Borgarráð - Fundur nr. 5081

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2009, fimmtudaginn 27. ágúst, var haldinn 5081. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.42. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfullltrúa frá 25. ágúst. R09010026
1. og 2. lið fundargerðarinnar vísað að nýju til meðferðar byggingarfulltrúa. Fundargerðin samþykkt að öðru leyti.

2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 25. ágúst. R09010018

3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 3 mál. R09070086

- Kl. 9.46 taka Dagur B. Eggertsson og Björk Vilhelmsdóttir sæti á fundinum.

4. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 19. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins vegna Græna trefilsins. R08100152
Samþykkt.

5. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 19. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um breytingu á aðalskipulagi vegna Grandagarðs og Geirsgötu. R09030111
Samþykkt.

6. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 19. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um breytingu á aðalskipulagi vegna afmörkunar á svæði til jarðvegsfyllingar á Hólmsheiði. R09030058
Samþykkt.

7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 19. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um deiliskipulag á Hólmsheiði vegna afmörkunar á svæði til jarðvegsfyllingar. R07060084
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 19. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um breytingu á aðalskipulagi vegna Búrfellslínu, Kolviðarhólslínu og Suðvesturlína. R09050024
Samþykkt.

9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 19. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um breytingu á aðalskipulagi vegna aðstöðu fyrir fisflug á Hólmsheiði. R08060102
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 19. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um deiliskipulag á Hólmsheiði vegna athafnasvæðis Fisfélagsins. R08020014
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 19. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi Lokastígsreita 2, 3 og 4. R09080061
Björk Vilhelmsdóttir víkur af fundi við meðferð málsins.
Samþykkt.

- Kl. 10.05 tekur Ólafur F. Magnússon sæti á fundinum.

12. Lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998, ásamt bréfi allsherjarnefndar Alþingis frá 4. þ.m., þar sem óskað er eftir umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarpið. R09080006

- Kl. 10.31 víkur Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi og Jórunn Frímannsdóttir tekur þar sæti.

Frestað.

13. Lagt fram svar borgarstjóra frá 24. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um Landakotsskóla. sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. s.m. R09080053

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Um leið og fulltrúar Samfylkingarinnar þakka fyrir svör við fyrirspurnum um Landakotsskóla er áfram spurt: Hversu margir nemendur hafa hætt við skólavist síðastliðnar tvær vikur og hversu margir nemendur eru nú í skólanum miðað við sama tíma í fyrra?

14. Lagt fram svar borgarstjóra frá 24. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um nágrannavörslu, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. s.m. R06120047

15. Lagt fram svar borgarstjóra frá 24. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um frístundaheimili, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. s.m. R09070081

16. Lögð fram skýrsla starfshóps um samstarf íþrótta- og tómstundasviðs og menntasviðs um rekstur frístundaheimila, dags. 11. júní sl., ásamt svohljóðandi tillögu borgarstjóra, dags. 25. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að vísa tillögum í skýrslu starfshóps um samstarf íþrótta- og tómstundasviðs og menntasviðs til frekari útfærslu og meðferðar hjá ÍTR og menntasviði. Óskað er eftir að tillögur að útfærslu verði lagðar fyrir borgarráð eigi síðar en 1. október. nk.

Greinargerð fylgir tillögunni. R09060117
Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Það er ljóst af svörum borgarstjóra að því fer fjarri að málefni barna og frístundaheimila hafi verið í forgangi hjá meirihlutanum. Lítill vilji virðist því miður vera til þess hjá meirihluta borgarstjórnar að leita nýrra lausna og leiða í skipulagi skóladags yngstu barnanna þrátt fyrir ítrekaðar tillögur og fyrirspurnir frá fulltrúum Samfylkingarinnar. Málefni frístundaheimilanna eru í kyrrstöðu og ljóst að mun stærri og kjarkmeiri skref verða að vera stigin af pólitískum fulltrúum til að sjá raunverulegar úrbætur. Skýrslan er samviskusamlega unnin af embættismönnum en ber keim af litlum stuðningi pólitískra fulltrúa meirihlutans í menntaráði og ÍTR. Metnaðarleysi meirihlutans í málefnum frístundaheimila og raunverulegrar samþættingar frístunda- og skólastarfs er verulegt áhyggjuefni.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna fagnar því að berja loks augum skýrslu um samstarf ÍTR og menntasviðs, þó það sæti furðu að skýrslan hafi ekki verið lögð fram í borgarráði fyrir löngu síðan. Það er staðföst sannfæring Vinstri grænna að frístundaheimilin verði að efla og styrkja. Eigi að vera hægt að móta stefnu með tilliti til þeirra niðurstaðna sem nú liggja fyrir er nauðsynlegt að íþrótta- og tómstundaráð fundi sem skyldi og ræði málin til enda. Skýtur þá skökku við að fyrsti reglulegi fundur ráðsins, sem vera átti á morgun, hafi verið felldur niður vegna aukafundar sem haldinn var á mánudag að beiðni minnihlutans. Vinstri græn brýna meirihlutann til dáða og munu ekki liggja á liði sínu í þessum efnum.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fagna skýrslu starfshóps um samstarf íþrótta- og tómstundasviðs og menntasviðs um rekstur frístundaheimila í Reykjavík. Í skýrslunni eru tillögur, sem miða að því að bæta starfsemi frístundaheimila og koma betra lagi á starfsmannahald þeirra. Á kjörtímabilinu hefur mikil áhersla verið lögð á að auka og bæta samstarf ÍTR og menntasviðs um rekstur frístundaheimilanna og unnið hefur verið að úrbótum í húsnæðismálum í samvinnu við framkvæmda- og eignasvið. Þessi vinna hefur nú þegar skilað góðum árangri sem m.a. kemur fram í stóraukinni ánægju foreldra og barna með rekstur og aðstöðu frístundaheimilanna. Þá hafa mönnunarmál frístundaheimilanna aldrei staðið betur en nú, miðað við fyrri ár. Við skólasetningu voru t.d. öll sex ára börn komin með staðfesta vistun við skólasetningu og er það í fyrsta sinn frá upphafi sem sá árangur hefur náðst. Núverandi meirihluti hefur ríkan metnað til að standa vel að rekstri frístundaheimila og stuðla að framþróun innan þeirra með nýjum og ferskum lausnum. Stór skref hafa þegar verið stigin til samþættingar skóla- og frístundastarfs. Nefna má að á Kjalarnesi hefur rekstur frístundaheimilis, skóla og íþróttamiðstöðvar t.d. verið sameinaður í tilraunaskyni og á síðasta fundi íþrótta- og tómstundaráðs var samþykkt að vinna að hugmyndum um svokallaða safnfrístund í Vesturbæ með stórefldu íþrótta- og frístundastarfi fyrir börn úr skólum hverfisins.

17. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R09080001

18. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs, dags. 6. þ.m. R09010038
Samþykkt að veita Hugmyndahúsi háskólanna 700 þ.kr. styrk vegna rekstrar hugmyndahússins.

19. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 26. þ.m. varðandi sölu byggingarréttar fyrir atvinnuhúsnæði. R07070121
Samþykkt.

20. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 24. þ.m. þar sem lagt er til að lóðum fyrir íbúðarhús í Úlfarsárdal og við Reynisvatnsás verði úthlutað með nánar tilgreindum skilmálum. R07020085
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Samfylkingin ítrekar að það sé afar óheppilegt að mismunandi reglur gildi um mismunandi lóðir í einu og sama hverfinu. Samfylkingin studdi ekki breytingar meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á lóðaúthlutunarreglum og situr því hjá við þessa afgreiðslu. Þá er það sérstaklega athyglisvert að lóðaverðið sem meirihlutinn ákvað þegar þenslan stóð sem hæst 2007 skuli halda sér eftir hrun. Hvor tveggja felur tvímælalaust í sér svik á loforðum Sjálfstæðisflokksins um lóðir á kostnaðarverði. Sjálfstæðisflokkurinn laðaði til sín kjósendur í borgarstjórnarkosningunum með því að lofa ódýrum lóðum fyrir alla. Þá var haft eftir Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni þáverandi borgarstjóra að stefna Sjálfstæðisflokksins væri sú að úthluta lóðum á gatnagerðagjöldum. Nú á enn að halda í fast verð á lóðum sem jafngilda þreföldum eða fjórföldum gatnagerðargjöldum: 4,5 milljónir fyrir hverja íbúð í fjölbýli, 7,5 milljónir fyrir íbúð í parhúsi eða raðhúsi og 11 milljónir fyrir einbýlishúsalóð.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Það er mótsagnakennt að Samfylkingin samþykir tillöguna um úthlutun atvinnuhúsnæðis en gagnrýnir um leið lóðaverðið á íbúðarlóðum. Sama aðferð er notuð um verðlagningu á atvinnu- og íbúðalóðum og því erfitt að átta sig á hvað Samfylkingin er að leggja til í málinu. Á árunum 2006 og 2007 lækkaði verðið á íbúðarlóðum verulega frá því sem áður var. Mikilvægast í þessu máli er að lóðir séu til úthlutunar í landi Reykjavíkur og það er markmið meirihlutans með þessari afgreiðslu.

21. Kynnt er rekstraryfirlit júnímánaðar. R09020033

22. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 25. þ.m. varðandi samninga um viðskiptavakt á nýjum skuldabréfaflokki Reykjavíkurborgar. R08110060
Samþykkt.

- Kl. 12.05 tekur Júlíus Vífill Ingvarsson sæti á fundinum og Jórunn Frímannsdóttir víkur af fundi.

23. Lögð fram niðurstaða ráðgjafarhóps borgarstjóra um yfirferð umsókna um starf skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar, dags. 26. þ.m., ásamt fylgiskjölum. Jafnframt lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. s.d.:

Borgarráð samþykkir að Ólöf Örvarsdóttir verði ráðin skipulagsstjóri Reykjavíkurborgar. R09080069
Samþykkt.

24. Lagt fram bréf fjármálastjóra, ódags., varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um lánshæfismat Landsvirkjunar, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. júlí sl. og 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. júlí sl. R09070017
- Kl. 13.17 víkur borgarstjóri af fundi.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Ljóst er að erfið skuldastaða Landsvirkjunar stafar m.a. af þeirri ákvörðun borgarstjórnar frá 16. janúar 2003 að fallast á þátttöku Reykjavíkurborgar í Kárahnjúkavirkjun. Ég segi því: “Kárahnjúkafyllerí, kæruleysi og svínarí, kannski verði fyrir bí. Þegar Þorra og Góugný þreyja íhaldsleiguþý. Þjóðin lærir víst af því.”

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Reykjavíkurborg er í ábyrgð fyrir 110 milljarða af skuldum Landsvirkjunar. Þetta þýðir að fari fyrirtækið í þrot geta lánveitendur gengið að Reykjavíkurborg og krafið hana um greiðslu á eftirstöðvum kröfu sinnar. Ljóst er að engan veginn var bundið tryggilega um þessa þætti við sölu á hlut Reykjavíkurborgar í fyrirtækinu, enda segir í svörum fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar við spurningum Samfylkingarinnar um þessi efni: “Í samningi um sölu á hlut Reykjavíkurborgar til ríkisins er ekki ákvæði um samskipti og eftirlit borgarinnar með rekstri og fjárhag LV enda þótt aðstæður LV geti haft áhrif á hvort reyni á ábyrgðir borgarinnar.” Brýnt er að leitað verði leiða til að bæta úr þessu og framkvæmt áhættumat vegna þeirrar stöðu sem borgin er í gagnvart Landsvirkjun. Samfylkingin áskilur sér rétt til frekari fyrirspurna og tillöguflutnings til að halda á hagsmunum Reykjavíkurborgar í þessu máli.

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð beinir því til fjármálaskrifstofu að meta á áhættu borgarinnar af fjárhagslegum ábyrgðum vegna Landsvirkjunar.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Afgreiðslu tillögunnar frestað.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Vegna tillögu VG og Samfylkingar varðandi Landsvirkjun er nauðsynlegt að benda á að á fundi Borgarstjórnar Reykjavíkur 16. janúar 2003 greiddu allir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ásamt þáverandi borgarstjóra úr Samfylkingunni atkvæði með því að borgin taki þátt í Kárahnjúkavirkjun. Aðeins undirritaður, ásamt tveimur borgarfulltrúum Vinstri grænna og tveimur borgarfulltrúum Samfylkingar, greiddu atkvæði gegn þátttökunni í Kárahnjúkavirkun.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Við sölu á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun ávannst ekki aðeins gott verð fyrir hlutinn, sem nú er um 32 milljarðar kr. að verðmæti, heldur takmarkaði salan verulega ábyrgðir borgarinnar, sem eru nú 110 milljarðar kr., af skuldum fyrirtækisins, en hefði verið ríflega 150 milljarðar kr. ef Reykjavíkurborg hefði ekki selt sinn hlut, en borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna börðust harkalega gegn því að Reykjavíkurborg seldi hlutinn. Þetta sýnir að salan á hlut Reykjavíkurborgar var vel tímasett og hefur stórlega dregið úr ábyrgðum Reykjavíkurborgar á þessu fyrirtæki. Eftir 1. janúar 2012 mun íslenska ríkið tryggja Reykjavíkurborg skaðleysi ábyrgða á skuldbindingum. Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa fulla trú á starfsemi Landsvirkjunar og möguleikum fyrirtækisins í framtíðinni.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Reykjavíkurborg fékk smánarverð fyrir hlut sinn í Landsvirkjun eins og margoft hefur verið sýnt fram á og fjölmörg önnur atriði vitna um að illa var haldið á hagsmunum Reykjavíkurborgar við gerð samninganna, eins og nú hefur enn verið staðfest.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Í síðustu bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingar koma fram hreinar rangfærslur, algjörlega órökstuddar. Afar gott verð fékkst fyrir hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun. Það var mat allra þeirra sem komu að þessum samningum af hálfu Reykjavíkurborgar, þ.á.m. borgarhagfræðings.

25. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Nú er borgarráði tilkynnt að sviðsstýra umhverfis- og samgöngusviðs muni jafnframt taka að sér sviðsstjórastöðu á framkvæmdasviði í 9 mánaða námsleyfi sviðsstjóra. Óskað er eftir rökstuðningi borgarstjóra fyrir þessari ákvörðun og spurt hvaða samráð var haft við staðgengil sviðsstjóra framkvæmdasviðs og annað starfsfólk sviðsins? R09080073

Lagt fram svohljóðandi svar borgarstjóra:

Eins og kunnugt er hefur Hrólfur Jónsson, sviðsstjóri framkvæmda- og eignasviðs óskað eftir leyfi frá störfum næstu 9 mánuði til að sækja framhaldsnám við háskóla í Kaupmannahöfn en Hrólfur hefur starfað hjá Reykjavíkurborg frá árinu 1980. Ákveðið hefur verið að fela Ellý K. Guðmundsdóttur, sviðsstýru umhverfis- og samgöngusviðs, að gegna störfum sviðsstjóra beggja sviðanna þennan tíma. Mörg viðfangsefni sviðanna skarast og eru nátengd og því bæði heppilegt og hagkvæmt að fela sviðsstjóra umhverfis- og samgöngusviðs að stýra báðum sviðunum tímabundið. Þannig er hægt að efla samstarf sviðanna með það í huga að bæta verklag þeirra á milli, auka skilvirkni og skilning á samvinnu við afgreiðslu flókinna verkefna, til hagsbóta fyrir borgarbúa. Vegna þess og þess hversu langt námsleyfið er, var ákveðið að leita til aðila úr sviðsstjórahópi borgarinnar frekar en að leita til annarra starfsmanna framkvæmda- og eignasviðs sem bera ekki þá ábyrgð að leysa sviðsstjóra af til svo langs tíma. Samráð var haft við Hall Pál Jónsson, mannauðsstjóra Reykjavíkurborgar, og við Hrólf Jónsson um þessa ákvörðun, sem hann hefur þegar tilkynnt sínu starfsfólki.

26. Lagt fram bréf forseta borgarstjórnar frá 24. þ.m. varðandi undirbúning 100 ára afmælis Höfða, þar sem fram kemur að áætlaður kostnaður nemi 550 þ.kr. R09030006
Samþykkt.

27. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að veita heimild til íþrótta- og tómstundasviðs til að taka inn öll börn sem sótt hafa um dvöl í frístundaheimili umfram þau 2100 sem fjárhagsáætlun sviðsins gerir ráð fyrir. Á sama tíma samþykkir borgarráð að fela fjármálastjóra að reikna út kostnað vegna þeirra barna sem um ræðir og benda á leiðir til fjármögnunar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R09070081
Frestað.

28. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu: R07090015

Borgarráð felur fjármálaskrifstofu borgarinnar að nálgast árshlutareikning Orkuveitu Reykjavíkur og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til glöggvunar fyrir borgarráð með tilliti til áhættu af fjárfestingaráformum OR fyrir A-hluta borgarsjóðs. Fjármálaskrifstofu er jafnframt falið að gera tillögur til ráðsins um gerð áhættumats þeirra þátta OR sem hugsanlega geta ógnað fjárhagslegu öryggi borgarinnar.
Frestað.

29. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð felur umhverfis- og samgöngusviði að kanna kosti þess að bílastæðahús borgarinnar verði seld.

Greinargerð fylgir tillögunni. R07060139
Frestað.

30. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Fulltrúar Samfylkingarinnar kölluðu ítrekað eftir því sl. vor að málaflokkar fengju skilaboð um svigrúm og væntanlegan niðurskurð í komandi fjárhagsáætlun. Við þessu hefur enn ekki verið orðið þótt í millitíðinni hafi allt sumarið liðið. Spurt er hvenær málaflokkar og fagráð fái fjárhagsupplýsingar og önnun nauðsynleg gögn sem marki rammann fyrir niðurskurð og starfsemi borgarinnar árið 2010? R09050032

Fundi slitið kl. 14.10

Óskar Bergsson

Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Júlíus Vífill Ingvarsson Kjartan Magnússon
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson