Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2009, fimmtudaginn 7. maí, var haldinn 5071. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Oddný Sturludóttir, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Árbæjar frá 16. apríl. R09010008
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 17. apríl. R09010017
3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 6. maí. R09010026
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Á fundi skipulagsráðs í gær lagði undirritaður fram svohljóðandi bókun: “Þrátt fyrir ítrekaðar óskir um að fulltrúar Veiðimálastofnunar og aðrir fagaðilar mæti á fund borgarráðs og skipulagsráðs hafa fulltrúar meirihlutans þverskallast við og viljað vinna þetta mál að mestu að tjaldabaki. Þetta er óviðunandi, ólýðræðislegt og ófaglegt. Kjörnir fulltrúar verða að hitta fagaðila og fá fræðslu frá þeim milliliðalaust í svona mikilvægu máli. Ekki er of seint að iðrast í þessu máli og enn er hægt að forða umhverfis- og skipulagsslysi við Elliðaárnar. Nóg eru dæmin um alla borg um slík mistök og þarf ekki að fara út fyrir þennan stað, þ.e. Höfðatorgsreit, til að sjá dæmin um hroðvirknisleg vinnubrögð í skipulags- og umhverfismálum. Vönduð og opin fagleg og lýðræðisleg umfjöllun getur komið í veg fyrir slíkt”. Vegna framkomu formanns skipulagsráðs, Júlíusar Vífils Ingvarssonar, í minn garð, bæði á þessum fundi og á vettvangi borgarstjórnar hef ég ákveðið að leggjast ekki framar svo lágt að mæta sem varaáheyrnarfulltrúi á fundi skipulagsráðs á meðan Júlíus Vífill gegnir þar formennsku. Ég segi því af mér sem varaáheyrnarfulltrúi í skipulagsráði og mun tilnefna annan fulltrúa F-listans sem varaáheyrnarfulltrúa í ráðinu á fundi borgarráðs í dag um leið og ég lýsi vantrausti á formann ráðsins, Júlíus Vífil Ingvarsson. Ekki verður lengur unað við ótrúlegar dylgjur um persónu mína og hæfni sem starfandi borgarfulltrúa og læknis. Það mun verða kjósenda í Reykjavík að meta hvort ósannindi, matreidd af stjórnmála- og fjölmiðlamönnum, ráði ferðinni við val kjörinna fulltrúa í Borgarstjórn Reykjavíkur eða hvort raunveruleg hæfni og heiðarleiki fólks ráði úrslitum í þeim efnum.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Á fundi skipulagsráðs í gær var lögð fram tillaga að breytingum á deiliskipulagi Víðidalsins. Sú tillaga gerir ráð fyrir verulega minna byggingarmagni á reitnum og er byggðin færð fjær Elliðaánum. Tillagan er enn í vinnslu og var frestað á fundinum. Um þetta ríkir sátt enda lagt upp úr því að vinna nýtt skipulag í samráði við Veiðimálastofnun, Stangaveiðifélag Reykjavíkur og Hestamannafélagið Fák. Grunntónninn er að vernda lífríki ánna og viðkvæmt umhverfi þeirra. Ekki er ástæða til þess að svara bókun borgarfulltrúans að öðru leyti né bregðast við stóryrtum yfirlýsingum sem hann hefur sent til fjölmiðla. Þau orð dæma sig sjálf.
4. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 17. apríl. R09010030
5. Lögð fram fundargerð stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 29. apríl. R09010031
6. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 20. apríl. R09010028
7. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 30. apríl. R09010032
8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R09040097
9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 22. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Ártúnshöfða eystri vegna nýtingar húsnæðis að Viðarhöfða 2. R09040089
Samþykkt.
10. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 22. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Norðlingaholts vegna lóðar nr. 5-7 við Hestavað. R09040091
Samþykkt.
11. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 2. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 1. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 14 við Ofanleiti.
Samþykkt. R08070063
12. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 22. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi slippasvæðis vegna breyttrar notkunar verbúða við Grandagarð og Geirsgötu. R09040090
Samþykkt.
13. Lögð fram svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2009-2020, ásamt bréfi framkvæmdastjóra Sorpu bs. frá 30. f.m., sbr. samþykkt stjórnar Sorpu bs. s.d. Jafnframt lögð fram að nýju umsögn umhverfis- og samgönguráðs frá 10. mars sl., sbr. bréf skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs, dags. 16. s.m. R07050065
Frestað.
14. Lögð fram endurskoðuð rekstraráætlun Sorpu bs. fyrir árið 2009 og þriggja ára áætlun Sorpu bs. fyrir árin 2010-2012, ásamt bréfi framkvæmdastjóra frá 3. þ.m., sbr. samþykkt stjórnar 30. f.m. R08010186
Vísað til fjármálastjóra til umsagnar.
15. Lögð fram tillaga velferðarráðs frá 22. f.m. um að Aðalbjörg Traustadóttir taki sæti Jórunnar Frímannsdóttur í þjónustuhópi aldraðra, sbr. bréf sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 24. s.m. R08020042
Samþykkt.
16. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 22. f.m. þar sem óskað er heimildar til að ganga frá afsali vegna fasteignarinnar að Engjateigi 19. 99030168
Samþykkt.
17. Lagt fram bréf hafnarstjóra frá 17. f.m., sbr. samþykkt hafnarstjórnar s.d., varðandi endurskoðaða fjárhagsáætlun Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2009. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra, dags. 24. s.m. R08120093
Samþykkt.
18. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundaráðs frá 6. f.m., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs 1. s.m., um lengda viðveru fatlaðra ungmenna í framhaldsskólum. R09010132
Samþykkt, enda rúmist fjárveiting innan fjárhagsramma íþrótta- og tómastundasviðs.
19. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 16. þ.m., varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um hæfisreglur, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs 16. apríl. R09040054
20. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar um starfsemi unglingasmiðjanna Stígs og Traðar, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 24. apríl. R07010060
21. Lagt fram bréf formanns stjórnar kirkjubyggingasjóðs frá 15. f.m. varðandi úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2009. R09020004
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Fulltrúar Samfylkingarinnar sitja hjá við afgreiðslu styrkja úr kirkjubyggingasjóði að þessu sinni vegna nokkurra úthlutana sem fara eiga til niðurgreiðslu gamalla húsnæðisskulda kirkja í Reykjavík. Að sama skapi styðja fulltrúarnir heilshugar styrkveitingar til mannfrekra viðhaldsframkvæmda. Í því árferði og atvinnuleysi sem nú ríkir ætti að leggja höfuðáherslu á að veita styrki til atvinnuskapandi viðhaldsverkefna og er það von okkar að slík forgangsröðun verði höfð að leiðarljósi í stjórn krkjubyggingasjóðs á komandi misserum.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Fulltrúi VG í borgarráði situr hjá við afgreiðslu styrkjaúthlutana úr kirkjubyggingarsjóði. Sú spurning er áleitin hvort ekki sé rétt að draga verulega úr styrkveitingum til sjóðsins í því árferði sem við nú búum við. Það er hinsvegar greinilega brot á samþykktum um sjóðinn, ef veita á styrk til annars en framkvæmda en ekki hefur verið sýnt fram á að styrkir sem sótt er um vegna „verulega erfiðrar skuldastöðu“ séu vegna endurbóta og meiriháttar viðhalds kirkja.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Úthlutanir úr kirkjubyggingasjóði er í fullu samræmi við samþykktir sjóðsins, þar sem flest verkefni eru vegna framkvæmda sem nú standa yfir en önnur verkefni lúta að eldri greiðslum vegna kirkjubygginga.
22. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar um barnaverndarmál, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs 24. apríl. R09040086
Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar óska bókað:
Fulltrúar VG og Samfylkingar þakka svör sem borist hafa við spurningum um barnaverndarmál. Í ljósi þeirra og umræðu og áhyggjum í samfélaginu af stöðu málaflokksins, er óskað eftir því að barnaverndarmál verði sett á dagskrá borgarráðs eftir viku og þar verði kölluð til framkvæmdastýra Barnaverndar Reykjavíkur og forstjóri Barnaverndarstofu.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Við ósk borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar verður að sjálfsögðu orðið.
23. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar um móttökukostnað, sbr. 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. febrúar. R09010053
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Ég fagna því að nú hafi komið fram að alger umskipti urðu við móttökukostnað borgarinnar eftir að ég varð borgarstjóri. Ef mér hefði tekist að stöðva veisluhöld vegna starfsloka borgarfulltrúa Framsóknarflokks, sem hann hafði verulega forgöngu um sjálfur, hefði mánaðarlegur kostnaður í borgarstjóratíð minni farið undir 2 mkr. Samsvarandi kostnaður í tíð fyrri meirihluta á þessu kjörtímabili var vel yfir 3 mkr. Þannig tókst mér í borgarstjóratíð minni að lækka móttökukostnað um 40#PR miðað við fyrri meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Sú staðreynd að mánaðarlegur móttökukostnaður hefur haldið áfram að lækka að undanförnu stafar auðvitað af því efnahagshruni sem orðið hefur af völdum þeirra stjórnmálaflokka, sem nú stjórna borginni. Veislu-, ferða- og launakostnaður hefur að jafnaði verið tiltölulega hæstur vegna Framsóknarflokks en lægstur vegna F-listans eins og leitt hefur verið í ljós á þessu kjörtímabili.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Eins og fram kom í svari við fyrirspurninni hefur umræddur kostnaður lækkað verulega að undanförnu. Þannig hefur þessi kostnaður ekki verið lægri en nú, er sú breyting er í fullu samræmi við áherslur borgarstjórnar og þá hagræðingu sem stefnt var að í fjárhagsáætlun þessa árs.
24. Lagt fram bréf Félags eldri borgara í Reykjavík frá 8. þ.m. þar sem óskað er eftir niðurfellingu á gatnagerðargjaldi vegna lóðarinnar nr. 84 við Hólaberg. Jafnframt lögð fram umsgön skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 27. s.m., þar sem mælt er gegn því að orðið verði við erindinu. R08040129
Umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs er samþykkt og er því erindinu synjað.
25. Lagt fram bréf Einars Gauts Steingrímssonar hrl. frá 1. þ.m. varðandi kröfu lóðarhafa að Lautarvegi 2, 4 og 6 um skil á lóðunum. Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 27. f.m., þar sem mælt er gegn því að orðið verði við erindinu. R08100288
Frestað.
26. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R09040003
27. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Íþróttasambands fatlaðra frá 3. þ.m. þar sem óskað er eftir styrk frá Reykjavíkurborg vegna Evrópumeistaramóts fatlaðra í Laugardalslaug 15.-25. október nk. R09010074
Samþykkt að veita styrk að fjárhæð 1 mkr.
28. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 6. þ.m, sbr. bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar og fjármálastjóra frá 5. s.m., þar sem lagt er til að embætti borgarendurskoðanda verði lagt niður. R09050006
Samþykkt.
29. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:
Lagt er til að borgarráð skipi fimm manna stýrihóp sem yfirfari reglur Reykjavíkurborgar um staðsetningu og afgreiðslutíma áfengisveitingastaða og um meðferð áfengis á almannafæri í borginni, og geri tillögur að breytingum ef þörf er talin á. Hópurinn skili niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. október nk.
Greinargerð fylgir tillögunni. R09050008
Samþykkt. Tilnefningu í hópinn frestað.
30. Lagt fram bréf aðstandenda afmælistónleika Atla Heimis Sveinssonar frá 4. þ.m. þar sem sótt er um styrk vegna tónleika sem haldnir voru í tilefni sjötugs afmælis Atla Heimis.
Samþykkt að veita styrk að fjárhæð 200 þkr. R09050009
31. Lagt fram erindisbréf starfshóps um atvinnumál, ódags. R08080073
Samþykkt.
32. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Aðgerðahópur borgarráðs hefur starfað frá því í haust og hefur haft töluvert vægi í starfsemi borgarinnar. Borgarstjórn hefur ítrekað vísað málum til hópsins og ljóst er að hann gegndi viðamiklu hlutverki við gerð fjárhagsáætlunar um áramót. Af þessu tilefni er spurt hvaða stjórnsýslulega stöðu aðgerðahópurinn hefur. R08080073
33. Lagt fram bréf Ólafs F. Magnússonar frá 7. þ.m. þar sem tilkynnt er um eftirfarandi breytingar áheyrnarfulltrúa F-lista í nefndum og ráðum:
Skipulagsráð: Gunnar Hólm Hjálmarsson verður varaáheyrnarfulltrúi í stað Ólafs F. Magnússonar.
Umhverfis- og samgönguráð: Guðsteinn Haukur Barkarson verður varaáheyrnarfulltrúi í stað Sigríðar Jósefsdóttur.
Leikskólaráð: Kjartan F. Ólafsson verður áheyrnarfulltrúi í stað Helgu Þórðardóttur og Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir verður varaáheyrnarfulltrúi í stað Kolbeins Guðjónssonar.
Íþrótta- og tómstundaráð: Hallgrímur Egilsson verður varaáheyrnarfulltrúi í stað Sigurðar Þórðarsonar.
Framkvæmdaráð: Sigurður Þórðarson verður varaáheyrnarfulltrúi í stað Kolbeins Guðjónssonar.
Hverfisráð Árbæjar: Sveinn Valgeirsson verður áheyrnarfulltrúi í stað Kolbeins Guðjónssonar og Ásdís Sigurðardóttir verður varaáheyrnarfulltrúi í stað Kjartans Eggertssonar. R09010096
Fundi slitið kl. 13.00
Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Kjartan Magnússon Oddný Sturludóttir
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson