Borgarráð - Fundur nr. 5083

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð


Ár 2009, fimmtudaginn 10. september, var haldinn 5083. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:


1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 18. ágúst. R09010006

2. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 7. september. R09010007

3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 9. september. R09010026
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

4. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 8 mál. R09080080

5. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 3. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 2. s.m., um tillögu að deiliskipulagi við Starhaga vegna æfingasvæðis fyrir KR. R09060057
Samþykkt.

6. Lagt fram svar borgarstjóra frá 9. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um undirbúning fjárhagsáætlunar, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. f.m. R09050032

7. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R09090001

8. Lagt fram bréf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 25. júní sl. þar sem óskað er umsagnar um rekstrarleyfisumsókn vegna veitingastaðar að Rauðarárstíg 33. Jafnframt lagt fram bréf umsækjanda frá 10. f.m. R09060008
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu að umsögn:
Veitingastaðurinn sem hér um ræðir er staðsettur í viðkvæmu umhverfi og reynslan af veitingastað sem áður var þarna rekinn var slæm. Sá veitingastaður sem sótt er um leyfi fyrir nú er hins vegar í flokki II skv. lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem er veitingastaður þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu. Þetta kemur einnig fram í bréfi umsækjanda, þar sem segir m.a. að um verði að ræða lítinn matsölustað og kaffihús, sem verði opið til kl. 21 á kvöldin. Ekki verði um krá að ræða. Með vísan til þessa gefur borgarráð fyrir sitt leyti jákvæða umsögn um umsóknina, með hefðbundnum skilyrðum. Í ljósi staðsetningarinnar og slæmri reynslu af fyrri veitingarekstri er umsögnin jafnframt bundin því skilyrði að leyfið verði einungis gefið út til eins árs til reynslu. Verði reynslan ekki góð má búast við því að leyfið verði ekki endurnýjað að ári liðnu.

Samþykkt.

9. Lagt er til að Áslaug Friðriksdóttir taki sæti Júlíusar Vífils Ingvarssonar í starfshópi um atvinnuátaksverkefni á sviði varðveislu gamalla húsa. R09040064
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf Lyfjastofnunar frá 1. þ.m. þar sem óskað er umsagnar um umsókn lyfjabúðar Lyfja og heilsu við Hringbraut um breyttan opnunartíma, ásamt umsögn borgarlögmanns, dags. 7. s.m. R09090016
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf sviðsstjóra umhverfis- og samgöngusviðs frá 7. þ.m. varðandi tillögu að grænni samgöngustefnu fyrir Reykjavíkurborg. R08110068
Samþykkt.

Bókun borgarráðs:
Borgarráð fagnar því að í dag er samþykkt græn samgöngustefna fyrir starfsemi Reykjavíkurborgar. Þetta er eitt af skilgreindum grænum skrefum Reykjavíkur, sem miða að því að gera borgina umhverfisvæna og sjálfbæra auk þess sem þau hvetja til hagkvæmari og betri rekstrar. Með innleiðingu grænnar samgöngustefnu sýnir Reykjavíkurborg í verki vilja sinn til að ganga á undan með góðu fordæmi. Borgarráð felur umhverfis- og samgöngusviði, í samstarfi við mannauðsskrifstofu, að styðja við innleiðingu samgöngustefnunnar hjá stofnunum og sviðum borgarinnar.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Góð stefnumið í samgöngumálum og vönduð vinnubrögð starfsfólks umhverfis- og samgöngusviðs duga lítt til að vega upp getu- og viljaleysi núverandi meirihluta í umhverfis- og samgöngumálum. Ég minni á sinnuleysi meirihlutans í umferðaröryggismálum og kúvendingu Sjálfstæðisflokksins í fargjaldamálum Strætó bs. Niðurfelling námsmannafríkorta felur í sér hækkun fargjalda Strætó bs. og sýnir að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hika ekki við að ganga þvert á skuldbindandi og undirritaðar yfirlýsingar frá í janúar 2008 um að fella niður strætófargjöld hjá öllum börnum, unglingum, öldruðum og öryrkjum, auk námsmannafríkortanna.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í kjölfar samþykktar samgöngustefnu fyrir Reykjavíkurborg sem samþykkt var í borgarráði og þeirrar yfirlýsingar borgarstjóra að hafist verði strax handa við innleiðingu stefnunnar er spurt:
1. Hvernig verður stefnan árangursmetin og verða sett upp mælanleg markmið?
2. Hvenær mun aðgerðaáætlun og tillögur að raunverulegum aðgerðum liggja fyrir?
3. Í kafla um framfylgd samgöngustefnunnar er rætt um að samgöngusamningar komi í stað aksturssamninga. Hvernig verður staðið að framkvæmd þessa þáttar í innleiðingunni? Hvort og hvenær verður núverandi aksturssamningum starfsfólks sagt upp? Verður eitthvað starfsfólk undanþegið þessum þætti stefnunnar?
4. Í kafla um framfylgd stefnunnar í bílastæðamálum er tiltekið að gjaldfrjálsum bílastæðum verður fækkað við vinnustaði borgarinnar. Hversu mikið á að fækka bílastæðum? Hversu mikið á að fjölga stöðumælum/gjaldskyldum stæðum? Verða einhverjir vinnustaðir Reykjavíkurborgar undanþegnir þessum þætti stefnunnar?

12. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 31. f.m., sbr. samþykkt menntaráðs frá 26. s.m., varðandi samþykki á umsókn Menntaskólans ehf. um stofnun sjálfstætt rekins grunnskóla fyrir 5-10 ára gömul börn, með tilgreindum fyrirvörum. R09070037
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að fresta afgreiðslu umsóknar Menntaskólans ehf. þar til fjárhagsáætlun borgarinnar liggur fyrir.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna felld með 4 atkvæðum gegn 3.
Samþykkt menntaráðs staðfest með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Mikill niðurskurður hefur átt sér stað í grunnskólum borgarinnar með þátttöku starfsmanna. Samþykkt menntaráðs um stofnun Menntaskólans ehf. og nú staðfesting borgarráðs veldur óróa og óánægju innan almennu grunnskólanna sem ekki verður séð fyrir endann á. Þessi samþykkt kemur algerlega í bakið á starfsmönnum grunnskóla Reykjavíkurborgar, sem þátt tóku í hugmyndavinnu um sparnað á menntasviði, og gerir lítið úr þeirra vinnu. Segja má að það fé sem tókst að spara í almennum grunnskólum fari nú í starfsemi skóla fyrir börn fólks sem hefur efni á að greiða skólagjöld. Ekki verður betur séð en að þessi ráðstöfun með almannafé sé illa ígrunduð á tímum mikils niðurskurðar. Nýr skóli verður til þess að nemendum fækkar í þeim skólum sem fyrir eru, til viðbótar við þá miklu nemendafækkun sem er í grunnskólum borgarinnar á þessu hausti. Gera má ráð fyrir að með því að fjölga grunnskólum í borginni nýtist skattfé verr og það muni veikja enn frekar starfið í þeim skólum sem fyrir eru. Það vekur upp spurningar um atvinnuöryggi í skólum. Borgarstjórn hefur haft uppi yfirlýsingar um að standa saman og vinna að því að fara vel með fjármuni borgarinnar. Þessi ráðstöfun er ekki í þeim anda, ekki ríkir samhugur um hana og ekkert samráð hefur verið haft við minnihluta borgarstjórnar um ráðstöfunina.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Samfylkingin telur ótímabært að samþykkja umsókn Menntaskólans ehf. um stofnun grunnskóla. Fjárhagslegt umhverfi grunnskólanna næsta árið er ótryggt þótt þegar sé ljóst að verulega verði að þeim þrengt. Það er brýnt að standa vörð um almenna grunnskóla í borginni og varla verjandi að setja aukið fé í nýjan skóla þegar nemendum fækkar í Reykjavík og þrengt er að almennum grunnskólum borgarinnar. Ekki er hægt að lesa annað úr tillögu meirihlutans en að samþykkið sé villuljós, skilaboð meirihlutans til foreldra og barna sem áhuga hafa á skólanum eru afar óljós og ljóst að undirbúningur og fjárveitingar eru ófrágengnar af hálfu meirihlutans. Á það skal bent að á næsta ári tekur til starfa grunnskóli í Úlfarsárdal þar sem sköpun verður rauður þráður í skólastarfinu og því ljóst að mikil sóknarfæri eru framundan fyrir áhugasamt skólafólk um sköpun í skólastarfi og sjaldan hefur verið brýnna að standa vörð um sköpun í skólastarfi í almennum grunnskólum. Leiðarljós Samfylkingarinnar hafa verið eftirfarandi: Að almennir hverfisskólar séu grunnstoðir samfélagsins. Að grunnskólar innheimti ekki skólagjöld enda eigi allir skólar í borginni að standa öllum börnum til boða, óháð efnahag. Að grunnskólar séu án vafa skólar án aðgreiningar og taki fagnandi á móti öllum börnum, óháð atgervi. Samfylkingin telur brýnt að fá úr því skorið hið fyrsta hverjar séu skyldur sjálfstætt starfandi skóla og hver sinni eftirliti með þeim, enda eigi öll börn í borginni rétt á því að skólinn þeirra sé rekinn og honum sé stýrt á faglegum forsendum. Starfshópur um þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi skóla lýkur senn störfum en beðið er reglugerðar frá menntamálaráðuneyti. Þegar hún liggur fyrir er brýnt að menntaráð taki afstöðu til eftirfarandi: Hverjar eru skyldur og réttindi sjálfstætt starfandi skóla? Hvert er hlutverk menntasviðs, menntaráðs, fjármálaskrifstofu og innri enduskoðunar þegar kemur að faglegu og fjárhagslegu eftirliti? Í ljósi þessarar óvissu, bæði fjárhagslegrar stöðu borgarinnar, fækkunar nemenda, leiðarljósa Samfylkingarinnar, þess hve umsókn Menntaskólans barst seint og þeirri vinnu sem á eftir að ljúka í samningagerð við sjálfstætt starfandi skóla, greiðir Samfylkingin atkvæði á móti tillögu meirihlutans.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fagna stofnun nýs sjálfstætt starfandi grunnskóla fyrir 5-10 ára gömul börn og binda vonir við að hann muni auka fjölbreytni í skólastarfi í Reykjavík. Með fjölgun sjálfstætt starfandi grunnskóla í borginni er tryggt að Reykvíkingar öðlast aukið val um nám barna sinna. Áréttað er að menntaráð samþykkti umsókn Menntaskólans ehf. fyrir sitt leyti með fyrirvörum um samþykkt borgarráðs um fjárveitingar til skólans í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010 og að starfsemi hans fullnægi kröfum heilbrigðiseftirlits, eldvarnareftirlits og vinnuverndar. Vegna umræðna um málið í borgarráði er rétt að taka fram að það er menntamálaráðuneytið sem veitir sjálfstætt starfandi skólum lögbundna viðurkenningu til að hefja starfsemi að fengnu samþykki menntaráðs. Það er því menntamálaráðuneytið sem gefur út hið endanlega starfsleyfi.

13. Lagt fram að nýju bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 1. þ.m. þar sem óskað er staðfestingar Borgarstjórnar Reykjavíkur á samþykki stjórnar Orkuveitunnar frá 31. f.m., annars vegar á samkomulagi við Hafnarfjarðarbæ, dags. s.d., um uppgjör á samkomulagi aðila frá 2. júlí 2007 og hins vegar á kaupsamningi við Magma Energy Sweden A.B., dags. 30. s.m., um sölu á hlutum í HS Orku hf. Jafnframt lagt fram svar borgarstjóra frá 9. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um málið, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. s.m. Þá er lagt fram minnisblað KPMG á Íslandi frá 8. s.m. varðandi fyrirspurnina. R09080037

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Það er alveg ljóst að hér er á ferðinni einkavinavæðing í þeim gjafmilda anda sem réði ríkjum við úthlutun gjafakvótans í sjávarútvegi og þegar einkavinum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru afhentir ríkisbankarnir á silfurfati og í raun borgað með ósómanum. Ennfremur er ljóst að á meðan einkavina- og bankagjafaflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, geta myndað meirihluta í sveitarstjórnum landsins hafa þeir öll tök á því að svipta almenning auðlindum sínum og sameiginlegum eigum. Sá samningur sem nú virðist því miður ætla að ná fram að ganga er augljóslega mjög óhagkvæmur fyrir almenning og felur í raun í sér aðför gegn almannahagsmunum. Reiknikúnstir Samfylkingar þarf ekki til að leiða það í ljós en á þeim bænum virðist a.m.k. takmörkuð andstaða við einkavæðingu orkugeirans. Stefna óháðra borgarfulltrúa F-listans er hins vegar alveg skýr: Ekki kemur til greina og ekki á að vera heimilt að selja hlut almennings í orkulindum og orkuveitum til einkaaðila. Ég mótmæli því harðlega að meirihlutinn hafi í raun ýtt út af borðinu tillögu minni í borgarstjórn frá í vor um að óheimilt sé að selja hlut almennings í orkulindum og orkuveitum til einkaaðila. Tillögunni var vísað til borgarráðs og stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Hún hefur ekki fengið neina umfjöllun í borgarráði sem vísaði henni alfarið til nefndar á vegum Orkuveitunnar. Stjórn Orkuveitunnar hefur aldrei fjallað um tillöguna! Öll vinnubrögð í þessu máli og almannahagsmunir kalla á það að núverandi meirihluta í Borgarstjórn Reykjavíkur sé komið frá sem allra fyrst.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Þakkað er fyrir svör við spurningum sem beint var til KPMG, KPMG eru endurskoðendur OR og framkvæma því ekki sjálfstætt mat á verðmæti skuldabréfsins sem lagt er fram fyrir 70#PR af greiðslu Magma. KPMG yfirfer því aðeins mat OR á skuldabréfinu varðandi þá þætti sem fram koma í spurningum minnihlutans. Svörin frá KPMG staðfesta fullyrðingar fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um að forsendur meirihlutans við núvirðingu tilboðsins séu óeðlilegar. Meðal þess sem kemur fram í minnisblaði KPMG um áhættuálag: Hvorki Magma Energy, Magma Energy Sweden né HS Orka eru með skráð lánshæfismat. Magma Energy er ungt félag (stofnað 2008) og starfar á tiltölulega ungum markaði sem byggir á nýlegri tækni. Samanburður við sambærileg félög er erfiður. Horfur á fjármálmörkuðum eru ennþá óljósar sem endurspeglast meðal annars í háu áhættuálagi skuldabréfa í sögulegu samhengi. Það er því niðurstaða KPMG að það hefði verið „viðeigandi að notast við nokkuð hærra áhættuálag við núvirðingu skuldabréfsins en OR notast við í sínum útreikningum“. KPMG staðfestir að „eðlilegt sé að notast við áhættuálag ofan á ríkistryggða vexti við mat á ávöxtunarkröfu til núvirðingar bréfsins“. Varðandi áhrif þess að síðustu staðgreiddu viðskipti í HS Orku voru á genginu 4,7 segir í minnisblaði KPMG: „að sé gengið út frá þeirri forsendu að gengið 4,7 endurspegli gangvirði hlutabréfa HS Orku hafi það að öðru óbreyttu áhrif til hækkunar ávöxtunarkröfu“. Ámælisvert er að stjórnarformaður OR hefur á opinberum vettvangi vísað til staðfestingar KPMG á útreikningum meirihlutans. Nú þegar svör KPMG liggja fyrir er þvert á móti ljóst að í þeim felst áfellisdómur yfir forsendum sem gengið er út frá við mat meirihlutans á tilboði Magma.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Varðandi „svör“ borgarstjóra við spurningum sem beint var til borgarinnar hafa fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna fjölmargt að athuga og vilja gefa borgarstjóra kost á að draga þau til baka og svara því sem spurt er um í stað þess að snúa út úr. Það er einnig með algerum ólíkindum að borgarstjóri skuli neita að bera saman kjör Magma og kjörin í samningunum við Hafnarfjörð. Augljóst er að borgarstjóri á í miklum vandræðum með að rökstyðja málstað sinn og langt er seilst til að breiða yfir þá dapurlegu vankanta sem eru á fyrirliggjandi samningi.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögur:
1. Lagt er til að óskað verði eftir áhættugreiningu óháðra aðila vegna sölu OR á bréfum í HS Orku og hún verði lögð fram. Áhættugreiningin taki til útgefanda skuldabréfs (Magma Energy Sweden) og þeirra veða sem standa að baki skuldabréfinu (bréf í HS Orku). Hafi áhættugreining óháðs aðila ekki farið fram verði hún framkvæmd tafarlaust.
2. Lagt er til að á grundvelli áhættugreiningar framkvæmi óháðir aðilar núvirðingu á fyrirliggjandi tilboði þar sem alvarlegir ágallar hafa komið fram á núvirðisreikningum meirihlutans.
3. Lagt er til að óháður aðili verið fenginn til að gera upp viðskipti OR með bréf í HS Orku frá kaupum á hlutunum til sölu þeirra, þannig að fram komi hvert tap OR af viðskiptunum er og hvert það tap gæti orðið. Lagt er til að umrætt mat verði unnið af aðila sem er vanur að fást við mat tilboða og núvirðisreikninga með það að markmiði að allar lykilupplýsingar liggi fyrir í þessu máli og sameiginlegur skilningur verði á því hvert sé raunverulegt tap af viðskiptunum. Við framkvæmd tillagnanna er lagt til að minnihluti og meirihluti borgarráðs komi sér saman um óháðan aðila til að leggja mat á viðskipti OR með hluti í HS Orku.
4. Þar sem tilboðið sem fyrir liggur er ekki eins hagstætt og haldið hefur verið fram er ennfremur lagt til að í samráði við aðra eigendur OR beini borgarráð því til forstjóra OR að óskað verði eftir því við samkeppnisyfirvöld að Orkuveitunni verði veittur aukinn frestur til að ráðstafa hlut sínum í HS Orku. Jafnframt verði óskað eftir samstarfi við samkeppnisyfirvöld um það hvernig best er að fara með hlutinn í HS Orku með almannahag í huga, hvort nauðsynlegt sé að stofna um hann sérstakt félag eða hvaða aðrar leiðir séu færar sem samræmast samkeppnislögum.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:
Tillögum Samfylkingar og Vinstri grænna er vísað frá, enda tilgangur þeirra sá einn að drepa málinu á dreif og fresta ákvarðanatöku. OR er í þeirri stöðu að verða að selja umræddan hlut í HS Orku og öll þau svör sem lögð hafa verið fram á fundinum staðfesta að sú sala er ásættanleg fyrir fyrirtækið og mikilvæg fyrir eigendur þess. Að því er varðar svör KPMG þá benda þau réttilega á að kjöraðstæður eru ekki í íslensku samfélagi nú, sem eðlilega hefur áhrif á öll viðskipti. Sú niðurstaða er í samræmi við það sem forsvarsmenn félagsins og eigenda hafa sagt um að salan sé vel ásættanleg í því efnahagsástandi sem nú ríkir.

Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3 og er því tillögum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna vísað frá.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Ljóst er að Orkuveitan hefur vanmetið áhættu vegna kúlulánsins (skuldabréfsins) sem fyrirtækið tekur við sem greiðslu fyrir 70#PR kaupsverðs frá Magma, samkvæmt svörum KPMG. Vegna stöðu fyrirtækisins sem endurskoðenda var það ekki í aðstöðu til að framkvæma það mat. Á grundvelli þessara upplýsinga er með ólíkindum að meirihlutinn vísi frá tillögu um að sjálfstætt mat fari fram á verðgildi og tapi OR vegna kúlulánsins og áreiðanleika Magma og þeirra veða sem lögð eru fram í bréfum HS Orku. Sýnir það betur en flest annað hversu döpur málefnastaða meirihlutans er í því að þvinga fram þetta ólánlega mál.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
1. Aðilum utan EES er bannað að eignast hluta í íslenskum orkufyrirtækjum enda var dótturfélagið Magma Energy Sweden AB stofnað til að komast framhjá íslenskum lögum. Kemur sú staðreynd í veg fyrir það að móðurfélagið Magma, sem er kanadískt félag, geti veitt móðurfélagsábyrgð?
2. Er yfir allan vafa hafið að þessi viðskipti séu lögum samkvæm?
3. Er eðlilegt að OR taki bréf í HS Orku sem veð fyrir skuldabréfinu, þar sem ljóst er að vandkvæðum er háð fyrir OR að taka við veðinu ef illa fer vegna úrskurðar Samkeppniseftirlitsins? Væru önnur veð ekki heppilegri?
4. Ítrekuð er sú ósk að öll undirgögn, samningar við Artica finance og aðrir samningar og álit verði lögð fyrir borgarráð. Einnig er óskað eftir öllum upplýsingum varðandi úrskurð Samkeppniseftirlitsins, þ.m.t úrskurði Samkeppniseftirlitsins, áfrýjunarnefndar samkeppnismála, lögfræðileg álit og aðrar forsendur málsins.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Framlögðum spurningum verður svarað við afgreiðslu málsins í borgarstjórn.

- Kl. 13.55 víkur Ólafur F. Magnússon af fundi.

Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3 að staðfesta samþykktir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 31. f.m. á annars vegar samkomulagi við Hafnarfjarðarbæ, dags. s.d., um uppgjör á samkomulagi aðila frá 2. júlí 2007 og hins vegar á kaupsamningi við Magma Energy Sweden A.B., dags. 30. s.m., um sölu á hlutum í HS Orku hf.
Málinu vísað til borgarstjórnar.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Meirihluti borgarráðs telur hagsmunum Reykjavíkurborgar og OR best borgið með því að OR selji hlut sinn í HS Orku. Tilboð Magma Energy er mjög ásættanlegt fyrir OR og niðurstaðan fjárhagslega góð fyrir félagið. Samningurinn er metinn á um 12 milljarða króna. Hlýtur það að vera fagnaðarefni að erlendir aðilar hafi áhuga á því að koma með fjármagn inn í landið sem hægt er að nota í jákvæða uppbyggingu. Þess í stað hafa fulltrúar minnihlutans alið á tortryggni í garð erlendra fjárfesta og að erlendir aðilar fái arð af því áhættufé sem þeir leggja til orkuvinnslu. Eins og Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, bendir á í leiðara SA í dag eru slík viðhorf bæði úrelt og skaðleg fyrir það uppbyggingarstarf sem þarf að eiga sér stað, nú þegar erlendir lánamarkaðir eru lokaðir íslenskum orkufyrirtækjum og erlent áhættufé beinlínis forsenda þess að ráðist sé í orkuframkvæmdir. Markmið stjórnar OR með sölunni er ekki að einkavæða HS Orku heldur sá að losa sig við áhrifalítinn hlut í fyrirtækinu til að virða úrskurð samkeppnisyfirvalda, leysa ágreining við Hafnarfjarðarbæ, styrkja fjárhagsstöðu OR og tryggja að milljarða fjárhagsskuldbindingar lendi ekki á Reykvíkingum. Ítrekað er að ekki er verið að selja auðlindir. Viðskiptin ná aðeins til samanlagðs hlutar í HS Orku, það er orkuframleiðsluhluta fyrirtækisins, en hvorki eignarréttar á auðlindum né einkaleyfisstarfseminnar. Ákvörðun stjórnar OR var tekin eftir að fyrirtækið og Magma Energy gáfu ríkisstjórn Íslands frest til að kanna hugsanlega aðkomu hennar að viðskiptunum, en ríkið hefur, eins og aðrir, haft rúma sjö mánuði til að koma að málinu. Borgarfulltrúar hafa nú haft langan tíma til að kynna sér málið og fjölmörgum fyrirspurnum um málið hefur verið svarað. Söluferlið hefur verið langt, gagnsætt og vandað. Salan hefur fengið ítarlega umfjöllun á fundum stjórnar OR og hafði tilboð Magma Energy verið í höndum stjórnarmanna í 17 daga áður en framlengdur frestur Magma rann út þann 31. ágúst. Aðdragandi afgreiðslunnar er langur, málsmeðferð vönduð og umræður ítarlegar. Málflutningur fulltrúa minnihlutans afhjúpar að hvorugur flokkanna veit eða hefur lagt fram betri lausn á því hvernig OR á að uppfylla kröfu samkeppnisyfirvalda um að minnka hlut sinn í HS Orku og uppfylla þannig samkeppnislög, leysa deilumál sín við Hafnarfjarðarbæ og standa vörð um fjárhagsstöðu OR. Þess vegna er allt gert til að sá fræjum tortryggni og gera vinnubrögðin tortryggileg, sem í reynd þola alla skoðun. Þau ítarlegu svör sem lögð hafa verið fram á fundinum, bæði frá OR, KPMG og Reykjavíkurborg, sýna að vel hefur verið haldið á málum. Pólitískum reikningsaðferðum Samfylkingarinnar er vísað á bug. Ytri endurskoðendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa yfirfarið og staðfest útreikninga og reikningsaðferð fjármálasviðs OR á virði samningsins við Magma Energy og auk þess hefur fjármálastjóri Reykjavíkurborgar bent á villur í reikningsaðferðum fulltrúa Samfylkingarinnar, sem fela í sér vanmat á framtíðarvirðinu. Í svörum við fyrirspurnum kemur meðal annars fram að ekki er eðlilegt að bera saman vaxtaprósentur í íslenskum krónum annars vegar og Bandaríkjadal hins vegar, eins og gert hefur verið, þar sem vaxtastig á þessum tveimur gjaldmiðlum er gjörólíkt. Ávöxtun skuldabréfsins samsvarar 4,3#PR vöxtum í Bandaríkjadölum, sé miðað við framvirkt verð á álmarkaði sem hægt er að festa í dag með samningum. Þá má geta þess að 1,5#PR vextir í Bandaríkjadölum eru rúmlega 100#PR hærri vextir en OR greiðir af sínum lánum í Bandaríkjadölum í dag, en Orkuveitan greiðir um 0,7#PR vexti. Ekki stendur til að færa skuldabréfið yfir í íslenskar krónur, heldur að andvirði þess renni til að greiða af lánum OR í erlendri mynt og því tilgangslaust að fjalla um gengistap í þeirri merkingu sem fulltrúar minnihlutans hafa gert. Með því að eignast skuldabréf Magma í Bandaríkjadölum minnkar þannig gjaldeyrisáhætta OR en eykst ekki. Verði skuldabréfið gjaldfellt mun OR leysa til sín hlutabréfin í HS Orku. Í því tilviki heldur OR jafnframt þeim 3,7 milljörðum króna sem staðgreiddar verða. Ákveði HS Orka að greiða hluthöfum sínum arð leggst hlutur Magma inn á sérstakan vörslureikning. Magma getur eingöngu fengið greitt út af vörslureikningnum þann arð sem er umfram 130#PR af uppreiknuðum höfuðstól skuldabréfsins í kjölfar árlegs virðisrýrnunarprófs. Ekkert ákvæði fjallar um bann við tilkynningum og opinberum umræðum eins og sagt hefur verið. Ákvæðið sem spurt er um fjallar um það að samningsaðilar gefi samhljóða upplýsingar um samninginn og framkvæmd hans. Magma er tilkynningaskylt til kauphallar í Kanada og OR hér á landi. Það þykir til marks um gott siðferði í viðskiptum að samningsaðilar sýni hver öðrum gagnkvæma tillitsemi við fréttaflutning af viðskiptum þeirra. Ekki er verið að halda tilveru eða innihaldi samningsins leyndu að nokkru leyti enda hafa samningarnir verið birtir á vefsíðu OR. Að ósk meirihlutans í Borgarstjórn Reykjavíkur var heimildar Magma Energy leitað fyrir birtingu samnings OR við fyrirtækið og fékkst hún.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Um leið og borgarráðsfulltrúi VG tekur undir gagnrýni á vinnubrögð meirihlutans er áréttuð sú grundvallarafstaða Vinstri grænna að orkufyrirtæki og orkuauðlindir eigi undantekningalaust að vera í almanneigu. Þetta hefur aldrei skipt meira máli en nú vegna mikilvægis orkufyrirtækjanna í uppbyggingu Íslands. Stjórnmálafólk sem er kaþólskara en páfinn þegar um óréttlát samkeppnislög er að ræða en hikar ekki við að fara á svig við lög um eignarhald útlendinga í orkufyrirtækjum er ótrúverðugt. Það er með ólíkindum að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Reykjavík sé á góðri leið með að klára það sem fulltrúar þessara sömu flokka hófu í ríkisstjórn í upphafi árs 2007. Sú vegferð var farin af fólki sem einskis sveifst í græðgi sinni og skildi samfélagið eftir í rjúkandi rúst. Það er því ólíðandi að frjálshyggjuöflunum skuli takast að nýta sér þá eymd sem þau sköpuðu til áframhaldandi eignaupptöku á almannaeigum. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna höfðar þó enn og aftur til samvisku meirihlutans í Reykjavík og hvetur borgarstjóra til að hafa frumkvæði að viðræðum við ríkisvaldið og önnur sveitarfélög um samfélagslega lausn þessa máls.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það er beinlínis rangt sem fram kemur í bókun borgarráðsfulltrúa VG að verið sé að selja auðlindir. Auðlindin er í eigu Reykjanesbæjar og samningur um leigu auðlindarinnar er þessari sölu óviðkomandi. Viðskiptin ná aðeins til samanlagðs hlutar í HS Orku, það er orkuframleiðsluhluta fyrirtækisins, en hvorki eignaréttar á auðlindum né einkaleyfisstarfseminnar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Því miður virðist ljóst að þrátt fyrir yfirgripsmikil gögn og gagnrýni sem fram hefur komið á söluna í opinberri umræðu hafa rök ekki dugað til að meirihlutinn hverfi frá því að að selja hlut Reykvíkinga gegn 30#PR útborgun og 70#PR kúluláni til sjö ára. Einu veðin eru í bréfunum sjálfum. Þetta þýðir að afföll/tap Orkuveitunnar vegna sölunnar má meta á að minnsta kosti 5-6 milljarða miðað við sölugengi og verðmæti skuldabréfsins (kúlulánsins). Ljóst er að áhætta af skuldabréfinu er vanmetin af hálfu meirihlutans. Þetta kemur fram í svörum KPMG við spurningum fulltrúa minnihlutans sem lögð voru fram á fundinum. Þetta styður málflutning og útreikninga sem fulltrúar minnihlutans hafa sett fram, líkt og umsögn fjármálastjóra Reykjavíkurborgar gerir í meginatriðum. Meirihlutinn hafnaði hins vegar að fá óháðan sérfræðing til að leggja mat á hversu mikil áhættan og verðfall skuldabréfsins (kúlulánsins) verði, og vísaði frá tillögu þess efnis. Ljóst er af þessu að borgarstjóri, fyrrverandi borgarstjóri, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa ekkert lært af REI-málinu, hruninu eða fráleitum vinnubrögðum sömu flokka við einkavæðingu á undanförnum árum. Svör borgarstjóra við 32 spurningum um málið virðast ekki hafa verið tekin saman til að bregða birtu á það heldur til að þyrla upp ryki, snúa út úr. Til marks um það er að borgarstjóri svarar því til að ekki sé hægt að bera saman samninga við Magma annars vegar og Hafnarfjörð hins vegar vegna þess að „ekki sé eðlilegt að bera saman vexti í íslenskum krónum annars vegar og Bandaríkjadal hins vegar“. Það stoðar lítið að hafa stór orð um kosti erlendrar fjárfestingar í málflutningi meirihlutans þar sem sáralítið fé kemur inn til landsins í tengslum við samninginn – en ljóst virðist að Magma ætli að fjármagna hugsanlegar framkvæmdir með lántökum á reikning Hitaveitu Suðurnesja. Það er sérstaklega ámælisvert að engar tilraunir hafa verið gerðar af hálfu meirihlutans til að leita betri lausna á málinu í samvinnu við samkeppnisyfirvöld. Samfylkingin telur samninginn vondan og leggst gegn samþykkt hans.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Það er öllum orðið ljóst að íslensk lög ná ekki að verja hagsmuni almennings hvað varðar eignarhald á orkuauðlindum þegar leigan er rúmlega 30 milljónir á ári og leigutími í 65 til 130 ár.

- Kl. 14.25 tekur Björk Vilhelmsdóttir sæti á fundinum og Sigrún Elsa Smáradóttir víkur af fundi.

14. Lögð fram áfangaskýrsla nefndar um vist- og meðferðarheimili, dags. 31. f.m. R09090052
Bókun borgarráðs:
Borgarráð harmar þá sorg og þungbæru reynslu sem börn í Heyrnleysingjaskólanum, vistheimilinu Kumbaravogi og á stúlknaheimilinu Bjargi urðu fyrir á árunum 1947-1992. Það er ljóst að ekki var til staðar það eftirlitsumhverfi sem við nú teljum bæði sjálfsagt og nauðsynlegt til verndar börnum, sérstaklega þeim sem eru í umsjón hins opinbera. Jafnframt virðist sem eftirlitsskylda og málsmeðferð af hálfu Reykjavíkurborgar hafi ekki verið fullnægjandi. Borgarráð fagnar því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að skoða frekar bótaábyrgð og núverandi eftirlitsumhverfi og mun koma að nauðsynlegri vinnu í því sambandi á hvern þann hátt sem óskað er. Reykjavíkurborg vinnur eftir stöðlum Barnaverndarstofu um vistun og fóstur barna á vegum barnaverndaryfirvalda. Borgarráð ítrekar mikilvægi reglulegrar endurskoðunar verkferla og reglna til að tryggja að nýjasta vitneskja og þekking sé ávallt höfð að leiðarljósi við verndun barna og ungmenna. Að auki er velferðarsviði og velferðarráði falið að greina og tryggja aðgang umræddra einstaklinga að gögnum er þá varða og að þjónustuúrræðum borgarinnar.

15. Lagt fram bréf samgönguráðuneytisins frá 9. þ.m. varðandi staðfestingu á breytingum á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, þ.m.t. breytingu á ákvæði 49. gr. samþykktarinnar um kjörgengisskilyrði varamanna í borgarráði. R07100311

- Kl. 15.05 víkur Gísli Marteinn Baldursson af fundi.

16. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Í kjölfar andláts eins merkasta aðgerðarsinna samtímans samþykkir borgarráð að standa fyrir hugmyndasamkeppni um minnisvarða um Helga Hóseasson á horni Langholtsvegar og Holtavegar. Gert verði ráð fyrir framkvæmd verksins í fjárhagsáætlun borgarinnar árið 2010.

Þá leggja borgarráðsfulltrúar Samfylkingar fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráðs samþykkir að skipulags- og byggingarsviði verði, í samráði við menningar- og ferðamálaráð, falið að gera tillögu að staðsetningu minnisvarða um Helga Hóseasson á horni Langholtsvegar og Holtavegar. R09090062

Frestað.

17. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að fela framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs að leita leiða til að áfram verði hægt að reka miðstöð fyrir ungt fólk í atvinnuleit í Austurbæjarbíói. Niðurstaða málsins verði lögð fyrir borgarráð sem fyrst.

Greinargerð fylgir tillögunni. R09050084
Frestað.

Fundi slitið kl. 15.20

Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Kjartan Magnússon
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson