Borgarráð - Fundur nr. 5049

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2008, fimmtudaginn 27. nóvember, var haldinn 5049. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir, Óskar Bergsson, Sigrún Elsa Smáradóttir, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 11. nóvember. R08010006

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 12. nóvember. R08010008

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 11. nóvember. R08010009

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 19. nóvember. R08010014

5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 15. nóvember. R08010016

6. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 26. nóvember. R08010024
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 21. nóvember. R08010026

8. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 17. nóvember. R08010027

9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R08100320

10. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 19. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar nr. 13 við Skúlagötu. R08110089
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 19. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi Alþingisreits. R07030155
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf skipulags- og byggingarsviðs frá 20. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 19. s.m., um tillögu að breyttu deiliskipulagi Landakotsreits. R08090011
Samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum.

- Kl. 9.53 tekur Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

13. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 19. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um ný götuheiti á Slippasvæði. R08110079
Frestað.

14. Lagt fram bréf sviðsstýru umhverfis- og samgöngusviðs frá 26. þ.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 25. s.m., varðandi lokun vinstri beygju af Bústaðavegi inn á Reykjanesbraut, til reynslu í 6 mánuði. Jafnframt lögð fram ályktun hverfisráðs Breiðholts frá 12. þ.m. um málið, sbr. bréf framkvæmdastjóra Þjónustumiðstöðvar Breiðholts frá 24. s.m. R06100352
Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum, Sigrún Elsa Smáradóttir situr hjá við atkvæðagreiðsluna.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Undirritaður mótmælir harðlega lokun fyrir vinstri beygju frá Bústaðavegi inn á Reykjanesbraut. Umferðarteppa á álagstímum er lítið vandamál miðað við þau óþægindi og skert umferðaröryggi sem íbúar Fossvogs og Bústaðahverfis munu búa við alla aðra tíma sólarhringsins vegna þessarar lokunar. Ákvörðunin er tekin af stjórnmálamönnum sem þykjast vita betur en fólkið í Fossvogs og Bústaðahverfi sem vill beina umferð út úr hverfinu en ekki inn í það, eins og meirihlutinn í Borgarstjórn Reykjavíkur vill. Þessari ákvörðun þarf að hnekkja.

Sigrún Elsa Smáradóttir óskar bókað:

Hverfisráð Háaleitis hefur fjallað um málið og hefur sett sig upp á móti lokuninni. Hverfisráðið telur lokunina fela í sér verulega aukna umferð um íbúðarhverfið einkum Réttarholtsveg, en við þá götu stendur Réttarholtsskóli. Mikilvægt er að þær mótvægisaðgerðir sem boðaðar hafa verið við Réttarholtsveg liggi fyrir áður en tilraunin verður framkvæmd. Fyrr á þessu kjörtímabili, í meirihluta Sjálfstæðisflokks og F-listans, lofaði þáverandi borgarstjóri, Ólafur F. Magnússon, því á íbúafundi í hverfinu að ekkert yrði af lokuninni á kjörtímabilinu. Yfirlýsingunni var sérstaklega fagnað með bókun í hverfisráði Háaleitis. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur að bera ábyrgð á þeim loforðum sem íbúum hafa verið gefin í þeirra umboði á kjörtímabilinu.

15. Lögð fram tillaga Ólafs F. Magnússonar um niðurfellingu fargjalda hjá Strætó bs. ásamt greinargerð sem vísað var til borgarráðs og umhverfis- og samgönguráðs á fundi borgarstjórnar 7. f.m. Jafnframt lagt fram bréf sviðsstýru umhverfis- og samgöngusviðs frá 26. þ.m. þar sem kynnt er afgreiðsla umhverfis- og samgönguráðs á málinu 25. s.m. R07030007
Tillaga Ólafs F. Magnússonar felld með 7 samhljóða atkvæðum.

Ólafur F. Magnússon óskar bókað:

Undirritaður harmar að borgarráð skuli fella sjálfsagða og eðlilega tillögu um að fargjöld hjá Strætó verði felld niður. Tillagan er í senn umhverfisvæn, réttlát og nauðsynleg því fjölskyldum í Reykjavík blæðir svo sannarlega vegna þess efnahagshruns sem einkavinavæðing og spilling borgarstjórnarflokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hefur kallað yfir þjóðina. Þessi afgreiðsla sýnir svo ekki verður um villst að borgarstjórnarmeirihlutinn forgangsraðar í eigin þágu. Gott dæmi um það er að borgarstjóri er fjarverandi á fundi borgarráðs í dag vegna ferðalags erlendis á kostnað borgarbúa. Nær væri að borgarstjóri og aðrir kjörnir fulltrúar forgangsraði í þágu almennings en ekki sjálfra sín.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Að bera saman tillögu um að fella niður fargjöld í Strætó við alþjóðleg samskipti Reykjavíkurborgar við aðrar borgir er sérkennilegur samanburður. Borgarstjóri er í embættiserindum á aðalfundi Eurocities í Haag. Reykjavíkurborg er þar tilnefnd til verðlauna vegna verkefnisins 1, 2 og Reykjavík. Enn fremur er þar flutt erindi um verkefnið. Það væri miður ef Reykjavíkurborg stæði ekki við skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi.

16. Lagt fram að nýju bréf menntamálaráðuneytisins frá 2. f.m. þar sem óskað er eftir tilnefningum Reykjavíkurborgar í skólanefndir framhaldsskóla í Reykjavík, til fjögurra ára. R08100208
Samþykkt að tilnefna eftirtalda:

Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Ólafur R. Jónsson og Ingvar Sverrisson, til vara Guðlaug Ragnheiður Skúladóttir og Kristín Dýrfjörð.
Menntaskólinn við Hamrahlíð, Benedikt Bogason og Oddný Sturludóttir, til vara Sigurjón Pálsson og Orri Páll Jóhannsson.
Menntaskólinn við Sund, Helga Kristín Auðunsdóttir og Guðrún Hólmgeirsdóttir, til vara Fanney Birna Jónsdóttir og Anna Kristín Hjartardóttir.
Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Gunnar Hrafnsson og Ásgeir Beinteinsson, til vara Fanný Gunnarsdóttir og Kristín Gunnarsdóttir.
Kvennaskólinn í Reykjavík, Guðrún Pálína Ólafsdóttir og Hermann Valsson, til vara Sigríður Ragna Sigurðardóttir og Auður Lilja Erlingsdóttir.
Menntaskólinn í Reykjavík, Borgar Þór Einarsson og Dögg Hugosdóttir, til vara Linda Rós Michaelsdóttir og Stefán Pálsson.

17. Lagt fram að nýju bréf framkvæmdastjóra Alþjóðaþjóðahússins frá 4. þ.m. þar sem óskað er eftir endurnýjun þjónustusamnings Reykjavíkurborgar við Alþjóðahúsið. Jafnframt lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 25. þ.m.:

Borgarráð lýsir yfir vilja til að endurnýja þjónustusamning við Alþjóðahús til eins árs. Mannréttindaskrifstofu verði falið að sjá um viðræður og gerð samnings við Alþjóðahús. R06100100

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi viðaukatillögu:

Við gerð samningsins verði sérstaklega tekið mið af þeirri auknu ásókn í þjónustu Alþjóðahúss sem fyrirsjáanleg er í ljósi efnahagsástandsins.

Tillaga borgarstjóra samþykkt. Viðaukatillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar jafnframt samþykkt.

18. Lögð fram drög að samningi um afnot Smábílaklúbbs Íslands að landspildu í Gufunesi, ódags., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs 26. ágúst sl., ásamt bréfi framkvæmdastjóra ÍTR frá 29. f.m. og umsögn borgarlögmanns frá 5. þ.m. R08110006
Samþykkt.

19. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða, sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R08110004

20. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar frá 15. þ.m. um endurgreiðsluhlutfall lífeyris árið 2009. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra, dags. 25. þ.m. R07100230
Samþykkt.

21. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 24. þ.m. varðandi veðleyfi lóðarhafa við Lambasel. R08110098
Samþykkt.

22. Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í ágúst- og septembermánuði sl. lagði undirritaður fram fyrirspurnir í borgarráði um ýmsan kostnað vegna kjörinna fulltrúa og embættismanna hjá Reykjavíkurborg og fyrirtækjum í meirihlutaeigu borgarinnar. Lítið hefur verið um svör og alls engin svör t.d. um kostnað hjá Orkuveitu Reykjavíkur, þar á meðal um launamál hjá Orkuveitunni sem vekur spurningar um það hvort launamál o.fl. í tíð stjórnarformennsku Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þoli ekki dagsljósið. Undirritaður ítrekar kröfu sína um skýr svör við fyrirspurn um launakostnað, ferða- og dagpeningakostnað, veislu- og risnukostnað hjá borginni og fyrirtækjum hennar og hvernig þessi kostnaður deilist niður á borgarstjórnarflokkana fimm. Jafnframt átelur undirritaður harðlega að borgarráðsfundur hafi verið felldur niður í haust vegna ferðalaga kjörinna fulltrúa erlendis, þar á meðal borgarstjóra. Undirritaður spyr hverju það sæti að borgarstjóra vanti aftur á borgarráðsfund í dag vegna ferðalaga erlendis á sama tíma og fjölskyldum í Reykjavík blæðir vegna efnahagshruns, sem orsakast af spillingu og einkavinavæðingu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem nú mynda meirihluta í Borgarstjórn Reykjavíkur í skjóli minnihluta borgarbúa. Nær væri að stjórnmálamenn í Reykjavík tækju til heima hjá sér áður en frekar er þjarmað að efnahag fjölskyldna í borginni og nenntu að sinna fjármálastjórn hennar. Undirritaður lýsir vanþóknun sinni á þeirri leynd, spillingu og græðgi sem einkenna störf núverandi borgarstjórnarmeirihluta. R05110132

Fundi slitið kl. 11.13

Óskar Bergsson

Júlíus Vífill Ingvarsson Kjartan Magnússon
Oddný Sturludóttir Sigrún Elsa Smáradóttir
Svandís Svavarsdóttir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson