Borgarráð - Fundur nr. 5055

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2009, fimmtudaginn 8. janúar, var haldinn 5055. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.35. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson og Svandís Svavarsdóttir. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa frá 6. janúar. R09010026
Samþykkt.

2. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 19. desember. R09010030

3. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 18. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 17. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi skíðasvæðisins í Skálafelli. R08120100
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum. Jafnframt vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundaráðs og stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á auglýsingartímanum, þar sem fram komi framtíðarsýn þeirra á uppbyggingu skíðasvæða.

4. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 18. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 17. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Bryggjuhverfis vegna stækkunar svæðisins til vesturs. R08120101
Samþykkt.

5. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 18. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 17. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar Borgaskóla að Vættaborgum 9.
Samþykkt. R08120102

6. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 18. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 17. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar Fellaskóla að Norðurfelli 17-19. R08120104
Samþykkt.

7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 18. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 17. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar Háteigsskóla að Bólstaðarhlíð 47. R08120105
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 18. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 17. s.m., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar Árbæjarskóla að Rofabæ 34. Samþykkt. R08120107

9. Lagður fram úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. K-3/2008, Þórir J. Einarsson ehf. gegn Reykjavíkurborg, varðandi jarðvegslosun á Hólmsheiði. R08100302

10. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 6. þ.m. um frumvarp til laga um breytingar á lögum tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, og lögum um gatnagerðargjald nr. 153/2006. R08120076
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf ritara framkvæmda- og eignaráðs frá 5. þ.m., sbr. samþykkt ráðsins 8. september sl., varðandi afsal fasteignarinnar að Lækjargötu 2 til Austurstrætis 22 ehf. R08120117
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 23. f.m., þar sem lagt er til að Félagi eldri borgara verði úthlutað byggingarrétti fyrir 49 íbúða fjölbýlishús á lóðinni nr. 84 við Hólaberg, með nánar tilgreindum skilmálum. R08040129
Samþykkt.

13. Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um skipulag á reitnum Laugavegi 4-6 er óskað að upplýst sé um málið í borgarráði. Hyggjast borgaryfivöld ekki standa við áður gefin fyrirheit um uppbyggingu við Laugaveg 4-6 í anda þeirrar 19. aldar götumyndar sem enn er hægt að varðveita neðst á Laugaveginum.Vakin er athygli á því að húsin við Laugavegi 4-6 eru meðal þeirra fáu húsa sem voru þegar til á frægri mynd af Reykjavík árið 1876.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Vegna fyrirspurna um frétt um skipulag við Laugaveg 4-6 er rétt að árétta að afstaða borgaryfirvalda til skipulags og uppbyggingar á þessum reit hefur ekkert breyst. Það náðist á síðasta sumri mjög góð sátt um skipulag á þessum reit í anda þeirrar götumyndar sem mikilvægt er að standa vörð um á þessum stað. Varðandi það hver mun byggja upp á reitnum, þá hefur engin ákvörðun verið tekin um það hvort Reykjavíkurborg mun sjálf byggja upp skv. því skipulagi eða hvort aðrir koma að því. Í umræddri frétt virðist því misskilningur hvað þetta varðar, en eins og fram kemur í nýsamþykktri fjárhagsáætlun er á þessu ári áætlað fyrir hönnun og undirbúningi að uppbyggingu á reitnum en vonir standa til að uppbygging geti hafist sem fyrst í framhaldi af því.
Þá leggja borgarráðsfulltrúar Samfylkingar fram svohljóðandi fyrirspurn:
Borgarstjóri hefur nú borið til baka frétt sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins í dag um að til standi að selja verktökum húsin að Laugavegi 4 og 6. Eins og kunnugt er varði Sjálfstæðisflokkurinn 580 milljónum króna til kaupa á húsunum við Laugaveg 4 og 6 úr sjóðum borgarbúa í upphafi liðins árs. Með kaupunum var komið í veg fyrir friðun húsanna sem var í formlegu ferli og beið ákvörðunar menntamálaráðherra. Áætlað hafði verið að endurbygging húsanna kostaði um 400 milljónir króna. Nýsamþykkt fjárhagsáætlun tryggir þó fyrst og fremst að auðu húsin að Laugavegi 4 og 6 verði enn um sinn minnisvarði um merkilega fjármálastjórn og meirihlutakaup Sjálfstæðisflokksins, en þar er aðeins gert ráð fyrir 20 milljóna króna framlagi til húsanna árið 2009. Því er spurt:
1. Hver er reiknaður fjármagnskostnaður vegna hinna 580 milljóna króna kaupa á húsunum við Laugaveg 4 og 6?
2. Hver verður fjármagnskostnaður (fórnarkostnaður) ef húsin standa ónýtt í 1, 3 eða 5 ár?
3. Hvernig verður hinni 20 milljóna fjárveitingu ársins 2009 varið?
4. Hefur kostnaður við endurgerð húsanna verið endurmetinn eftir breytingu á deiliskipulagi?
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Allt frá árinu 2003 hefur undirritaður beitt sér gegn þeirri „framsóknarverktakabílastæðahúsamenningu” sem réði ríkjum í skipulagi borgarinnar í valdatíð R-listans. Ef menningarverðmætum hefði verið varpað á glæ eins og útlit var fyrir hefði tjónið á menningararfinum vart verið metið til fjár auk þeirra afleiðinga sem það hefði haft á mannlíf, atvinnustarfsemi og ferðaiðnað við Laugaveg. Undirritaður lagði til þegar árið 2005 að kaupa byggingar- og skipulagsréttinn við Laugaveg 4-6. Þá hefði það verið mun ódýrara en síðar varð. R08090122

Fundi slitið kl. 10.46

Óskar Bergsson

Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Kjartan Magnússon Svandís Svavarsdóttir