Borgarráð - Fundur nr. 5076

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2009, fimmtudaginn 18. júní, var haldinn 5076. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram afgreiðslufundargerð byggingarfulltrúa frá 16. júní. R09010026
Samþykkt.

2. Lagðar fram fundargerðir heilbrigðisnefndar frá 20. apríl, 4. maí og 3. júní. R09010007

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 28. maí. R09010008

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 8. júní. R09010012

5. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 9. júní. R09010018

6. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 9. júní. R09010019

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 5. júní. R09010030

8. Lögð fram fundargerð stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 4. júní. R09010031

9. Lögð fram fundargerð umhverfis- og samgönguráðs frá 9. júní. R09010033

10. Lagðar fram fundargerðir velferðarráðs frá 25. maí og 10. júní. R09010034

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R09050111

12. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 10. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Bergstaðareits vegna lóða nr. 16, 18 og 20 við Bergstaðastræti. R09060076
Dagur B. Eggertsson víkur af fundi við afgreiðslu málsins.
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

13. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 10. s.m., um deiliskipulag Fossvogsdals vegna lagningar stíga. R09030024
Samþykkt.

14. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 11. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 10. s.m., um breytt deiliskipulag á athafnasvæði Víkings að Traðarlandi 1. R09030027
Samþykkt.

15. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 12. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 10. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Kvosarinnar vegna suðurhluta Ingólfstorgs, Vallarstrætis og lóðanna að Thorvaldsensstræti 2, Vallarstræti 2 og Aðalstræti 7. R08040090
Samþykkt.

16. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 15. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 10. s.m., varðandi viðbragðsáætlun velferðarsviðs í barnavernd. R09040086

17. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að fela framkvæmda- og eignasviði að tryggja að áhugahópur um nýtingu varaaflsstöðvar í Elliðaárdal uppfylli nauðsynlegar öryggiskröfur í afmörkuðu 600 fm rými í „Toppstöðinni” til fyrirhugaðrar frumkvöðlastarfsemi í húsinu. Í framhaldi af því móti borgarlögmaður samning um tímabundin afnot hópsins af húsnæðinu.

Greinargerð fylgir tillögunni. R07070122
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson óskar bókað:

Ég hef verið og er enn þeirrar skoðunar að rífa eigi Toppstöðina eins og ávallt hefur staðið til, enda húsið lýti í umhverfinu.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Ég hvet eindregið til þess að Toppstöðin í Elliðaárdal verði rifin þegar í stað, í fyrsta lagi sem hluti verndunarstefnu gagnvart Elliðaánum í öðru lagi sem hluti atvinnuskapandi verkefnis með skýra framtíðarsýn í þágu komandi kynslóða að leiðarljósi. Tilkoma nýrrar starfsemi í Toppstöðinni mun stórauka umferð og mengunarálag við Elliðaárnar, til viðbótar þeirri hættu sem gæti stafað af ofurhesthúsabyggð á flatlendi við bakka Elliðaánna vestan Breiðholtsbrautar. Við eigum að auka og bæta umhverfisgæði við Elliðaárnar með því að falla frá hesthúsabyggð við árnar og beina nýrri atvinnustarfsemi fremur í fjölmörg auð mannvirki eftir bankavinavæðingarfylleríið en í Toppstöðina.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi VG situr hjá við afgreiðslu tillögu meirihlutans um Toppstöðina. Bygging stöðvarinnar var mikið umhverfisslys þar sem hún er allt of nálægt Elliðaánum og vistkerfi þeirra og er þar að auki mikið lýti í landslaginu. Af þessu leiðir að nauðsynlegt er að rífa húsið. Það er hinsvegar ljóst að niðurrif hússins með tilheyrandi förgun verður borginni mjög dýrt og á þessum erfiðu tímum er annað og þarfara að gera við fjármuni borgarinnar. Borgarráðsfulltrúi VG telur því skynsamlegt að leyfa starfsemi í húsinu um tíma en það verður jafnframt að vera tryggt að sú starfsemi hamli ekki niðurrifi hússins þegar betur árar. Mikilvægt er að jafnræðis verði gætt í notkun hússins og þess sé gætt í samningagerð við þá sem húsið muni nota.

18. Lagt fram að nýju svar borgarstjóra frá 10. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar um fjármagn til atvinnuátaksverkefna, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. f.m. R08080073

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar sem og Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vísa til bókanna sinna á fundi borgarráðs 11. þ.m.

19. Lagt fram að nýju svar borgarstjóra frá 10. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar um eflingu atvinnustigs ungmenna, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. f.m. R09030129

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar sem og Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vísa til bókanna sinna á fundi borgarráðs 11. þ.m.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Svar borgarstjóra er ekki til að vekja vonir um að tekið verði til hendinni í þágu atvinnustigs ungmenna. Fullyrðingar um að framboð starfa fyrir ungmenni hafi aldrei verið meira eru rangar, enda ljóst þegar tölur um ráðningar ungmenna af hálfu Vinnumiðlunar ungs fólks eru skoðaðar aftur í tímann, að aldrei hafa færri ungmenni verið ráðin af hálfu borgarinnar. Fyrirspurnin snérist raunar ekkert um fjölda starfa, heldur hvort vænta mætti aukafjárveitingar til eflingar atvinnustigs 17 og 18 ára ungmenna. Þeirri spurningu er enn ósvarað. Óljósar vangaveltur um mögulega breytta forgangsröðun í þágu aldurshópsins, nú þegar júní er hálfnaður, eru ekki til marks um raunverulegan metnað af hálfu meirihlutans í þessum efnum. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna harmar það mjög, enda skiptir atvinnustig ungmenna sköpum fyrir það hvernig borgin kemur út úr þeirri kreppu sem nú dynur yfir.

20. Lagt fram að nýju svar borgarstjóra frá 10. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar um eftirlit með B-hluta fyrirtækjum, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. f.m. R07090014

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar sem og Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vísa til bókanna sinna á fundi borgarráðs 11. þ.m.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Í umfjöllun um ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2008 vakti fjármálaskrifstofa borgarinnar sérstaka athygli á því að B-hluta fyrirtækin hafi flest fjarlægst borgarráð og stjórnsýslu borgarinnar hratt. Skrifstofan heldur því jafnframt fram að innsýn í rekstur og fjárhagsstöðu fyrirtækjanna fari dvínandi. Borgin ber hinsvegar beina eða óbeina ábyrgð á fyrirtækjunum. Undir þetta tekur innri endurskoðun sem benti á það strax 2003 að B-hluta fyrirtækin væru að fjarlægjast borgina ár frá ári. Þetta eru að mati borgarráðsfulltrúa VG varnaðarorð sem verður að taka alvarlega nú þegar fjárhagsvandi sumra B-hluta fyrirtækja er slíkur að hann gæti stefnt borginni í voða. Því má velta fyrir sér hvort staða þessara fyrirtækja væri jafn slæm og raun ber vitni, ef borgarráð hefði verið betur inni í rekstri þeirra. Það er því nauðsynlegt að endurskoða samband borgarinnar og B-hluta fyrirtækjanna og taka nú þegar til framkvæmdar eigendastefnu borgarstjórnar er varðar aðkomu innri endurskoðunar að eftirliti með öllum B-hluta félögum þar sem borgin á 50#PR eða meira og legið hefur fyrir í tæp 2 ár.

21. Lagt fram að nýju svar borgarstjóra frá 10. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar varðandi gjaldtöku fyrir vorferðir grunnskólabarna, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. apríl sl. R09040087

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Borgarráðsfulltrúi VG þakkar svör vegna gjaldtöku vorferða grunnskólabarna. Upplýsingar sem felast í svarinu eru mikið áhyggjuefni, enda ljóst að foreldrar eru misvel í stakk búnir til að mæta þeim kostnaði sem á þá fellur vegna ferðanna. Í svarinu kemur fram að í einstaka tilvikum hafi foreldrar greitt lægri upphæðir fyrir börn sín vegna erfiðrar fjárhagsstöðu. Í framhaldi af því spyr borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna:
1. Fóru öll grunnskólabörn í umræddum árgöngum með í ferðirnar?
2. Ef ekki - hversu mörg börn sátu eftir, og hvað höfðu þau fyrir stafni á meðan?

22. Lagt fram svar borgarstjóra frá 16. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um mat á áhrifum breyttra aðstæðna í efnahags og atvinnumálum fyrir borgarsjóð, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. þ.m. R09050032

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Svör fjármálaskrifstofu og borgarhagfræðings um áhrif efnahagsþróunar skv. þjóðhagsspá staðfestir að aukið atvinnuleysi og áframhaldandi veikt gengi krónunnar hefur veruleg áhrif til hins verra fyrir fjárhag Reykjavíkurborgar. Kostnaðarauki vegna atvinnuleysis ef þjóðhagsspá gengur eftir verða tæpir 1,7 milljarður á þessu ári og 2,7 milljarðar á næsta ári. Ekki er gert ráð fyrir þessum kostnaði í fjárhagsáætlunum Reykjavíkurborgar. Hratt mun því ganga á handbært fé og eigið fé borgarinnar verði ekkert að gert. Því er spurt:
1) Stefnir borgarstjóri að því að fjárhagsáætlun ársins 2009 verði í jafnvægi?
2) Til hvaða aðgerða verður gripið, ef einhverra, vegna aukins kostnaðar vegna atvinnuleysis?
3) Munu fjárheimildir einstakra sviða fyrir árið 2010 verða endurskoðaðar í ljósi nýrra áætlana um þróun efnhags- og atvinnumála?
4) Hvenær fá málaflokkar endanlegar sparnaðarkröfur vegna fjárhagsáætlunar næsta árs og hvað er líklegt að þær verði miklar?

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Líkt og fram kemur í svari borgarhagfræðings, fjármálastjóra og fjárhagsáætlunarfulltrúa verður staðan ekki aðeins þungbær fyrir ríki og Reykjavíkurborg, heldur öll sveitarfélög, fyrirtæki og heimili í landinu gangi þjóðhagsspá eftir. Sú staða mun kalla á enn frekari aðhalds- og hagræðingaraðgerðir, sem á vettvangi Reykjavíkurborgar verða áfram unnar með sem breiðastri aðkomu borgarfulltrúa, starfsmanna og íbúa. Nú þegar hefur verið brugðist við og hafa öll fagsvið Reykjavíkurborgar hafið undirbúning að gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010, meðal annars með því að bjóða fagráð á starfsdaga þar sem lögð er áhersla á ákveðna forgangsröðun verkefna vegna þeirra fjárhagsaðstæðna sem ríkja í samfélaginu. Að auki er sú mikla vinna sem sett var í gang vegna hagræðingar á yfirstandandi ári enn í gangi, en sú vinna starfsmanna Reykjavíkur tryggir að borgin býr yfir fjölda tillagna og hugmynda um það hvernig ná má fram hagræðingu í rekstri án þess að skerða grunnþjónustu. Hið jákvæða í stöðunni nú er hins vegar sú staðreynd að nú þegar fjárhagsárið er næstum hálfnað, virðast áætlanir um rekstur Reykjavíkurborgar standast. Þannig hafa öll mánaðaruppgjör, enn sem komið er, sýnt að fjármálastjórnin gengur vel, áætlanir um tekjur og gjöld standast og öll fagsvið borgarinnar gæta þess vel að reksturinn sé innan fjárheimilda. Það er mikill og góður árangur við þessar aðstæður og hlýtur að vekja vonir um að fjárhagsáætlun þessa árs standist hvað það varðar. Stöðugt eftirlit borgarráðs með fjárhagsáætluninni er einnig gott tæki til að fylgjast með framvindu og augljóst að verði breytingar á þeirri stöðu sem nú er, mun borgarráð grípa til viðeigandi aðgerða.

23. Lagt fram svar borgarstjóra frá 11. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar um kynbundinn launamun, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá28. f.m. R08020040

24. Lagt fram svar borgarstjóra frá 16. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um grunnskóla Hjallastefnunar, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. þ.m. R07070078

25. Lögð fram bréf sviðsstjóra leikskólasviðs frá 5. þ.m. og fræðslustjóra frá 9. s.m., sbr. samþykkt sameiginlegs fundar leikskólaráðs og menntaráðs 10. desember sl., varðandi samning við Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna. R09060045
Samþykkt og vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.

26. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. þ.m. í máli nr. E-11612/2008, db. Halldórs Jóns Vigfússonar gegn Reykjavíkurborg. R08120038

27. Lögð fram fundargerð fundar stjórnar samstarfssjóðs Nuuk, Reykjavíkur og Þórshafnar frá 9. þ.m. Jafnframt lagður fram ársreikningur sjóðsins fyrir árið 2008. R09020048

28. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 15. þ.m. þar sem lagt er til að borgarráð geri umsögn umhverfis- og samgöngusviðs, um tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun, að sinni. R09060037
Samþykkt.

29. Lagt fram bréf formanns borgarráðs frá 16. þ.m. varðandi framkvæmd átaksverkefnis um uppbyggingu og endurgerð sögufrægra eldri húsa og/eða mannvirkja í Reykjavík, Hallandsverkefnið. Jafnframt lagt fram bréf borgarstjóra, dags. s.d., þar sem lagt er til að borgarráð skipi Margréti Leifsdóttur, arkitekt á skipulags- og byggingarsviði, formann verkefnisstjórnar um varðveislu gamalla húsa og að aðrir í stjórn séu Guðbrandur Benediktsson, sérfræðingur á Minjasafni Reykjavíkur og Ólafur Ástgeirsson, forstöðumaður byggingarsviðs Iðunnar - fræðsluseturs, skipaður af Samiðn, Samtökum iðnaðarins og Meistarasambandi byggingarmanna. R09040064
Tillaga borgarstjóra um skipun verkefnisstjórnar samþykkt.

30. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 16. þ.m.:

Borgarráð samþykkir árlegt framlag Reykjavíkurborgar til Hallgrímskirkju að fjárhæð 12.400.000 kr. árin 2013-2019 vegna viðgerða á kirkjunni enda komi jafnhátt framlag frá ríki fyrir sama tímabil.

Greinargerð fylgir tillögunni. R08060092
Frestað.

- Kl. 12.55 víkur Kjartan Magnússon af fundi og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti.

31. Lögð fram greinargerð innri endurskoðunar frá 15. þ.m. varðandi fjárfestingu eignastýringar Glitnis f.h. Reykjavíkurborgar í víxli útgefnum af Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf., ásamt fylgiskjölum. R09050103

Borgarráð ítrekar eftirfarandi bókun sína frá 4. þ.m.:

Fyrir liggur að fjármálaskrifstofa mótmælti við Glitni víxilkaupum eignastýringar bankans um leið og fjármálaskrifstofa fékk upplýsingar um þau síðastliðið sumar enda hafi eignastýringin farið út fyrir heimild sína með þeirri ráðstöfun. Borgarráð tekur undir þá skoðun fjármálaskrifstofu. Borgarráð samþykkir jafnframt að fela innri endurskoðanda að fara yfir aðdraganda ákvörðunar eignastýringar Glitnis, m.t.t. fjárstýringa Reykjavíkurborgar, um að fjárfesta f.h. Reykjavíkurborgar í víxilkröfu Fasteigna ehf.

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar þakka innri endurskoðun fyrir greinargerð um aðdraganda þess að meirihluti borgarráðs samþykkti á fundi 4. júní að breyta víxli sem eignarhaldsfélagið Fasteign hf. gaf út 23. maí 2008 í 18 mánaða skuldabréf. Í greinargerð innri endurskoðunar kemur fram að í júlí 2008 hafi fjarmálastjóri talið að bankinn hafi farið út fyrir sitt umboð og af því tilefni segir í greinagerðinni „að rétt viðbrögð hefðu verið að upplýsa borgarstjóra og borgarráð um gerning bankans við fyrsta tækifæri og leita heimildar fyrir ákvörðun um áframhaldandi eignarhald á víxlunum“. Af þessu tilefni er spurt:
1. Hvenær var borgarstjóri upplýstur um gerning bankans?
2. Hver er ástæðan fyrir því að borgarráð var ekki upplýst um stöðu málsins fyrr en á fundi borgarráðs 28. maí 2009, en víxillinn var á gjalddaga 22. maí 2009?
Í bókun borgarráðs frá því 4. júní segir: „Fyrir liggur að fjármálaskrifstofa mótmælti við Glitni víxilkaupum eignastýringar bankans um leið og fjármálaskrifstofa fékk upplýsingar um þau síðastliðið sumar enda hafi eignastýringin farið út fyrir heimild sína með þeirri ráðstöfun.“ Engu að síður er ljóst að gjörningar Glitnis stóðu og gengu ekki til baka, m.a. vegna hættu á tapi Reykjavíkurborgar.
3. Hvert er tap Reykjavíkurborgar vegna ofangreindra víxilkaupa og hvap getur það mest orðið?
4. Er ástæða til að ætla að Glitnir hafi gerst sekur um umboðssvik við meðferð málsins, annars vegar við meðhöndlun á Sjóði 9 og hins vegar með sérstökum víxilkaupum á reikning borgarinnar?
5. Hver er réttarstaða Reykjavíkurborgar gagnvart Glitni?
6. Hvernig hyggst borgarstjóri bregðast við áliti og niðurstöðum innri endurskoðunar vegna málsins?

Fyrirspurninni er vísað til yfirferðar innri endurskoðanda.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Í aðdraganda þess að meirihluti borgarráðs samþykkti á fundi 4. júní sl. að breyta víxli sem eignarhaldsfélagið Fasteign hf. gaf út 23. maí 2008 í 18 mánaða skuldabréf bókaði meirihlutinn vegna beiðni borgarráðsfulltrúa VG um upplýsingafund að „málið hafi verið kynnt ítarlega og rætt á síðasta fundi borgarráðs“ og að „borgarráðsfulltrúinn sat ekki þann fund, það var því á hans ábyrgð að kynna sér málið milli funda“. Af þessu tilefni vill borgarráðsfulltrúi VG benda á eftirfarandi:
1. Fulltrúi VG sem sat í borgarráði 29. maí hefur skýrt undirrituðum frá umræðum þá um málefni Fasteignar hf. Frá þeirri umræðu eru engin skrifleg gögn og hennar er ekki einu sinni getið í fundargerð. Fulltrúinn hefur tjáð mér að umræðurnar hafi verið á annan hátt en meirihlutinn vill túlka þær og ekki hafi verið um ítarlega kynningu að ræða.
2. Borgarráðsfulltrúi VG lítur svo á að það hafi verið réttmæt afstaða út frá þeirri stjórnsýslulegu skyldu kjörins fulltrúa að taka upplýsta ákvörðun að óska eftir meiri upplýsingum. Þetta staðfestir innri endurskoðun í greinargerð sinni en þar segir „Þá er rétt að benda á að betur hefði farið á því að öll gögn málsins hefðu legið fyrir á fundi borgarráðs þegar taka þurfti afstöðu til tilboðs EFF um endurfjármögnun víxils.“

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Það er alveg ljóst að ég sem borgarstjóri vorið 2008 var aldrei upplýstur um þetta grafalvarlega mál. Fyrirlitning mín á þeirri spillingu og einkavinavæðingu sem ríkt hefur í landinu frá árinu 2001, leiddi til þess að ég sagði mig úr Sjálfstæðisflokknum í lok ársins 2001. Ástæða þess að ég sem borgarstjóri í maímánuði árið 2008 var aldrei upplýstur um þetta mál stafar m.a. af stanslausum skæruhernaði þáverandi minnihluta gagnvart þáverandi meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks. Starfsfriður var enginn á þeim tíma. Auk þess hafði þáverandi formaður borgarráðs og oddviti Sjálfstæðisflokks engan frið til að vinna ötullega ásamt mér og fjármálastjóra að fjármálastjórn borgarinnar. Á þeim tíma var sú vegferð langt komin sem núverandi borgarstjóri leiddi, að bola Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni frá sem oddvita Sjálfstæðisflokksins og mér sem borgarstjóra. Að lokum lýsi ég fullu trausti á fjármálastjóra borgarinnar sem vann af mikilli ósérhlífni með okkur Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni að fjármálastjórn borgarinnar í borgarstjóratíð minni. Á sama tíma kveiktu borgarfulltrúar minnihlutans þá elda sem núverandi borgarstjóri og fleiri borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hlúðu að. Það skapaði óþolandi vinnuaðstæður fyrir borgarstjóra og embættismenn borgarinnar vorið 2008.

32. Lagt fram bréf samgönguráðuneytisins frá 28. f.m. varðandi tilraunaverkefni um rafrænar kosningar. R09050126

33. Lagt fram yfirlit yfir fundi borgarráðs yfir sumarmánuðina. R09060087

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Ég sé engin rök fyrir því að fella niður borgarráðsfund í næstu viku. Allir reynslumestu fulltrúarnir í borgarráði eru til staðar að framfylgja ákvörðunum þess fjölskipaða stjórnvalds sem borgarráð er. Svona var ekki staðið að verki í minni borgarstjóratíð enda þá ekki unnið samkvæmt því hugarfari að sumir borgarráðsmenn væru mikilvægari en aðrir.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Í borgarstjóratíð Ólafs F. Magnússonar var sama fyrirkomulag á fundum borgarráðs yfir sumarmánuðina og voru haldnir 3 borgarráðsfundir í júní eins og hér er lagt til. Fullyrðingar sem fram koma í bókun áheyrnarfulltrúans standast því enga skoðun.

34. Borgarráð lýsir yfir mikilli ánægju með undirbúning og framkvæmd hátíðarhalda vegna þjóðhátíðar í Reykjavík 17. júní 2009 en hátíðin fór hið besta fram í góðu veðri. Starfsfólki íþrótta- og tómstundasviðs og þjóðhátíðarnefnd eru færðar sérstakar þakkir fyrir vel unnin störf. Enn fremur eru öðrum borgarstarfsmönnum, starfsmönnum Orkuveitunnar, slökkviliðsins og lögreglunnar, sem komu að framkvæmd hátíðarhaldanna með ýmsum hætti, færðar bestu þakkir fyrir þátt þeirra í framkvæmdinni. R09030134

- Kl. 14.14 víkur Óskar Bergsson af fundi.

35. Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi tillögu:

Þar sem ekkert hefur enn gerst varðandi undirbúning 30 km svæða á Hringbraut, Hofsvallagötu, Bústaðaveg og Háaleitisbraut frá því að tillaga þar að lútandi kom fram í maímánuði sl. leggur borgarráð áherslu á að umhverfis- og samgönguráð gangi nú þegar frá slíkum tillögum þannig að þær verði tilbúnar í síðasta lagi 1. júlí nk. Jafnframt verði strax lokað fyrir vinstri beygju frá Hringbraut inn á Birkimel, en þar varð banaslys í maímánuði sl. R07120028

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að tillögunni verði vísað frá þar sem málið er til meðferðar hjá umhverfis- og samgönguráði.
Frávísunartillagan samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum.

36. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Samkvæmt fréttum fjölmiðla stefnir í að eitt helsta akkeri verslunar og mannlífs í miðborginni, Mál og menning, sé að hrekjast úr húsnæði sínu til áratuga 1. ágúst nk. Bætast þessi tíðindi við fjölda auðra verslunarrýma við Laugaveg og í miðborginni. Spurningar:
1. Hver er staða máls Máls og menningar?
2. Hvað eru mörg verslunarrými í miðborginni auð?
3. Hafa áætlanir, ef einhverjar eru, verið gerðar um að bregðast við neikvæðri þróun miðborgarmála?
4. Hefur borgarstjóri í hyggju að bregðast við þessari alvarlegu stöðu? R09060088

37. Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í ljósi þess að svo virðist að ekki séu öll kurl kominn til grafar varðandi forsögu þess að MP banki var fenginn til að annast nýlegt skuldabréfaútboð Reykjavíkurborgar, án útboðs, óska borgarráðsfulltrúar VG og Samfylkingar eftir því að borgarráðsfulltrúum verði veittur allur aðgangur að gögnum málsins og að það verði sett á dagskrá borgarráðs á næsta fundi þess. R08110060

Fundi slitið kl. 14.20

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Marta Guðjónsdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson