Borgarráð - Fundur nr. 5075

Borgarráð

BORGARRÁÐ

Ár 2009, fimmtudaginn 11. júní, var haldinn 5075. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 18. maí. R09010014

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 3. júní. R09010017

3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 2. júní. R09010018

4. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 10. júní. R09010026
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 5 mál. R09050111

6. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 27. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi breytingu á deiliskipulagi lóðar Foldaskóla að Logafold 1.
Samþykkt. R09030021

7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 27. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi drög að deiliskipulagi Borgartúnsreits norður. R09060004
Samþykkt að drögin skuli höfð að leiðarljósi varðandi uppbyggingu á svæðinu.

8. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs, dags. í dag, sbr. samþykkt skipulagsráðs 10. þ.m., varðandi auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi við Starhaga vegna æfingasvæðis fyrir KR. R09060057
Samþykkt.

9. Lögð fram drög að umferðaröryggisáætlun fyrir Reykjavíkurborg 2009-2014, dags. í maí 2009, ásamt bréfi skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs frá 29. f.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 26. s.m. R09060019
Borgarráð samþykkir að fela umhverfis- og samgönguráði að vinna mat á því hvernig þeim 26 lykilaðgerðum sem skilgreindar voru í umferðaröryggisáætlun 2002-2007 hefur verið framfylgt og hver árangur þeirra hefur verið. Jafnframt verði skilgreind aðgerðaáætlun sem lögð verði fram til samþykktar með nýrri umferðaröryggisáætlun. Sérstaklega verði hugað að áhrifum aksturshraða og hugsanlegum aðgerðum til að lækka hann, og verði stofnbrautir þar ekki undanskildar.

10. Fjallað er um umferðaröryggi á Kjalarnesi. R08050134
Bókun borgarráðs:
Borgarráð ítrekar mikilvægi þess að Vegagerð ríkisins hraði framkvæmdum við Vesturlandsveg til að auka umferðaröryggi á veginum. Borgarráð tekur undir með íbúum á Kjalarnesi um að brýnt sé að fara í nauðsynlegar úrbætur á þessu svæði og mikilvægi þess að umferðaröryggismál verði betur tryggð fyrir akandi og gangandi vegfarendur við þessa fjölförnu umferðaræð. Vegagerð ríkisins er veghaldari þjóðvegarins og ber ábyrgð á framkvæmdum við hann. Lögð er áhersla á að vinnu við gerð undirganga undir þjóðveginn á móts við Fólkvang verði hraðað og aðrar ráðstafanir gerðar til að tryggja öryggi gagnvart umferð á veginum. Enn fremur mun Reykjavíkurborg beita sér fyrir því að eftirlit með umferðarhraða, samhliða hraðahindrandi aðgerðum, verði aukið í samráði við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Á fundi borgarráðs 28. maí sl. lagði ég fram tillögu þar sem segir m.a.: “Loks skorar borgarráð á ríkisstjórn og Vegagerðina að ganga nú þegar til viðræðna við Reykjavíkurborg um tvöföldun Vesturlandsvegar um Kjalarnes alla leið frá Ártúnsbrekku að Hvalfjarðargöngum. Þá sé brýnt að öll umferðartengsl byggðar á Kjalarnesi við Vesturlandsveg verði mislæg hið fyrsta. Eyðing svartbletta og fækkun slysa í umferðinni hljóti að hafa forgang umfram jarðgangagerð á höfuðborgarsvæðinu sem annars staðar á landinu.” Tillögunni var vísað til umhverfis- og samgönguráðs en skv. fyrri reynslu minni gæti það þýtt að tillagan yrði svæfð í ráðinu næstu 10 mánuðina og að lokum kæmu frá því allt of rýrar tillögur. Slíka meðferð hlaut einmitt tillaga mín um fjölgun 30 km svæða og mislægra göngutengsla í borginni, sem ég lagði fram í borgarráði 25. apríl 2008. Eins og fram kemur í tillögu minni frá 28. maí sl. er þar lögð rík áhersla á skjótar aðgerðir til úrbóta á umferðaröryggismálum á Kjalarnesi. Enn og aftur skal ítrekað að slíkar aðgerðir eru mun fljótunnari og hagkvæmari í framkvæmd en jarðgangagerð, sem hlýtur að koma aftar í forgangsröðuninni.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Stórkarlalegar áætlanir um framkvæmdir upp á milljarðatugi hafa oft verið hamlandi hvað varðar öryggis- og umhverfistengd vandamál líðandi stundar. Sundagöng, tvöföldun Vesturlandsvegar og aðrar vegaframkvæmdir sem fyrirhugaðar eru á Kjalarnesi hafa tafið raunhæfar aðgerðir hvað umferðaröryggismál Kjalnesinga varðar, en ekki er hægt að láta öryggi og vellíðan heillar kynslóðar líða fyrir slíkt. Átak í umferðaröryggismálum sem varðar gangandi, hjólandi, skokkandi og ríðandi vegfarendur svæðisins er nauðsynlegt nú þegar. Nálægð skóla við hraðbrautina gerir þetta enn mikilvægara og að mati fulltrúa VG er krafa um girðingu frá sjoppu að skólanum og undirgöng á móts við skólann fullkomlega réttmæt. Auk þessa eru allar raunhæfar aðgerðir mikilvægar, að hámarkshraðinn sé virtur og notaðar verði til þess allar tiltækar leiðir, hraðahindranir, myndavélar, hringtorg og lögreglueftirlit. Ábyrgð ríkisins annars vegar og borgarinnar hins vegar þarf að vera skýr en eftir sem áður mega þær vangaveltur ekki ógna öryggi íbúanna lengur. Það er því nauðsynlegt að meirihluti borgarráðs hafi frumkvæði að því að klára þetta mál með fulltrúum ríkisins nú þegar og að markmiðið verði að ofantaldar framkvæmdir og áherslur verði settar í forgang.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs frá 14. f.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 11. nóvember sl., um hækkun stöðvunarbrotagjalda, ásamt nýrri gjaldskrá fyrir gjald vegna stöðvunarbrota í Reykjavík. R09050068
Frestað. Framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs falið að kynna málið fyrir kaupmönnum í miðborginni og afla sjónarmiða þeirra.

12. Lagðar fram niðurstöður stýrihóps um orkustöðvar í Reykjavík, dags. 29. f.m. R09060003
Vísað til umsagnar umhverfis- og samgönguráðs, framkvæmda- og eignaráðs og skipulagsráðs.

13. Lögð fram drög að menningarstefnu Reykjavíkurborgar fyrir árin 2009-2012, ódags., ásamt bréfi skrifstofustjóra menningarmála frá 2. þ.m., sbr. samþykkt menningar- og ferðamálaráðs 28. f.m. R09060017
Vísað til borgarstjórnar.

14. Lagt fram bréf sviðsstjóra leikskólasviðs frá 29. f.m., sbr. samþykkt leikskólaráðs 27. s.m., varðandi gjaldskrá leikskóla fyrir börn íslenskra ríkisborgara sem hafa lögheimili erlendis. R09050127
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Vinstri græn hafna sérstakri gjaldskrár fyrir íslenska ríkisborgara búsetta erlendis í leikskólum borgarinnar. Vinstri græn telja eðlilegt að íslenskir ríkisborgarar sem dvelja í stuttan tíma hér á landi, hvort sem er við störf eða í leyfi, eigi að njóta sömu kjara og aðrir þjónustuþegar leikskólanna. Þá vekur ákvörðunin spurningar um hvort breyta eigi gjaldskrám borgarbúa og hvort ekki sé þá hreinlegra að rjúfa samkomulag um aðgerðaáætlun borgarinnar og hækka gjaldskrár almennt. Með þessum gerningi er verið að fara gegn samþykktum aðgerðaáætlunar þar sem segir að gjaldskrár verði ekki hækkaðar.

15. Lagt fram yfirlit yfir styrkumsóknir til borgarráðs, dags. í dag. R09010038

16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar, sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 19. f.m.:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að skipa aðgerðahóp sem hafi það hlutverk að gera aðgerðaáætlun sem tryggi velferð barna í borginni eins og kostur er. Hópinn skipi fulltrúar allra flokka sem eiga sæti í Borgarstjórn Reykjavíkur.
Greinargerð fylgir tillögunni. R09050075
Frestað.

17. Lagt fram svar borgarstjóra frá 10. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar um fjármagn til atvinnuátaksverkefna, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. f.m. R08080073
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Þakkað er fyrir svör borgarstjóra en minnt er á að meirihlutinn sá ástæðu til að skera niður fjárframlög til mannaflsfreks viðhalds við endurskoðun fjárhagsáætlunar fyrir á þriðja hundrað milljónir króna. Jafnframt er harmað að úttekt á frekari fjárþörf liggi ekki fyrir og kallað eftir skjótum svörum um svigrúm til frekari atvinnuátaksverkefna, einkum fyrir ungt fólk. Þegar er komið fram í júní en ástandið löngu fyrir séð og ljóst að Reykjavíkurborg hefur ekki getað mætt þörfum ungs fólks á framhaldsskóla- og háskólaaldri í sama mæli og nágrannasveitarfélögin.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Stærsta vinnumarkaðsaðgerð Reykjavíkurborgar er að verja störfin hjá Reykjavíkurborg. Tekist hefur að komast hjá uppsögnum fastráðinna starfsmanna og unnið er að því að finna lausráðnum starfsmönnum ný störf innan borgarkerfisins. Önnur afar mikilvæg vinnumarkaðsaðgerð er 5 milljarða króna lántaka til framkvæmda sem var samþykkt í borgarstjórn í síðustu viku. Lánið er tekið til að fjármagna framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 í samræmi við sameiginlegan vilja borgarstjórnar sem endurspeglast í aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar um að tryggja fjármögnun fyrir nauðsynlegum framkvæmdum og forgangsraða þeim í þágu atvinnustigs. Framkvæmda- og eignasvið áætlar að hægt verði að tryggja allt að 650 störf í Reykjavík með þeim nýframkvæmdum sem lánveitingin gerir Reykjavíkurborg kleift að ráðast í. Þar til viðbótar er áætlað að um 350 aðkeypt störf skapist vegna viðhaldsframkvæmda.

18. Lagt fram svar borgarstjóra frá 10. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar um eflingu atvinnustigs ungmenna, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. f.m. R09030129
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Málefni Vinnuskólans koma ungu fólki á aldrinum 17 og 18 ára varla mikið við enda starfa þar yngri aldurshópar. Þegar komið er fram að miðjum júní vekur furðu að borgarstjóri segi koma til álita að forgangsraða í þágu þessa hóps í stað þess að leggja fram tillögur í því efni. Ekkert ætti að koma á óvart í þeirri alvarlegu stöðu sem uppi er, tillögur embættismanna og greining hafa legið fyrir vikum saman. Reykjavíkurborg kemur mun minna til móts við þennan aldurshóp en nágrannasveitarfélögin og stuðningur minnihlutaflokkanna við frekari aðgerðir hefur lengi legið fyrir.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Reykjavíkurborg hefur aldrei boðið eins mörgum ungmennum störf og í sumar en 4000 unglingar áttu þess kost að fá vinnu hjá Vinnuskóla Reykjavíkur. Enn fremur er gert ráð fyrir að ráða 1240 til sumarstarfa. Með vísan til svars um fjármagn til atvinnuátaks almennt, þar sem kemur fram að leitað er leiða til að fjölga atvinnuátaksverkefnum á vegum Reykjavíkurborgar kemur vel til álita að forgangsraða í þágu þess aldurshóps sem nefndur er enda atvinnuleysi mest í þessum aldurshópi ungmenna.

19. Lagt fram svar borgarstjóra frá 10. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar um eftirlit með B-hluta fyrirtækjum, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. f.m. R07090014
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Seinagangur við að fylgja eftir skýrri stefnu Reykjavíkurborgar um aðkomu innri endurskoðunar að eftirliti með B hluta félögum er óásættanlegur og er hvatt til þess að úr verði bætt hið fyrsta og borgarráði gerð grein fyrir framgangi mála ekki síðar en í september næst komandi.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Eigendastefna borgarstjórnar er skýr er varðar aðkomu innri endurskoðunar að eftirliti með B-hluta félögum. Eins og kemur fram í svari við fyrirspurninni hafa fjögur félög þegar undirritað og staðfest verksamning um innri endurskoðun og hafin er vinna á grundvelli þess. Endurskoðunarbréf verða lögð fyrir stjórnir B-hluta félaga og borgarráð eftir því sem úttektum vindur fram. Umræða um innri endurskoðun hjá byggðasamlögum fer fram á vettvangi samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og einnig er unnið að gerð samnings um fyrirkomulag innri endurskoðunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur og Faxaflóahöfnum.

20. Lagt fram svar borgarstjóra frá 10. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar varðandi gjaldtöku fyrir vorferðir grunnskólabarna, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. apríl sl. R09040087

21. Kynnt er rekstraryfirlit aprílmánaðar. R09060041

22. Lagt fram bréf skólaráðs Rimaskóla frá 27. f.m. varðandi viðbyggingu við skólann og aukafjárveitingu í því sambandi. R07120012
Vísað til framkvæmda- og eignaráðs og menntaráðs til undirbúnings fjárhagsáætlunargerðar.

23. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 5. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 3. s.m., um þróun starfs unglingasmiðja borgarinnar. R09060035
Samþykkt.
Bókun borgarráðs:
Borgarráð fagnar því að tekist hefur að tryggja áframhaldandi rekstur unglingasmiðjanna Stígs og Traðar. Alls njóta 32 börn og ungmenni á aldrinum 13 til 18 ára, sem eiga við erfiðleika að etja af ýmsum ástæðum, þjónustu unglingasmiðjanna. Mikilvægt er að standa vörð um þjónustu við þennan hóp barna og um leið að ná fram sem bestri nýtingu á starfseminni.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Því ber að fagna ef fallið verður frá fyrirætlunum um niðurskurð á þjónustu unglingasmiðjanna Traðar og Stígs, en undirritaður hefur frá upphafi beitt sér gegn slíkum fyrirætlunum.

24. Lagt fram að nýju bréf fræðslustjóra frá 3. þ.m., sbr. samþykkt menntaráðs s.d., varðandi framlag til tónlistarskóla. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 9. s.m. þar sem lagðar eru til tilfærslur milli kostnaðarstaða í fjárhagsáætlun 2009. R09050052
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

25. Lagt fram bréf Velferðarsjóðs barna frá 8. þ.m. um styrkúthlutun úr sjóðnum að fjárhæð 40.250 þ.kr. vegna sumarnámskeiðahalds íþrótta- og tómstundasviðs. R09060042

26. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 8. þ.m. varðandi leiðréttingu á skilmálum við úthlutun byggingarréttar á lóð nr. 72-74 við Urðarbrunn, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. f.m. R09030095
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

27. Lögð fram skýrsla Aska Capital um þróun erlendra lána og gengishreyfinga á árinu 2008, dags. í febrúar 2009. R08010127

28. Lögð fram drög að samningi Reykjavíkurborgar og NBI hf. um leigu og rekstur Egilshallarinnar, dags. 9. þ.m., ásamt bréfi borgarlögmanns, dags. 10. s.m. R08050109
Vísað til umsagnar fjármálastjóra.

29. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 10. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að fela framkvæmda- og eignasviði að tryggja að áhugahópur um nýtingu varaaflsstöðvar í Elliðaárdal uppfylli nauðsynlegar öryggiskröfur í afmörkuðu 600 fm rými í „Toppstöðinni” til fyrirhugaðrar frumkvöðlastarfsemi í húsinu. Í framhaldi af því móti borgarlögmaður samning um tímabundin afnot hópsins af húsnæðinu.
Greinargerð fylgir tillögunni. R07070122
Frestað.

30. Sú leiðrétting er gerð á 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. þ.m. að Björk Vilhelmsdóttir vék af fundi við meðferð málsins. Þá er sú leiðrétting gerð á 27. lið fundargerðarinnar að tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna kom fram á undan sameiginlegri samþykkt borgarráðs, og frávísunartillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks varðaði tillögu borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna. R09020076

31. Lagt er til að Hallur Magnússon taki sæti varamanns í velferðarráði í stað Ingvars M. Jónssonar og að Ingvar M. Jónsson taki sæti varamanns í leikskólaráði í stað Halls Magnússonar. R08010173
Vísað til borgarstjórnar.

32. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn: R09050032
Lýst er miklum vonbrigðum og áhyggjum af því að enn liggi ekki fyrir mat á áhrifum breyttra aðstæðna í efnhags- og atvinnumálum fyrir borgarsjóð og fyrirtæki borgarinnar, eins og þau birtast í þjóðhagsspá. Með ólíkindum er að það sé ekki forgangsverkefni að meta hvaða áhrif spáin og aðrar sambærilegar spár hafa á fjárhagslegar horfur, rekstur og fyrirtæki borgarinnar. Nýframlagður ársreikningur gefur ekkert tilefni til slíks rólyndis. Á meðan bíða allir málaflokkar borgarinnar í algerri óvissu um hvaða fjármunir verða til ráðstöfunar til reksturs og framkvæmda í fjárhagsáætlun næsta árs, sem þó á að vera til umfjöllunar í viðkomandi ráðum þessa dagana. Spurt er hvað valdi þessu seinlæti og hvenær mat á þessum þáttum sem kallað var eftir með skriflegri fyrirspurn í borgarráði 14. maí sl. sé væntanlegt, sbr. “Af nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins má ráða að þróun lykilforsendna í atvinnu- og efnahagslífi er líkleg til að verða töluvert önnur og verri en gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2009 og þriggja ára áætlun 2010-2012. Þetta virðist sérstaklega eiga við um gengisforsendur og atvinnuleysi en jafnframt aðra þætti svo sem þróun skattstofna. Miðað við framkvæmda- og fjárhagsáætlun borgarinnar virðist ljóst að hratt mun ganga á handbært fé Reykjavíkurborgar á næstu mánuðum og misserum án stórfelldrar lántöku á lítt hagstæðum kjörum.
1. Óskað er upplýsinga um helstu frávik í forsendum milli fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar og fyrirliggjandi þjóðhagsspár.
2. Óskað er eftir mati á því hvaða áhrif það hefði fyrir niðurstöðutölur og lykilstærðir fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2009 ef hagstærðir þróuðust í samræmi við þjóðhagsspá.
3. Óskað er eftir mati á því hvaða áhrif það hefði fyrir niðurstöðutölur og lykilstærðir þriggja ára áætlunar Reykjavíkurborgar 2010-2012 ef hagstærðir þróuðust í samræmi við þjóðhagsspá.
4. Óskað er eftir mati á því hvenær handbært fé Reykjavíkurborgar er upp urið, án þess að til lántöku komi, miðað við forsendur þjóðhagsspár og óbreyttar áætlanir um framkvæmdir og rekstur skv. fjárhagsáætlun 2009 og þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar.”

Fundi slitið kl. 12.40

Óskar Bergsson

Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Kjartan Magnússon Þorleifur Gunnlaugsson