsögn barst.

16. Rætt um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga hvað varðar málefni fatlaðra. R09030071

17. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarráð felur Orkuveitu Reykjavíkur að ráðstafa þeim veiðidögum sem teknir hafa verið frá fyrir Reykjavíkurborg til framleigu til Stangaveiðifélags Reykjavíkur.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Jafnframt lögð fram umsögn stjórnar Stangaveiðifélags Reykjavíkur, dags. 9. þ.m. R09090102

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:
Umrætt samkomulag er, eins og fram kemur í fyrirspurninni, milli OR og Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Borgarfulltrúum er í sjálfsvald sett hvort þeir þiggja umrætt boð um veiði í Elliðaánum. Með hliðsjón af því og þeirri umsögn sem borist hefur frá SVFR er tillögunni vísað frá.

Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Frávísunartillaga meirihlutans er óskiljanleg í ljósi þess að meirihluti stjórnar Orkuveitunnar vísaði á borgina með eftirfarandi frávísunartillögu þegar samsvarandi tillaga var lögð fram á stjórnarfundi OR: „Með vísan til samnings Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur frá 27. desember 2001, þar sem kemur fram að það er eigandi ánna – Reykjavíkurborg – sem áskilur sér rétt til að ráðstafa fimm veiðidögum í Elliðaánum ár hvert, vísar stjórn OR frá tillögu Þorleifs Gunnlaugssonar dags. 20. ágúst sl.“ Þarna vísar hver á annan í þeim augljósa tilgangi að þæfa málið og firra sig ábyrgð. Kurteisislegt svar Stangaveiðifélags Reykjavíkur kemur ekki á óvart og sjálfsagt er nokkuð til í því að veiðar borgarfulltrúa í ánum, á árum áður, hafi átt sinn þátt í því að vernda þær. Í dag höfum við hinsvegar öflugt umhverfiseftirlit sem umhverfis- og samgöngusvið og umhverfis- og samgönguráð sinna með sóma, með þessari á sem og öðrum ám og vötnum í borgarlandinu. Veiðar borgarfulltrúa og embættismanna í Elliðaánum eru barn síns tíma sem eiga sjálfsagt rætur sínar að rekja til þess tíma þegar borgarfulltrúar voru mun lægra launaðir en þeir eru í dag. Nú er öldin önnur og enginn borgarfulltrúi er með laun undir 500.000 kr. á mánuði og ættu þeir því að geta borgað fyrir sín veiðileyfi sjálfir. Í svari Stangaveiðifélagsins segir að undanfarin ár hafi mun færri fengið en viljað veiðileyfi í ánum vegna mikillar eftirspurnar. Fimm dagar í Elliðaánum á besta tíma jafngilda 60 veiðileyfum sem annars yrðu seld til félaga SVFR. Sala veiðileyfanna ætti jafnframt að færa borginni aukna fjármuni en ekki ætti að þurfa að fjölyrða um það að borgin á við mikla fjárhagsörðugleika að etja og mikill niðurskurður er framundan ef marka má meirihlutann.

- Kl. 11.50 víkur Ólafur F. Magnússon af fundi.

18. Kynnt er rekstraryfirlit ágústmánaðar. R09020033

19. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2009, ásamt skýrslu fjármálaskrifstofu, dags. 14. þ.m. R09080038

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið janúar til júní 2009 staðfestir ábyrgð og árangur í rekstri Reykjavíkurborgar. Rekstrarniðurstaða A-hluta fyrir fyrstu sex mánuði þessa árs er mun betri en samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir tímabilið eða sem nemur 227 milljónum króna. Rekstrarniðurstaðan fyrir fjármagnsliði eftir fyrstu sex mánuði ársins er 1,2 milljörðum betri en endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir. Þökk sé auknu aðhaldi í rekstri Reykjavíkurborgar, sem ráðist var í þegar um mitt síðasta ár, hefur tekist að ná verulegum árangri. Starfsmenn og stjórnendur hafa lagst á eitt til að halda kostnaði niðri og standa vörð um grunnþjónustu, störf og gjaldskrár. Rekstrarniðurstaða aðalsjóðs er 2,1 milljarði betri en fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir sem hlýtur að teljast mjög góður árangur. Niðurstaða aðalsjóðs vegur upp lakari afkomu eignasjóðs sem rekja má til lakara gengis og meiri verðbólgu en spáð var og lítillar sölu byggingarréttar. Væntingar um styrkingu gengis og lægri verðbólgu hafa ekki gengið eftir, sem hefur áhrif á eignasjóð og fyrirtæki borgarinnar, rétt eins og öll önnur fyrirtæki landsins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Eftir bókun meirihluta borgarstjórnar vegna sex mánaða uppgjörs neyðist minnihlutinn til að bóka orðréttan upphafskafla samantektar fjármálaskrifstofu Reykjavíkur um uppgjörið þar sem ekki vottar fyrir því í bókun meirihlutans að tekið sé mið af meginniðurstöðum þess. Það er hluti þeirrar afneitunar um alvarlega stöðu Reykjavíkurborgar sem hefur valdið því að meirihlutinn frestaði í upphafi sumars niðurskurðarvinnu mánuðum saman, auk þess að byggja komandi fjárhagsáætlun m.a. á óskum um arðgreiðslur fyrirtækja borgarinnar sem eru augljóslega í kröppum dansi. Í samantekt fjármálaskrifstofu segir í upphafsorðum, orðrétt: „Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B-hluti, var neikvæð um 12.742 m.kr. en áætlun ársins gerði ráð fyrir 9.414 m.kr. tekjuafgangi. Viðsnúningurinn nam rúmlega 22.161 m.kr.“ Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 1.443 m.kr. þrátt fyrir hærri skatttekjur vegna útgreiðslu séreignasparnaðar. Veruleg óvissa er um endanlegar upphæðir í fjárhagsaðstoð, húsaleigubætur og þróun skatttekna á síðari hluta árs. Skatttekjur geta dregist hratt saman vegna þess að hægjast muni á útgreiðslu séreignasparnaðar og vegna mikils brottflutnings íbúa frá Reykjavík en Reykjavíkingum fækkaði um 1.047 eða 0,4#PR. Vert er að vekja athygli á góðum árangri málaflokka í aðhaldi og sparnaði. Meginatriði sex mánaða uppgjörs eru þó þannig saman dregin af fjármálaskrifstofu: „Mikill viðsnúningur varð í rekstri og efnahag samstæðunnar á síðasta ári í samanburði við síðustu þrjú ár, sem má rekja til gengisfalls krónunnar. Ekki hafa orðið breytingar á þessari þróun það sem af er þessu ári. Eiginfjárhlutfall, skuldsetningarhlutfall og veltufjárhlutfall og greiðsluhæfið hafa farið versnandi og arðsemi eiginfjár er neikvæð.“ Þetta er það umhverfi sem við er að eiga og mikilvægt er að þeim vanda sem við er að eiga verði ekki velt fram í tímann í stað þess að takast á við hann af festu og ábyrgð.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Reykjavíkurborg fór í gegnum mjög mikla hagræðingu í tengslum við gerð endurskoðun fjárhagsáætlunar fyrir þetta ár og minnihlutinn var óspar á að lýsa því yfir að sú fjárhagsáætlun væri óraunhæf. Það reynist hún hins vegar ekki vera, enda standast áætlanir og gott betur sem hlýtur að teljast „mjög góður árangur“ eins og sagt er orðrétt í greinargerð fjármálaskrifstofu. Þetta veit minnihlutinn og viðurkennir að góðum árangri sé náð í aðhaldi og sparnaði málaflokka. Varðandi rekstrarniðurstöðu samstæðunnar kjósa fulltrúar minnihlutans að segja aðeins hálfa söguna og vísa aðeins í hluta úr umsögn fjármálaskrifstofu en þar kemur einnig fram: „Meginástæðu þessa má rekja til gengisþróunar og erlendra skulda Orkuveitu Reykjavíkur. En grunnrekstur Orkuveitunnar er sterkur og vaxtakostnaður hefur farið lækkandi vegna lækkandi vaxta erlendis. Um leið og gengið tekur að hækka að nýju mun hagur fyrirtækisins vænkast hratt og miðað við spár um gengisþróun má gera ráð fyrir að eiginfjárhlutfallið verði aftur orðið ásættanlegt þegar á árinu 2011.“

20. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. í dag, varðandi endurskoðaða úthlutun fjárhagsramma fyrir árið 2010 og endurskoðaða tímaáætlun fjárhagsáætlunarvinnunnar. R09050032
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna í borgarráði hafa ekki verið hafðir með í ráðum við mótun tillögu borgarstjóra að úthlutun eða endurskoðun fjárhagsramma til einstakra sviða og fyrirtækja borgarinnar. Vakin er sérstök athygli á því að enn hefur ekki verið reiknaður raunniðurskurður einstakra fagsviða Reykjavíkurborgar þar sem engar verðbætur eru reiknaðar ofan á fjárhagsramma auk þess niðurskurðar sem borgarstjóri leggur til. Minnihlutinn vill því ítreka sérstaka fyrirvara á raunhæfni fyrirliggjandi grunns að auknum niðurskurði, auknum arðgreiðslum og tímaramma við undirbúning fjárhagsáætlunar næsta árs. Enda liggur engin úttekt á raunhæfni fyrir, hvorki um arðgreiðslur né niðurskurð. Fulltrúar minnihlutans kölluðu eftir endurskoðun fjárhagsáætlunar og þriggja ára áætlunar þegar í sumarbyrjun. Í ljósi nýrrar þjóðhagsspár blasti þá við að augljóst var að milljarða niðurskurður væri framundan. Því var hafnað og meirihlutinn kaus að stinga höfðinu í sandinn. Það voru alvarleg mistök. Nú er skólaár og önnur starfsemi vetrarins þegar hafin og ljóst að einstök svið eru í afar þröngri stöðu til að ná settu marki, sérstaklega á þeim skamma tíma sem gefinn er.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það er ekki rétt að halda því fram að fulltrúar minnihlutans hafi ekki verið með í ráðum við mótun umræddra tillagna eða að ekki liggi fyrir úttektir á einstaka þáttum, enda hefur tillagan verið til umfjöllunar í aðgerðahópi borgarráðs þar sem borgarstjóra var falið að vinna tillöguna ásamt fjármálastjóra. Það var gert í samræmi við sameiginlega afstöðu fulltrúa allra flokka að forgangsraða í anda aðgerðaáætlunar borgarstjórnar og leggja þar sérstaka áherslu á grunnþjónustu, börn og velferð. Að auki var tillagan kynnt og rædd á sameiginlegum fundi fulltrúa allra flokka í fagráðum borgarinnar sl. föstudag. Allt eru þetta merki um ný vinnubrögð á vettvangi Borgarstjórnar Reykjavíkur. Það er hins vegar hárrétt að tillagan er lögð fram af borgarstjóra og meirihlutanum, sem áfram væntir góðs samstarfs við minnihlutann um fjármál borgarinnar á þessum erfiðu tímum í efnahags- og atvinnuumhverfi borgarinnar.

21. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R09100005

22. Lagt fram bréf formanns Hestamannafélagsins Fáks frá 5. þ.m. þar sem óskað er eftir stuðningi Reykjavíkurborgar við umsókn félagsins um að halda landsmót hestamanna árið 2012. R09100208

Borgarráð lýsir yfir stuðningi við umsókn Hestamannafélagsins Fáks um að halda landsmót hestamanna í Reykjavík árið 2012. Erindið jafnframt sent íþrótta- og tómstundaráði til kynningar.

23. Lagður fram viðaukasamningur um þjónustu Alþjóðahússins ehf. við Reykjavíkurborg, dags. 12. þ.m., ásamt bréfi mannréttindastjóra, dags. s.d. R09070058

Borgarráð óskar eftir upplýsingum um hvernig fjárstuðningi borgarinnar til Alþjóðahúss er varið á þessu ári í þágu innflytjenda sem búsettir eru í Reykjavík, svo og sundurliðun milli einstakra þjónustuþátta, þ.m.t. upphæðir og fjölda þeirra sem njóta þjónustunnar. Þá er jafnframt óskað eftir sundurliðuðum upplýsingum um þær greiðslur sem Reykjavíkurborg hefur innt af hendi utan þjónustusamnings fyrir túlkaþjónustu, þýðingar og íslenskukennslu á árunum 2008-2009.

Afgreiðslu málsins frestað.

24. Lagt er til að Kolfinna Jóhannesdóttir verði varamaður í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í stað Vigdísar Hauksdóttur. R09060016
Vísað til borgarstjórnar.

25. Lagt fram bréf Mauraþúfunnar frá 4. f.m. varðandi afnot af Laugardalshöll undir fyrirhugaðan þjóðfund Mauraþúfunnar 2009. R09090036
Borgarráð samþykkir að Reykjavíkurborg komi að fyrirhuguðum þjóðfundi með þeim hætti að ljá fundinum afnot af Laugardalshöll þann 14. nóvember nk. Framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs er falið að halda utan um frekari samskipti við forsvarsmenn fundarins.

Fundi slitið kl. 13.50

Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Gísli Marteinn Baldursson Kjartan Magnússon
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson