Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2009, fimmtudaginn 3. september, var haldinn 5082. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.38. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 1. þ.m., sbr. samþykkt borgarstjórnar s.d., um breytingu á skipan fulltrúa í borgarráði. R08010159
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 27. ágúst. R09010017
3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 2. september. R09010026
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
4. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 20. ágúst. R09010030
5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 3 mál. R09080080
6. Lagt fram svar borgarstjóra frá 28. f.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um fjölda nemenda í Landakotsskóla, sbr. 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. f.m. R09080053
7. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar:
Borgarráð beinir því til fjármálaskrifstofu að gera mat á áhættu borgarinnar af fjárhagslegum ábyrgðum vegna Landsvirkjunar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R09070017
Samþykkt.
8. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarráð felur umhverfis- og samgöngusviði að kanna kosti þess að bílastæðahús borgarinnar verði seld.
Greinargerð fylgir tillögunni. R07060139
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Samfylkingin hefur fyrirvara á hugmyndum um einkavæðingu bílastæðahúsa. Augljóst er að þær gætu leitt til stórhækkunar á bílastæðagjöldum í borginni. Þá er vandséð hvernig hægt er að aðskilja stefnu um verðlagningu og aðgengi að miðborginni frá rekstri bílastæðahúsa. Jafnframt eru augljós tengsl milli verðlagningar og aðgengi að bílastæðahúsum og öðrum bílastæðum á jörðu niðri. Spurningar vakna því hvort þau eigi einnig að selja. Vegna mikilvægis málsins og þess hversu viðkvæmt það er þarf Reykjavíkurborg jafnframt að nálgast athugun á því með alla þá hagsmuni undir sem málefninu tengjast. Það felur í sér að meta öll hugsanleg áhrif og hliðaráhrif til langs og skamms tíma við þessar breytingar og að hafa þurfi ítarlegt samráð við verslunarrekendur og íbúa áður en nokkur skref eru stigin í þessa veru.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Jafnvel þótt bílastæðahús borgarinnar væru seld, sem engin ákvörðun hefur verið tekin um, hefur borgin alla möguleika til að stjórna bílastæðapólitík í Reykjavík, m.a. verðlagningu bílastæða. Umhverfis- og samgönguráð mun nú skoða hvaða leið sé best í þessum efnum og hvort sala húsanna geti verið miðborginni til framdráttar.
9. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 31. f.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 26. s.m., um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð. R09010048
Samþykkt.
- Kl. 9.50 tekur Ólafur F. Magnússon sæti á fundinum.
10. Lagt fram samkomulag Reykjavíkurborgar og SFR - stéttarfélags í almannaþjónustu frá 7. júlí sl. um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila. Jafnframt lögð fram greinargerð mannauðsstjóra um meginefni nýrra kjarasamninga Reykjavíkurborgar og viðsemjenda í júlí 2009 og mat á kostnaðaráhrifum, dags. 27. f.m. R08120052
Borgarráð staðfestir samkomulagið fyrir sitt leyti.
11. Lagt fram samkomulag Reykjavíkurborgar og Eflingar - stéttarfélags frá 6. júlí sl. um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila. R08010228
Borgarráð staðfestir samkomulagið fyrir sitt leyti.
12. Lagt fram samkomulag Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar frá 6. júlí sl. um breytingar og framlengingu á kjarasamningi aðila. R08010231
Borgarráð staðfestir samkomulagið fyrir sitt leyti.
13. Lagt fram bréf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 30. október sl. þar sem óskað er eftir umsögn um rekstrarleyfisumsókn veitingastaðarins Mónakó, Laugavegi 78. Jafnframt lagt fram bréf lögreglustjóra frá 11. mars sl. Þá er lagt fram bréf rekstraraðila veitingastaðarins frá 1. apríl sl. Loks er lagt fram minnisblað Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hdl. um málið frá 10. f.m. R08030057
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu að umsögn:
Þann 18. október 2007 samþykkti borgarráð umsögn um rekstrarleyfisumsókn Casino ehf. vegna veitingastaðarins Mónakó. Umsögnin var jákvæð með því skilyrði að veitingatími áfengis hæfist ekki fyrr en kl. 19.00 öll kvöld, og var það gert m.a. með vísan til upplýsinga frá lögreglustjóra um reynsluna af rekstri veitingastaðarins og ákvæða málsmeðferðarreglna borgarráðs. Lögreglustjóri gaf í kjölfarið út leyfi með þessari takmörkun, en dómsmálaráðuneytið felldi það leyfi úr gildi vegna tæknilegra ágalla. Því hefur lögreglustjóri að nýju óskað eftir umsögn borgarráðs. Áfengisveitingar á veitingastaðnum Mónakó hafa um langt skeið valdið verulegri truflun í umhverfi veitingastaðarins, sérstaklega að degi til á opnunartíma verslana á Laugaveginum þegar ölvaðir gestir hans valda viðskiptavinum verslana, starfsmönnum þeirra og öðrum vegfarendum ónæði. Kemur þetta m.a. fram í bréfum lögreglustjóra frá 13. september 2007 og 11. mars sl., auk þess sem kvartanir hafa borist kjörnum fulltrúum og starfsmönnum Reykjavíkurborgar. Í málsmeðferðarreglum borgarráðs um veitingastaði og gististaði kemur fram að heimilt sé að takmarka sérstaklega áfengisveitingatíma, eða jafnvel synja um rekstrarleyfi, ef starfsemin fellur ekki að umhverfinu. Þá segir jafnframt að í umsögnum sínum skuli borgarráð horfa til reynslu sem fengist hefur af rekstrinum. Borgarráð telur að bregðast verði við því verulega ónæði sem áfengisveitingar á veitingastaðnum valda. Með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, og þess að áfengisveitingarnar valda fyrst og fremst ónæði að degi til, er þó að þessu sinni veitt jákvæð umsögn um endurnýjun rekstrarleyfisins, sem fyrr með því ófrávíkjanlega skilyrði að áfengisveitingatími verði takmarkaður þannig að hann hefjist ekki fyrr en kl. 19 öll kvöld. Þá verði leyfið einungis gefið út til eins árs til reynslu. Reynist þessi takmörkun ekki duga til að draga úr ónæði af starfseminni má búast við því að borgarráð gefi alfarið neikvæða umsögn þegar rekstrarleyfi veitingastaðarins kemur til meðferðar í ráðinu að ári liðnu.
Frestað.
14. Lagt fram bréf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 30. október sl. þar sem óskað er eftir umsögn um rekstrarleyfisumsókn veitingastaðarins Monte Carlo, Laugavegi 34a. Jafnframt lagt fram bréf lögreglustjóra frá 11. mars sl. Þá er lagt fram bréf rekstraraðila veitingastaðarins frá 1. apríl sl. Loks er lagt fram minnisblað Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hdl. um málið frá 10. f.m. R08030056
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu að umsögn:
Þann 18. október 2007 samþykkti borgarráð umsögn um rekstrarleyfisumsókn Sextán ehf. vegna veitingastaðarins Monte Carlo. Umsögnin var jákvæð með því skilyrði að veitingatími áfengis hæfist ekki fyrr en kl. 19.00 öll kvöld, og var það gert m.a. með vísan til upplýsinga frá lögreglustjóra um reynsluna af rekstri veitingastaðarins og ákvæða málsmeðferðarreglna borgarráðs. Lögreglustjóri gaf í kjölfarið út leyfi með þessari takmörkun, en dómsmálaráðuneytið felldi það leyfi úr gildi vegna tæknilegra ágalla. Því hefur lögreglustjóri að nýju óskað eftir umsögn borgarráðs. Áfengisveitingar á veitingastaðnum Monte Carlo hafa um langt skeið valdið verulegri truflun í umhverfi veitingastaðarins, sérstaklega að degi til á opnunartíma verslana á Laugaveginum þegar ölvaðir gestir hans valda viðskiptavinum verslana, starfsmönnum þeirra og öðrum vegfarendum ónæði. Kemur þetta m.a. fram í bréfum lögreglustjóra frá 13. september 2007 og 11. mars sl., auk þess sem kvartanir hafa borist kjörnum fulltrúum og starfsmönnum Reykjavíkurborgar. Í málsmeðferðarreglum borgarráðs um veitingastaði og gististaði kemur fram að heimilt sé að takmarka sérstaklega áfengisveitingatíma, eða jafnvel synja um rekstrarleyfi, ef starfsemin fellur ekki að umhverfinu. Þá segir jafnframt að í umsögnum sínum skuli borgarráð horfa til reynslu sem fengist hefur af rekstrinum. Borgarráð telur að bregðast verði við því verulega ónæði sem áfengisveitingar á veitingastaðnum valda. Með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, og þess að áfengisveitingarnar valda fyrst og fremst ónæði að degi til, er þó að þessu sinni veitt jákvæð umsögn um endurnýjun rekstrarleyfisins, sem fyrr með því ófrávíkjanlega skilyrði að áfengisveitingatími verði takmarkaður þannig að hann hefjist ekki fyrr en kl. 19 öll kvöld. Þá verði leyfið einungis gefið út til eins árs til reynslu. Reynist þessi takmörkun ekki duga til að draga úr ónæði af starfseminni má búast við því að borgarráð gefi alfarið neikvæða umsögn þegar rekstrarleyfi veitingastaðarins kemur til meðferðar í ráðinu að ári liðnu.
Frestað.
15. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:
Borgarráð samþykkir að veita heimild til íþrótta- og tómstundasviðs til að taka inn öll börn sem sótt hafa um dvöl á frístundaheimili umfram þau 2100 sem fjárhagsáætlun sviðsins gerir ráð fyrir. Á sama tíma samþykkir borgarráð að fela fjármálastjóra að reikna út kostnað vegna þeirra barna sem um ræðir og benda á leiðir til fjármögnunar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R09070081
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:
Íþrótta- og tómstundasvið vinnur að því að veita öllum börnum sem um það sækja vist á frístundaheimilum með sama hætti og gert var á síðasta skólaári. Viðbótarfjárþörf vegna þessa liggur enn ekki fyrir. Venju samkvæmt mun borgarráð fjalla um málið þegar þessar upplýsingar liggja fyrir. Tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna er því ótímabær og er vísað frá.
Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Það er með ólíkindum að ekki skuli liggja fyrir upplýsingar um viðbótarfjárþörf, enda ekki um flókna útreikninga að ræða. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna kannast ekki við þá venju sem meirihlutinn vísar til, þar sem sviðið hefur farið fram úr fjárheimildum á undanförnum árum án umræðu í borgarráði. Vinnubrögð meirihlutans eru óábyrg og óviðunandi, enda ljóst að borgarráð er eini til þess bæri aðilinn að taka ákvörðun um breytingar á fjárhagsáætlun. Borgarstjóri og/eða formaður íþrótta- og tómstundaráðs hafa ekki vald til að taka ákvarðanir af þessum toga. Ljóst er að ríflega 700 fleiri umsóknir hafa borist um dvöl á frístundaheimilum en fjárhagsáætlun gerir ráð fyrir. Samþykki meirihluti borgarráðs ekki viðbótarfjármagn til sviðsins vegna málsins er hann að fría sig ábyrgð á stöðu frístundaheimilanna og þeirra 700 barna sem heimildir skortir fyrir.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Ítrekaður er skýr vilji fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að öllum börnum í yngstu bekkjum grunnskóla í Reykjavík standi til boða vist á frístundaheimili og hafa þeir staðið í þeirri trú að borgarfulltrúar Vinstri grænna séu einnig þeirrar skoðunar. Á grundvelli þessa vilja verður viðbótarfjármagn tryggt þegar á því þarf að halda eins og venja er fyrir. Afar óábyrgt er að sá efasemdarfræjum um að umrædd þjónusta verði veitt eins og markmiðið virðist vera með bókun Vinstri grænna.
16. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs, dags. í dag. R09010038
Samþykkt að veita Risinu áfangaheimili styrk að fjárhæð kr. 871.377.
17. Lagt fram bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 1. þ.m. þar sem óskað er staðfestingar Borgarstjórnar Reykjavíkur á samþykki stjórnar Orkuveitunnar frá 31. f.m. annars vegar á samkomulagi við Hafnarfjarðarbæ, dags. s.d., um uppgjör á samkomulagi aðila frá 2. júlí 2007 og hins vegar á kaupsamningi við Magma Energy Sweden A.B., dags. 30. s.m., um sölu á hlutum í HS Orku hf. R09080037
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Undirritaður mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í tengslum við sölu á hlut borgarinnar í HS Orku. Þau hafa einkennst af undanbrögðum og óhreinskilni. Til dæmis þegar tillögu undirritaðs í borgarstjórn frá í vor, um að óheimilt sé að selja hlut borgarinnar í orkulindum og orkufyrirtækjum til einkaaðila, var stungið undir stól eftir að hafa verið vísað til stjórnar OR og borgarráðs. Heiðarlegra hefði verið að vísa tillögunni frá. Ég krefst þess að tillaga mín frá í vor, um bann við sölu á eignum almennings í orkulindum og orkufyrirtækjum til einkaaðila, verði afgreidd áður en málefni HS Orku verða tekin fyrir á ný.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það er rangt hjá borgarfulltrúanum að tillagan sé óafgreidd í borgarráði, enda vísaði borgarráð tillögunni til starfshóps eigenda Orkuveitu Reykjavíkur 4. júní sl. þar sem hún er til meðferðar.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram spurningar í 32 liðum varðandi málið, m.a. um framlagningu samningsins við Magma Energy Sweden A.B. og trúnaðarákvæði hans, vexti og ábyrgðir, arðgreiðslur, stöðu HS Orku og veð í bréfum, núvirði samningsins, réttarstöðu gagnvart Hafnarfjarðarbæ og eignaraðild að HS Orku.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að fela borgarstjóra að hafa nú þegar frumkvæði að viðræðum við ríkisvaldið með það að markmiði að HS Orka verði alfarið í opinberri eigu.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:
Stjórn OR ákvað á fundi sínum 19. desember 2008 að selja hlutinn í HS Orku og hefur söluferlið verið langt og málsmeðferð vönduð. Ríkið hefur því eins og aðrir haft rúmt hálft ár til að koma að málinu en sýndi því ekki áhuga fyrr en komið var að því að afgreiða tilboð Magma Energy. Formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur hafði þá strax frumkvæði að viðræðum við ríkisvaldið um kaup á hlut OR í HS Orku. Eftir beiðni OR veitti Magma Energy frest á kauptilboði sínu þannig að ríkisstjórnin gæti kannað hugsanlega aðkomu hennar að viðskiptunum en þegar fresturinn var liðinn var ljóst að af henni verður ekki. Fjármálaráðherra hefur greint frá því að tíminn hafi ekki verið nægur, en ljóst er einnig af umfjöllun síðustu vikna að lítil samstaða er um það milli ríkisstjórnarflokkanna hvort ríkið eigi að beita sér gegn tilboðinu eða yfirleitt gerast eigendur. Markmið stjórnar OR með sölunni er ekki að einkavæða HS Orku heldur sá að virða úrskurð samkeppnisyfirvalda, leysa ágreining við Hafnarfjarðarbæ, styrkja fjárhagsstöðu Orkuveitu Reykjavíkur og tryggja að fjárhagsskuldbindingar lendi ekki á Reykvíkingum. Þessi sala kemur hins vegar ekki í veg fyrir að ríkið geti eignast meirihluta í HS Orku, sé það vilji ríkisvaldsins. Tillögunni er því vísað frá.
Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3 og er því tillögu borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna vísað frá.
Málinu frestað að öðru leyti.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Með frávísun meirihlutans er það ljóst að hann ætlar að fría sig af þeirri samfélagslegu ábyrgð sem Orkuveitan axlaði þegar hún keypti hlut í HS Orku. Frávísunartillagan lýsir ábyrgðarleysi meirihlutans í þessum efnum þar sem svo virðist að honum sé alveg sama hverjir eigi orkufyrirtækin nema þá að um sé að ræða raunverulegan vilja til einkavæðingar í orkugeiranum. Þar með glatar borgarráð dýrmætu tækifæri til að vinna að málinu með framtíðarhagsmuni borgarinnar og alls samfélagsins í huga.
- Kl. 12.20 tekur Björk Vilhelmsdóttir sæti á fundinum og Sigrún Elsa Smáradóttir víkur af fundi.
18. Kynnt er staða á framkvæmd samnings Reykjavíkurborgar og Alþjóðahússins ehf. frá júlí 2009. R09070058
19. Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Vegna viðbragða borgarstjóra við bréfi forsvarsmanna Frjálslynda flokksins, þar sem því er haldið fram að undirritaður hafi lagt fé sem ætlað var Frjálslynda flokknum á eigin reikning með eigin kennitölu, spyr ég: Hvers vegna sá borgarstjóri ástæðu til að svara bréfi þar sem upplognar sakir eru bornar á undirritaðan í bréfi sem einkennist af rangfærslum og þekkingarleysi? Tilheyrði þetta mál ekki alfarið skrifstofu borgarstjórnar og alls ekki pólitískt kjörnum borgarstjóra? Er borgarstjóra kunnugt um að borgarstjórnarflokkur F-lista fékk enga fjármuni til starfsemi sinnar eftir að Margrét Sverrisdóttir og síðar undirritaður gengu í Íslandshreyfinguna árið 2007? Er borgarstjóra kunnugt um að fé ætlað borgarstjórnarframboði F-listans rann í gríðarlega kostnaðarhít skrifstofuhalds Frjálslynda flokksins við Austurvöll? Vill borgarstjóri gjöra svo vel að upplýsa borgarráð um stofnun, stjórn og kennitölu borgarmálafélags F-listans og hvenær framlag borgarinnar var greitt inn á þennan reikning. Er borgarstjóra kunnugt um að borgarstjórnarflokkur F-lista hafði enga fjármuni til að greiða fundahöld borgarstjórnarflokka F-lista og Sjálfstæðisflokks á Rangárbökkum í mars 2009? Vill borgarstjóri upplýsa hvenær borgarstjórnarframboðið gat loks greitt kostnað vegna fundarins? Eða telur borgarstjóri að undirritaður hafi, þá sem endranær, átt að borga allan rekstur F-lista framboðsins úr eigin vasa á meðan styrkur borgarinnar rann í lokaða vasa framkvæmdastjórnar Frjálslynda flokksins við Austurvöll? Vill borgarstjóri staðfesta við borgarráð að fyrir liggi álit fyrrverandi borgarlögmanns um að styrkur borgarinnar sé ætlaður framboðinu til borgarstjórnar en ekki stjórnmálaflokknum á landsvísu? Er borgarstjóra kunnugt um að eitthvert annað framboð í borgarstjórn en F-listinn hafi mátt sæta því að fá aðeins eina af þrem lögmætum greiðslum frá borginni inn á reikning sinn á þessu kjörtímabili? Hversu háa styrki frá borginni hafa hin framboðin í borgarstjórn fengið á þessu ári og hver verður greiðslan til F-listans þegar hann telur sér fært að taka á móti framlagi ársins 2009? R08120099
Fundi slitið kl. 13.10
Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Gísli Marteinn Baldursson Kjartan Magnússon
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson