Borgarráð - Fundur nr. 5085

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2009, fimmtudaginn 24. september, var haldinn 5085. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.30. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Oddný Sturludóttir, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 8. september. R09010006

2. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Grafarvogs frá 25. ágúst og 3. september. R09010011

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 15. september. R09010013

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 8. september. R09010015

5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 10. september. R09010016

6. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 11. september. R09010017

7. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 23. september. R09010026
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

8. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 18. september. R09010030

- Kl. 10.00 tekur Ólafur F. Magnússon sæti á fundinum.

9. Lögð fram fundargerð stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 9. september. R09010031

10. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 18. september. R09010027

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R09080080

12. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Í kjölfar andláts eins merkasta aðgerðarsinna samtímans samþykkir borgarráð að standa fyrir hugmyndasamkeppni um minnisvarða um Helga Hóseasson á horni Langholtsvegar og Holtavegar. Gert verði ráð fyrir framkvæmd verksins í fjárhagsáætlun borgarinnar árið 2010.

Jafnframt er lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar:
Borgarráð samþykkir að skipulags- og byggingarsviði verði, í samráði við menningar- og ferðamálaráð, falið að gera tillögu að staðsetningu minnisvarða um Helga Hóseasson á horni Langholtsvegar og Holtavegar. R09090062

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:
Hópur einstaklinga hefur lýst áhuga á því að minningu Helga Hóseassonar verði með einhverjum hætti gerð skil á horni Langholtsvegar og Holtavegar. Hópurinn stendur fyrir söfnun fjár til verksins og hefur uppi ýmsar hugmyndir um útfærslu á minnisvarðanum. Það er skoðun meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að virða beri frumkvæði þessara aðila og að það sé því ekki tímabært að Reykjavíkurborg ákveði nákvæmlega með hvaða hætti best sé að halda á málinu. Borgarstjóri hefur þegar hitt forsvarsmann söfnunar sem mun á næstu vikum senda erindi til borgarinnar með hugmyndum hópsins, sem þá mun verða send til hverfisráðs og þeirra fagráða sem um málið þurfa að fjalla. Tillögum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar og Vinstri grænna er því vísað frá.

Frávísunartillagan samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Samfylkingin er sátt við afgreiðslu málsins enda var tillögu Samfylkingarinnar ætlað að setja málið á dagskrá innan borgarkerfisins og kveða á um mikilvægi aðkomu fagráða skipulags- og byggingamála og menningar- og ferðamála.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Helgi Hóseasson var merkur maður sem vert er að minnast á viðeigandi hátt. Tillaga borgarráðsfulltrúa VG er um að efnt verði til hugmyndasamkeppni á vegum borgarstjórnar um það hvernig best væri að gera það af virðingu við Helga og látlaust í hans anda. Þetta þyrfti ekki að vera fjárfrekt eða umfangsmikið en ljóst er að margir vilja láta sig málið varða og því undarlegt að tillögunni sé vísað frá.

13. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarráð samþykkir að fela framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs að leita leiða til að áfram verði hægt að reka miðstöð fyrir ungt fólk í atvinnuleit í Austurbæjarbíói. Niðurstaða málsins verði lögð fyrir borgarráð sem fyrst.

Greinargerð fylgir tillögunni. R09050084

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:
Borgarstjórn samþykkti í vor að styðja við ungt fólk sem var án sumarvinnu með því að veita fjárframlag til rekstrar miðstöðvar fyrir ungt fólk, Hús unga fólksins, í Austurbæjarbíó. Rekstur miðstöðvarinnar var samstarfsverkefni Hins hússins, Lýðheilsustöðvar og Rauða krossins og einungis hugsað sem tímabundin lausn í sumar. Flest ungmennanna sem sóttu miðstöðina í sumar eru nú komin í skóla. Í dag hefur Hitt húsið aðstöðu bæði í Pósthússtræti 3-5 og að Lindargötu 48. Um leið og starfsfólki Hins Hússins og í Húsi unga fólksins í Austurbæjarbíó er þakkað fyrir afar gott starf í sumar er því treyst að komi upp þörf á viðbótaraðstöðu fyrir ungt fólk í vetur þá verði henni fundinn staður innan þess húsnæðis sem Hitt húsið hefur nú þegar til umráða. Tillögu borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna er því vísað frá.

Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Frávísunartillaga meirihlutans er til marks um að hann neiti að horfast í augu við ástandið í samfélaginu. Þörfin hjá atvinnulausum ungmennum á aldrinum 16-25 ára verður ekki minni í vetur en var í sumar. Ljóst er að kostnaður við rekstur hússins er óverulegur, enda hefur nýr eigandi hússins gefið vilyrði um áframhaldandi afnot af því endurgjaldslaust og reksturinn hefur staðið undir sér að talsverðu leyti. Verkefnið er því í alla staði hagkvæmt og gríðarlega mikilvægt fyrir ungmenni. Þó vissulega sé stór hluti þeirra ungmenna sem nýttu húsið í sumar farinn í skóla er vitað að eitthvað brottfall mun eiga sér stað strax á haustmánuðum. Nauðsynlegt er að þá séu til staðar úrræði fyrir ungmennin þar sem þau geta upplifað sig sem virka þátttakendur og samfélagsþegna.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Umrætt verkefni var tímabundið og lauk 31. ágúst sl. Hitt húsið, sem starfrækt er á vegum ÍTR, hefur atvinnumál ungs fólks formlega með höndum og sinnir þeim málaflokki með margvíslegum hætti. Fjöldi ungs fólks á aldrinum 16-25 ára leitar til atvinnuráðgjafa Hins hússins sem veita margvíslega ráðgjöf og aðstoð við atvinnuleit. Verði ákvörðun tekin um að auka fjárveitingar til atvinnumála ungs fólks mælir margt með því að þjónusta sé aukin með því að efla þá starfsemi á hagkvæman hátt, sem þegar er fyrir hendi, í stað þess að stofna nýjar starfsstöðvar og auka þar með fastan kostnað.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi tillögu:
Í ljósi þess að ekki verður framhald á starfsemi Austurbæjar þarf að koma til sérstakrar rýni á það hvernig ungu fólki sem hvorki fótar sig í framhaldsnámi né á vinnumarkaði verði mætt. Því leggur Samfylkingin til að borgarráð samþykki að atvinnumálanefnd borgarinnar og Hitt Húsið marki stefnu fyrir þennan sístækkandi hóp. Litið verði til þess hvernig núverandi starfsemi Hins hússins, þjónustumiðstöðvar og frístundamiðstöðvar í öllum hverfum geti þjónustað ungmenni betur.

Tillaga borgarráðsfulltrúa Samfylkingar samþykkt.

14. Lagt fram svar borgarstjóra frá 16. þ.m. við fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar um fjárframlög til F-listans, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. þ.m. R08120099

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Undirritaður mótmælir því „svari“ sem nú liggur fyrir frá borgarstjóra vegna ítarlegrar fyrirspurnar hans um fjárframlög til framboða í Borgarstjórn Reykjavíkur. Í upphafi „svars“ borgarstjóra er enn og aftur vitnað í bréf frá forsvarsmönnum Frjálslynda flokksins, dags. 26. ágúst sl., þar sem því er ranglega haldið fram að fjárstyrkur borgarinnar hafi runnið til „Ólafs F. Magnússonar, borgarfulltrúa“. Þessari svívirðilegu og upplognu aðdróttun er þannig enn haldið á lofti í svari borgarstjóra, en undirritaður hyggst ekki láta það viðgangast að borgarstjóri eða aðrir kjörnir fulltrúar Reykvíkinga endurómi upplognar aðdróttanir í garð undirritaðs. Í því sambandi minni ég á að ég hyggst höfða mál gegn Ríkisútvarpinu þar sem ég er þjófkenndur með svipuðum hætti. Sú staðhæfing í svarbréfi borgarstjóra að „ekki liggi fyrir álit í nafni borgarlögmanns er varðar fjárframlag borgarinnar til F-listans,“ er útúrsnúningur á þeirri staðreynd að fyrrverandi borgarlögmaður, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, hefur, sem starfandi hæstaréttarlögmaður, gefið út það álit að fjárframlagi borgarinnar sé ætlað að renna til framboða til sveitarstjórnar en ekki til flokka á landsvísu. Undirritaður óskar eftir því að leggja þetta skriflega álit fyrir næsta fund borgarráðs til að leiðrétta þá villukenndu umræðu sem borgarstjóri er, illu heilli, orðinn þátttakandi í. Jafnframt er gerð krafa um að því verði svarað á næsta fundi borgarráðs hversu háir styrkir hafi verið greiddir til annarra framboða í borgarstjórn á þessu ári og hversu há greiðslan verði til F-listans í borgarstjórn, þegar greiðslan vonandi berst til þess lögmæta aðila sem á að taka við hennii, en það er borgarmálafélag F-lista fyrir hönd borgarstjórnarflokks F-listans.

- Kl. 10.46 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum og Oddný Sturludóttir víkur af fundi.

15. Lögð fram að nýju drög að samningi Reykjavíkurborgar og nýs félags kaupmanna og annarra rekstraraðila í verslun og þjónustu í miðborg Reykjavíkur, dags. 11. þ.m., ásamt bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 14. s.m. R09090072
Borgarráð staðfestir samninginn fyrir sitt leyti með 6 samhljóða atkvæðum.

16. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs, dags. í dag. R09010038

17. Lagt fram bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 14. þ.m. varðandi undirbúning Orkuveitunnar að rafvæðingu samgangna. R09090081
Vísað til umhverfis- og samgönguráðs.

18. Lögð fram viðbragðsáætlun Reykjavíkurborgar við heimsfaraldri inflúensu, dags. 24. þ.m. R07050063
Samþykkt.

19. Rætt um öryggismál á Reykjavíkurflugvelli. R09070041

Bókun borgarráðs:
Borgarráð lýsir yfir áhyggjum vegna þeirrar ákvörðunar stjórnar Flugstoða ohf. að segja einhliða upp samningum við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um slökkvi- og björgunarþjónustu á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýri. Borgarráð tekur jafnframt undir bókun stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins vegna málsins þar sem m.a. er lögð áhersla á lykilþátt öryggismála í þjónustu flugvallarins og nauðsyn þess að virða þau. Borgarráð óskar einnig eftir upplýsingum frá eftirlitsaðilum með flugvallarstarfsemi um það hvernig á öryggismálum verður haldið og hvort það sé í samræmi við lög, reglur og starfsleyfi flugvallarins.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráðsfulltrúi VG leggur til að fjármálaskrifstofu og umhverfis- og samgöngusviði verði falið að kanna kosti þess að Reykjavíkurborg yfirtaki rekstur Reykjavíkurflugvallar.

Afgreiðslu tillögunnar frestað.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Ég fagna þeirri umræðu sem nú á sér stað um Reykjavíkurflugvöll og þá öryggishagsmuni sem borgaryfirvöldum, samgönguyfirvöldum og rekstraraðilum á Reykjavíkurflugvelli ber að tryggja. Vonandi slær þessi umræða á draumórakenndar hugmyndir í Borgarstjórn Reykjavíkur um flutning flugvallarins til Keflavíkur. Þvert á móti verður að stefna hratt og örugglega að því að styrkja öryggisþætti flugvallarins sem oft verða fyrir töfum vegna hringlandaháttar kjörinna fulltrúa í þessu þýðingarmikla máli.

20. Lagt er til að Brynjar Fransson taki varamannssæti Fannýjar Gunnarsdóttur í skipulagsráði og jafnframt að Ásgeir Ásgeirsson taki varamannssæti Brynjars í ráðinu. R08010168
Vísað til borgarstjórnar.

21. Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að Hugmyndaþing Reykjavíkur verði haldið í Ráðhúsi Reykjavíkur, sunnudaginn 25. október nk. Jafnframt er lagt til að borgarfulltrúar meirihluta og minnihluta komi í sameiningu að því að stýra hugmyndasmiðjum um málefni borgarinnar. Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum 1. september sl. samhljóða tillögu Framsóknarflokks og Sjálfstæðiflokks að slíkt þing yrði haldið fyrir lok október. Á þinginu er gert ráð fyrir að borgarbúar hafi tækifæri til að skipast á skoðunum um málefni borgarinnar og koma fram með hugmyndir um tækifæri og úrbætur. R09090017

Samþykkt.

22. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Ábendingar streyma nú inn frá flestum hverfum borgarinnar vegna veggjakrots. Hefur sigið mjög á ógæfuhliðina að undanförnu og hugsanlegt að ástandið hafi aldrei verið verra. Þetta er umhugsunarefni eftir þær stóryrtu yfirlýsingar sem gefnar hafa verið af hálfu borgarstjóra meirihlutans um „stríð gegn veggjakroti“ undanfarin misseri. Því er spurt:
1. Hver er stefna borgarstjóra í málefnum veggjakrots, liggja fyrir staðfestar áætlanir um hvernig á því ástandi sem nú hefur skapast skuli tekið?
2. Hvaða fjárveitingum var varið til baráttu gegn veggjakroti 2008, það sem af er ári 2009 og hvaða fjármunir verða ætlaðir til málsins árið 2010? R09090152

Fundi slitið kl. 12.30

Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Gísli Marteinn Baldursson Kjartan Magnússon
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson