Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2009, fimmtudaginn 4. júní, var haldinn 5074. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon. Fundarritari var Gunnar Eydal.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 2. þ.m. um kosningu borgarráðs til eins árs á fundi borgarstjórnar s.d. R09060015
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Minnt er á rökstuddan vafa sem ríkir um kjörgengi Guðlaugs Sverrissonar sem varamanns í borgarráð og vekur kosning furðu sem fyrr.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Kjörgengi varamanns í borgarráð hefur fengið ítarlega umfjöllun og hefur borgarstjórn gert breytingar á samþykktum sínum til þess að ekki leiki nokkur vafi um kjörgengi.
2. Formaður borgarráðs var kosinn Óskar Bergsson. Varaformaður var kosinn Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. R09060015
3. Lögð fram afgreiðslufundargerð byggingarfulltrúa frá 2. júní. R09010026
Samþykkt.
4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 27. maí. R09010016
5. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Vesturbæjar frá 16. janúar, 5. mars og 8. maí. R09010017
6. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 25. maí. R09010028
7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R09050111
8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 22 f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 20. s.m., um tillögu að breyttu deiliskipulagi á lóð nr. 17 við Öldusel, lóð Ölduselsskóla. R09030020
Samþykkt.
9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 22. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 20. s.m., um tillögu að breyttu deiliskipulagi Grafarlæks, Stekkjarmóa og Djúpadals vegna byggingar vélageymslu í suðausturhorni golfvallar. R09030023
Samþykkt.
10. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 22. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 20. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Bólstaðarhlíðar. R09050096
Samþykkt.
11. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 22. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 20. s.m., um tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar Vogaskóla, Ferjuvogi 2, vegna lóðar Menntaskólans við Sund. R09010177
Samþykkt.
12. Lögð fram að nýju tillaga framkvæmda- og eignaráðs að breyttum almennum reglum um úthlutun lóða og sölu byggingarréttar fyrir íbúðarhús í Reykjavík, dags. í maí 2009, ásamt bréfi ritara framkvæmda- og eignaráðs frá 27. f.m., sbr. samþykkt ráðsins 25. s.m. R07040132
Samþykkt með 5 atkvæðum gegn 2.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Fulltrúar Samfylkingar greiða atkvæði gegn breytingum á reglum um úthlutun íbúðarhúsalóða. Reglur um úthlutun hafa að undanförnu byggt á því að lóðum og byggingarrétti sé úthlutað á föstu verði í sumum hverfum borgarinnar en með útboðum í öðrum. Þetta misræmi og óskýr stefnumörkun meirihlutans hefur ekki reynst farsæl. Ójafnræði hefur skapast milli fjölskyldna sem hafa fengið úthlutað lóðum á mismunandi tímum og ítrekað hefur þurft að breyta skilmálum og reglum, jafnvel eftir á. Það að halda áfram að úthluta lóðum á föstu verði mun halda lóðarverði uppi en útboð myndu að öllum líkindum lækka lóðarverð. Ekki fæst annað séð en að breytingarnar sem nú eru boðaðar breyti fyrirliggjandi framkvæmd um úthlutun lóða á föstu verði enn til hins verra þar sem þær fela í sér óskilgreint svigrúm um að víkja megi frá reglunum varðandi einstaka lóðir þegar meira framboð er af lóðum en eftirspurn. Slíkar breytingar geta opnað fyrir geðþóttaákvarðanir og mismunun sem fulltrúar Samfylkingar geta ekki staðið að.
13. Lagt fram bréf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 22. apríl sl. þar sem óskað er eftir umsögn borgarráðs um rekstrarleyfi fyrir Café Loka. R09020076
Vísað til skipulagsráðs.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Synjun borgarráðs til Café Loka um vínveitingaleyfi var á sínum tíma m.a. rökstudd með því að sambærilegt leyfi til Indian Mango hefði verið mistök. Niðurstaða dómsmálaráðuneytisins er sú að ekki hafi verið greint frá því með nægilega skýrum hætti hvers konar mistök lægju því að baki að heimilaðar voru vínveitingar þar. Borgarráð hefur fyrir skemmstu gefið að nýju jákvæða umsögn um vínveitingaleyfi fyrir veitingastaðinn Indian Mango, enda engin mótmæli íbúa borist vegna þess. Í því ljósi óskar borgarráð eftir því að skipulagsráð fái umrædd mál vegna Café Loka aftur til skoðunar út frá skipulagslegum forsendum.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna leggst eindregið gegn öllum tilraunum til að skipulagi þess hluta Þingholtanna sem er skilgreint sem íbúðasvæði verði breytt á þann veg að vínveitingastöðum verði rudd brautin inn í hverfið.Það verður að teljast ósanngjarnt ef slíka breytingu á að framkvæma á þessu íbúasvæði en ekki öðrum, en er í raun hluti af þeirri þróun að hagsmunir íbúa miðborgarinnar eru í æ ríkara mæli fyrir borð bornir. Íbúar Þingholtanna hafa ítrekað kvartað yfir auknum ágangi skemmtistaða og röskun á næturró. Fulltrúi VG í borgarráði telur að í stað þess að greiða leið vínveitingastaða í hverfið eigi borgaryfirvöld að einhenda sér í það að tryggja rétt íbúa til þess að lifa eðlilegu lífi og án þess að almannaró sé ógnað.
- Kl. 10.00 tekur Ólafur F. Magnússon sæti á fundinum.
14. Lögð fram að nýju skýrsla fjármálaskrifstofu til borgarráðs við framlagningu ársreiknings Reykjavíkurborgar fyrir árið 2008, dags. 19. maí 2009, sbr. kafla 5.4 Íþrótta- og sýningahöllin. R09050120
15. Lögð fram að nýju skýrsla fjármálaskrifstofu til borgarráðs við framlagningu ársreiknings Reykjavíkurborgar fyrir árið 2008, dags. 19. maí 2009, sbr. kafla 5.7 Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins. R09050121
- Kl. 10.35 víkur Dagur B. Eggertsson af fundi og Oddný Sturludóttir tekur þar sæti.
16. Lagt fram bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 19. f.m., sbr. samþykkt stjórnar Orkuveitunnar frá 15. s.m., þar sem óskað er eftir að skipaður verði starfshópur eigenda til að gera tillögu um uppskiptingu fyrirtækisins vegna nýlegrar lagasetningar.
Borgarráð samþykkir að tilnefna Guðlaug Sverrisson, Dag B. Eggertsson og borgarlögmann í starfshópinn. R09050088
17. Lögð fram svohljóðandi tillaga Ólafs F. Magnússonar sem vísað var til borgarráðs og stjórnar OR á fundi borgarstjórnar 19. f.m.:
Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að ekki verði heimilt að selja eignir Reykjavíkurborgar í orkufyrirtækjum til einkaaðila. Standa þarf dyggan vörð um að sameiginlegar eignir borgarbúa og þá sérstaklega eignir tengdar nýtingu orkulinda og annarra auðlinda verði áfram í almannaeigu. R09050088
Vísað til starfshóps eigenda Orkuveitu Reykjavíkur.
18. Lagt fram yfirlit yfir styrkveitingar menntaráðs 2009, ásamt bréfi fræðslustjóra frá 26. f.m. um úthlutun styrkja. R09050114
19. Lagt fram bréf sviðsstjóra leikskólasviðs frá 29. f.m., sbr. samþykkt leikskólaráðs 27. s.m., um lækkun framlags fyrir leikskóladvöl umfram átta stundir. R09050127
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Hækkun gjaldskrár leikskóla gengur þvert á þverpólitískt markmið borgarstjórnar um að verja störf og grunnþjónustu og hækka ekki gjaldskrár. Foreldrar 40#PR barna í leikskólum borgarinnar kaupa meira en 8 tíma vistun fyrir börn sín og því verða mjög margar fjölskyldur fyrir barðinu á þessari hækkun og byrðar fjölskyldna með smábörn eru þegar orðnar allt of þungar á Íslandi í dag. Fulltrúar Samfylkingarinnar eru alfarið á móti þessari hækkun.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Ég leggst eindregið gegn fyrirhuguðum hækkunum á leikskólagjöldum sem og hvers konar hækkunum á gjaldtöku vegna þjónustu við börn í borginni. Það er skýr forgangsröðun F-listans að spara fremur milljarðaútgjöld í dýrum og umdeildum framkvæmdum, eins og t.d. framkvæmdum við Tónlistar- og ráðstefnuhúsið við höfnina, en að auka gjaldtöku og þar með óréttlæti gagnvart þeim sem síst skyldi á samdráttartímum.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði hafnar nýju greiðslufyrirkomulagi fyrir níundu stundina á leikskólum, enda um beina hækkun á leikskólagjöldum að ræða. Þessi ráðstöfun er ekki í samræmi við aðgerðaáætlun borgarinnar, þar sem kveðið er á um að gjaldskrár vegna þjónustu borgarinnar verði ekki hækkaðar. Hækkun af þessu tagi mun helst koma niður á láglaunahópum og einstæðum foreldrum sem alla jafna vinna mikla yfirvinnu til að ná endum saman. Jafnframt má ætla að gjaldskrárhækkunin geti haft kynbundin áhrif, þar sem líklegt er að það foreldri sem lægri hefur tekjurnar minnki frekar við sig vinnu til að draga úr útgjöldunum. Vinstri græn telja sanngjarnara að fullnýta heimildir borgarinnar til útsvarshækkana í stað þess að láta efnahagsástandið bitna á afmörkuðum hópum, í þessu tilviki foreldrum leikskólabarna.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks óska bókað:
Gjaldskrá leikskóla Reykjavíkurborgar fyrir grunnþjónustu, 8 stunda vistun, mun haldast óbreytt og verða þannig gjöld fyrir grunnþjónustu leikskóla áfram óbreytt og lægst í Reykjavík. Áfram verður veittur 100#PR systkinaafsláttur en Reykjavíkurborg er eina sveitarfélagið sem veitir slíkan afslátt fyrir foreldra sem eru með fleiri en eitt barn í leikskóla. Allir aðrir afslættir fyrir einstæða foreldra, námsmenn og öryrkja haldast óbreyttir. Fæðisgjald er einnig óbreytt. Samstaða var í borgarstjórn um aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar þar sem markmiðið var trygging grunnþjónustu í Reykjavík og óbreytt gjaldtaka fyrir þá þjónustu.
Það leiðarljós aðgerðaáætlunar var virt í allri hagræðingarvinnu sem farið hefur fram og ein þeirra tillagna sem sett var fram er lægri niðurgreiðsla borgarinnar til viðbótarstundar í leikskólum, þ.e. fyrir tímann sem börn dvelja umfram 8 klukkustundir á dag. Framlag borgarinnar til niðurgreiðslu leikskólaplássa er nú 87-95#PR og kostnaðarhlutdeild foreldra frá 5-13#PR. Þessi hlutföll verða áfram þau sömu í gjaldskrá fyrir 8 stundir eða minna. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur munu áfram standa vörð um grunnþjónustuna.
20. Lögð fram umsögn umhverfis- og samgöngusviðs, dags. 2. þ.m., um frumvarp til laga um flutning úrgangs milli landa, sbr. reglur EES. Jafnframt lagt fram bréf borgarlögmanns frá 3. þ.m. um málið. R08020099
Samþykkt.
21. Borgarráð samþykkir að Oddný Sturludóttir taki við formennsku af Svandísi Svavarsdóttur í starfshópi um atvinnumál. R08080073
22. Lagt fram bréf Ólafs F. Magnússonar, dags. í dag, þar sem hann tilkynnir að hann verði áheyrnarfulltrúi í borgarráði til loka kjörtímabilsins og að Kjartan Eggertsson verði varaáheyrnarfulltrúi. R09060015
23. Lagt fram bréf borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks, dags. í dag, þar sem lagt er til að Hallur Magnússon taki sæti Vigdísar Hauksdóttur í innkauparáði og verði jafnframt formaður ráðsins. Einnig er lagt til að Eiríkur Sigurðsson taki sæti Halls Magnússonar í velferðarráði. R08010175
Vísað til borgarstjórnar.
24. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Mikilvægt er að útfæra tillögur um hvernig standa megi að endurgreiðslu lóða til fjölskyldna sem fengu úthlutað lóðum eftir útboð, þannig að jafnræðis sé gætt. Til að það verði hægt óska fulltrúar Samfylkingarinnar eftir því að framkvæmda- og eignasvið upplýsi borgarráð og leggi mat á hugsanleg fjárútlát borgarinnar vegna slíkrar tillögugerðar. Sérstaklega er óskað upplýsinga um hvað það myndi kosta Reykjavíkurborg að endurgreiða lóðir til þeirra sextán fjölskyldna sem hafa óskað formlega eftir að fá að skila einbýlishúsa- og parhúsalóðum sem fengust eftir útboð. Ástæða þessarar fyrirspurnar er sú að nú hefur verið skilað 85 einbýlishúsalóðum, 16 lóðum undir par- og raðhús (undir 94 íbúðir) og fjórum lóðum undir fjölbýli með 216 íbúðum. Alls hefur 395 lóðum á föstu verði verið skilað en þar til nýlega engri sem úthlutað var eftir útboð. Í síðasta mánuði samþykkti meirihlutinn í borgarráði að einstaklingur sem fékk úthlutað lóð eftir útboð gegn skuldabréfi útgefnu af borginni fengi að skila lóðinni. Þar með virðist hafa skapast ákveðið fordæmi fyrir því að fjölskyldur sem fengu lóðum úthlutað með sömu aðferð en tóku lán til greiðslu þeirra hjá öðrum aðilum fái sambærilega úrlausn sinna mála. R07040132
25. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Hafin er skráning barna í einkarekinn grunnskóla Hjallastefnunnar í Öskjuhlíð sem sagt er að taki til starfa 24. ágúst. Engri lóð hefur þó verið úthlutað til skólans og ekkert erindi kynnt skipulagsráði í því efni. Engin umfjöllun eða kynning hefur farið fram á málinu í menntaráði. Spurt er:
1) Er grunnskóli Hjallastefnunnar við Suðurgötu enn án tilskilinna leyfa og hvernig hafa borgaryfirvöld brugðist við því ástandi?
2) Hafa viðræður um samninga um stuðning við nýjan grunnskóla farið fram án kynningar í menntaráði og borgarráði?
3) Hafa viðræður um lóðaúthlutun til nýs grunnskóla í Öskjuhlíð farið fram með leynd og án aðkomu skipulagsráðs í vetur? R07070078
26. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Eftir að vinnu lauk við siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg í desember 2008 var að ósk fulltrúa Samfylkingarinnar farið í að vinna ítarlegar reglur um hagsmunatengsl, boðsferðir og gjafir. Drög að þeim reglum fóru til umsagnar borgarstjórnarflokka og hafa umsagnirnar verið lagðar fram í borgarráði. Að gefnu tilefni spyrja fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna hvað sé í vegi fyrir því að nýjar siðareglur ásamt ítarlegri reglum um hagsmunatengsl, boðsferðir og gjafir verði staðfestar í borgarráði og óska eftir því að það verði gert hið fyrsta eða fyrir sumarleyfi borgarráðs.
Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi svar við fyrirspurninni:
Eins og fram kemur í fyrirspurninni óskaði borgarráð eftir umsögnum frá öllum borgarstjórnarflokkum. Allir flokkar hafa skilað sínum umsóknum og hvatt til staðfestingar, nema F-listi. Um leið og sú umsögn hefur borist mun borgarráð taka málið til afgreiðslu. R07060032
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Undirritaður hefur þegar lýst því yfir að nýjar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa séu í sjálfu sér ágætar en hafi harla lítið gildi á meðan kjörnir fulltrúar vilja ekki veita sjálfsagðar upplýsingar um styrki og fjárframlög, sem þeir hafa þegið, sérstaklega í tengslum við prófkjör fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Afstaða F-listans til nýrra siðareglna fyrir kjörna fulltrúa er þannig þegar ljós en verður lögð fram með formlegum hætti á næsta borgarráðsfundi.
27. Lagt fram bréf Íslandsbanka frá 26. f.m. um endurfjármögnun víxla útgefinna af eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. Jafnframt lögð fram umsögn borgarlögmanns og fjármálastjóra, dags. í dag.
Samþykkt borgarráðs:
Fyrir liggur að fjármálaskrifstofa mótmælti við Glitni víxilkaupum eignastýringar bankans um leið og fjármálaskrifstofa fékk upplýsingar um þau síðastliðið sumar enda hafi eignastýringin farið út fyrir heimild sína með þeirri ráðstöfun. Borgarráð tekur undir þá skoðun fjármálaskrifstofu. Borgarráð samþykkir jafnframt að fela innri endurskoðanda að fara yfir aðdraganda ákvörðunar eignastýringar Glitnis, m.t.t. fjárstýringa Reykjavíkurborgar, um að fjárfesta f.h. Reykjavíkurborgar í víxilkröfu Fasteigna ehf.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur til að haldinn verði kynningarfundur um endurfjármögnun á víxilflokki EFF 09 0522, útgefnum af eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. Í gögnum sem lágu frammi fyrir fund borgarráðs í dag um liðinn „Fasteign – endurfjármögnun“ er eingöngu að finna bréf frá Íslandsbanka og Fasteignafélaginu Fasteign hf. Ekki liggur fyrir umsögn frá borgarlögmanni, innri endurskoðun eða fjármálastjóra borgarinnar um forsögu og fyrst á þessum fundi er lögð fram tillaga um málið. Að loknum kynningarfundi þar sem ofantaldar umsagnir þurfa að liggja fyrir er fulltrúi VG í borgarráði tilbúinn til að mæta á borgarráðsfund hvenær sem er að því gefnu að ráðrúm gefist til að fara yfir málið í baklandi VG áður.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:
Borgarráð samþykkir að vísa tillögunni frá enda var málið kynnt ítarlega og rætt á síðasta fundi borgarráðs. Borgarráðsfulltrúinn sat ekki þann fund, það var því á hans ábyrgð að kynna sér málið milli funda. Að auki er borgarráð búið að fela innri endurskoðanda að taka málið til skoðunar líkt og tillaga borgarráðsfulltrúans gerir ráð fyrir.
Frávísunartillagan samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Fulltrúi VG í borgarráði furðar sig á því að meirihluti borgarráðs skuli þröngva málefnum Fasteignar ehf. í atkvæðagreiðslu í stað þess að verða við ósk um upplýsingafund til að allir borgarráðsmenn hafi möguleika á að taka upplýsta ákvörðun um þetta erfiða mál.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Það er alrangt hjá borgarfulltrúanum að málið hafi ekki verið vel kynnt. Ítarleg kynning og umræða var á síðasta fundi borgarráðs og afgreiðslu frestað til fundar borgarráðs í dag. Það að borgarfulltrúinn hafi ekki getað setið þann fund gefur því ekki tilefni til að fresta málinu aftur.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Fulltrúi VG sem sat í borgarráði 29. maí hefur skýrt undirrituðum frá umræðum í borgarráði um málefni Fasteignar ehf. á síðasta fundi borgarráðs. Frá þeirri umræðu eru engin skrifleg gögn. Fulltrúinn hefur tjáð sig um það að umræðurnar hafi verið á annan hátt en meirihlutinn vill túlka hana nú og ekki hafi verið um ítarlega kynningu að ræða.
Umsögn borgarlögmanns og fjármálastjóra samþykkt með 4 atkvæðum gegn 1. R09050103
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Fulltrúar Samfylkingar í borgarráði sitja hjá við afgreiðslu um endurfjármögnun víxils Fasteignar ehf. Á síðasta fundi borgarráðs óskuðum við eftir að innri endurskoðun færi rækilega yfir tilurð þess að Glitnir skyldi ráðstafa fjármunum Reykjavíkurborgar til fasteignaframkvæmda í Reykjanesbæ og af hverju borgarráð hafi ekki fengið upplýsingar um málið fyrr en umræddur víxill hafi verið kominn á gjalddaga ári eftir lántökuna. Það er jafnframt ósk okkar að innri endurskoðun kanni hvort önnur sambærileg ráðstöfun fjármagns borgarinnar sé fyrir hendi.
28. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 3. þ.m., sbr. samþykkt menntaráðs s.d., varðandi viðbótarfjármagn til tónlistarskóla. R09050052
Vísað til fjármálastjóra.
Fundi slitið kl. 12.55
Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Gísli Marteinn Baldursson
Kjartan Magnússon Oddný Sturludóttir
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson