Borgarráð - Fundur nr. 5052

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð


Ár 2008, fimmtudaginn 18. desember, var haldinn 5052. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.49. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson og Svandís Svavarsdóttir. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:


1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 25. nóvember. R08010006

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 4. desember. R08010011

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 5. desember. R08010013

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 4. desember. R08010016

5. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 16. desember. R08010017

6. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 17. desember. R08010024
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 5. desember. R08020092

8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R08120003

9. Lagður fram árshlutareikningur Reykjavíkurborgar fyrir janúar-september 2008, ásamt skýrslu fjármálaskrifstofu, dags. 10. þ.m. Jafnframt lagt fram bréf skrifstofustjóra fjármála varðandi liðinn ófyrirséð útgjöld, dags. s.d. R08120032

10. Lagt fram bréf menntamálaráðuneytisins frá 3. október sl. þar sem óskað er eftir tilnefningu Reykjavíkurborgar í skólanefnd Borgarholtsskóla.
Samþykkt að tilnefna Lindu Birnu Sigurðardóttur, til vara Óttarr Guðlaugsson. R08100208

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 6. f.m. varðandi úthlutun byggingarréttar á lóðinni nr. 18 við Bergstaðastræti til Leiguíbúða ehf. undir flutningshús. Jafnframt lagt fram minnisblað skipulagsstjóra og yfirlögfræðings skipulags- og byggingarsviðs, dags. 15. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 17. s.m. R08020121
Borgarráð samþykkir vilyrði fyrir úthlutun byggingarréttar á lóðinni með þeim fyrirvörum sem fram koma í bréfi skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs og minnisblaði skipulagsstjóra og yfirlögfræðings skipulags- og byggingarsviðs.

12. Lögð fram yfirlýsing Brimborgar ehf. frá 9. október sl. varðandi skil á lóðinni nr. 1 við Lækjarmel, ásamt bréfum Lögfræðiskrifstofu Reykjavíkur frá 12. f.m. og 1. þ.m., og tölvubréfi sama aðila frá 12. s.m. Jafnframt lagðar fram umsagnir skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 12. og 15. þ.m., þar sem lagt er til að synjað verði um skil á lóðinni. R08100288
Frestað.

13. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R08120001

- Kl. 11.04 víkur Kjartan Magnússon af fundi og Marta Guðjónsdóttir tekur þar sæti.
- Kl. 11.11 tekur Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sæti á fundinum og Marta Guðjónsdóttir víkur af fundi.

14. Lagðar fram tillögur ráðgjafahóps um úthlutun úr forvarna- og framfarasjóði Reykjavíkurborgar, dags. 15. þ.m., ásamt svohljóðandi tillögu borgarstjóra, dags. 16. s.m.:

Borgarráð samþykkir tillögur ráðgjafahóps um úthlutanir styrkja úr forvarna- og framfarasjóði. Tilkynnt verði opinberlega hverjir hljóta styrki nk. þriðjudag 23. desember. R08100224

Samþykkt.

Borgarráðfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:

Forvarna- og framfarasjóður Reykjavíkurborgar sem stofnaður var í lok síðasta árs sannar tilverurétt sinn við núverandi úthlutun. Í þessari úthlutun borgarráðs er verið að styrkja 12 verkefni sem öll eru til mikilla framfara fyrir borgarbúa og stuðla að forvörnum. Forvarnastarf er aldrei mikilvægara en þegar erfiðleikar steðja að og fólk þarf að þjappa sér saman. Því þarf að tryggja áframhaldandi fé til sjóðsins.

15. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 15. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 12. s.m., um leigu Félagsbústaða hf. á íbúðum á almennum markaði til endurleigu. R07090064
Svohljóðandi tillaga samþykkt með 6 atkvæðum gegn 1:

Borgarráð samþykkir að fela stjórn Félagsbústaða hf. að auglýsa eftir leiguíbúðum á almennum markaði til endurleigu fyrir þá sem eru á biðlista eftir húsnæði á vegum velferðarsviðs. Leitað verði eftir tilboðum frá eigendum íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu sem uppfylla þau skilyrði sem Félagsbústaðir hf. gera til íbúðarhúsnæðis. Um geti verið að ræða fjölbreytta stærð og gerð leiguhúsnæðis og þjónustuíbúðir fyrir eldri borgara. Leitast verði við að tryggja félagslegan fjölbreytileika við val á húsnæði. Skilmálar þessara samninga verði lagðir fram í borgarráði til afgreiðslu.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar óska bókað:

Fulltrúar Samfylkingarinnar eru meðmæltir því að Félagsbústaðir auglýsi eftir íbúðum á almennum leigumarkaði til framleigu fyrir þá sem eru á biðlista eftir húsnæði í eigu borgarinnar. Það er afar ánægjulegt þegar markaðsaðstæður geta nýst þeim sem verst eru staddir í samfélaginu, en hingað til hefur svo ekki verið. Því er það eindreginn vilji okkar að nýta þessar aðstæður í þeirra þágu.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggst eindregið gegn hugmyndum um að Félagsbústöðum verði falið að taka íbúðarhúsnæði til leigu og endurleigja það síðan. Allt frá stofnun hefur það verið stefna Félagsbústaða, sem eru í eigu borgarinnar, að eiga það íbúðarhúsnæði sem leigt er út. Átalið er sérstaklega að hugmyndin var kynnt í fréttatilkynningu áður en hún hafði fengið endanlega afgreiðslu í borgarráði og þannig án heimildar. Jafnframt vekur áhyggjur að hugmyndin hefur ekki verið til umfjöllunar í stjórn Félagsbústaða. Félagsbústaðir eru vel rekið fyrirtæki sem í krafti stærðar sinnar hefur getað boðið upp á góð híbýli og hagstæða leigu. Þessu til viðbótar er um að ræða félagslegt úrræði sem nýtur sem slíkt hagstæðustu lánakjara (3,5#PR vaxta) og býðst 90#PR lán hjá Íbúðalánasjóði. Vegna þessa er ekki hægt að búast við því að verktakafyrirtæki, leigufyrirtæki eða einstaklingar geti keppt til lengdar við Félagsbústaði á leigumarkaði nema að hugmyndin sé sú að þeir leigjendur sem búa í framleigða húsnæðinu greiði hærri leigu en aðrir leigjendur borgarinnar. Það vekur furðu að lagt sé í þennan leiðangur og jafnframt eigi að fækka þeim íbúðum sem til stóð að kaupa. Félagsbústaði vantar tæplega 900 íbúðir fyrir fólk í vanda og væri nær að stórauka kaup á íbúðarhúsnæði og slá þannig tvær flugur í einu höggi með því að leysa vanda leigjendanna og hafa jafnframt jákvæð áhrif á íbúðamarkað í Reykjavík.

16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:

Lagt er til að borgarráð samþykki eftirfarandi tillögu um ósk um frestun á afgreiðslu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2009:
Reykjavíkurborg óskar eftir fresti með vísun í 61. grein sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 með síðari breytingum vegna afgreiðslu fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2009 en síðari umræða og afgreiðsla fjárhagsáætlunar fer fram á fundi borgarstjórnar 6. janúar 2009.

Greinargerð fylgir tillögunni. R08040099
Samþykkt með 5 samhljóða atkvæðum.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Undirritaður mótmælir harðlega þeim ólýðræðislegu og óvönduðu vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð við undirbúning fjárhagsáætlunar. Borgarráð er framkvæmdaráð Reykjavíkurborgar og á sem slíkt að undirbúa fjárhagsáætlun enda hefur verið svo um langt árabil. Þessi hefð hefur nú verið rofin og meirihlutafulltrúarnir í borgarstjórn hafa, með vitund og vilja borgarfulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna, hunsað aðkomu borgarráðs og þar með aðkomu allra framboða í borginni að þessari þýðingarmiklu vinnu. Sú staðreynd að undirrituðum sem fyrrverandi borgarstjóra hefur verið haldið utan við undirbúning fjárhagsáætlunar er skaðleg fyrir borgarbúa. Undirritaður vann ötullega að fjámálastjórn borgarinnar í borgarstjóratíð sinni. Eini borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem gaf sér tíma til að vinna með undirrituðum að fjármálum borgarinnar var þáverandi formaður borgarráðs, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sinntu þeirri vinnu einfaldlega ekki. Borgarfulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna voru á þeim tíma uppteknir við pólitískan skæruhernað gegn meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks á vettvangi borgarráðs og borgarstjórnar. Svo virðist sem borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna hafi lagt niður rófuna við síðustu meirihlutaskipti og ákveðið að vinna alfarið með nýjum meirihluta gegn því að fá dúsur í starfshópum hjá meirihlutanum. Raunar mætti orða þetta þannig að flestir borgarfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna vilji “alcoa” með meirihlutanum.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 er unnin á grundvelli aðgerðaráætlunar Reykjavíkurborgar vegna breytinga í efnahags- og atvinnuumhverfi, sem var unnin í breiðri pólitískri samstöðu og samþykkt af öllum borgarfulltrúum í borgarstjórn í byrjun október. Það er rétt að vinnan við fjárhagsáætlun er að mörgu leyti óhefðbundin að þessu sinni, bæði vegna þess að aðstæður í íslensku efnahagslífi eru með þeim hætti sem allir þekkja en einnig vegna þess að samstarf fulltrúa meirihluta og minnihluta um málið er meira en verið hefur í gegnum aðgerðahóp borgarráðs. Öllum reglum um málsmeðferð fjárhagsáætlunar hefur verið fylgt, eins og fram hefur komið í umfjöllun fjármálastjóra. Gagnrýni Ólafs F. Magnússonar um ófullnægjandi málsmeðferð er því alfarið vísað á bug, auk þess sem borgarfulltrúanum hefur verið boðinn aðgangur að öllum gögnum og upplýsingum í samræmi við hans starfsskyldur. Að auki hafa fulltrúar F-listans í fagráðum haft trúnaðaraðgang að áætlunum sviðanna í samræmi við reglur um afgreiðslu fjárhagsáætlunar sem gerir ráð fyrir að fagráðin fari yfir áætlunina áður en hún kemur til meðferðar borgarráðs. Sú umræða mun fara fram í borgarráði nk. laugardag og fer svo til fyrri umræðu í borgarstjórn mánudaginn 22. desember.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Það er rangt að undirrituðum hafi verið boðin eðlileg aðkoma að upplýsingum vegna undirbúnings og gerðar fjárhagsáætlunar. Það er með eindæmum að upplýsingum um drög að fjárhagsáætlun sé seint og um síðir komið á framfæri við alla aðra kjörna fulltrúa en oddvita og borgarráðsfulltrúa F-lista og fyrrverandi borgarstjóra. Hér er um forkastanleg vinnubrögð og hreina valdníðslu að ræða.


Fundi slitið kl. 12.20

Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Svandís Svavarsdótti Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir