Borgarráð - Fundur nr. 5077

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð


Ár 2009, fimmtudaginn 2. júlí, var haldinn 5077. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Kjartan Eggertsson.
Fundarritari var Gunnar Eydal.

Þetta gerðist:


1. Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 2. júlí. R09010003

2. Lögð fram fundargerð framkvæmda- og eignaráðs frá 22. júní. R09010004

3. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 9. júní. R09010006

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 15. júní. R09010009

5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 15. júní. R09010010

6. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 19. júní. R09010011

7. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 16. júní. R09010013

8. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 10. júní. R09010015

9. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 12. júní. R09010019

10. Lögð fram fundargerð mannréttindaráðs frá 25. júní. R09010022

11. Lagðar fram fundargerðir menningar- og ferðamálaráðs frá 11. og 25. júní. R09010023

12. Lögð fram fundargerð menntaráðs frá 24. júní. R09010024

13. Lagðar fram fundargerðir skipulagsráðs frá 24. júní og 1. júlí. R09010026
B-hluti fundargerðanna samþykktur.

14. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 15. júní. R09010032

15. Lögð fram fundargerð umhverfis- og samgönguráðs frá 23. júní. R09010033

Áheyrnarfulltrúi F-lista leggur fram svohljóðandi bókun:
Á fundi umhverfis- og samgönguráðs, 23. júní sl. lagði Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans, fram svohljóðandi bókun: „Ég lýsi þungum áhyggjum mínum vegna þess að lítið sem ekkert miðar áfram með þær þýðingarmiklu tillögur, sem ég lagði fram í borgarráði 28. maí sl. um umferðaröryggismál. Í tillögunum er gert ráð fyrir í fyrsta lagi undirbúningi 30 km svæða á Hringbraut, Hofsvallagötu, Bústaðavegi og Háaleitisbraut. Í öðru lagi að unnar verði nýjar og ítarlegri tillögur um fjölgun 30 km svæða og mislægra gönguleiða en gert var ráð fyrir í úrvinnslu umhverfis- og samgönguráðs vegna tillögu minnar þar að lútandi frá 25. apríl 2008. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir fleiri umferðarljósum fyrir vinstribeygju á mótum Grensásvegar og Miklubrautar. Í fjórða lagi gera tillögurnar ráð fyrir því að Vesturlandsvegur verði tvöfaldaður frá Mosfellsbæ um Kjalarnes að Hvalfjarðargöngum. Öll umferðartengsl byggðar í Kjalarnesi við Vesturlandsveg verði mislæg hið fyrsta. Tillögur mínar eru skýrar og markvissar og mikilvægt að þær komist til framkvæmda sem fyrst. Hins vegar er hætt við að tillögur Samfylkingarinnar, sem fjalla mest um úttektir og stefnumörkun, séu til þess fallnar að tefja málið. Þær tillögur virðast því miður hafa orðið svonefndri „froðusnakkstilhneigingu“ Samfylkingarinnar að bráð, í stað þess að ganga þegar til verks. Loks vil ég ítreka kröfu mína um að nú þegar verði lokað fyrir vinstribeygju frá Hringbraut inn á Birkimel í kjölfar þess banaslyss, sem varð við þennan stað í lok maí. Það er um margt svipað slysi sem varð í svokölluðu „Heklugati“ við Laugaveg á sínum tíma og brugðist var skjótt við. Það sama verður að gera nú. Annað býður hættunni heim.“
Borgarstjórnarflokkur F-listans lýsir vanþóknun sinni á þeim sofandahætti í umferðaröryggismálum sem ríkir í Borgarstjórn Reykjavíkur.

16. Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 23. júní. R09010034

17. Lagt fram bréf staðgengils skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R09060109

18. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 25. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 24. s.m., um tillögu að breyttu deiliskipulagi á lóð nr. 130 við Bústaðaveg. R09040038
Samþykkt.

19. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 25. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 26. nóvember sl., um breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins, tvöföldun Suðurlandsvegar. R09040025
Samþykkt.

Áheyrnarfulltrúi F-lista leggur fram svohljóðandi bókun:
F-listinn leggur áherslu á, nú sem fyrr, að öllum vegajarðgöngum í borginni sem annars staðar sé frestað uns helstu svartblettum og slysagildrum á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni hefur verið eytt.
Tvöföldun Vesturlandsvegar um Kjalarnes að Hvalfjarðargöngum, tvöföldun Suðulandsvegar að Selfossi ásamt brýnum umferðaröryggisbótum í borginni á tvímælalaust að ljúka áður en hugað er að ótímabærum gæluverkefnum stjórnmálamanna í ríki og borg.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Sú afgreiðsla sem hér er til umræðu hefur ekkert með vegajarðgöng að gera eins og skilja má í bókun áheyrnarfulltrúa F-listans. Hér er verið að samþykkja skipulag um tvöföldun Suðurlandsvegar og miðað við efni bókunar F-listans ætti áheyrnarfulltrúinn frekar að fagna niðurstöðunni í stað þess að beina sjónum sínum að jarðgöngum sem hvorki eru til umræðu né afgreiðslu hér.

20. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 25. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 24. s.m., um tillögu að breyttu deiliskipulagi reits 1.140.5, Pósthússtrætisreits, vegna lóða nr. 2 við Lækjargötu og nr. 20 og 22 við Austurstræti. Jafnframt lagt fram bréf Landic Property, ódags. R09030113
Samþykkt.

21. Lagt fram bréf skipulagsstjóra 25. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 24. s.m., um tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar nr. 50 við Laugaveg. R09020090
Samþykkt.

22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. f.m.:
Borgarráð samþykkir tillögu ráðgjafahóps um úthlutun 15 milljón króna styrks úr forvarna- og framfarasjóði Reykjavíkurborgar til skógræktarverkefna í Heiðmörk og Esjuhlíðum. Markmiðið með styrknum er að stuðla að forvörnum með því að útvega ungu atvinnulausu fólki verkefni við hæfi auk þess að stuðla að fegrun útivistarsvæða borgarbúa. R09030003
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er tími til kominn að Reykjavíkurborg setji aukið fjármagn í atvinnu fyrir ungt atvinnulaust fólk eins og minnihlutafulltrúar í borgarráði hafa ítrekað kallað eftir. Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna í borgarráði fagna því að nú eigi loks að fara í sérstakt skógræktarátak í þessu skyni þótt það sé seint fram komið. Það er þó með ólíkindum að taka eigi fjármagnið, 15 milljónir, úr forvarna- og framfarasjóði sem er ætlað að styrkja forvarnastarf, félagsauð, öryggi og bætta umgengni í hverfum borgarinnar í samvinnu við einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki. Sjóðurinn, sem stofnaður var í nóvember 2007, hefur styrkt í samræmi við reglur sínar fjölmörg íbúasamtök, frjáls félagasamtök, íþróttafélög og einstaklinga sem hafa bæði verið til framfara og skapað atvinnu. Þær 15 milljónir sem nú er samþykkt að taka til atvinnuuppbyggingar munu dragast frá haustúthlutun sjóðsins og koma niður á forvarna- og framfarastarfi í hverfum borgarinnar á síðari hluta þessa árs, þegar verulega er farið að kreppa að hjá fólki.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fagna því að ungu fólki verði veitt atvinna við skógræktarverkefni í sumar og telja mikið forvarnargildi felast í því. Verkefnið styður því vel við markmið forvarna- og framfarasjóðs Reykjavíkurborgar. Ráðgjafahópur um úthlutun úr forvarna- og framfarasjóði leggur til að 15 milljónum króna verði varið úr sjóðnum til skógræktarverkefna í Heiðmörk og Esjuhlíðum. Eins og kemur fram í umsögn ráðgjafahópsins er með verkefnunum stuðlað að tveimur af helstu markmiðum sjóðsins. Annars vegar er með vali á ungu fólki til verkefnanna stuðlað að forvörnum í þágu ungs fólks og hins vegar er með plöntun trjáa á svæðunum tveimur stuðlað að fegrun umhverfis. Með verkefninu er komið til móts við atvinnulaus ungmenni og áhersla lögð á að bjóða sem flestum úr yngsta hópnum, 17 ára, atvinnu án þess þó að útiloka þá sem eru eldri. Samdráttur í efnahagslífinu hefur valdið því að ógjörningur hefur reynst að útvega öllum ungmennum sumarvinnu. Ráðgjafahópurinn telur að með tilliti til forvarnargildis uppbyggilegra verkefna fyrir ungmenni sé mikilvægt að sjóðurinn stuðli að því að útvega ungmennum vinnu og þá stuðli skógræktarverkefnin að fegrun umhverfis borgarinnar. Undir það taka borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Í gögnum málsins kemur fram að engin umsókn liggur fyrir um styrk úr forvarna- og framfarasjóði vegna verkefnisins. Erindið um það uppfyllir jafnframt ekki þau skilyrði sem slíkar umsóknir þurfa að uppfylla, sbr. úthlutunarreglur sjóðsins. Þetta hefur yfirbragð gamaldags sérmeðferðar og er vond stjórnsýsla sem er synd að bitni á verkefni sem hefði átt að fá jákvæð svör og afgreiðslu þegar það barst snemma vors.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Gagnrýni minnihlutans er vísað á bug. Fyrir liggur umsókn Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarfélags Reykjavíkur um samstarf við Reykjavíkurborg vegna atvinnuátaks sem var send var borgarstjóra og þáverandi formanni atvinnuhóps. Erindið uppfyllir skilyrði samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins enda kemur fram í umsögn ráðgjafahóps um úthlutun úr forvarna- og framfarasjóði að með verkefnunum sé stuðlað að tveimur af helstu markmiðum sjóðsins. Annars vegar er með vali á ungu fólki til verkefnanna stuðlað að forvörnum í þágu ungs fólks og hins vegar er með plöntun trjáa á svæðunum tveimur stuðlað að fegrun umhverfis. Ráðgjafahópurinn telur að með tilliti til forvarnargildis uppbyggilegra verkefna fyrir ungmenni sé mikilvægt að sjóðurinn stuðli að því að útvega ungmennum vinnu og þá stuðli skógræktarverkefnin að fegrun umhverfis borgarinnar.

23. Lögð fram stöðuskýrsla aðgerðateymis velferðarsviðs dags. í júní 2009, vegna aðstæðna í efnahagslífi, ásamt bréfi sviðsstjóra velferðarsviðs frá 24. f.m. um málið. R08100231

24. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 26. f.m. um drög að endurskoðuðum reglum um úthlutun styrkja á vegum hverfisráða. R09060132
Frestað.

25. Lögð fram drög að samkomulagi Reykjavíkurborgar og NBI hf. um leigu og rekstur Egilshallar, dags. 9. f.m., ásamt bréfi borgarlögmanns, dags. 10. s.m. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra, dags. 16. s.m. Þá er lagt fram minnisblað fjármálastjóra, borgarlögmanns og framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 1. þ.m. R08050109
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

- Kl. 11.00 víkur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Samkomulagið um Egilshöll tryggir áframhaldandi öfluga íþróttastarfsemi og þjónustu við börn og unglinga í Grafarvogi. Með þessari niðurstöðu er komið í veg fyrir að íþróttastarfsemi fyrir börn og unglinga í Egilshöll verði í óvissu næsta vetur. Að auki verður mögulegt að tryggja framtíðaraðstöðu fyrir Ungmennafélagið Fjölni í stað áður áformaðrar uppbyggingar, aðstöðu fyrir frístundaheimili ÍTR fyrir fötluð grunnskólabörn og tryggja blómlega starfsemi í húsinu til lengri framtíðar. Þá verður ráðist í framkvæmdir við lóð og bifreiðastæði auk þess sem ýmsar lagfæringar og framkvæmdir munu eiga sér stað í Egilshöllinni. Sú niðurstaða sem fengist hefur úr viðræðum er því hagfelld fyrir Reykjavíkurborg, auk þess sem gert er ráð fyrir því að síðar á árinu verði farið yfir rekstur og afnot af Egilshöllinni til næstu ára.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:
Gerð verði úttekt af reynslu Reykjavíkurborgar og völdum dæmum af vettvangi annarra sveitarfélaga af verkefnum í einkaframkvæmd og svokölluðum félagaframkvæmdum. Fjármálaskrifstofu verði falið að meta kosti og galla einkaframkvæmda og hvernig slíkar framkvæmdir hafi reynst í samanburði við eiginframkvæmdir borgarinnar. Kannað verði hvernig forsendur hafa staðist frá upphaflegum áætlunum sem lágu til grundvallar ákvörðun um að setja verkefni í einkaframkvæmd; hvað varðar útboðsaðferðir, kostnað borgarinnar, leigugreiðslur eða aðrar greiðslur, vegna byggingar og rekstrarkostnaðar. Þannig verði leitast við að leggja mat á heildarkostnað vegna framkvæmda í einkaframkvæmd annarsvegar og eiginframkvæmd borgarinnar hinsvegar.

Tillagan er samþykkt.

Áheyrnarfulltrúi F-lista leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarstjórnarflokkur F-listans varar við því að háum fjárhæðum sé varið úr vasa almennings til að leiðrétta óráðsíu einkaaðila.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Gerður er fyrirvari við að fjárhag Reykjavíkur sé best borgið með því að festast inn í stórhækkuðum húsaleigusamningi við Egilshöll til eins árs. Þá vekur sérstaka athygli að íþróttafélagið Fjölnir er að falla frá samningi við Reykjavíkurborg um margvíslega aðstöðu gegn því að nýta Egilshöllina meira. Þessi samningur hefði kostað Reykjavíkurborg allt að 3,5 milljörðum króna og 400 milljóna króna rekstur árlega, skv. gögnum sem nú eru lögð fram. Undir hann skrifuðu Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Björn Ingi Hrafnsson og Guðlaugur Þór Þórðarson, félagi þeirra í stjórn Orkuveitunnar og frambjóðandi til þingkosninga örfáum dögum fyrir alþingiskosningar vorið 2007. Minna en þriðjungur af þessum fjárskuldbindingum var hins vegar kynntur borgarráði þegar samningurinn var lagður fyrir vorið 2007 eða 950 milljónir. Virðist því hafa verið um að ræða gamaldags kosningavíxil sem nú hefur verið afturkallaður. Er vonandi að engu að síður verði hægt að mæta framtíðarþörfum barna í Grafarvogi en viðbótarsamningurinn um Egilshöll er aðeins til eins árs.

- Kl. 11.25 tekur Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sæti á fundinum.

26. Lagt fram bréf sviðsstjóra íþrótta- og tómstundaráðs frá 15. f.m. ásamt drögum að samkomulagi við íþróttafélagið Fjölni. R09060075
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

27. Lagt fram bréf fjármálastjóra frá 30. f.m. um fyrirkomulag viðskiptavaktar á nýjum skuldabréfaflokki Reykjavíkurborgar. R08110060
Samþykkt.

28. Lagt fram svar borgarstjóra frá 29. f.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna varðandi vorferðir grunnskólabarna, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. júní sl. R09040087

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Ljóst er að gjaldheimta vegna vorferða grunnskólanema hefur aðgreinandi áhrif á nemendur eftir efnahag foreldra. Það er með öllu ólíðandi að nokkurt barn skuli sitja eftir og fást við hefðbundin viðfangsefni í skólanum á meðan skólafélagarnir fara á vit ævintýranna. Af fyrra svari frá fræðslustjóra að dæma leikur auk þess talsverður vafi á því hvort grunnskólum sé yfir höfuð heimilt að innheimta gjald vegna ferðanna. Vorferðirnar eru æskilegur hluti af skólastarfi eldri bekkja grunnskólans og því brýnt að skólunum verði gert að finna leiðir til fjármögnunar án gjaldtöku, hvort sem það er með þátttöku barnanna sjálfra í fjáröflun eða með öðrum hætti.Það er staðföst sannfæring Vinstri grænna að grunnskólinn eigi að vera gjaldfrjáls, ekki bara námið sjálft heldur allt sem honum tilheyrir, þ.m.t. skólamáltíðir, ferðir og frístundaheimili. Þessi stefna verður æ brýnni, nú þegar fjárhagur fjölskyldna fer versnandi, enda eiga öll börn að geta notið menntunar og æskulýðsstarfs óháð ytri aðstæðum.

29. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. f.m.:
Borgarráð samþykkir árlegt framlag Reykjavíkurborgar til Hallgrímskirkju að fjárhæð 12.400.000 kr. árin 2013-2019 vegna viðgerða á kirkjunni enda komi jafnhátt framlag frá ríki fyrir sama tímabil.

Greinargerð fylgir tillögunni. R08060092

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi VG í borgarráði leggur til að tillögu um framlag Reykjavíkurborgar vegna framkvæmda við turn Hallgrímskirkju árin 2013-2019 verði vísað til kirkjubyggingarsjóðs.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:
Tillögunni er vísað frá, enda myndi samþykkt hennar koma í veg fyrir framgang þessa mikilvæga máls.

Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.
Tillaga borgarstjóra samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Því er ekki á móti mælt að mikilvægt er að viðhalda Hallgrímskirkju þó ekki væri nema vegna þess að hún er þekkt kennileiti og vinsæll ferðamannastaður. Nýlega samþykkti borgarráð styrkjaúthlutanir til kirkjubyggingarsjóðs og þar á meðal var ríflegur styrkur til umræddra framkvæmda en sú spurning er að sjálfsögðu áleitin hvort ekki sé rétt að draga verulega úr styrkveitingum til sjóðsins í því árferði sem við nú búum við. Sé það ætlan meirihluta borgarráðs að halda áfram að leggja fé til sjóðsins liggur það beinast við að styrkir til viðhalds Hallgrímskirkju renni úr honum en meirihlutinn hefur nú hafnað tillögu þar um. Fulltrúi VG í borgarráði situr því hjá við afgreiðslu tillögu um framlag Reykjavíkurborgar vegna framkvæmda við Hallgrímskirkju árin 2013-2019.

30. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R09060008

31. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 16. f.m., sbr. samþykkt menntaráðs 3. s.m., um nýjan sjálfstætt rekinn grunnskóla, ásamt greinargerð. R09060089

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði leggur til að umsækjendum um tæknigrunnskóla verði boðið að innleiða áhugaverða hugmyndafræði sína í einhvern af þeim grunnskólum sem nú þegar eru starfandi, enda er sérstaklega tekið fram að umsækjendur séu tilbúnir til að gera rekstur skólans að tilraunaverkefni fyrstu þrjú árin í samstarfi við aðila sem borgin tilnefnir. Með þeim hætti væri tryggt að nemendum stæði verkefnið til boða óháð efnahag foreldra.

Tillögu borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna vísað frá með 4 atkvæðum gegn 1.
Tillaga menntaráðs samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna telur þær áherslur sem fram koma í skólanámskrá tæknigrunnskólans áhugaverðar og líklegt að þær henti þörfum margra grunnskólanema. Vinstri græn telja mjög mikilvægt að nýbreytni í skipulagi verk- og tæknigreina verði aukin til muna í grunnskólum borgarinnar en það getur þó ekki talist réttlætanlegt að auka styrki til einkaskóla nú þegar niðurskurður á sér stað í borgarreknum skólum. Vinstri græn telja alla möguleika opna til að fela einhverjum starfandi grunnskóla í borginni að flétta áherslur skólanámskrár tæknigrunnskólans inn í starfsemi sína á sama hátt og gert hefur verið á mismunandi hátt á ýmsum sviðum, t.d. með áherslu á nýbúafræðslu í Austurbæjarskóla, á táknmálssviði í Hlíðaskóla og útikennslu í Norðlingaskóla.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað að þeir vísi í bókun sína á fundi menntaráðs 3. f.m.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fagna stofnun nýs sjálfstætt rekins tæknigrunnskóla í Reykjavík. Hinn nýi skóli mun auka fjölbreytileika í skólastarfi í Reykjavík og stórefla iðnfræðslu og tæknimenntun á grunnskólastigi. Með starfrækslu skólans opnast nýr möguleiki fyrir grunnskólanemendur sem vilja leggja sérstaka áherslu á að efla með sér verklega og tæknilega þekkingu ásamt frumkvöðlahugsun sem undirbýr þá fyrir skapandi starfsferil. Markmið skólans styður vel við stefnu Reykjavíkurborgar um einstaklingsmiðað nám þar sem fjölbreyttir starfshættir og námsleiðir taka mið af styrkleikum nemenda. Með áherslu á iðn- og verkgreinar markar skólinn sér sérstöðu meðal grunnskóla borgarinnar. Stofnun sjálfstætt rekins tæknigrunnskóla dregur á engan hátt úr möguleikum grunnskóla, sem reknir eru af Reykjavíkurborg, til að auka áherslu á tækni- og verknám í starfi sínu, eins og margir þeirra hafa raunar gert.

32. Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá 16. f.m., sbr. samþykkt stjórnar SSH 15. s.m., um endurfjármögnun Strætó bs. Jafnframt lagt fram minnisblað stjórnarinnar frá 12. maí sl. um sama mál. Þá er lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 1. þ.m. R09030130
Frestað.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi VG leggur áherslu á að það verði fullreynt að ekki takist að slíta byggðasamlaginu um Strætó án þess að skaða borgina verulega. Verði borgarfulltrúar sannfærðir um það að slit samlagsins ógni efnahagslegum hagsmunum borgarinnar er lögð áhersla á eftirfarandi:
1. Haldið verði íbúaþing um málefni Strætó bs. áður en stefnumótun er kláruð.
2. Samkomulag verði gert um afmarkað grunnnet stofnleiða á milli sveitarfélaganna en staðbundnar leiðir verði á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags sem verði heimilt að auka og bæta þjónustuna innan marka sveitarfélagsins, á eigin kostnað og engin skilyrði verði sett sem aftri því.
3. Ásættanlegt þjónustumarkmið sé í samkomulaginu og trygging að það haldi.
4. Minnihlutinn í Reykjavík fái aðkomu að stjórn Strætó bs.
5. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar fari með innri endurskoðun Strætó bs. á grundvelli verksamnings sem þegar hefur verið lagður fram í borgarráði.
6. Engar gjaldskrárhækkanir í eitt ár.
7. Felli ríkið niður gjöld eða veiti fjármagni til almenningssamgangna verði sveitarfélögunum, hverju fyrir sig, heimilt að nýta það fjármagn sem af slíkri ákvörðun fæst til aukinnar og bættrar þjónustu.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fulltrúi VG í borgarráði óskar eftir úttekt fjármálastjóra á efnahagslegum afleiðingum þess að borgin ákveði einhliða að segja skilið við byggðarsamlagið um Strætó.

- Kl. 13.15 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundi og Oddný Sturludóttir tekur þar sæti.

33. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 24. f.m. um breytingu á samþykkt fyrir menntaráð Reykjavíkurborgar. Jafnframt lagt fram bréf staðgengils skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 29. f.m. R09010055
Samþykkt.

34. Lagt fram bréf staðgengils skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 2. þ.m. um breytingu á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar. R07100311
Vísað til síðari umræðu.

35. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 24. f.m., sbr. samþykkt menntaráðs s.d., um breytingu á reglum um þjónustusamninga Reykjavíkurborgar við tónlistarskóla. R09060079
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað að þeir vísi í bókun fulltrúa sinna á fundi menntaráðs 24. f.m.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska einnig bókað að þeir vísi í bókun fulltrúa sinna á sama fundi menntaráðs.

36. Lagt fram bréf sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs, dags. í dag, um verkefni byggingarnefndar vegna menningar- og þjónustumiðstöðvar við Spöng ásamt skipan nefndarinnar. R08090095
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Skipan byggingarnefndar fyrir fyrirhugaða þjónustumiðstöð í Spöng er sýndarmennska því hún kemur í kjölfar þess að búið er að hægja mjög á verkefninu í 3ja ára áætlun. Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um fjármögnun verkefnisins eftir því sem næst verður komist. Því er óskað eftir að erindisbréf nefndarinnar, áætlanir um fjármögnun og verkáætlanir verði kynntar í borgarráði um leið og þau gögn liggja fyrir.

37. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjaness frá 19. f.m. í máli nr. E-2651/2007, Skógræktarfélag Reykjavíkur gegn Kópavogsbæ og Klæðningu ehf. R06030030

38. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-11068/2008, Ásgeir Ásgeirsson f.h. ólögráða dóttur gegn Reykjavíkurborg o.fl. R08110075

39. Lagt fram minnisblað borgarlögmanns frá 30. f.m. um úrskurð samgönguráðuneytisins frá 5. maí 2009 í stjórnsýslumáli nr. 65/2008, Kristinn Svavarsson gegn Reykjavíkurborg. R08100066

40. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:
Borgarráð samþykkir fyrir sitt leyti drög að þríhliða samkomulagi Reykjavíkurborgar, Háskólans í Reykjavík og Hjallastefnunnar ehf. um að Hjallastefnan ehf. byggi og reki tímabundið leik- og grunnskóla á svæði Háskólans í Reykjavík í Vatnsmýrinni.

Greinargerð fylgir tillögunni. R07070078
Frestað.

41. Borgarráð samþykkir að kjósa Þorleif Gunnlaugsson í stjórnkerfisnefnd í stað Svandísar Svavarsdóttur sem látið hefur af störfum. R07100291

42. Lagður fram listi borgarstjórnarflokks Vinstri grænna yfir breytingar á fulltrúum þeirra í ráðum og nefndum. R08080069
Borgarráð samþykkir svofelldar breytingar á fulltrúum í nefndum og ráðum:
Heimir Janusarson taki sæti aðalmanns í framkvæmda- og eignaráði í stað Sóleyjar Tómasdóttur. Þá taki Sóley Tómasdóttir sæti varamanns í framkvæmda- og eignaráði í stað Heimis Janusarsonar.
Sjöfn Ingólfsdóttir taki sæti í stjórn hjúkrunarfélagsins Eirar í stað Þorleifs Gunnlaugssonar.
Sjöfn Ingólfsdóttir taki sæti í stjórn hjúkrunarfélagsins Skógarbæjar í stað Þorleifs Gunnlaugssonar.
Þorleifur Gunnlaugsson taki sæti í fulltrúaráði SSH í stað Svandísar Svavarsdóttur.
Sóley Tómasdóttir taki sæti í svæðisskipulagi SSH í stað Svandísar Svavarsdóttur.
Þá er tilkynnt að Þorleifur Gunnlaugsson taki sæti í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga; varamaður verði Sóley Tómasdóttir.

43. Lögð fram ársskýrsla um mannauðsmál Reykjavíkurborgar árið 2008. R08090216

44. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Lækkun á lánshæfismati Landsvirkjunar sem kynnt var fyrr í vikunni vekur spurningar um ábyrgðir Reykjavíkurborgar vegna Landsvirkjunar. Í samningi sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerði um sölu hlutar Reykjavíkurborgar í fyrirtækinu var ekki gert ráð fyrir því að ábyrgðir borgarinnar féllu strax niður heldur gerir samningurinn ráð fyrir því að borgarsjóður og borgarbúar séu í fullum ábyrgðum vegna lána Landsvirkjunar til 2012. Minnihlutinn í borgarstjórn gerði verulegar athugasemdir við þetta atriði við söluna. Óskað er eftir að borgarráði verði kynntar forsendur lækkunar lánshæfismats Landsvirkjunar. Borgarráð fái jafnframt kynningu á rekstrarstöðu Landsvirkjunar. Í því felist að gerð verði ítarleg grein fyrir fjármögnunarstöðu fyrirtækisins, með tilliti til langtíma og skammtíma fjármögnunar, endurfjármögnunarþarfar fyrirtækisins og fjármögnun framkvæmda. Þá verði fjármálaskrifstofu borgarinnar falið að greina hættuna á því að ábyrgðir vegna Landsvirkjunar falli á borgina og mögulegar aðgerðir því til varnar.
Jafnframt er spurt:
Hver er nú upphæð ábyrgða borgarinnar vegna lána Landsvirkjunar?
Samkvæmt sölusamningnum tryggir kaupandi (íslenska ríkið) seljendum (Reykjavíkurborg) skaðleysi vegna ábyrgða á skuldbindingum Landsvirkjunar eftir 1. janúar 2012. Hversvegna var skaðleysi borgarinnar ekki tryggt strax við söluna?
Við hvaða aðstæður myndu ábyrgðir falla á borgarsjóð?
Hvernig er samskiptum og eftirliti borgarinnar með rekstri og fjárhag Landsvirkjunar sinnt og hvernig var það útfært í tengslum við sölusamninginn.
Hverjar eru líkurnar á því að lækkað lánshæfismat Landsvirkjunar hafi áhrif á lánskjör borgarinnar og þá hversu mikil? R09070017

45. Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Föstudaginn 26. júní fengu leikskólastjórar bréf frá sviðsstjóra leikskólasviðs þar sem kveðið er á um breytingar á starfsheitum og skipuritum leikskóla í hagræðingarskyni. Á fundum sem haldnir hafa verið í kjölfarið var nokkuð dregið í land af hálfu leikskólasviðs, og því heitið að annað bréf með skýrara orðalagi verði sent leikskólastjórum í dag.
Af því tilefni spyr borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna:
1. Hvað veldur því að bréf um umfangsmiklar breytingar á skipuritum leikskólanna var sent út?
2. Stendur til að breyta starfsheitum hjá leikskólum borgarinnar eða öðrum borgarstofnunum?
3. Hvar og hvenær fór vinna fram um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru og af hverjum var hún unnin? R09070018

46. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar, sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 19. maí sl.:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að skipa aðgerðahóp sem hafi það hlutverk að gera aðgerðaáætlun sem tryggi velferð barna í borginni eins og kostur er. Hópinn skipi fulltrúar allra flokka sem eiga sæti í Borgarstjórn Reykjavíkur.

Greinargerð fylgir tillögunni. R09050075
Samþykkt að tilnefna eftirtalda fulltrúa í aðgerðahópinn: Jórunn Frímannsdóttir, formaður, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Kjartan Magnússon, Jóhanna Hreiðarsdóttir, Björk Vilhelmsdóttir, Þorleifur Gunnlaugsson og fulltrúi F-lista.

47. Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Fram hefur komið að nýlega var samið við MP banka um skuldabréfaútboð fyrir hönd Reykjavíkurborgar en samið hafði verið við bankann í desember síðastliðnum um útboð sem ekki gekk upp þá. Af orðum borgarstjóra um málið má ráða að í millitíðinni hafi verið reynt að semja beint við lífeyrissjóðina í gegnum Virðingu en það hafi ekki gengið upp þar sem þeir hafi farið fram á veð til tryggingar. Hins vegar hafi sömu lífeyrissjóðir verið tilbúir að aflétta þeirri kröfu með milligöngu MP banka. Það hefur ennfremur verið upplýst að MP banki fékk 42,5 milljónir í þóknun fyrir verkið en Virðing hafi boðist til að taka 17,5 fyrir sömu þjónustu. Af þessu tilefni er spurt:
1. Gáfu lífeyrissjóðirnir upp ástæðuna fyrir því að ekki væri hægt að aflétta kröfu um veð í eignum borgarinnar nema með milligöngu bankans?
2. Hvaða lífeyrissjóðir keyptu skuldabréfin?
3. Var borgin á einhvern hátt skuldbundin MP banka í vor vegna kynningarefnis og fundahalda um áramót?
4. Hvers vegna valdi Reykjavíkurborg að vinna með MP banka og borga honum 42,5 milljónir í þóknun í stað þess að kanna kjör hjá öðrum fjármálafyrirtækjum eða bjóða verkið út?
5. Hafði það engin áhrif að í vor var það ljóst að fjármálafyrirtæki voru tilbúin að taka að sér samsvarandi verk fyrir mun lægri þóknuni og Virðing var tilbúin til að taka að sér verkið fyrir 17,5 milljón króna þóknun? R08110060


Fundi slitið kl. 14.30


Óskar Bergsson
Dagur B. Eggertsson Kjartan Magnússon
Oddný Sturludóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson