Borgarráð - Fundur nr. 5080

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2009, fimmtudaginn 20. ágúst, var haldinn 5080. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.38. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Sigrún Elsa Smáradóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Kjartan Eggertsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 17. ágúst. R09010007

2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 11. ágúst. R09010018

3. Lagðar fram fundargerðir skipulagsráðs frá 12. og 19. ágúst. R09010026
11. lið fundargerðar skipulagsráðs frá 12. þ.m. vísað til skipulagsráðs að nýju. B-hlutar fundargerðanna samþykktir að öðru leyti.

4. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 3. júlí og 14. ágúst. R09010030

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R09070086

6. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 12. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á breytingu skilmála deiliskipulags í Húsahverfi, svæði C. R09010108
Samþykkt.

7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 12. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Spangarinnar. R09080027
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 12. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Háskóla Íslands, reits A1 vestan Suðurgötu og sunnan Brynjólfsgötu. R09080028
Samþykkt.

- Kl. 9.46 tekur Þorleifur Gunnlaugsson sæti á fundinum.

9. Lagt fram að nýju bréf kaupmanna í miðborginni frá 29. janúar sl. varðandi stofnun miðborgarfélags. Jafnframt lögð fram bókun stjórnar félagsins Miðborgar Reykjavíkur frá 2. f.m. varðandi málið, sbr. 10. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. mars sl. R09020067
Vísað til skrifstofustjóra borgarstjórnar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Vinnubrögð Sjálfstæðisflokksins í málefnum félagsins Miðborgar Reykjavíkur lýsa ótrúlegum vandræðagangi. Í byrjun kjörtímabils var félagið stofnað og hverfisráð miðborgar lagt niður í kjölfarið. Markmið breytingarinnar var alla tíð óljóst og vandséð að hugur hafi fylgt máli enda er nú verið að hverfa til baka til fyrra horfs. Strax þótti ljóst að staða félagsins innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar var veik og hefur fulltrúi minnihlutans í stjórninni lagt á það ríka áherslu að tengja þyrfti starfsemi félagsins betur við öflugt starf Höfuðborgarstofu. Kaupmenn hafa tekið vel í þá hugmynd, sem og yfirstjórn Höfuðborgarstofu. Tillögur að lausnum til að styrkja félagið hafa legið lengi fyrir, unnar af embættismönnum menningar- og ferðamálasviðs og þáverandi framkvæmdastjóra Miðborgar Reykjavíkur. Frómt frá sagt hefur áhugi meirihlutans á félaginu verið afar lítill og framtíð þess verið óljós um langt skeið. Til marks um það hefur enginn aðalfundur verið haldinn í félaginu frá stofnun þess. Það er mikilvægt að kaupmenn í miðborginni eigi sér öflug samtök. Sameiginlegir hagsmunir miðborgarkaupmanna eru samofnir hagsmunum Reykjavíkurborgar, hvað varðar menningu, mannlíf, viðburði og framkvæmdir. Því er mikilvægt að tengja þessa hagsmuni saman, í stað þess að auka fjarlægð milli aðila.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í kjölfar þess að verið er að leggja niður félagið Miðborg Reykjavíkur örfáum misserum eftir að það var stofnað er spurt:
1. Hver voru markmið með stofnun Miðborgar Reykjavíkur, hver þeirra brugðust og hvers vegna?
2. Munu miðborgarkaupmenn áfram halda sínum tekjustofnum í gegnum Bílastæðasjóð til eflingar markaðsstarfi kaupmanna?
3. Mun Reykjavíkurborg halda áfram að greiða fyrir stöðugildi framkvæmdastjóra félags Miðborgar Reykjavíkur?
4. Af hverju hefur borgarráð ekki fengið kynningu á vel unnum tillögum embættismanna á menningar- og ferðamálasviði og þáverandi framkvæmdastjóra Miðborgar Reykjavíkur á tilhögun félagsins?

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Sú vinna sem nú er í gangi vegna félags kaupmanna í miðborginni er tilkomin vegna óska kaupmanna sjálfra sem telja að betur megi vinna að þeirra hagsmunamálum með þeim hætti sem borgarráð leggur nú til. Fullyrðingum fulltrúa Samfylkingarinnar um starfsemi félagsins Miðborg Reykjavíkur er alfarið vísað á bug, enda hefur ótal framfaramálum verið ýtt úr vör fyrir tilstuðlan félagsins. Tillaga meirihlutans um að koma til móts við óskir kaupmanna um breytingar á samtökum þeirra miðar aðeins að því að styrkja stöðu þeirra og starfsemi enn frekar í samræmi við sameiginlegan vilja borgarstjórnar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Sá vilji kaupmanna að leggja niður tveggja ára gamalt félag og að meirihlutinn hafi fallist á það segir meira en mörg orð um vandræðagang meirihlutans í málefnum miðborgarinnar.

10. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. f.m. í máli nr. E-5816/2006, Rok ehf. gegn Reykjavíkurborg. R06090277

11. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 16. f.m. í máli nr. E-1969/2009, Guðbrandur G. Brandsson gegn Reykjavíkurborg. R09020039

12. Lagður fram úrskurður samgönguráðuneytisins frá 30. f.m. í máli nr. 82/2008 varðandi framkvæmd veitingar afsláttar af fasteignagjöldum. R09010095

13. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs, dags. 6. þ.m. R09010038

14. Lögð fram greinargerð innri endurskoðanda frá 30. júní sl. um skoðun afgreiðslna hjá framtalsnefnd Reykjavíkur. Jafnframt lögð fram greinargerð framtalsnefndar frá 7. f.m. R09060138
Skrifstofustjóra borgarstjórnar falið að fara yfir starfsreglur framtalsnefndar með hliðsjón af greinargerð innri endurskoðanda.

15. Kynnt er vinna við viðbragðsáætlanir vegna inflúensufaraldurs. R07050063

16. Kynnt er dagskrá Menningarnætur 22. ágúst nk. R09020051

17. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R09080001

18. Kynntar eru viðræður um sölu á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. R09080037

- Kl. 12.00 víkur Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi.
- Kl. 12.12 víkur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi.

19. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 17. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 12. s.m., þar sem óskað er heimildar til að flytja á brott gám af lóðinni nr. 50 við Grensásveg á kostnað eiganda. R09080036
Samþykkt.

20. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 17. þ.m. þar sem óskað er heimildar borgarráðs til að ganga frá uppgjöri vegna hússins Norðurpólsins. R07040054
Samþykkt.

21. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Skólastjóra Landakotsskóla var sagt upp rétt fyrir upphaf skólaárs. Þá ákvörðun tók stjórn skólans án samráðs við aðra foreldra og án samráðs við skólaráð skólans. Nú liggur fyrir að börn eru að hætta í skólanum og kennarar að segja upp og má segja að skólastarfið sé í ákveðinni upplausn. Engir þjónustusamningar eru til við sjálfstætt rekna skóla og því er aðkoma menntasviðs fyrir hönd menntaráðs ekki til staðar. Ábyrgð kjörinna fulltrúa á skólastarfi í borginni er þó mikil og gera verður þá kröfu til ríkjandi valdhafa að þeir setji sig inn í málið, hlusti á raddir foreldra og leggi sig eftir því að börn í öllum skólum borgarinnar geti treyst því að skólinn þeirra sé rekinn og honum sé stjórnað á faglegum forsendum. Fulltrúar Samfylkingarinnar ítreka mikilvægi þess að þjónustusamningagerð við sjálfstætt rekna skóla verði flýtt sem kostur er, og að hnykkt verði á eftirlitsskyldu menntasviðs í þeim samningum. Fyrirspurnir:
1. Hefur formaður menntaráðs eða borgarstjóri sett sig í samband við foreldra í skólanum, kennaralið eða stjórn skólans?
2. Hefur formaður menntaráðs eða borgarstjóri haft samband við menntamálaráðuneytið um málefni Landakotsskóla?
3. Hefur formaður menntaráðs eða borgarstjóri kannað hvað búi að baki orðum fráfarandi skólastjóra að stjórn skólans vilji ekki fara að grunnskólalögum?
4. Hefur formaður menntaráðs eða borgarstjóri kannað hvort sitjandi skólastjóri uppfylli kröfur um menntun skólastjórnenda? R09080053

22. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Fyrir tæpu ári síðan samþykkti borgarráð að fela sviðsstjórum menntasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs að vinna tillögur að úrlausn þess vanda sem hefur skapast vegna manneklu á frístundaheimilum. Leita átti leiða til að efla og samþætta störf viðkomandi sviða auk skóla og frístundaheimila. Ætlunin var að tillögurnar lægju fyrir í upphafi árs. Það dróst. Hópur embættismanna skilaði hins vegar tillögum af sér til borgarstjóra 1. júní en þær hafa ekki verið kynntar borgarráði. Nú ári síðar liggur fyrir að mannekla hamli starfsemi frístundaheimilanna en engar nýjar lausnir eru boðaðar þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar borgarstjóra fyrir ári síðan. Því er spurt:
1. Hvernig hljóða tillögur embættismanna íþrótta- og tómstundasviðs og menntasviðs um samþættingu til eflingar starfsemi frístundaheimilanna sem skilað var 1. júní?
2. Til hvaða úrræða hefur verið gripið til að mæta börnum sem eru án frístundaheimila og þeirra síðdegiskennslustunda sem skornar voru niður í haust?
3. Af hverju hefur borgarstjóri ekki kynnt borgarráði tillögurnar? R09070081

Fundi slitið kl. 12.45

Óskar Bergsson

Dagur B. Eggertsson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Kjartan Magnússon Sigrún Elsa Smáradóttir
Þorleifur Gunnlaugsson