Borgarráð - Fundur nr. 5059

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2009, fimmtudaginn 5. febrúar, var haldinn 5059. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstöddd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 13. janúar. R09010006

2. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 2. febrúar. R09010007

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 28. janúar. R09010015

4. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 4. febrúar. R09010026
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

5. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 26. janúar. R09010028

6. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 30. janúar. R09010032

7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 9 mál. R09010167

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 28. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins vegna Græna trefilsins. R08100152
Samþykkt.

- Kl. 9.50 tekur Júlíus Vífill Ingvarsson sæti á fundinum.

9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 28. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar Vogaskóla, Ferjuvogi 2, vegna lóðar Menntaskólans við Sund. R09010177
Samþykkt.

10. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 28. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., þar sem lagt er til að eigendum fasteignarinnar að Fannafold 160 verði gefinn tímafrestur að viðlögðum dagsektum til að ljúka frágangi húss og lóðar. R09010166
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 30. f.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 28. s.m., varðandi breytingar á tekju- og eignamörkum vegna félagslegra leiguíbúða í reglum um félagslegt leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur. R08020045
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 2. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs s.d., varðandi stofnun samráðsteyma á þjónustumiðstöðvum. R09010113

13. Lagðar fram tillögur forsætisnefndar að breytingum á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007 og samþykkt fyrir hverfisráð, dags. 17. desember sl., sbr. bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. s.d. Jafnframt lagðar fram tillögur forsætisnefndar að breytingum á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar frá 29. f.m., sbr. bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. s.d. R07100311
Vísað til borgarstjórnar.

14. Lagt fram að nýju minnisblað skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 3. september sl. varðandi kjörgengisskilyrði varamanna í borgarráði. Jafnframt lagðar fram greinargerðir skrifstofu borgarstjórnar, dags. 18. september og 8. október sl. Þá er lögð fram samþykkt forsætisnefndar frá 29. f.m. varðandi málið, sbr. bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. s.d.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:

Lagt er til að niðurlag 1. mgr. 49. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007 hljóði svo:
„Borgarfulltrúar eru einir kjörgengir sem aðalmenn í borgarráð, en kjörgengir varamenn í borgarráð eru þeir sem skipa sæti á framboðslista sem fulltrúa hefur fengið í borgarstjórn við síðustu borgarstjórnarkosningar.“

Greinargerð fylgir tillögunni. R08010159
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3 að vísa tillögu borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks til borgarstjórnar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:

Mál þetta er sprottið af vafa um hvort Guðlaugur Sverrisson, Framsóknarflokki, er kjörgengur sem varamaður í borgarráð. Samstaða er um að það sé vafamál. Í þessu máli er ekki deilt um kjörgengi varamanna til varamennsku í borgarráði heldur hvort að hver sem er af framboðslista flokka sé kjörgengur til varamennsku í borgarráði. Meginregla sveitarstjórnarlaga er að aðalmenn í sveitarstjórn skuli einungis kjörgengir sem aðalmenn og því eru engin fordæmi um það frá nokkru sveitarfélagi á Íslandi að aðrir en fyrstu varamenn viðkomandi lista séu kjörnir sem varamenn í bæjarráðum. Þessu vill meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks breyta. Tillaga meirihlutans sem lögð hefur verið fram í borgarráði gengur gegn skýrum lögskýringum sem lagðar hafa verið fyrir forsætisnefnd um að aðeins aðal- og varafulltrúar í borgarstjórn hafi kjörgengi sem varafulltrúar í borgarráði. Túlkun á því hverjir teljast varamenn í skilningi laganna leiðir ljóslega af samantekt réttarheimilda sem er hluti gagna málsins. Þar er vísað til 3. mgr. 38 gr. sveitarstjórnarlaga og laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Ákvæði laganna eru ekki óskýr að þessu leyti og hafa aldrei verið túlkuð á þann veg sem meirihlutinn leggur nú til.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Með tillögu meirihlutans er verið að eyða þeim vafa sem óumdeilanlega er uppi um kjörgengisskilyrði varamanna í borgarráði. Ekki er rétt sem fram kemur í bókun minnihlutans að fyrir liggi með skýrum hætti að tillagan standist ekki fyrirliggjandi lögskýringar. Tillagan mun að sjálfsögðu fá hefðbundna meðferð í Borgarstjórn Reykjavíkur og í framhaldi af afgreiðslu borgarstjórnar mun hún fara til samgönguráðuneytisins til staðfestingar.

15. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, dags. 3. þ.m.:

Með vísan til niðurlags 2. mgr. 68. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar er lagt til að formaður borgarráðs taki sæti borgarstjóra á fundum borgarstjórnar í fjarveru borgarstjóra, enda formaður borgarráðs alla jafna pólitískur staðgengill borgarstjóra.

Greinargerð fylgir tillögunni. R09020008
Vísað til borgarstjórnar.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Ég mótmæli harðlega fyrirætlunum Sjálfstæðisflokksins um að Óskar Bergsson verði staðgengill borgarstjóra á borgarstjórnarfundum, enda er þá verið að „virkja“ ákvæði samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar í þágu hagsmunabandalags helmingaskiptaflokkanna sem nú mynda meirihluta í Borgarstjórn Reykjavíkur, eins og kemur fram í greinargerð með tillögunni. Nú þegar er það látið viðgangast að minnsta framboðið í borginni eigi tvo fulltrúa í öllum fastanefndum borgarinnar. Ég vil ekki una frekari framsóknarvæðingu í borginni af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Þar er verið að þjóna samstarfsflokki í borginni á kostnað faglegra og vandaðra vinnubragða í Borgarstjórn Reykjavíkur. Óskar Bergsson, formaður borgarráðs, hefur staðið illa að málum og sýnt óviðunandi framkomu, jafnt í borgarráði og borgarstjórn á þessu kjörtímabili. Ég tel að virðingu borgarstjóraembættisins sé lítill sómi sýndur með því að gera hann að staðgengli borgarstjóra.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Ákvæðið um pólitískan staðgengil borgarstjóra á borgarstjórnarfundum er ekki nýtt, heldur kom inn í samþykktir um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar í desember 2007 í tíð þáverandi meirihluta sem meðal annars var studdur af Ólafi F. Magnússyni.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Í bókun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks felst helber útúrsnúningur. Aldrei stóð til að þáverandi formaður borgarráðs yrði staðgengill minn sem borgarstjóra ef sú staða kæmi upp á borgarstjórnarfundi. Ég kom ekki að ákvörðunum um verkaskiptingu milli borgarstjóra og annarra fulltrúa þáverandi meirihluta frá 20. nóvember 2007, enda enn í fjarvistarleyfi frá borgarstjórn á þeim tíma. Auk þess var ekki verið að fjalla um að Björn Ingi Hrafnsson, þáverandi formaður borgarráðs, yrði staðgengill Dags B. Eggertssonar, þáverandi borgarstjóra í 100 daga meirihlutanum.

16. Lagðar fram niðurstöður starfshóps um stofnun jafnréttisskóla, ódags., ásamt bréfi mannréttindastjóra frá 23. f.m. R07060103
Frestað.

17. Lagt fram bréf forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur frá 2. þ.m. vegna fyrirspurnar Ólafs F. Magnússonar um málefni Orkuveitunnar, sbr. 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. f.m. R07060089

18. Lagt fram bréf innkaupastjóra frá 27. f.m., sbr. samþykkt innkauparáðs s.d., þar sem lagt er til að tekið verði tilboði PricewaterhouseCoopers í ytri endurskoðunarþjónustu fyrir Reykjavíkurborg. R09010126
Vísað til borgarstjórnar.

19. Lagt fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 27. f.m., sbr. samþykkt stjórnar sambandsins 23. s.m., varðandi áherslur Sambands íslenskra sveitarfélaga í úrgangsmálum. R07090029
Vísað til umhverfis- og samgönguráðs.

20. Lögð fram auglýsing um skrár Reykjavíkurborgar yfir þau störf sem undanþegin eru verkfallsrétti, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, dags. 27. f.m. R09010080
Samþykkt.

21. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 3. þ.m. varðandi kjörstaði í komandi alþingiskosningum og þóknun fyrir störf í kjörstjórnum. R09020007
Samþykkt.

22. Lögð fram drög að viðaukasamningi Reykjavíkurborgar og Íþróttafélags Reykjavíkur, ódags., við samning um uppbyggingu íþróttamannvirkja á athafnasvæði ÍR í Suður-Mjódd frá 24. apríl sl., ásamt bréfi framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 3. þ.m. R06100065
Borgarráð staðfestir viðaukasamninginn fyrir sitt leyti.

23. Rætt er um stöðu byggingar Tónlistar- og ráðstefnuhússins við Austurhöfn. R09010036

24. Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 var gert ráð fyrir að fram næðist sparnaður á árinu sem nemur um 2500 milljónum. Í umræðum um afgreiðslu fjárhagsáætlunar var gert ráð fyrir að 1320 milljónir af þessari upphæð næðust við niðurskurð á launakostnaði hjá starfsfólki borgarinnar. Þar gerði borgarstjóri grein fyrir því að vinna við umræddan niðurskurð væri með tilteknum hætti samkvæmt minnisblaði frá mannauðsstjóra. Í aðgerðahópi borgarráðs, var margítrekað mikilvægi þess að vinna af þessu tagi þurfi að eiga sér stað í góðri sátt við stéttarfélög starfsfólks og aðra þá aðila sem málið varðar. Nú er svo komið að fjöldi starfsmanna borgarinnar hefur lýst áhyggjum sínum og vonbrigðum með framkvæmd niðurskurðarins og skamms fyrirvara sem starfsmenn virðast hafa haft til að bregðast við. Í ljósi þess hversu mikilvægt er við þær aðstæður sem nú eru uppi að spilla ekki trausti milli borgarinnar og starfsmanna hennar er spurt:
1. Hver var framvinda framkvæmdarinnar frá samþykkt fjárhagsáætlunar og hver var aðkoma fulltrúa starfsfólks og félaga þeirra að framkvæmdinni?
2. Hvernig og á hvaða forsendum voru teknar ákvarðanir um skiptingu niðurskurðarins milli sviða og hver er niðurstaða niðurskurðarins skipt eftir sviðum?
3. Að hvaða leyti byggir niðurskurðarkrafan á greiningu á þeirri þjónustu sem um ræðir á hverju sviði og þá á því hvaða hluti hennar telst grunnþjónusta?
4. Af hverju fékk starfsfólk aðeins 1-2 daga til að bregðast við? R09010116

25. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Nú um mánaðamótin var dregið úr þjónustu Strætó bs. þrátt fyrir að notkun fólks á strætó hafi aukist jafnt og þétt síðustu misserin. Breytingar voru gerðar á aksturstíðni á flestum leiðum sem draga úr ferðatíðni um miðjan dag, á kvöldin og um helgar, oftast á þá leið að leiðir sem fóru á hálftíma fresti eru nú á klukkutíma fresti. Allt er þetta gert undir þeim formerkjum að um þjónustuaðlögun sé að ræða. Það er því með ólíkindum að notendur þjónustunnar hafi ekki fengið aðlögun með kynningu á minni og breyttri þjónustu.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna spyrja borgarstjóra hvernig hann hyggst beita sér fyrir kynningu til borgarbúa á niðurskurði á aksturstíðni Strætó bs. R08070068

26. Lagt fram bréf Dags B. Eggertsson, dags. í dag, varðandi umfjöllun borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar um tillögu að siðareglum kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg, ásamt tillögum flokksins að reglum um skráningu á hagsmunatengslum, gjöfum o.fl. R07060032

Fundi slitið kl. 11.40

Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Júlíus Vífill Ingvarsson Kjartan Magnússon
Svandís Svavarsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson