Borgarráð - Fundur nr. 5084

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2009, fimmtudaginn 17. september, var haldinn 5084. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Gunnar Hólm Hjálmarsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.


Þetta gerðist:


1. Lögð fram afgreiðslufundargerð byggingarfulltrúa frá 15. september. R09010026
Samþykkt.

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 13. ágúst. R09010008

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 3. september. R09010009

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 8. september. R09010012

5. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 8. september. R09010018

6. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 31. ágúst. R09010030

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 4. september. R09010032

8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R09080080

9. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 10. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 9. s.m., um nafngiftir á götum á svæði Háskólans í Reykjavík og við Grafarholt. R05090009
Götuheitum í Vatnsmýri vísað á ný til skipulagsráðs. Samþykkt að öðru leyti.

10. Lagt fram svar borgarstjóra frá 16. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um samgöngustefnu fyrir Reykjavíkurborg, sbr. 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. þ.m. R08110068

Gunnar Hólm Hjálmarsson óskar bókað:
Eins og fram kemur í bókun Ólafs F. Magnússonar á síðasta borgarráðsfundi ríkir algert vilja- og getuleysi núverandi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í umhverfis- og samgöngumálum. Öll fyrirheit Sjálfstæðisflokks frá því í janúar 2008 um niðurfellingu strætófargjalda barna, unglinga, aldraðra og öryrkja, auk námsmanna hafa verið svikin.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Bókun áheyrnarfulltrúa F-listans er á misskilningi byggð. Hér er verið að fjalla um samgöngustefnu fyrir starfsmenn Reykjavíkurborgar. Hún hefur það að markmiði að sem flestir starfsmenn borgarinnar ferðist til og frá vinnu á umhverfisvænan hátt. Þetta er því eitt af fjölmörgum grænum skrefum sem meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur tekið til þess að bæta umhverfi og auðvelda samgöngur í Reykjavík og er órökstuddum árásum á þau vísað til föðurhúsanna.

11. Lagt fram svar borgarstjóra frá 16. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um félagið Miðborg Reykjavíkur, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. f.m. R09020067

12. Lögð fram drög að samningi Reykjavíkurborgar og nýs félags kaupmanna og annarra rekstraraðila í verslun og þjónustu í miðborg Reykjavíkur, dags. 11. þ.m., ásamt bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 14. s.m. R09090072
Frestað.

13. Lagt fram að nýju frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998, ásamt bréfi allsherjarnefndar Alþingis frá 4. f.m., þar sem óskað er eftir umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarpið. Jafnframt lögð fram umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 14. þ.m. R09080006
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum að vísa til umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarpið.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óska bókað:
Borgarráðsfulltrúarnir telja rétt og skylt að skoða leiðir við tilhögun kosninga til að mæta óskum kjósenda um aukið vald yfir því hvaða einstaklingar hljóta atkvæði þeirra og sitja í þeirra umboði sem kjörnir fulltrúar. Borgarráðsfulltrúarnir taka undir það sjónarmið sem endurspeglast í umsögn stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga að allar breytingar á kosningalögum þurfi ítarlega lýðræðislega umræðu og aðkomu sem flestra. Borgarráðsfulltrúarnir telja því, líkt og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, að gildistaka nýrra kosningalaga aðeins nokkrum mánuðum fyrir kosningar geti reynst flókin og jafnvel komið í veg fyrir að markmið breytinganna náist. Loks er eindreginn vilji Reykjavíkurborgar til að koma að endurskoðun laga um sveitarstjórnarkosningar ítrekaður og harmað að enginn kjörinn sveitarstjórnarfulltúi hafi átt sæti í þeirri nefnd sem fjallaði um þetta mikilvæga mál.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Fulltrúar Samfylkingarinnar í borgarráði vonast til þess að almenn umræða skapist í samfélaginu um persónukjör sem leiði til aukins vægis kjósenda við val á þeim einstaklingum sem verða í sveitarstjórnum í umboði þeirra. Vonandi verður tekið tillit til vilja almennings en ekki einungis umsagna frá sveitarstjórnarfólki sem augljóslega hefur hagsmuna að gæta sem fulltrúar flokkanna í núverandi kerfi. Frumvarpið sem nú liggur fyrir eykur vald kjósenda sem raða frambjóðendum þess flokks sem það kýs. Þótt ekki sé boðið upp á að velja fólk úr öllum flokkum yrði Ísland í forystu á Norðurlöndunum með samþykki frumvarpsins. Ýmsar athugasemdir hafa verið settar fram um frumvarpið en minna skal á að þær eiga ekki síður við í núverandi kerfi, sem hvorki tryggir jafnan rétt kynjanna né jafnræði milli frambjóðenda. Í útfærslu nýs kosningafyrirkomulags má taka tillit til margra þessara athugasemda. Stjórnvöld geta samhliða því að nýtt kerfi er kynnt, ítrekað og hvatt til jafnrar kynjaskiptingar og ný lög um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda eiga að stuðla að því að aukið jafnræði verði meðal frambjóðenda.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur jafnframt fram umsögn um frumvarpið, ódags.

14. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 14. þ.m., sbr. samþykkt menntaráðs 9. s.m., varðandi samþykki á starfsleyfi fyrir áframhaldandi starf Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík. R07070078
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Samfylkingin leggst ekki gegn umsókn Hjallastefnunnar um stofnun sjálfstætt rekins skóla í Reykjavík fyrir börn á yngsta stigi grunnskóla, að því gefnu að starfsleyfi frá ráðuneyti menntamála liggi fyrir, samanber 43. grein grunnskólalaga. Hins vegar árétta fulltrúar Samfylkingarinnar þá sýn sína að:
1. Sjálfstætt reknir skólar eigi ekki að innheimta skólagjöld. Öll börn eiga að sitja við sama borð, óháð efnahag.
2. Sjálfstætt reknir skólar séu skólar án aðgreiningar og opnir öllum börnum, óháð atgervi.
Athygli skal vakin á því að 26 börn eru skráð í skólann í 1. og 2. bekk. Samkvæmt upplýsingum sem liggja fyrir frá Barnaskóla Hjallastefnunnar er einn skólastjóri og fjórir kennarar starfandi við skólann. Þetta getur því varla talist hagkvæm rekstrareining og kemur spánskt fyrir sjónir á þessum tímum þegar svo mjög er þrengt að almennum grunnskólum og skólastjórnendur hafa þurft að grípa til þess ráðs að fjölga í bekkjardeildum.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fagna samþykkt ráðsins á umsókn fyrir áframhaldandi starfsemi Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík. Starfsemi skólans hefur aukið fjölbreytileika í skólastarfi í borginni og teljum við eðlilegt að menntaráð styðji við slíka þróun en reyni ekki að bregða fæti fyrir starfsemi sjálfstætt rekinna skóla.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi VG áréttar þá stefnu flokksins að grunnskólar borgarinnar eigi að vera reknir á samfélagslegum grunni svo öll börn fái notið sem bestrar menntunar óháð efnahag foreldra. Í ljósi núverandi aðstæðna í efnahagslífinu, þar sem grunnskólar borgarinnar hafa fengið fyrirmæli um að skera niður ýmsa þætti í rekstri sínum og gæta ítrasta aðhalds, er óhugsandi og raunar óréttlætanlegt að borgaryfirvöld ætli að leggja fé til rekstrar nýs einkaskóla. Það fé sem fer úr borgarsjóði til skólans mun skerða fjárframlög til grunnskóla borgarinnar. Við þessar kringumstæður, og einnig í ljósi þess að börnum fer fækkandi í grunnskólum borgarinnar, er það vond nýting á skattfé almennings að greiða fyrir stofnun nýs skóla fyrir börn fólks sem hefur fé aflögu til að greiða skólagjöld. Nýr sjálfstætt starfandi skóli er ekki það sem fjölskyldurnar í borginni þurfa mest á að halda í dag.

15. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 15. þ.m. varðandi tillögu að breytingu á samþykkt fyrir framkvæmda- og eignaráð. R09010055
Vísað til stjórnkerfisnefndar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Tillagan sem hér liggur fyrir þýðir fyrst og fremst að undirbúningur tillagna um úthlutun lóða færist frá borgarstjóra til formanns framkvæmda- og eignaráðs. Mikilvægt er að stjórnkerfisnefnd vinni ítarlegt mat á kostum og göllum þess áður en málið kemur til afgreiðslu borgarráðs.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Þessa tillaga gengur ekki út á neitt annað en að auka aðgengi kjörinna fulltrúa allra flokka í framkvæmda- og eignaráði að úthlutun lóða og sölu byggingarréttar. Það breytir engu um aðkomu borgarstjóra eða borgarráðs að afgreiðslu umræddra mála.

16. Kynnt er rekstraryfirlit júlímánaðar. R09020033

17. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 14. þ.m. þar sem óskað er heimildar til útboðs á innheimtu viðskiptakrafna og tengdri þjónustu fjármálafyrirtækja fyrir Reykjavíkurborg. R09090079
Samþykkt.

18. Lagður fram árshlutareikningur Sorpu bs. fyrir janúar til júní 2009. R09090061
Vísað til umsagnar fjármálaskrifstofu.

19. Lagt fram bréf hafnarstjóra frá 11. þ.m., sbr. samþykkt hafnarstjórnar s.d., varðandi endurskoðun fjárhagsáætlunar Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2009. R08120093
Vísað til umsagnar fjármálaskrifstofu.

20. Samþykkt er að Gísli Marteinn Baldursson taki sæti Jórunnar Frímannsdóttur í stjórnkerfisnefnd og verði jafnframt formaður nefndarinnar. R07100291

21. Lagt fram bréf borgarhagfræðings frá 15. þ.m. varðandi forsendur fjárhagsáætlunar 2010. R09050032

22. Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. í dag, varðandi úthlutun fjárhagsramma og gjaldskrár fyrir árið 2010 ásamt verk- og tímaáætlun við undirbúning fjárhagsáætlunar 2010. R09050032
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
1. Hversu margir starfsmenn hafa látið af störfum á þessu ári og hversu margir hafa verið ráðnir? Óskað er eftir þessum upplýsingum sundurliðuðum eftir fastráðningum og tímabundnum samningum.
2. Fyrr á árinu voru gerðir samningar við marga starfsmenn um lækkun launa og eins um lækkun bifreiðastyrkja sem voru sagðir gilda til áramóta. Verða samningarnir endurnýjaðir á sömu kjörum og áður? Hvenær þarf að tilkynna starfsfólki um fyrirætlanir borgarinnar í þessum efnum?
3. Vísitölubinding samninga var aftengd í ár, m.a. hjá Borgarleikhúsi, íþrótta- og æskulýðsfélögum og fleiri aðilum. Hverjar eru fyrirætlanir borgarinnar í þessum efnum fyrir árin 2009 og 2010?
4. Hafa verið haldnir samráðsfundir með sviðsstjórum og yfirmönnum á sviðum um þær niðurskurðaráætlanir sem nú liggja fyrir?
5. Verður staðið við ákvæði aðgerðaáætlunar borgarinnar um að þjónusta verði ekki skert, gjaldskrár verði óbreyttar og að staðinn verði vörður um störf á vegum borgarinnar við fjárhagsáætlunargerð næsta árs? Hafa sviðsstjórar fengið skilaboð um slíkt frá meirihlutanum?
6. Hvers vegna hafa sviðsstjórar og fagráð ekki fengið lengri tíma til að vinna tillögur að niðurskurði og sparnaði þegar ljóst er að um háar upphæðir er að ræða? Telur meirihlutinn að þessi vinnubrögð komi til með að skila árangri?
7. Fyrr á árinu átti sér stað mikið og gott samráð við fleiri hundruð starfsmenn borgarinnar um hagræðingu hjá borginni, sem þó var helmingi minni en nú er ráðgert. Þetta samráð fór fram eftir tillögu minnihlutans við afgreiðslu fjárhagsáætlunar. Mun lengri tími var gefinn í þá vinnu en nú og skilaði hún miklum árangri. Hvernig stendur til að tryggja aðkomu starfsfólks að þessari vinnu?

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Fulltrúar Samfylkingar og VG í borgarráði hafa ekki verið hafðir með í ráðum við mótun tillögu borgarstjóra að úthlutun fjárhagsramma til einstakra sviða og fyrirtækja borgarinnar. Setja verður sérstakan fyrirvara á raunhæfni fyrirliggjandi grunns að auknum niðurskurði, auknum arðgreiðslum og tímaramma við undirbúning fjárhagsáætlunar næsta árs. Enda liggur engin úttekt á raunhæfni fyrir, hvorki um arðgreiðslur né niðurskurð. Fulltrúar minnihlutans kölluðu eftir endurskoðun fjárhagsáætlunar og þriggja ára áætlunar þegar í sumarbyrjun. Í ljósi nýrrar þjóðhagsspár blasti þá við að augljóst var að milljarða niðurskurður væri framundan. Því var hafnað og meirihlutinn kaus að stinga höfðinu í sandinn. Það voru alvarleg mistök. Nú er skólaár og önnur starfsemi vetrarins þegar hafin og ljóst að einstök svið eru í afar þröngri stöðu til að ná settu marki, sérstaklega á þeim skamma tíma sem gefinn er.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það er ekki rétt að halda því fram að fulltrúar minnihlutans hafi ekki verið með í ráðum við mótun umræddra tillagna eða að ekki liggi fyrir úttektir á einstaka þáttum, enda hefur tillagan verið til umfjöllunar í aðgerðahópi borgarráðs þar sem borgarstjóra var falið að vinna tillöguna ásamt fjármálastjóra. Það var gert í samræmi við sameiginlega afstöðu fulltrúa allra flokka að forgangsraða í anda aðgerðaáætlunar borgarstjórnar og leggja þar sérstaka áherslu á grunnþjónustu, börn og velferð. Að auki var tillagan kynnt og rædd á sameiginlegum fundi fulltrúa allra flokka í fagráðum borgarinnar sl. föstudag. Allt eru þetta merki um ný vinnubrögð á vettvangi Borgarstjórnar Reykjavíkur. Það er hins vegar hárrétt að tillagan er lögð fram af borgarstjóra og meirihlutanum, sem áfram væntir góðs samstarfs við minnihlutann um fjármál borgarinnar á þessum erfiðu tímum í efnhags- og atvinnuumhverfi borgarinnar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Þessum fullyrðingum meirihlutans er hafnað. Minnihlutinn hefur, frá því snemma í sumar, kallað eftir römmum og áætlunum um niðurskurð vegna fjárhagsáætlunar 2010. Meirihlutinn getur ekki vísað ábyrgðinni á því hversu seint vinna við fjárhagsáætlun fer fram annað, né heldur á þeirri óvissu sem uppi er um raunhæfni niðurskurðar og aukinna arðgreiðslna frá fyrirtækjum borgarinnar. Óskandi væri að ný vinnubrögð væru ekki aðeins í orði heldur á borði.

23. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð felur Orkuveitu Reykjavíkur að ráðstafa þeim veiðidögum sem teknir hafa verið frá fyrir Reykjavíkurborg til framleigu til Stangaveiðifélags Reykjavíkur.

Greinargerð fylgir tillögunni. R09090102
Frestað.


Fundi slitið kl. 12.15


Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Gísli Marteinn Baldursson Kjartan Magnússon
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson