Borgarráð - Fundur nr. 5064

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2009, fimmtudaginn 12. mars, var haldinn 5064. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Sigrún Elsa Smáradóttir og Svandís Svavarsdóttir. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 27. febrúar. R09010009

2. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Miðborgar frá 28. janúar og 25. febrúar. R09010016

3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 11. mars. R09010026
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

4. Lagðar fram fundargerðir stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins frá 11. febrúar og 5. mars. R09010031

5. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 27. febrúar. R09010030

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R09020106

7. Lagður fram að nýju ársreikningur Sorpu bs. fyrir árið 2008. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 11. þ.m. R09020118

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 4. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi í Fossvogsdal vegna miðlunartjarna.
Samþykkt. R09030026

9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 4. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi að Traðarlandi 1 vegna athafnasvæðis Víkings. R09030027
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 4. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Grafarlæks, Stekkjarmóa og Djúpadals vegna byggingu vélageymslu í suðausturhorni golfvallar. R09030023
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 4. s.m., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi í Fossvogsdal vegna stíga. R09030024
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 4. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi á lóð nr. 17 við Öldusel, lóð Ölduselsskóla. Samþykkt. R09030020

13. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 5. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 4. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar nr. 1 við Logafold, lóð Foldaskóla.
Samþykkt. R09030021

14. Samþykkt að tilnefna Brynjar Fransson, Pál Gíslason og Stellu K. Víðisdóttur í fulltrúaráð Hjúkrunarheimilisins Skjóls til fjögurra ára. Til vara eru tilnefnd Anna Kristinsdóttir og Guðrún Ebba Ólafsdóttir. R08040106

15. Lagt fram bréf Ingunnar B. Vilhjálmsdóttur frá 2. september. sl., þar sem hún segir sig úr skólanefnd Skóla Ísaks Jónssonar. R07010249

16. Lagt fram að nýju erindi Þórarins A. Sævarssonar frá 2. f.m. varðandi skil á lóð nr. 74 við Úlfarsbraut, ásamt umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 13. s.m., þar sem mælt er gegn því að tekið verði við lóðinni. Jafnframt lagt fram bréf Þórarins frá 27. s.m. Þá er lögð fram umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 6. þ.m., þar sem fyrri afstaða er ítrekuð. R08100288
Umsagnir skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs samþykktar og er því synjað um skil á lóðinni.

17. Lagt fram erindi Hestamannafélagsins Fáks frá 24. f.m. varðandi skil á lóð á hesthúsasvæði félagsins í Almannadal. Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 9. þ.m., þar sem mælt er gegn því að orðið verði við erindinu. R08100288
Frestað.

18. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R09030002

19. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar um framkvæmdir við Tónlistar- og ráðstefnuhús, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. mars. R09010036

20. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn Ólafs F. Magnússonar um Höfðatorg, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. mars. R07020171
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Viðbrögð borgarstjóra við fyrirspurn minni um aukið byggingarmagn á Höfðatorgsreit og dýran leigusamning borgarinnar við verktaka í tengslum við þá uppbyggingu sýna að meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er illa við að hafa ákvarðanir í skipulags- og fjármálum borgarinnar uppi á borðinu. Vegna umræðu um siðareglur kjörinna fulltrúa vil ég taka fram að slíkar siðareglur hafa harla lítinn tilgang á meðan kjörnir fulltrúar vilja ekki gefa upp þau fjárframlög og styrki sem þeir hafa þegið. Minnt er á að tillögu minni í borgarstjórn um að kjörnir fulltrúar gæfu upp slík framlög var vísað frá með atkvæðum meirihlutans gegn atkvæðum F-lista og Vinstri grænna.

21. Lögð fram drög að stefnumótun og aðgerðaáætlun í málefnum innflytjenda, ódags., ásamt bréfi mannréttindastjóra frá 6. þ.m., sbr. samþykkt mannréttindaráðs 5. s.m. R07020139
Vísað til borgarstjórnar.

22. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 3. þ.m.:
Borgarstjórn felur skrifstofu borgarstjóra að hafa forgöngu um gerð úttektar á mismunandi leiðum sem farnar hafa verið í valddreifingu og lýðræðisumbótum samhliða flutningi þjónustu, rekstrar og aukinni lýðræðislegri ábyrgð út í borgarhluta og hverfi í borgum og sveitarfélögum Norðurlanda. Af mörgum ástæðum er eðlilegt að setja aukna samþættingu og stjórn þjónustuverkefna í hverfum á dagskrá borgarstjórna, ásamt auknum áhrifum fulltrúa hverfisbúa á þær ákvarðanir og verkefni sem að þeim snúa:
1. Stefnt er að flutningi umfangsmikilla þjónustuverkefna frá ríki til sveitarfélaga á næstu árum á sviði þjónustu við fatlaða og aldraða, auk hugsanlegs flutnings heilsugæslu. Þessa þjónustu þarf að samþætta og skipuleggja á hagkvæman og árangursríkan hátt.
2. Víðast hvar á Norðurlöndum, sem og annars staðar, hefur þverfagleg þjónusta á hverfagrunni reynst leiðarljós við framþróun þjónustunnar um leið og hún var víða nokkurs konar svar við samdrætti í fjárhagslegum styrk borga vegna efnahagsþrenginga.
3. Krafa um aukin áhrif og aðkomu íbúa að ákvörðunum og þjónustu sem snúa beint að hverfunum er sterk. Slík valddreifing getur verið áhugaverð leið til að auka þátttöku og samfélagslega ábyrgð og það meginmarkmið að ákvarðanir stjórnvalda skulu teknar eins nærri vettvangi og kostur er hverju sinni.
Samþykkt. R07100311

23. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar um þjónustu í Úlfarsárdal, sbr. 17. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. febrúar. R09020047

24. Lagt fram svar borgarstjóra, dags. í dag, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um Laugaveg 4 og 6, sbr. 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. janúar. R08090122
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Undirritaður minnir á að árið 2005 flutti hann tillögu í borgarstjórn um að Reykjavíkurborg skyldi kaupa hús og byggingarrétt við Laugaveg 4 og 6. Þá hefðu slík uppkaup verið mun ódýrari en síðar varð. Meginstaðreynd þessa máls er hins vegar sú að með erfiðismunum tókst að koma í veg fyrir niðurrif húsanna við Laugaveg 4 og 6 og að þar risi 4 hæða hótelbygging sem væri úr öllum takti við götumynd og umhverfi. Þannig tókst að bjarga hluta af elstu götumynd borgarinnar við upphaf Laugavegarins. Það mun skila miklum menningarverðmætum til komandi kynslóða í Reykjavík og er ein meginforsenda þess að uppbygging við Laugaveg í anda gamallar götumyndar með fagurt mannlíf og sterkt atvinnulíf að leiðarljósi nái fram að ganga. Sérstaklega mun þetta styrkja ferðaiðnað og gjaldeyrissköpun í gömlu miðborginni.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna kaupanna á húsunum við Laugaveg 4 og 6 í janúar á síðasta ári er orðinn hátt í 700 milljónir. Þá hefur 580 milljóna króna kaupverð verið uppreiknað miðað við verðbætur og 4#PR vexti. Nú er ljóst að 100 milljónum á að verja í ytra byrði húsanna og gera húsin tilbúin undir tréverk. Þá er ótalinn kostnaður við að flytja Laugaveg 6 af staðnum þegar byggt verður á baklóðinni og til baka þegar þeirri uppbyggingu er lokið, eins og áform meirihlutans gera ráð fyrir. Því er ljóst að jafnvel þó húsin yrðu leigð út eða seld á næstu árum fyrir hámarksverð er ljóst að fórnarkostnaður Reykjavíkurborgar verður töluvert yfir hálfum milljarði króna vegna hinna makalausu kaupa á Laugavegi 4 og 6. Allt vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn vildi stöðva friðun húsanna sem þá var í formlegu ferli.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Fullyrðingum og reiknikúnstum Samfylkingarinnar um Laugaveg 4 og 6 er vísað á bug. Eins og kemur fram í svari borgarstjóra er fjármagnskostnaður vegna kaupanna á Laugavegi 4 og 6 ekki til staðar enda var kaupverðið ekki tekið að láni. Kaup á Laugavegi 4 og 6 komu í veg fyrir eyðileggingu á sögulegri götumynd. Framkvæmda- og eignasvið hefur nú lagt mat á að uppbyggingarkostnaður húsanna tveggja sé um 100 m.kr. og hefur framkvæmda- og eignaráð samþykkt að 100 m.kr. verði varið til uppbyggingar á reitnum á þessu ári. Er þá miðað við að húsin verði gerð upp þannig að hægt verði síðar að byggja á lóðinni í heild skv. deiliskipulagi. Einnig er gert ráð fyrir að gengið verði frá lóðinni með þeim hætti að hægt verði að nota hana sem opið svæði fyrir almenning. Uppbygging á lóðunum yrði m.a. liður í því að veita atvinnu.

25. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar frá 9. þ.m., þar sem lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela borgarráði að afgreiða til fullnaðar nánar tilgreind verkefni vegna alþingiskosninga, sem áætlað er að fram fari 25. apríl nk. R09020007
Vísað til borgarstjórnar.

26. Lögð fram umsókn Hönnunarmiðstöðvar Íslands um styrk vegna hönnunardaga 26.-29. mars nk. R09030028
Borgarráð fagnar góðu framtaki Hönnunarmiðstöðvar Íslands og hugmyndum um að glæða miðborgina lífi með því að nýta auð rými og glugga til kynningar fyrir íslenska hönnun. Borgarráð samþykkir beiðni Hönnunarmiðstöðvar um 450 þ.kr. stuðning og hvetur fasteignaeigendur í miðborginni til að taka vel í ósk um samstarf við íslenska hönnuði og stuðla þannig að enn betri ásýnd miðborgarinnar.

27. Lagt fram bréf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 4. þ.m. um eflingu löggæslu í Reykjavík og breytingar á skipulagi. Jafnframt lagt fram bréf borgarstjóra til lögreglustjóra frá 11. s.m. varðandi m.a. samstarf lögreglu og borgar í hverfum. R09020061

28. Lagt fram béf menntamálaráðuneytis frá 3. þ.m. um skipan fulltrúa Reykjavíkurborgar í samráðshóp á vegum ráðuneytisins um úrræði fyrir framhaldsskólanema á komandi sumri. R09030025
Samþykkt að skipa framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs í samráðshópinn.

29. Lagðar fram tillögur borgarstjóra að endurskoðun á fjárhagsáætlun ársins 2009, þar sem útfærð er hagræðing sú sem gert var ráð fyrir í áætluninni, ásamt greinargerð fjármálaskrifstofu, dags. í dag. R08040099
Frestað.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Stjórnendum og starfsfólki Reykjavíkurborgar er þakkað fyrir þá miklu vinnu sem lögð hefur verið af mörkum við endurskoðun fjárhagsáætlunar 2009. Ljóst er að sett markmið við endurskoðun fjárhagsáætlunar hafa náðst um að hagræða um rúma 2,3 milljarða króna í samræmi við samþykkta fjárhagsáætlun og sameiginlegan vilja borgarstjórnar að standa vörð um grunnþjónustu Reykjavíkurborgar, störf starfsmanna og gjaldskrár í samræmi við aðgerðaáætlun borgarstjórnar frá 7. október sl. Kostnaður hefur verið rýndur á fjölmennum greiningafundum og hafa öll svið unnið þetta með öflugri þátttöku stjórnenda og annarra starfsmanna. Allar tillögur um hagræðingu í rekstri byggja á hugmyndum sem komið hafa frá starfsmönnum borgarinnar, bæði í gegnum sérstakar vinnustofur um hagræðingarverkefnið og á vinnustöðunum þar sem verkefnið hefur verið kynnt og kallað eftir hugmyndum. Heildarfjöldi starfsmanna hjá Reykjavíkurborg sem tók þátt í vinnu við endurskoðun fjárhagsáætlunar er á þriðja þúsund. Fram hafa komið um 1.500 hugmyndir frá starfsfólki um hagræðingu í rekstri borgarinnar. Af þessum hugmyndum urðu til 300 umbótaverkefni, sem eru komin í farveg og stór hluti þeirra er þegar kominn með fjárhagsleg markmið sem birtast í tillögu að endurskoðun fjárhagsáætlunar. Margar þeirra tillagna sem komu fram hjá starfsfólki munu bæta rekstur borgarinnar til lengri tíma litið, m.a. með nýjum umhverfisvænum lausnum, og verður unnið áfram með þau umbótaverkefni sem fram komu í vinnustofum hjá starfsfólki.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Minnihlutinn tekur undir þakkir til starfsfólks og fagnar því að betri tími verði gefin til að fara yfir hugmyndir og gögn málsins. Sérstök ástæða er til að fara yfir útfærslu niðurskurðar í skólastarfi þar sem fyrir liggur að það kennslumagn sem undir liggur jafngildir um 70 stöðugildum eða um það bil 14 kennsluvikum hjá börnum í 2.-4. bekk. Jafnframt er gert ráð fyrir skerðingu á þjónustu frístundaheimilanna sem kemur beint niður á sömu börnum. Þá er sérstök ástæða til að lýsa efasemdum um niðurskurð um 225 milljónir í viðhaldsframkvæmdum og 40 milljóna frestun viðhaldsframkvæmda í liðnum götum, gönguleiðum og opnum svæðum. Þetta er þvert á tillögugerð minnihlutans um átak í mannaflsfrekum viðhaldsverkefnum og getur varla talist skynsamleg forgangsröðun í núverandi atvinnuástandi.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Fullyrðingum um að tillögurnar sem fyrir liggja kalli á skerðingu á þjónustu er vísað á bug, enda kemur það fram í greinargerð menntasviðs með áætluninni að ekki sé ,,gert ráð fyrir að grunnþjónustan minnki heldur verði henni sinnt með hagkvæmari hætti”. Vegna tillögu um breytingu á viðbótarstund hjá 2.–4. bekk er það ein margra tillagna sem miðar að því að ná fram hagræðingu án þess að skerða grunnþjónustu. Reykjavík hefur verið eina sveitarfélagið sem boðið hefur þessa viðbótarþjónustu og mun, samkvæmt fyrirliggjandi tillögum, áfram bjóða þeim börnum í 2.–4. bekk sem það þurfa þjónustu í skólunum á þessum tíma. Tækifæri til frekari umræðu um allar þær tillögur sem fram koma í endurskoðaðri fjárhagsáætlun verða fleiri á næstu dögum, en tillagan verður tekin aftur til umræðu á vettvangi borgarráðs og í aðgerðahópi áður en hún verður tekin til endanlegrar samþykktar í borgarstjórn.

- Kl. 11.30 víkur Kjartan Magnússon af fundi og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti.

30. Lagt fram mánaðarlegt rekstraryfirlit borgarsjóðs fyrir janúar 2009, dags. 11. þ.m. R09020033

31. Lagt fram svar borgarstjóra frá 9. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar um verðbætur á verksamningum hjá Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. mars. R08070059
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Vegna umræðu um að hundruð milljóna króna hafi glatast við samningagerð hjá borginni vil ég minna á að þessa fjárhæð má spara fyrir borgarbúa með því að falla frá borunum til undirbúnings Bitruvirkjun sem eru með öllu ótímabærar og óraunhæfar.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:
Ljóst er af svari borgarstjóra að meirihlutinn hyggst skauta fram hjá þeirri meginstaðreynd þessa máls að verktakar og Reykjavíkurborg eru ekki að skipta með sér þeim óvæntu áföllum sem orðið hafa í efnahagsumhverfinu. Þvert á móti er borgin og Orkuveita Reykjavíkur að taka á sig allar verðlagshækkanir umfram vænta verðbólgu. Það er klárt frávik frá þeirri hugsun um helmingaskipti áhættunnar sem kynnt var borgarráði í upphafi. Þetta kostar borgarsjóð og Orkuveituna um hálfan milljarð sem segja má að hafi verið ofgreiddur. Það eru gríðarlegir fjármunir sem kæmu í góðar þarfir í þeirri þröngu fjárhagsstöðu sem Reykjavíkurborg og fyrirtæki hennar eru í og lýsir sér m.a. í því að velferðarþjónusta, íþróttafélög og skólastarf hefur þurft að þola niðurskurð í stað verðbóta við frágang fjárhagsáætlunar.
Greinargerð fylgir bókuninni.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Fullyrðingu borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar um að samningur Reykjavíkurborgar við Samtök iðnaðarins hafi leitt til óhagstæðrar niðurstöðu er vísað á bug. Það er mat þeirra embættismanna sem önnuðust samningsgerðina fyrir hönd Reykjavíkurborgar að tilvitnaður samningur við Samtök iðnaðarins hafi verið borginni hagfelldur og að ekki hafi verið hægt að ná betri niðurstöðu. Reykjavíkurborg gerði ráð fyrir 4#PR verðbólgu í fjárhagsáætlun ársins 2008 og á þeim grundvelli er samkomulagið gert. Fyrirtæki á vegum ríkisins hafa leitt sambærilega samninga um verðbætur til fyrirtækja og í samanburði við þá samninga standast fullyrðingar Samfylkingarinnar alls ekki. Með samningunum forðuðu Reykjavíkurborg og OR því að samningar um dýrar og mikilvægar framkvæmdir kæmust í uppnám og enduðu fyrir dómstólum með tilheyrandi hættu á að framkvæmdir stöðvuðust í einhverjum verkum.

- Kl. 12.05 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum og Marta Guðjónsdóttir víkur af fundi.
- Kl. 12.55 víkur Svandís Svavarsdóttir af fundi.

Fundi slitið kl. 13.20

Óskar Bergsson

Dagur B. Eggertsson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Kjartan Magnússon
Sigrún Elsa Smáradóttir