Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2009, fimmtudaginn 6. ágúst, var haldinn 5079. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.37. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lagðar fram afgreiðslufundargerðir byggingarfulltrúa frá 21. og 28. júlí. R09010026
Samþykktar.
2. Lagðar fram fundargerðir framtalsnefndar frá 29. júní og 7. júlí. R09010006
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 15. júlí. R09010017
4. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 14. og 21. júlí. R09010018
5. Lagðar fram fundargerðir umhverfis- og samgönguráðs frá 10. og 24. mars og 14. júlí. R09010033
6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R09070086
7. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 16. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 15. s.m., varðandi breytt deiliskipulag Bryggjuhverfis. R08120101
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Vonast má til að það deiliskipulag sem fyrir liggur og felur í sér nokkra stækkun Bryggjuhverfisins geti bætt eitthvað úr alls óviðunandi nábýli fyrirtækisins Björgunar og íbúa í Bryggjuhverfi. Það veldur hins vegar vonbrigðum að engin skref hafi verið stigin í því að ná niðurstöðu um flutning fyrirtækisins úr Elliðaárvogi. Það hefur lengi verið aðkallandi. Í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga höfðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks uppi stór orð og gáfu íbúum skýr fyrirheit um að niðurstaða um flutning Björgunar myndi liggja fyrir í lok árs 2006. Þess í stað hefur ekkert gerst og nú er boðað að mörg ár geti liðið þar til hún verði að veruleika.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Skipulagsráð hefur þegar hafið undirbúning að því að finna Björgun og nokkrum öðrum fyrirtækjum í grófum iðnaði nýjan stað á Álfsnesi. Tafir á flutningi Björgunar verða m.a. raktar til þess að seinkun hefur orðið á lagningu Sundabrautar. Mikilvægt er að finna Björgun og ýmsum öðrum fyrirtækjum sem eru í hverfum sem ekki henta starfseminni lengur nýja starfsaðstöðu. Við núverandi efnahagsástand er þó ljóst að sýna verður skilning á stöðu þeirra og að þau, eins og önnur fyrirtæki, þurfa að sjá tryggari framtíð áður en ráðist er í framtíðaruppbyggingu með tilheyrandi fjárfestingum.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Þetta mál hefur því miður verið stopp allt kjörtímabilið þrátt fyrir gefin fyrirheit. Það ber vott um gott hugarþel að finna þann skilning sem viðkomandi fyrirtæki nýtur hjá meirihlutanum þrátt fyrir áragömul fyrirheit þess um að flytja sig um set. Óneitanlega hefði verið affarasælla fyrir framgang málsins ef íbúar hefðu notið þó ekki væri nema brots af sambærilegum skilningi í aðstæðum sínum, sem hafa verið óþolandi árum saman.
8. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 16. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 15. s.m., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi Urðarstígsreita 1.186.0 og 1.186.4. R09070082
Samþykkt.
9. Lagt fram svar borgarstjóra frá 31. f.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar um kennslustundir í 2.-4. bekk, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. s.m. R09070077
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Í svari borgarstjóra kemur fram að ekki verður um styttingu á dvalartíma barna í 2.-4. bekk í grunnskólum að ræða þó kennslustundum fækki um eina, enda hafi rík áhersla verið lögð á að breytingin raskaði högum fjölskyldna sem minnst. Þó verður ekki boðið upp á lengri dvöl í frístundaheimilum. Þetta þýðir að í stað 40 mínútna kennslu á degi hverjum verður nú gæsla í boði, sem ekki hefur verið skilgreind nánar, ýmist fyrir skóla, eftir skóla eða í frímínútum. Vera má að þessi ráðahagur raski högum fjölskyldna lítið en nær öruggt verður að teljast að áhrifin á börnin verði talsverð. Niðurfelling á 180 kennslustundum yfir árið, eða ríflega fimm vikna námi, hefur að sjálfsögðu áhrif. Þess utan er það til marks um lítinn metnað þegar óskilgreind gæsla á að dekka þennan tíma, þrátt fyrir að á vegum borgarinnar hafi mikil vinna verið lögð í þróun frístundastarfs fyrir þennan aldur undanfarinn áratug. Í stað þess að viðurkenna þann tíma sem þarna myndast sem frítíma verður ákvörðun meirihlutans nú til þess að þriðji hluti skóladagsins verður til, gæslan. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna lýsir yfir miklum vonbrigðum, enda greinilegt að hagur barnanna í borginni er fyrir borð borinn í þessu máli.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það er rangt, sem fram kemur í bókun Vinstri grænna, að í stað niðurfellingar viðbótarkennslustundar í grunnskólum verði einungis óskilgreind gæsla í boði. Frístundaheimili íþrótta- og tómstundaráðs munu koma til móts við skólana með því að taka 20 mínútum fyrr við nemendum úr skólunum og er ekki hægt að taka undir þá skoðun VG að þar sé um óskilgreinda gæslu að ræða. Hverjum skóla er síðan í sjálfsvald sett hvernig staðið er að dvöl barna þann tíma sem eftir er. Sumir skólar hafa t.a.m. kosið að breyta stundatöflu og seinka skólabyrjun sem þessu nemur, aðrir áforma að sjá um gæslu fyrir þann tíma sem eftir stendur, t.d. með lengingu frímínútna eða hádegishlés. Af hálfu menntasviðs hefur rík áhersla verið lögð á það við skólastjóra að allar slíkar breytingar verði gerðar í góðu samráði við fulltrúa foreldra.
10. Lagt fram svar borgarstjóra frá 6. f.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar varðandi framkvæmd skuldabréfaútboðs, sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. s.m. R08110060
Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar óska bókað:
Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar í borgarráði furða sig á svörum meirihlutans við spurningum um skuldabréfaútboð sem MP Banki sá um fyrir hönd Reykjavíkurborgar í maí. Þeirri spurningu er í raun ekki svarað, vegna hvers MP Banki varð fyrir valinu sem þjónustuaðili og vegna hvers öðrum fjármálafyrirtækjum, s.s. VBS fjárfestingabanka, Saga Capital fjárfestingabanka og nýju ríkisbönkunum sem höfðu innan sinna vébanda starfsfólk sem kunni til verka, var ekki boðið að bjóða í verkið. Ljóst er að greiddar voru 42,5 m.kr. en fjármálafyrirtækið Virðing bauð 17,5 milljónir. Sú röksemd er langsótt að verkið hafi ekki verið boðið út í desember vegna þess að borgarráð hafi ákveðið 31. október 2008 „að fresta öllum áformum um útboð á bankaþjónustu vegna umræddra aðstæðna.“ Í fundargerð borgarráðsfundarins segir “Lagt fram bréf fjármálastjóra, dags. 28. þ.m., þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að fresta útboðum á innheimtu viðskiptakrafna og bankaþjónustu ótímabundið með skírskotun í atvinnu- og efnahagsástand. Jafnframt verði fjármálastjóra falið að semja um tímabundið fyrirkomulag á innheimtum viðskiptakrafna og bankaþjónustu eftir atvikum við sömu aðila eða aðra í samráði við innkaupaskrifstofu og borgarlögmann.“ Þessi undanþága náði því til innheimtuþjónustu en ekki skuldabréfaútboða. Eðlilegt hlýtur að teljast að málinu verði vísað til innkauparáðs Reykjavíkurborgar til umsagnar.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Eins og fram kemur í ítarlegu svari fjármálastjóra var fjármálaþjónusta af því tagi sem hér um ræðir ekki útboðsskyld og er almennt ekki boðin út, hvorki af Reykjavíkurborg né öðrum sveitarfélögum. Sérstakt ástand á fjármálamarkaði eftir bankahrunið gerði útboðsleið algerlega óraunhæfa. Eftir skoðun fjármálaskrifstofu var traust fyrirtæki valið sem bæði sýndi sig í útboði borgarinnar og almennt á skuldabréfamarkaði í ár þar sem það fyrirtæki hefur náð meiri árangri en önnur fjármálafyrirtæki. Fráleitt er að bera saman þóknun til MP Banka og Virðingar. Virðingu bauðst að taka verkefnið að sér en gaf það frá sér að selja skuldabréfin án veðréttar í eignum borgarinnar. Þá var leitað til MP Banka. Niðurstaðan var sú að kostnaður við skuldabréfaútgáfuna var 25 m.kr. lægri en ef Virðing hefði selt bréfin með veðrétti. Þess vegna ber enn að fagna þessu árangursríka skuldabréfaútboði.
11. Lagt fram svar borgarstjóra frá 31. f.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar um breytingu á skipuriti leikskóla, sbr. 45. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. s.m. R09070018
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Þær starfsaðferðir sem voru viðhafðar við útsendingu bréfs um breytingar á skipuriti leikskólanna í júlí sl. vekja furðu. Aðgerðirnar sem þar eru kynntar hafa töluverð áhrif á starfskjör starfsmanna sem þar eiga í hlut. Útsending bréfsins olli þó nokkrum óróa í leikskólum borgarinnar sem vel var hægt að komast hjá. Einnig er með ólíkindum að jafn áhrifamiklar aðgerðir hafi ekki verið kynntar í leikskólaráði áður en þær eru sendar leikskólastjórum til framkvæmda.
12. Lagt fram að nýju bréf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 22. apríl sl. þar sem óskað er eftir umsögn borgarráðs um rekstrarleyfi fyrir Café Loka. Jafnframt lögð fram umsögn skipulagssviðs frá 19. júní sl. R09020076
Björk Vilhelmsdóttir víkur af fundi við meðferð málsins.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu að umsögn:
Veitingastaðurinn Café Loki er staðsettur við fjölsóttan ferðamannastað en á jaðri íbúðasvæðis skv. aðalskipulagi. Þar er nú þegar rekið kaffihús, en sótt er um heimild til veitingarekstrar í flokki II, þ.e. umfangslítinn áfengisveitingastað sem ekki er til þess fallinn að valda ónæði í nágrenninu og sem ekki er opinn lengur en til kl. 23.00 á kvöldin. Með vísan til þessa, sem og heimildar í 5. gr. málsmeðferðarreglna borgarráðs, veitir ráðið fyrir sitt leyti jákvæða umsögn um umsóknina, en í ljósi nálægðar veitingastaðarins við íbúðabyggð verði leyfið eingöngu gefið út til eins árs í upphafi til reynslu. Þá er jákvæð umsögn bundin því skilyrði að umsagnir annara umsagnaraðila, þ.m.t. byggingarfulltrúa og heilbrigðiseftirlits, séu einnig jákvæðar, auk annarra hefðbundinna skilyrða.
Tillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði lýsir furðu sinni á þeirri ákvörðun meirihlutans að mæla með vínveitingaleyfi til Café Loka á Lokastíg 28. Þegar veitingastaðurinn sótti um tilskilin leyfi á sínum tíma fór málið í grenndarkynningu. Flestir nágrannar mótmæltu kröftulega og bentu á að staðurinn væri á skilgreindu íbúðasvæði, í þröngri götu og í fjölbýlishúsi. Mestar áhyggjur voru af því að í kjölfarið yrði staðurinn gerður að vínveitingastað með líkum á auknu ónæði. Nágrannar voru hinsvegar fullvissaðir um það af skipulagsyfirvöldum Reykjavíkur að til þess myndi ekki koma en nú hefur meirihluti borgarráðs svikið það með því að mæla með vínveitingaleyfi án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við íbúana. Enn og aftur víkja réttmætir hagsmunir íbúa miðborgarinnar fyrir viðskiptahagsmunum einkafyrirtækja.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það er rangt sem fram kemur í bókun borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna að ekki verði haft samráð við íbúa vegna þessarar ákvörðunar borgarráðs, enda verður byggingarleyfisumsókn Café Loka kynnt í nágrenninu þegar hún berst. Ákvörðun borgarráðs er í samræmi við málsmeðferðarreglur borgarráðs og miðast aðeins við að þarna sé um að ræða umfangslítinn veitingastað sem ekki er til þess fallinn að valda nokkru ónæði í umhverfi sínu, enda byggja reglurnar á því að hann sé einungis opinn til kl. 23.00 á kvöldin og leyfið verði gefið til eins árs til reynslu.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna bókaði að ekki hafi verið haft samráð við íbúa vegna þessarar ákvörðunar borgarráðs. Þar með misstu íbúarnir af tækifæri til að hafa áhrif þessa niðurstöðu ráðsins. Þorleifur Gunnlaugsson, fulltrúi VG í borgarráði, harmar samþykkt ráðsins frá því 16. júlí sl. er varðar breytingu 5. gr. málsmeðferðarreglna um veitinga- og gististaði þar sem veitt er undanþáguheimild til vínveitingarleyfa á jaðri skilgreinds íbúðasvæðis í miðborginni. Þar með skapast enn eitt sóknarfærið til að þrengja að langþreyttum íbúum miðborgarinnar sem stöðugt eiga í vök að verjast gegn ágangi vínveitingastaða og ónæðis sem þeim tengist.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Breytingin á málsmeðferðarreglum borgarráðs, sem borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna, Þorleifur Gunnlaugsson, vísar til var samþykkt einróma í borgarráði, þ.m.t. af fulltrúa Vinstri grænna, Sóleyju Tómasdóttur.
13. Fram fer kynning á fjárhagsstöðu Landsvirkjunar og lánshæfismati fyrirtækisins. R09070017
- Kl. 11.05 víkur Dagur B. Eggertsson af fundi.
14. Lögð fram tillaga skrifstofu borgarstjórnar frá 30. f.m. að umsögn um rekstrarleyfi fyrir veitingastaðinn Austur, Austurstræti 7. R09070003
Samþykkt.
15. Lögð fram tillaga skrifstofu borgarstjórnar frá 30. f.m. að umsögn um rekstrarleyfi fyrir veitingastaðinn Súpur og safar, Laugavegi 42. R09070003
Samþykkt.
16. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R09070003
- Kl. 12.14 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum.
17. Lögð fram greinargerð innri endurskoðanda frá 8. júní sl. um innleiðingu aðferðafræði áhættustjórnar hjá skrifstofu borgarstjóra. R09060136
18. Lögð fram drög að samningi Reykjavíkurborgar og Hinsegin daga í Reykjavík - Gay Pride, dags. í ágúst 2009. R09070040
Samþykkt.
19. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Reykjavíkurborg hefur að undanförnu haft forgöngu um nágrannavörslu í nokkrum götum í borginni. Hver er árangur af þessu forvarnastarfi í ljósi frétta um töluverð innbrot í borginni um síðastliðna helgi? R06120047
Fundi slitið kl. 13.15
Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Júlíus Vífill Ingvarsson Kjartan Magnússon
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson