Borgarráð - Fundur nr. 5072

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2009, fimmtudaginn 14. maí, var haldinn 5072. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.45. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 12. maí. R09010026
Samþykkt.

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 11. maí. R09010012

3. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 5. og 12. maí. R09010018

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 8. maí. R09010027

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R09040097

6. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 7. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 6. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu aðalskipulagi vegna Búrfellslínu, Kolviðarhólslínu og Suðvesturlína. R09050024
Samþykkt.

7. Lagður fram ársreikningur Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. fyrir árið 2008. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 13. þ.m. R08080038

8. Lagður fram ársreikningur Bílastæðasjóðs fyrir árið 2008. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 13. þ.m. R08080038

9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 11. þ.m. varðandi heimild til samninga við lóðarhafa útboðslóða vegna vanskila. R09040104
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

10. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 13. þ.m. varðandi kvaðir í lóðarleigusamningi um lóð nr. 1 við Furugerði. R09020023
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 11. þ.m. um skipti á lóðunum nr. 13 við Freyjubrunn og nr. 18 við Gefjunarbrunn, með nánar tilgreindum skilmálum. R09050044
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 11. þ.m. þar sem lagt er til að B.M. Vallá hf. verði úthlutað byggingarrétti fyrir parhús á lóð nr. 72-74 við Urðarbrunn og Pálmari ehf. verði úthlutað byggingarrétti fyrir parhús á lóð nr. 120-122 við Haukdælabraut, með nánar tilgreindum skilmálum. R09030095
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Óskað er eftir sundurliðuðu yfirliti um stöðu lóðahafa á nýbyggingarsvæðum borgarinnar m.t.t. stöðu framkvæmda og í hversu mörgum tilvikum hafa komið fram óskir um að Reykjavíkurborg leysi lóðirnar til sín.

13. Lögð fram tillaga Snorra Hallssonar um aukið samstarf og samráð hverfisráða og ungmennaráða borgarinnar, sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarfulltrúa og Reykjavíkurráðs ungmenna 14. f.m., sbr. bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 18. s.m. R09040056
Svohljóðandi tillaga samþykkt:

Borgarráð fagnar tillögu Reykjavíkurráðs ungmenna og áhuga þeirra á að koma að málefnum borgarbúa og hverfanna. Lagt er til að hér eftir sendi þjónustumiðstöðvar borgarinnar dagskrár hverfisráðsfunda til Reykjavíkurráðs ungmenna fyrir fundina, þannig að Reykjavíkurráð ungmenna eigi þess kost að koma á framfæri ábendingum vegna einstakra mála og mæta á fundi hverfisráðanna og gera grein fyrir sinni afstöðu sé það talið mikilvægt.

14. Lögð fram að nýju svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2009-2020, ásamt bréfi framkvæmdastjóra Sorpu bs. frá 30. mars sl., sbr. samþykkt stjórnar Sorpu bs. s.d. Jafnframt lögð fram að nýju umsögn umhverfis- og samgönguráðs frá 10. s.m., sbr. bréf skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs, dags. 16. s.m. R07050065
Svohljóðandi tillaga samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum, Óskar Bergsson situr hjá við afgreiðslu málsins:

Borgarráð staðfestir endurskoðaða sameiginlega svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2009-2020 fyrir hönd Reykjavíkurborgar, enda verði farið yfir efnislegar ábendingar umhverfis- og samgöngusviðs borgarinnar. Borgarráð tekur undir hugmyndir um frekara samstarf eða samráð þeirra aðila sem að áætluninni stóðu, enda geti slíkt samstarf komið á framfæri hugmyndum til sveitarfélaga til hagsbóta fyrir umhverfið, íbúa almennt sem og hvert sveitarfélag. Ákvarðanir um framkvæmdatíma og tímasetningar einstakra framkvæmda verði áfram á vegum hvers samlagssvæðis/sveitarstjórna fyrir sig. Borgarráð telur mikilvægt að skilgreina vel með fulltrúum hvers sveitarfélags í hverju samstarf eða samráð felist. Borgarráð tekur undir þakkir stjórnar Sorpu til verkefnisstjórnar fyrir vandaða og góða vinnu.

15. Kynnt er staða barnaverndarmála í Reykjavík. R09040086

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Fjöldi mála hjá Barnavernd Reykjavíkur hefur aukist umtalsvert á síðastliðnum mánuðum og samkvæmt þeim upplýsingum sem fram koma m.a. í fjölmiðlum þá er veruleg þörf á umfram starfsfólki í barnaverndarvinnu í Reykjavík. Fulltrúar Samfylkingarinnar óska eftir viðbragðsáætlun frá Barnavernd Reykjavíkur og velferðarsviði á næsta fund ráðsins.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Af þeim upplýsingum sem borgarrráðsfulltrúa VG hafa borist má ráða að Barnavernd Reykjavíkur er illa sett og virðist jafnvel verst sett allra sveitarfélaga á landinu hvað varðar úrvinnslu barnaverndarmála og er því kallað eftir viðbragðsáætlun frá Barnavernd Reykjavíkur. Ört versnandi fjárhagur heimilanna sem meðal annars kemur fram í slæmri tannheilsu ákveðins hóps barna og þeirri staðreynd að þeim börnum fjölgar sem ekki hafa efni að njóta skólamáltíða, veldur þungum áhyggjum. Í ljósi þessara upplýsinga telur fulltrúi VG í borgarráði það einboðið að auk almennra aðgerða til aðstoðar verst settu heimilunum verði þegar fjölgað stöðugildun í Barnavernd Reykjavíkur, hafið eftirlit með tannheilsu barna í skólum og það tryggt að öll börn fá notið skólamáltíða án tillits til efnahags.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Á fundi velferðarráðs 20. apríl sl. var samþykkt að fela sviðsstjóra velferðarsviðs og framkvæmdastjóra Barnaverndar Reykjavíkur að fara yfir stöðu Barnaverndar Reykjavíkur í ljósi fleiri tilkynninga á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Þegar liggur fyrir viðbragðsáætlun auk þess sem sviðsstjóri velferðarsviðs hefur lagt til að fjölga tímabundið starfsfólki hjá Barnavernd Reykjavíkur. Engar ábendingar hafa borist um að vinnslu mála Barnaverndar Reykjavíkur sé ábótavant og lýsir borgarráð fullu trausti á stjórnendur og starfsfólk velferðarsviðs og Barnaverndar Reykjavíkur.

16. Samþykkt að skipa eftirtalda í stýrihóp um staðsetningu og afgreiðslutíma áfengisveitingastaða og um meðferð áfengis á almannafæri, sbr. 29. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. þ.m.:
Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður, Áslaug Friðriksdóttir, Guðlaugur Sverrisson, Oddný Sturludóttir og Þorleifur Gunnlaugsson.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

Í ljósi bréfs Íbúasamtaka miðborgar um vínveitingastaði á svæðinu leggur fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði til að stýrihópi vegna reglna um staðsetningu og afgreiðslutíma vínveitingastaða verði falið að halda borgarafund með íbúum miðborgarinnar um málið.

Afgreiðslu tillögunnar frestað. R09050008

17. Samþykkt að skipa eftirtalda í vinnuhóp um forgangsröðun í alþjóðlegu samstarfi, sbr. 3. lið fundargerðar borgarstjórnar 5. þ.m.:
Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Oddný Sturludóttir og Sóley Tómasdóttir. R09050036

18. Lögð fram svohljóðandi tillaga Ólafs F. Magnússonar sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 21. f.m.:

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að vegna þeirrar efnahagskreppu sem ríkir í landinu og vegna nauðsynlegs sparnaðar í útgjöldum borgarinnar dragi borgin úr ferðakostnaði kjörinna fulltrúa eins og kostur er. Sérstaklega eru kjörnir fulltrúar hvattir til að sýna meira aðhald í ferða- og dagpeningakostnaði en hingað til og sýna þannig í verki að þeir vilji ekki fyrst og fremst skera niður kostnað og útgjöld vegna starfsfólks borgarinnar heldur taka til í eigin ranni. Þess sé einnig gætt, að fari fleiri en einn kjörinn fulltrúi í slíkar ferðir, komi ávallt fulltrúi frá minnihlutanum.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:

Það aðhald og sá mikli sparnaður sem þegar hefur verið gripið til vegna ferða- og dagpeningakostnaðar borgarinnar mætir að fullu því sem nefnt er í fyrirliggjandi tillögu. Megininntak tillögunnar var þannig samþykkt með fjárhagsáætlun yfirstandandi árs þar sem öll svið og ráð leggja til verulegan sparnað á þessum kostnaðarlið. Tillögunni er því vísað frá.

Frávísunartillagan samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum. R09010053

19. Lagt fram svar borgarstjóra frá 11. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um stjórnsýslulega stöðu aðgerðahóps borgarráðs um fjármál Reykjavíkurborgar, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. þ.m. R08080073

20. Lagt fram svar borgarstjóra frá 12. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um fjölda starfa og starfsmanna hjá Reykjavíkurborg, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. f.m. R08080073

21. Lagt fram svar borgarstjóra frá 12. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um landfyllingar í Gufunesi, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. febrúar sl.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Svar borgarstjóra um endurskoðun á umfangi landfyllinga í Gufunesi vekur athygli í ljósi þess að fyrir liggur tillaga um framkvæmdaleyfi fyrir landfyllingu í Gufunesi í skipulagsráði. Hún er í frestun. Brýnt er að ofangreind svör verði kynnt íbúasamtökum í Bryggjuhverfi og Grafarvogi og íbúar hafðir með í ráðum í þeirri skoðun sem boðuð er á umfangi landfyllinga og þörfum borgarinnar fyrir losun jarðvegs. R08110116

22. Lagt fram svar borgarstjóra frá 12. þ.m. við fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar varðandi fyrirheit um lóðarúthlutun við Tryggvagötu til Ungmennafélags Íslands, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. mars sl. R08050037

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Ég þakka fyrir síðbúið svar við fyrirspurn minni frá 26. mars sl. um lóðarúthlutun við Tryggvagötu 13 til Ungmennafélag Íslands, UMFÍ. Á þeim langa tíma sem liðinn er frá því að fyrirspurnin var lögð fram hef ég flutt tillögu um að fallið verði frá þessari lóðarúthlutun, enda hafa forráðamenn UMFÍ hagað sér með óafsakanlegum hætti í málinu og unnið að umfangsmiklum hótelrekstri á lóðinni, sem á engan hátt getur samrýmst tilgangi lóðarúthlutunarinnar. Ljóst er að lóðarúthlutunin er hluti af hrossakaupum úr tíð fyrri meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á þessu kjörtímabili. Einkavinavæðingarflokkarnir sem nú mynda meirihluta í Borgarstjórn Reykjavíkur í umboði minnihluta kjósenda munu vafalítið halda sérhagsmunum á kostnað almannahagsmuna til streitu í þessu máli. Þess vegna er brýnt að koma þeim frá fyrir lok kjörtímabilsins og að við taki meirihluti í borgarstjórn með meirihluta kjósenda að baki sér. Meirihluti sem leggi sérhagsmuni til hliðar og hafi almannahagsmuni í heiðri.

- Kl. 12.50 víkur Óskar Bergsson af fundi.

23. Lagt fram svar borgarstjóra frá 12. þ.m. við fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar um hesthúsabyggð í Víðidal, sbr. 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. mars sl. R08100234

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Á næsta borgarstjórnarfundi þriðjudaginn 19. maí mun ég leggja fram tillögu um að fallið verði frá því að bæta nýrri hesthúsabyggð sem skagar eins og nes inn á grænt svæði við norðurbakka Elliðaánna, vestan Breiðholtsbrautar, við þá hesthúsabyggð, sem fyrir er í Víðidal, fjær ánum. Ég tel að með fyrirætlunum sínum um hina nýju hesthúsabyggð gangi núverandi meirihluti í Borgarstjórn Reykjavíkur freklega gegn almannahagsmunum og þverpólitískri sátt, sem um langt skeið hefur ríkt í borgarstjórn, um að verndun dýrmæts og viðkvæms lífríkis Elliðaánna skuli hafa algeran forgang í skipulagsmálum Elliðaárdalsins. Náttúran á skilyrðislaust að njóta vafans þegar um er að ræða jafn einstakt náttúrufyrirbæri og lifandi laxveiðiá í miðri höfuðborginni er. Ég átel harðlega framgöngu formanns skipulagsráðs, Júlíusar Vífils Ingvarssonar, í hesthúsamálinu, þar sem hann hefur gengið fram af miklu offorsi og virðist svo sem mikið sé í húfi fyrir formanninn að tryggja framgang þessa máls, sem óneitanlega lyktar af fyrirgreiðslupólitík. Mikið hefur skort á að kjörnir fulltrúar hafi fengið viðunandi upplýsingar um hesthúsafyrirætlanir meirihlutans og afleiðingar þeirra, en það er þó deginum ljósara að þær eru stórhættulegar lífríki ánna og fela í sér verulega aukna umferð hesta um svæði sem er ætlað til annars konar útivistar. Þó að formaður skipulagsráðs hafi nú dregið upp úr vasa sínum hugmyndir um svolitla minnkun á þeim stórkarlalegu hugmyndum sem fyrst voru uppi og fólu í sér aðstöðu fyrir allt að 800 hross á grænu svæði næst ánum, eru hugmyndir hans með öllu ótækar og óábyrgar. Borgarbúar verða að snúast til varnar fyrir Elliðaárnar og almannahagsmuni.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Gífuryrði í bókun Ólafs F. Magnússonar vekja furðu enda fékk hann greinargóða yfirferð um málið í borgarráði og gerði enga athugasemd við afgreiðslu þess 26. febrúar sl. Ekki voru heldur gerðar athugasemdir af hálfu áheyrnarfulltrúa F-lista í skipulagsráði. Í opinberri umræðu lýstu hins vegar fulltrúar Veiðimálstofnunar, Stangaveiðifélags Reykjavíkur og aðrir áhyggjum sínum vegna umfangs hesthúsabyggðarinnar í deiliskipulagi Víðidalsins en gert hefur verið ráð fyrir þeirri nýtingu reitsins í meira en áratug. Formaður skipulagsráðs fundaði með fulltrúum Veiðimálstofnunar og Stangaveiðifélags Reykjavíkur auk stjórnarformanni Fáks til að fara yfir athugasemdir þeirra. Í framhaldi af því lagði hann til að deiliskipulagið yrði endurskoðað og verulega dregið úr byggingarmagni. Er það í fyrsta skipti sem skipulag er endurskoðað áður en það kemur úr auglýsingu í Stjórnartíðindum. Með tilliti til mikilvægis svæðins í borgarlandinu vildi formaður skipulagsráðs ná sátt um skipulagið og var ný tillaga lögð fram í skipulagsráði þann 6. þ.m. og var hún unnin í samráði við hagsmunaaðila. Upphlaup Ólafs F. Magnússonar eftir á og umsnúningur í afstöðu til þessa máls er ekki sannfærandi. Ummælum hans og dylgjum í garð formanns skipulagsráðs, sem hefur lagt sig fram við að ná sátt í þessu máli, er vísað á bug.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Það er einfaldlega rangt að málið hafi fengið eðlilega kynningu í borgarráði sem verður að hafa burði til þess að taka upplýsta ákvörðun í þessu afar þýðingarmikla máli fyrir borgarbúa.

24. Lögð fram ársskýrsla hjúkrunarheimilisins Eirar fyrir árið 2008. R09040107

25. Lögð fram ársskýrsla umönnunar- og hjúkrunarheimilisins Skjóls fyrir árið 2008. R09040108

26. Lögð fram ársskýrsla Sorpu bs. fyrir árið 2008. R09050033

27. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 30. f.m., sbr. samþykkt velferðarráðs og barnaverndarnefndar 29. s.m., varðandi reglur um samráð og ábyrgðarskiptingu milli Barnaverndar Reykjavíkur og þjónustumiðstöðva. R09050003

- Kl. 12.57 víkur Björk Vilhelmsdóttir af fundi.

28. Lögð fram greinargerð innri endurskoðunar um áhættumat fyrir fjármálaskrifstofu, dags. í apríl 2009. R09050045

29. Kynnt er rekstraryfirlit marsmánaðar. R09020033

30. Lagt fram bréf fjármálastjóra varðandi tímaáætlun við gerð fjárhagsáætlunar 2010, dags. 11. þ.m. R09050032
Frestað.

- Kl. 13.10 víkur Kjartan Magnússon af fundi.

31. Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Á síðasta borgarráðsfundi var lagt fram svar við fyrirspurn minni um móttökukostnað í tíð fyrri meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks annars vegar og í borgarstjóratíð minni hins vegar. Lækkun á móttökukostnaði Reykjavíkurborgar í borgarstjóratíð minni var 40#PR. Enn hafa ekki verið lagðar fram upplýsingar um ferða- og dagpeningakostnað borgarstjóraembættisins í tíð fyrri meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks annars vegar og í borgarstjóratíð minni hins vegar. Ég óska eftir upplýsingum um þennan samanburð á ferðakostnaði sem fyrst. R09010053

32. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Af nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins má ráða að þróun lykilforsendna í atvinnu- og efnahagslífi er líkleg til að verða töluvert önnur og verri en gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2009 og þriggja ára áætlun 2010-2012. Þetta virðist sérstaklega eiga við um gengisforsendur og atvinnuleysi en jafnframt aðra þætti svo sem þróun skattstofna. Miðað við framkvæmda- og fjárhagsáætlun borgarinnar virðist ljóst að hratt mun ganga á handbært fé Reykjavíkurborgar á næstu mánuðum og misserum án stórfelldrar lántöku á lítt hagstæðum kjörum.
1. Óskað er upplýsinga um helstu frávik í forsendum milli fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar og fyrirliggjandi þjóðhagsspár.
2. Óskað er eftir mati á því hvaða áhrif það hefði fyrir niðurstöðutölur og lykilstærðir fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2009 ef hagstærðir þróuðust í samræmi við þjóðhagsspá.
3. Óskað er eftir mati á því hvaða áhrif það hefði fyrir niðurstöðutölur og lykilstærðir þriggja ára áætlunar Reykjavíkurborgar 2010-2012 ef hagstærðir þróuðust í samræmi við þjóðhagsspá.
4. Óskað er eftir mati á því hvenær handbært fé Reykjavíkurborgar er uppurið, án þess að til lántöku komi, miðað við forsendur þjóðhagsspár og óbreyttar áætlanir um framkvæmdir og rekstur skv. fjárhagsáætlun 2009 og þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar. R09050032

- Kl. 13.14 víkur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi.

33. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2009 lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna m.a. til eftirfarandi: Borgarstjórn samþykkir að við útfærslu og mat á raunhæfni einstakra tillagna um breytingar á þjónustu og niðurskurð verði þess gætt að náið samráð verði haft við stjórnendur, stéttarfélög og aðra fulltrúa starfsfólks, notendur þjónustunnar og foreldra eða forráðamenn í tilviki barna. Ofangreint samráð er ekki síst mikilvægt þegar um er að ræða þann 2,5 milljarða viðbótarniðurskurð sem enn er óútfærður. Tillögunni var vísað til meðferðar borgarstjóra og aðgerðahóps borgarráðs um fjármál Reykjavíkurborgar á fundi borgarstjórnar 6. janúar sl. Í kjölfarið var ráðgjafarfyrirtækið Capacent m.a. fengið til að halda fundi með starfsfólki um mögulegar leiðir til sparnaðar og hagræðingar hjá Reykjavíkurborg. Óskað er eftir aðgangi að niðurstöðum þessarar vinnu og tillögum starfsmanna og einstakra starfsstaða ásamt skilagreinum einstakra sviða til fjármálaskrifstofu og borgarstjóra um endurskoðun á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar vegna fjárhagsáætlunar 2009. R08080073


Fundi slitið kl. 14.07

Júlíus Vífill Ingvarsson
Dagur B. Eggertsson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Þorleifur Gunnlaugsson