Borgarráð - Fundur nr. 5053

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð


Ár 2008, laugardaginn 20. desember, var haldinn 5053. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.10. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:


1. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 19. þ.m. varðandi leiðréttingu á skilyrðum lóðaskila, sem samþykkt voru á fundi borgarráðs 20. f.m. R08110067
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

- Kl. 9.15 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

2. Lögð fram drög að samkomulagi Reykjavíkurborgar og Samtaka iðnaðarins um verðbætur óverðtryggðra verksamninga, ásamt bréfi sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs, dags. 9. þ.m. Jafnframt lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 16. þ.m. R08070059
Borgarráð samþykkir samkomulagið fyrir sitt leyti með 4 atkvæðum gegn 1.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Samningurinn sem er lagður fram hér til afgreiðslu gerir ráð fyrir 250 mkr. útgjöldum borgarsjóðs í þágu verktaka sem gerðu tilboð í verk á vegum borgarinnar eftir 1. mars 2008. Ekki verður séð að samkomulagið sé byggt á sanngirnissjónarmiðum, enda eru verðbætur aftur í tímann við einn aðila umfram aðra í því ástandi sem nú ríkir illa réttlætanlegar. Auk þess stinga 250 mkr. aukaútgjöld í þágu verktaka í stúf, nú þegar leitað er allra leiða til hagræðingar. Málið hefur oft komið inn á borð borgarráðs og hlotið misjafnlega góð viðbrögð. Þann 6. maí 2008 lét meirihlutinn bóka á fundi innkauparáðs að ekki væri með góðu móti hægt að fallast á þau sjónarmið að forsendur fyrir samningum sem í gildi eru, væru brostnar nema að fengnum verðbótum. Á sama fundi bókaði minnihlutinn að varhugavert væri fyrir borgina að verðtryggja verksamninga, enda gæti það ýtt undir almennar verðhækkanir og vandræði fyrir aðra smærri verkkaupa. Í ágúst var lagt fram bréf í borgarráði frá fjármálaskrifstofu þar sem ekki var talið heimilt að endurskoða og taka upp verðbótaákvæði í stuttum verktakasamningum með tilvísun til útboðsreglna og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Ennfremur taldi fjármálaskrifstofan slíka endurskoðun ekki vera fýsilega fyrir borgina út frá samkeppnissjónarmiðum. Nú, í desember, er skyndilega talið eðlilegt, þrátt fyrir framangreint álit fjármálaskrifstofu, að semja um verðbætur aftur í tímann við Samtök iðnaðarins. Eftir stendur spurningin um hvort gjörningurinn samræmist útboðsreglum borgarinnar og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, enda eiga samskonar sjónarmið víðar við í borgarkerfinu. Ljóst er að Samtök iðnaðarins eiga fleiri, sterkari og háværari talsmenn en fulltrúar áfangaheimila, Stígamóta, foreldrafélaga eða sjúklingasamtaka. Kjörnir fulltrúar verða alltaf að gæta jafnræðis við ákvarðanatöku og verða að standast þrýsting stærstu og sterkustu hagsmunahópanna. Það samkomulag sem hér liggur fyrir við einn stóran hagsmunaaðila umfram aðra, ber þess engin merki.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Ég lýsi andstöðu minni við þetta samkomulag og þá forgangsröðun sem í því fellst á sama tíma og velferðar- og grunnþjónustan í borginni þarf að sæta verulegum skerðingum. Útlit er fyrir að þeir sem síst mega við því og bera síst af öllum ábyrgð á núverandi kreppuástandi í íslensku samfélagi þurfi að taka á sig stærstu byrðarnar. Ég átel því forgangsröðun Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í þessu máli sem og öðrum á vettvangi Borgarstjórnar Reykjavíkur. Ég vísa jafnframt í tillögur mínar varðandi unglingasmiðjurnar Tröð og Stíg. Þær hafa ekki fengið afgreiðslu í borgarráði og ekki hefur verið horfið frá ákvörðun um fækkun stöðugilda og þjónustuskerðingu hjá áðurnefndum unglingasmiðjum.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Reykjavíkurborg gerir umræddan samning við Samtök iðnaðarins um greiðslu hluta verðbóta á óverðtryggða verksamninga til þess að draga úr hættu á að verktakar segir sig frá verkum með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir Reykjavíkurborg. Þeir verksamningar sem Reykjavíkurborg hefur gert til skemmri tíma en eins árs hafa verið óverðtryggðir. Undanfarnar vikur hafa fyrirtæki sem gert hafa slíka samninga við Reykjavíkurborg og Samtök iðnaðarins fyrir hönd félagsmanna sinna gert kröfu um að Reykjavíkurborg verðbæti samningana með vísan til brostinna forsenda vegna þróunar verðbólgu, gengisstöðu krónunnar og þeirrar kreppu sem nú ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ljóst er að verðbæturnar geta auðveldað fyrirtækjum að ljúka verkefnum sínum fyrir Reykjavíkurborg. Á móti gerir samningurinn Reykjavíkurborg kleift að standa við skuldbindingar sínar gagnvart borgarbúum vegna viðkomandi framkvæmda sem annars gætu stöðvast auk þess að sleppa við hugsanlegan kostnað og fyrirhöfn vegna tafa uppgjörs- og samningsgerðar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Samfylkingin tekur undir margt sem fram kemur í gagnrýnni bókun Vinstri grænna. Það er lykilatriði að samræmis og sanngirni sé gætt við verðbætur framlaga til mikilvægrar starfsemi í borginni. Við núverandi aðstæður eru fullar verðbætur til velferðarþjónustu eitt helsta áherslumál Samfylkingarinnar og hefur því verið fylgt eftir af fullum þunga við undirbúning fjárhagsáætlunar ársins 2009, með umtalsverðum árangri. Í þessu máli er hins vegar einnig, rétt eins og kemur fram í bókun meirihlutans, að ýmis rök standa til þess að fjárhagslegum hagsmunum Reykjavíkurborgar sé best borgið með því að ljúka deilum um uppgjör óverðtryggðra verksamninga með sátt. Í ljósi þess að meirihlutinn hefur boðað að Reykjavíkurborg sé ókleift að verðbæta ýmsa samninga og framlög við afgreiðslu fjárhagsáætlunar árins 2009 og fylgja þar með öðrum sjónarmiðum en í ofangreindu máli getur Samfylkingin þó ekki staðið að afgreiðslu þess og situr því hjá.

3. Lagt fram frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 ásamt greinargerð. Jafnframt lagðar fram starfsáætlanir og greinargerðir fagsviða, miðlægrar stjórnsýslu, B-hluta fyrirtækja og fjármálaskrifstofu.
Þá er lagt fram bréf sviðsstjóra leikskólasviðs frá 19. þ.m. varðandi breytingar á gjaldskrá leikskóla vegna vistunar umfram átta stundir. R08040099

- Kl. 12.25 víkur Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson af fundi og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir tekur þar sæti.
- Kl. 13.20 víkur Kjartan Magnússon af fundi. Jafnframt víkur Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti.
- Kl. 13.50 tekur Júlíus Vífill Ingvarsson sæti á fundinum og Marta Guðjónsdóttir víkur af fundi.

Frumvarpi að fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 ásamt greinargerð og starfsáætlunum vísað til borgarstjórnar.
Bréfi sviðsstjóra leikskólasviðs frestað til umfjöllunar milli umræðna um fjárhagsáætlun í borgarstjórn.

4. Lagt fram bréf borgarhagfræðings frá 19. þ.m. um forsendur fjárhagsáætlunar 2009. R08040099

5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. þ.m.:

Lagt er til að álagningarhlutfall útsvars verði 13,03#PR af tekjum manna á árinu 2009 með vísan til 23. og 24. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.
Greinargerð fylgir tillögunni. R08120031

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

Lagt er til að álagningarhlutfall útsvars verði 13,28#PR af tekjum manna á árinu 2009 í stað 13,03#PR eins og borgarstjóri leggur til og þannig verði fullnýtt heimild sveitarfélagsins til hækkunar útsvars.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Ég tek undir ábendingar borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna um að fyrir 700 milljónir króna væri hægt að gera skólamáltíðir ókeypis í grunnskólum borgarinnar. Jafnframt bendi ég á að fyrir 580 milljóna króna viðbótarframlag frá því sem nú er væri hægt að gefa ókeypis í Strætó á höfuðborgarsvæðinu. Ég legg nú sem fyrr áherslu á hækkun persónuafsláttar með það að markmiði að skattar af almennum launatekjum verði felldir niður. Hækkun útsvarsprósentu kæmi þá ekki niður á venjulegu launafólki.

Vísað til borgarstjórnar.

6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. þ.m.:
Lagt er til að hlutfall fasteignaskatta, holræsagjalds og lóðarleigu vegna ársins 2009 verði sem hér segir:
1. Hlutfall fasteignaskatts skv. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum, verði 0,214#PR.
2. Hlutfall fasteignaskatts skv. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 1,32#PR.
3. Hlutfall fasteignaskatts skv. c-lið 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 með síðari breytingum verði 1,32#PR, að viðbættri hækkun um 25#PR, sbr. heimild í 4. mgr. sömu greinar (1,65#PR).
4. Hlutfall holræsagjalds verði 0,105#PR af fasteignamatsverði.
5. Hlutfall lóðarleigu fyrir íbúðarhúsalóðir verði 0,08#PR af fasteignamatsverði.
6. Hlutfall leigu fyrir verslunarlóðir, iðnaðarlóðir og lóðir fyrir opinberar byggingar verði 1,0#PR af fasteignamatsverði.

Greinargerð fylgir tillögunni. R08120025
Vísað til borgarstjórnar.

7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 4. þ.m.:

Lagt er til að borgarráð samþykki eftirfarandi gjalddagaskiptingu fasteignagjalda fyrir árið 2009:
Almenna reglan verði sú að greiðendur fasteignagjalda geri skil á fasteignagjöldum ársins 2009 með 9 jöfnum greiðslum á eftirfarandi gjalddögum:
1. febrúar, 1. mars, 1. apríl, 1. maí, 1. júní, 1. júlí, 1. ágúst, 1. september og 1. október.
Fjármálaskrifstofu er þó heimilt að gefa gjaldendum, sem áður hafa valið að greiða fasteignagjöldin með eingreiðslu hinn 1. maí ár hvert, kost á að gera það áfram. Enn fremur er gert ráð fyrir því að nemi fasteignagjöld kr 25.000 eða minni fjárhæð greiði gjaldendur þau með einni greiðslu hinn 1. maí.

Greinargerð fylgir tillögunni. R08120025
Samþykkt.

8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 19. þ.m.:

Lagt er til að borgarráð samþykki að framlengja gildistíma reglna um niðurfellingu fasteignaskatta af friðuðum íbúðarhúsum til ársloka 2009.

Greinargerð fylgir tillögunni. R06010089
Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.

9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. þ.m.:

Lagt er til að viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og holræsagjalds elli- og örorkulífeyrisþega árið 2009 hækki um 7,5#PR á milli áranna 2008 og 2009 og verði eftirfarandi:

I. Réttur til 100#PR lækkunar
Einstaklingur með tekjur allt að kr. 2.240.000.
Hjón með tekjur allt að kr. 3.140.000.

II. Réttur til 80#PR lækkunar
Einstaklingur með tekjur frá kr. 2.240.000 til 2.580.000.
Hjón með tekjur frá kr. 3.140.000 til 3.500.000.

III. Réttur til 50#PR lækkunar
Einstaklingur með tekjur frá kr. 2.580.000 til 3.000.000.
Hjón með tekjur frá kr. 3.500.000 til 4.180.000.

Lagt er til að skilyrði lækkunar fasteignaskatts og holræsagjalds séu þau að viðkomandi elli- og örorkulífeyrisþegi eigi lögheimili í Reykjavík og sé þinglýstur eigandi viðkomandi fasteignar og/eða geti átt rétt á vaxtabótum vegna hennar skv. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með síðari breytingum. Einungis er veitt lækkun vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Greinargerð fylgir tillögunni. R08120030
Frestað.

10. Lagður fram að nýju 3. töluliður úr bréfi fjármálastjóra frá 2. þ.m. varðandi breytingar á fjárhagsáætlun ársins 2008, sem frestað var á fundi borgarráðs 4. þ.m., varðandi leigu gatna. R08010198
Samþykktur með 4 samhljóða atkvæðum.


Fundi slitið kl. 16.10

Óskar Bergsson

Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Svandís Svavarsdóttir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir