Borgarráð - Fundur nr. 5058

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2009, fimmtudaginn 29. janúar, var haldinn 5058. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.45. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Oddný Sturludóttir, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 20. janúar. R09010009

2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 20. janúar. R09010018

3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 28. janúar. R09010026
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 29. desember. R09010030

5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. R08120095

6. Lagt fram bréf slökkviliðsstjóra frá 19. þ.m. þar sem óskað er staðfestingar á gjaldskrá Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., samþykktri á fundi stjórnar slökkviliðsins 16. s.m. R08010147
Borgarráð staðfestir gjaldskrána fyrir sitt leyti.

7. Lagt fram bréf skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs frá 19. þ.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 11. nóvember sl., varðandi niðurstöður samstarfshóps um framkvæmdir við gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. R09010125

Bókun borgarráðs:

Borgarráð fagnar niðurstöðu starfshópsins og þeirri lausn sem þar er kynnt vegna framkvæmda við Miklubraut/Kringlumýrarbraut. Borgarráð þakkar starfshópnum góð störf og þá samstöðu sem nú hefur, með þverpólitísku samráði og öflugri aðkomu íbúasamtaka, verið tryggð um þetta brýna hagsmunamál borgarbúa.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Stuttir stokkar geta verið af hinu góða t.d. í tengslum við mislæg gatnamót og aðrar ráðstafanir til að efla umferðaröryggi og fækka slysum í borginni. Fjölgun neðanjarðarganga og/eða lenging áður fyrirhugaðra neðanjarðarganga er hins vegar varasöm, bæði í ljósi öryggis- og umhverfissjónarmiða, og er afar dýr lausn. Forgangsröðun borgaryfirvalda í umhverfis- og samgöngumálum er röng, þar sem mun ódýrara er að stórefla almenningssamgöngur m.a. með því að fella niður gjaldtöku hjá Strætó. Þegar sú tilraun hefur verið gerð er auðveldara að meta þörfina fyrir tugmilljarða framkvæmdir við neðanjarðargöng í borginni. Gjaldfríar almenningssamgöngur kosta aðeins um hálfan milljarð króna á ári (til viðbótar við þegar útlagðan kostnað vegna niðurfellingar strætófargjalda hjá framhaldsskólanemum) og geta sparað þær fjárhæðir margfalt í öðrum ávinningi á komandi árum. Þá er vakin athygli á tillögu minni sem þáverandi borgarstjóra sl. vor um fjölgun 30 km svæða og mislægra göngutengsla í hverfum borgarinnar. Þar er um að ræða skjótvirka og hagkvæma aðferð til að auka umferðaröryggi og bæta mannlíf í hverfum borgarinnar.

- Kl. 10.18 tekur Dagur B. Eggertsson sæti á fundinum og Oddný Sturludóttir víkur af fundi. Jafnframt víkur borgarstjóri af fundi.

8. Lagt fram bréf Stefáns Jóns Hafstein frá 21. þ.m. þar sem hann óskar eftir framlengdu leyfi frá störfum sem borgarfulltrúi um ótiltekinn tíma. R07010082
Vísað til borgarstjórnar.

9. Lagður fram úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. þ.m. í máli nr. E-1421/2008, Svanhildur Þorkelsdóttir gegn Reykjavíkurborg, Kjósarhreppi og Mosfellsbæ. R08090032

10. Lagt fram bréf slökkviliðsstjóra frá 19. þ.m. varðandi hugmyndir um minjasafn í gömlu slökkvistöðinni við Tjarnargötu. R09010122
Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálaráðs.

11. Lögð fram greinargerð borgarhagfræðings varðandi raforkusamning Orkuveitu Reykjavíkur og Norðuráls Helguvíkur ehf., dags. 28. þ.m. R07060089

Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Undirritaður telur brýnt að reynt sé að hverfa frá stórtækri og niðurgreiddri sölu á raforku til stóriðju þar sem hratt er gengið á tiltölulega lítið rannsakaðan hitavatnsforða umhverfis höfuðborgarsvæðið, m.a. með því að dæla heitu vatni upp á yfirborð jarðar og nýta það eingöngu til framleiðslu á ódýrri raforku fyrir stóriðjufyrirtæki sem eru að mestu í eigu útlendinga. Því er spurt:
Hversu mikla orku verður Orkuveitan að selja til að nýta þann búnað og þá fjárfestingu sem þegar er fyrir hendi vegna fyrirhugaðrar orkusölu?
Á sama hátt er spurt hversu mikla orku er hægt að komast hjá að selja og spara til síðari tíma og betur ígrundaðrar notkunar?

12. Lögð fram að nýju yfirlýsing Brimborgar ehf. frá 9. október sl. varðandi skil á lóðinni nr. 1 við Lækjarmel, ásamt bréfum Lögfræðiskrifstofu Reykjavíkur frá 12. nóvember og 1. desember og tölvubréfi sama aðila frá 12. desember. Jafnframt lagðar fram að nýju umsagnir skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 12. og 15. desember, þar sem lagt er til að synjað verði um skil á lóðinni. Þá er lagt fram bréf Lögfræðiskrifstofu Reykjavíkur frá 5. þ.m., ásamt umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 19. s.m. R08100288
Umsagnir skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs samþykktar og því er beiðni um skil á lóðinni synjað.

13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 26. þ.m. varðandi greiðslufresti vegna lóðaúthlutana. R08040129
Samþykkt.

14. Lagðar fram endurskoðaðar reglur um afreks- og styrktarsjóð Reykjavíkur, ódags., ásamt bréfi framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 23. þ.m., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs s.d. R09010153
Samþykkt.

15. Lagður fram viðauki, dags. 16. þ.m., við þjónustusamning Reykjavíkurborgar, Íþróttabandalags Reykjavíkur og 24 tilgreindra íþrótta- og æskulýðsfélaga frá 24. janúar 2008, ásamt bréfi framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 23. þ.m. R07030056
Borgarráð staðfesti samkomulagið fyrir sitt leyti með 4 samhljóða atkvæðum.

- Kl. 10.50 tekur borgarstjóri sæti á fundinum.

16. Lögð fram innlausnarkrafa lögmanns eiganda fasteignarinnar að Eddufelli 8 á grundvelli 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Jafnframt lagt fram minnisblað lögfræðistofunnar Landslaga frá 19. þ.m. Þá er lagt fram minnisblað borgarlögmanns, dags. í dag, þar sem lagt er til að kröfunni verði synjað. R06090277
Frestað.

17. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R09010035

Fundi slitið kl. 11.00

Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Júlíus Vífill Ingvarsson Kjartan Magnússon
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson