Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2008, fimmtudaginn 28. ágúst, var haldinn 5038. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Kjartan Magnússon, Björk Vilhelmsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Oddný Sturludóttir, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 22. þ.m. um kosningu sjö borgarráðsfulltrúa og sjö til vara til júní 2009, ásamt áheyrnarfulltrúa F-lista, á fundi borgarstjórnar 21. s.m. R08010159
2. Óskar Bergsson er kosinn formaður borgarráðs til júní 2009 með 4 samhljóða atkvæðum.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er kosinn varaformaður til sama tíma með 4 samhljóða atkvæðum. R08010159
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Í borgarstjóratíð minni frá janúarmánuði sl. hafa fundir borgarráðs farið fram með þeim hætti að það er óviðunandi fyrir borgarstjórn, starfsfólk Ráðhússins og annað starfsfólk borgarinnar, sem og alla Reykvíkinga. Fundirnir hafa einkennst af því að borgarráðsfulltrúar eru flestir nettengdir á meðan fundir standa yfir og sumir þeirra í sambandi við fjölmiðla á meðan. Fundir borgarráðs eiga að vera lokaðir og umfjöllunarefni þar trúnaðarmál fyrir utan það sem fram kemur í fundargerð. Enginn trúnaður hefur haldist í borgarráði og fjölmargt hefur lekið beint í fjölmiðla. Ruddaleg framkoma og ljótt orðbragð hefur einnig einkennt fundina og þar hefur nýkjörinn formaður borgarráðs gengið lengst. Ég tel því dapurlegt að hann hafi nú verið kosinn formaður borgarráðs en tel jafnframt fullvíst að hann fái betri starfsfrið í Ráðhúsinu nú, en ríkti í borgarstjóratíð minni. Fjölmiðlum er treystandi til þess að ráðast ekki á þau öfl í Borgargstjórn Reykjavíkur sem nú hafa myndað meirihluta og njóta velvildar þeirra sem hafa tögl og haldir í fjármálalífi og fjölmiðlum á Íslandi. Almannahagsmunir munu líða fyrir það og þá staðreynd að nýr meirihluti í borgarstjórn og borgarráði situr í umboði minnihluta Reykvíkinga.
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 15. ágúst. R08010008
4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 18. ágúst. R08010009
5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 18. ágúst. R08010011
6. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 27. ágúst. R08010024
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Á fundi skipulagsráðs í gær lagði áheyrnarfulltrúi F-listans, Magnús Skúlason, fram svohljóðandi tillögu:
„Skipulagsráð samþykkir að taka til alvarlegrar athugunar hvort nota megi aðrar tillögur en þá sem vann hugmyndasamkeppni um Listaháskóla til að varðveita megi götumynd Laugavegarins”.
Verðlaunatillagan virðist ganga gegn áherslum borgaryfirvalda um að „viðhalda sögulegu umhverfi og sérkennum Laugavegar sem mikilvægum þætti í að auka aðdráttarafl hans”. Þetta er úr keppnislýsingu kafla 2.3. Í sama kafla kemur einnig fram að „nýbyggingar í miðbænum ber að hanna af næmni og tillitssemi við umhverfið þannig að ný byggð beri ekki ofurliði þann fínlega mælikvarða sem fyrir er”. Þá er einnig vakin athygli á bókun skipulagsráðs frá 28. júní 2006 sem er svohljóðandi: „Ráðið leggur einnig áherslu á að lóðarhafar athugi sérstaklega útlit húsa við Laugaveg 41 og 45 og skoði möguleika á að leyfa upphaflegri götumynd að halda sér”. Ástæðan fyrir því að húsið að Laugavegi 43 er ekki nefnt hér á undan stafar af því að gert var ráð fyrir verndun þess í gildandi skipulagi frá 2003. F-listinn leggur því áherslu á að húsaröðin nr. 41, 43 og 45 fái að halda sér og götumyndin verði þannig varðveitt.
7. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 18. og 20. júní og 15. ágúst. R08020092
8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R08070086
9. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 13. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi heimild til beitingar dagsekta vegna tafa á lagfæringum á húseigninni að Njarðargötu 35. R08080047
Samþykkt.
10. Lagt fram erindi rekstraraðila Gróðrarstöðvarinnar Markar frá 18. f.m. varðandi leigu lóðarinnar nr. 18 við Stjörnugróf. Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 13. þ.m. R08070082
Samþykkt borgarráðs:
Borgarráð er sammála um að hefja sem fyrst viðræður við eigendur Gróðrarstöðvarinnar Markar til að fá niðurstöðu um framtíðarmöguleika þeirra til áframhaldandi starfsemi í Reykjavík. Sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs er falið að leiða þær viðræður f.h. borgarinnar.
11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 25. þ.m. varðandi endurúthlutun byggingarréttar á níu einbýlishúsalóðum við Reynisvatnsás, með nánar tilgreindum skilmálum. R07020085
Samþykkt.
12. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 25. þ.m. varðandi endurúthlutun byggingarréttar á lóð nr. 120-122 við Haukdælabraut, með nánar tilgreindum skilmálum. R07020085
Samþykkt.
13. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að fela framkvæmda- og eignasviði að endurskoða reglur um lóðaúthlutanir. Í málefnasamningi nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er lögð áhersla á að auðvelda íbúum að byggja og búa í Reykjavík. Í ljósi núverandi efnahagsástands er mikilvægt að endurskoða reglur um lóðaúthlutanir á vegum Reykjavíkurborgar í því skyni að létta greiðslubyrði húsbyggjenda. Endurskoðaðar reglur verði lagðar fram í borgarráði eigi síðar en 1. október nk. R07040132
Samþykkt.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja jafnframt fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að við endurskoðun reglna um lóðaúthlutanir verði sérstaklega hugað að lóðaúthlutunum fyrir leiguíbúðir. Sú þróun sem á sér stað á húsnæðismarkaði skapar jarðveg fyrir almennan leigumarkað á höfuðborgar-svæðinu og því mikilvægt að Reykjavíkurborg hagi vinnu sinni í samræmi við það.
Samþykkt.
14. Lagt fram bréf Orkuveitu Reykjavíkur frá 18. þ.m., sbr samþykkt stjórnar Orkuveitunnar 15. s.m., þar sem óskað er heimildar borgarstjórnar til að ganga frá samningi við Jarðboranir hf. um boranir á Hengilssvæðinu að fjárhæð 13.349 m.kr. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra, dags. 27. s.m. R08080057
Vísað til borgarstjórnar.
15. Lögð fram greinargerð verkefnisstjórnar um menningarnótt 2008, dags. 27. þ.m. R08040013
Bókun borgarráðs:
Borgarráð lýsir yfir mikilli ánægju með undirbúning og framkvæmd menningarnætur árið 2008. Starfsfólki menningar- og ferðamálasviðs, verkefnisstjórn menningarnætur og aðgerðahópi eru færðar sérstakar þakkir fyrir vel unnin störf. Ennfremur eru öðrum borgarstarfsmönnum sem komu að framkvæmd hátíðarinnar með ýmsum hætti, færðar bestu þakkir fyrir þeirra þátt í framkvæmdinni.
16. Lögð fram að nýju bréf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 11. f.m., þar sem óskað er nýrra umsagna um umsóknir rekstraraðila veitingastaðanna Vegas og Club Óðal um undanþágu frá banni við nektarsýningum. Jafnframt lagður fram úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 15. maí sl. í máli veitingastaðarins Goldfinger í Kópavogi. R07090009
Þá er lögð fram svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að umsögn borgarráðs:
Er meirihluti borgarráðs gaf neikvæða umsögn um nektardansumsóknir rekstraraðila veitingastaðanna Vegas og Club Óðal 22. nóvember sl. komu fram sem fyrr afdráttarlausar efasemdir lögfræðinga borgarinnar um að slík röksemdafærsla væri fær. Úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 15. maí sl. varðandi rekstrarleyfi veitingastaðarins Goldfinger í Kópavogi staðfestir nú enn frekar þessa skoðun, og í ljósi hans telur borgarráð sér ekki fært annað en að fallast á undanþáguumsóknir rekstraraðila veitingastaðanna Vegas og Club Óðal. Er að öðru leyti vísað til þess sem fram kom í umsögnum borgarráðs frá 23. ágúst 2007 um umræddar rekstrarleyfisumsóknir.
Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi tillögu að umsögn:
Vísað er til bréfa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 11. júlí varðandi umsagnir borgarráðs frá 20. ágúst og 22. nóvember vegna rekstrarleyfa og undanþágu frá banni við nektarsýningum á veitingastöðunum Vegas og Club Óðal.
Í umsögn borgarráðs frá 22. nóvember var eindregið lagst gegn því að veitt yrði undanþága til nektardans og var þar með látið reyna á 4. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 þar sem lagt er bann við að bjóða upp á nektarsýningar á veitingastöðum eða gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. Þó undanþáguákvæði sé til staðar telur borgarráð ekkert rökstyðja beitingu þess í tilfellum Vegas og Club Óðal, enda skýr stefna borgaryfirvalda að sporna gegn rekstri nektardansstaða.
Nýfallinn úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í máli Goldfinger hefur ekki breytt sannfæringu borgaryfirvalda. Árétting ráðuneytisins á mikilvægi málefnalega og lögmætra sjónarmiða er mikilvæg og þykir rétt í því samhengi að benda á rannsóknir kynjafræðinnar og reynslu hagsmunasamtaka á borð við Stígamót og Samtök um kvennaathvarf. Sú þekking sem þar hefur skapast er að mati borgarráðs bæði málefnaleg og lögmæt og þess eðlis að full ástæða er til að hafna öllum umsóknum um undanþágur frá banni við nektarsýningum. Borgaryfirvöld í Reykjavík hafa einsett sér að vinna gegn klámvæðingu, vændi og hlutgervingu á líkömum kvenna. Borgarráð ítrekar því þá afstöðu sína að almannahagsmunir séu í húfi enda hafa sérfræðingar um kynferðisofbeldi sýnt fram á að í skjóli nektardansstaða þrífist gjarnan vændi, auk þess sem erfitt sé að ganga úr skugga um hvort þær stúlkur sem þar starfi séu til þess neyddar eður ei. Borgarráð leggst áfram eindregið gegn því að heimilaður verði nektardans á Vegas og Club Óðal. Að öðru leyti leggst borgarráð ekki gegn útgáfu almenns rekstarleyfis til handa rekstraraðilum veitingastaðarins.
Tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar felld með 4 atkvæðum
gegn 3.
Tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.
Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar óska bókað:
Það er og verður hlutverk borgaryfirvalda að hlutast til um líf og starf fólksins í Reykjavík og verða þá oft minni hagsmunir að víkja fyrir meiri. Það er trú borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar að reyna beri á ný lög um veitinga- og gististaði þar sem skýrt er kveðið á um bann við nektardansi í atvinnuskyni. Úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins vegna umsagnar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er ekki óumdeilanlegur og sorglegt að Reykjavíkurborg skuli nú ætla að verða fyrsta sveitarfélagið til að beita undanþáguákvæði sem leyfir nektardans í atvinnuskyni og vera þar með fordæmisgefandi fyrir önnur sveitarfélög.
Þá er lögð fram svohljóðandi ályktunartillaga:
Nýlegur úrskurður dómsmálaráðuneytisins varðandi nektardans á veitingastaðnum Goldfinger í Kópavogi vekur áleitnar spurningar um hvort 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007, sem kveður á um bann við slíkri starfsemi, sé gagnslítil.
Í borgarstjórn ríkir þverpólitísk samstaða um að vinna beri gegn klámvæðingu því skorar borgarráð á Alþingi Íslendinga að breyta lögum þannig að sem fyrst fáist skýrar lagaheimildir til að koma í veg fyrir starfsemi nektardansstaða.
Ályktunartillagan er samþykkt með samhljóða atkvæðum.
17. Lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 22. þ.m. varðandi umsókn rekstraraðila veitingastaðarins Café Loki, Lokastíg 28, um heimild til áfengisveitinga, þar sem lagst er gegn því að heimildin verði veitt. Jafnframt lagt fram bréf umsækjanda, dags. 6. s.m. R08070004
Björk Vilhelmsdóttir víkur af fundi við meðferð málsins.
Frestað.
18. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar frá 21. þ.m. um rekstrarleyfisumsókn veitingastaðarins Á næstu grösum, Kringlunni 4-12, sem veitt hefur verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007.
19. Lagðar fram bókanir hverfisráðs Kjalarness frá 16. f.m. varðandi umferðaröryggi á Vesturlandsvegi og lagningu Sundabrautar. R08080046
Vísað til umhverfis- og samgönguráðs.
20. Lagt fram svar borgarstjóra við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar varðandi hugsanlegan niðurskurð á þjónustu Strætó bs., sbr. 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 14. þ.m. R08070068
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð samþykkir að þeir námsmenn sem eiga heima í Reykjavík, þó svo þeir hafi lögheimili í sveitarfélögun utan byggðasamlagsins, fái frítt í strætó eins og aðrir Reykvíkingar í námi. Markmiðið með því að bjóða ókeypis í strætó fyrir námsmenn er að minnka umferð einkabíla í borginni. Því ætti það að vera sama hvert lögheimili bílstjóranna er, við viljum að þeir noti strætó.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja jafnframt fram svohljóðandi tillögu:
Borgarráð hvetur fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Strætó bs. og samráðsvettvang sveitarstjóra á höfuðborgarsvæðinu að beita sér fyrir því að nýr formaður verði kosinn í stjórn byggðasamlagsins. Jafnframt óskar borgarráð þess að Reykjavíkurborg fái áheyrnarfulltrúa í stjórn þessa mikilvæga byggðasamlags.
Í stofnsamningi Strætó bs. segir í 5. gr. „Kjörtímabil stjórnar er til tveggja ára frá upphafi kjörtímabils sveitarstjórna. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum og skal formennska skiptast milli aðildarsveitarfélaganna.“ Núverandi formaður hefur verið stjórnarmaður í rúm 2 ár eða síðan í júní 2006. Auk þessa og setu í bæjarstjórn Kópavogs er formaðurinn þingmaður. Nú á stjórn Strætó bs. í viðræðum við ríkisvaldið um að koma að rekstri almenningssamgangna. Þar sem núverandi formaður hefur setið lengur en í 2 ár og er beggja vegna borðsins í viðræðum við ríkisvaldið hvetur borgarráð til þess að fulltrúi eigenda að 64#PR hlut í fyrirtækinu taki við stjórnarformennsku.
Afgreiðslu tillagnanna frestað.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðsisflokks leggja áherslu á öflugar almenningssamgöngur eins og fram kemur í málefnasamningi meirihlutans. Í framhaldi af því og ítrekaðri umræðu um þessi mikilvægu mál á vettvangi borgarstjórnar, mun meirihlutinn undirbúa sérstakan vinnufund allrar borgarstjórnar á næstu vikum.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Ég tek heilshugar undir tillögu sem og fyrirheit fráfarandi meirihluta um að jafnframt verði frítt í strætó fyrir börn, unglinga, aldraða og öryrkja frá og með næstu áramótum. Ég tel það skyldu borgarfulltrúa úr fráfarandi meirihluta að standa við þessi fyrirheit, enda um þýðingarmikið umhverfis- og almannahagsmunamál að ræða.
21. Samþykkt að kjósa eftirtalda fulltrúa í stjórnkerfisnefnd til loka kjörtímabilsins: R07100291
Jórunn Frímannsdóttir, formaður
Óskar Bergsson
Kjartan Magnússon
Björk Vilhelmsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Til vara:
Júlíus Vífill Ingvarsson
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir
Guðlaugur G. Sverrisson
Oddný Sturludóttir
Sóley Tómasdóttir
22. Lagt er til að Vigdís Hauksdóttir taki sæti formanns í innkauparáði til loka kjörtímabilsins. R08010175
Vísað til borgarstjórnar.
23. Lagt fram frumvarp að nýrri lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg, dags. 25. f.m., ásamt bréfum skrifstofu borgarstjórnar, dags. s.d. og 21. þ.m. R08060015
Vísað til borgarstjórnar.
24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að skipa fimm manna starfshóp til að ljúka gerð siðareglna fyrir kjörna fulltrúa á vegum Reykjavíkurborgar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R07060032
Samþykkt. Tilnefningu í starfshópinn frestað.
25. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 26. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að skipa fimm manna starfshóp til að móta aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar vegna breytinga í fjármála- og atvinnuumhverfi.
Greinargerð fylgir tillögunni. R08080073
Samþykkt. Í hópinn eru tilnefnd:
Óskar Bergsson, formaður
Hanna Birna Kristjánsdóttir
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Dagur B. Eggertsson
Svandís Svavarsdóttir
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Að gefnu tilefni vil ég árétta að í borgastjóratíð minni hef ég verið vakinn og sofinn í vinnu að fjárhagsáætlanagerð og við aðhald og ráðdeildarsemi á útgjöldum borgarinnar þannig að verja megi velferðarþjónustuna og hagsmuni almennings á tímum aðsteðjandi vanda í tekjuöflun borgarinnar. Því miður hafa sumir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins haldið því fram að ég hafi tafið ákvarðanatöku og vinnu í fjármálum borgarinnar. Þetta eru hrein ósannindi. Einnig hafa einstaklingar úr borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins sagt mig „ljúga“ þegar ég hef greint frá því að til skoðunar hafi verið í borgarkerfinu að draga saman í launaútgjöldum borgarinnar. Því hef ég vitnað í minnisblað frá fjármálaskrifstofu, dags. 8. júlí 2008, sem borgarstjóri segist ekki hafa séð, sem er auðvitað fjarstæða. Máli mínu til stuðnings og til að afsanna áburð í minn garð um ósannindi óska ég eftir að áðurnefnt minnisblað verði lagt fram á næsta borgarráðsfundi. Ég hyggst ekki sitja undir því að ég hafi vanrækt starf mitt sem borgarstjóri sem ég hef sinnt af kostgæfni og samvisku. Ég hyggst ekki heldur sitja undir órökstuddum dylgjum um ósannindi og krefst þess að rök verði lögð fram til að rökstyðja þær.
26. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:
Borgaráð samþykkir að setja á stofn sérstakan sjóð til heiðurs árangri íslenska landsliðsins í handbolta. Sjóðurinn ber heitið Silfursjóður og er hugsaður sem gjöf borgaryfirvalda til reykvískra barna með það að markmiði að virkja enn frekar áhuga þeirra á handboltaíþróttinni. Úthlutað verður 5 mkr. árlega fram að ólympíuleikunum í London árið 2012. Heildarupphæð sjóðsins er 20 mkr. og færist upphæðin af liðnum ófyrirséð.
Greinargerð fylgir tillögunni. R08080080
Samþykkt.
27. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Allir helstu fjölmiðlar landsins hafa undanfarið birt fréttir af því að fyrir ári síðan hafi þáverandi borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, og Björn Ingi Hrafnsson, þáverandi formaður borgarráðs, þegið veiðiferð í Miðfjarðará, eina dýrustu laxveiðiá landsins. Félagi þeirra í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og stjórnarformaður þess fyrirtækis, Haukur Leósson var með í för sem og fráfarandi stjórnarformaður OR, Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra. Af fréttum fjölmiðla má ráða að Miðfjarðará var á þessum tíma leigð af fyrirtækinu Baugi og voru fulltrúar fyrirtækisins, þ.m.t. fjármálastjóri viðstaddir. Fréttir af skiptingu kostnaðar hafa verið ögn óljósar en veiðin virðist ýmist hafa verið í boði Baugs eða með mjög miklum afslætti frá uppsettu verði. Það getur varðað við reglur Reykjavíkurborgar um skyldur æðstu stjórnenda auk innkaupareglna Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur. Borgarstjóri hefur lýst því yfir að óeðlilegt sé borgarstjóri þiggi boð af þessu tagi af hendi fyrirtækja. Því er spurt hvort borgarstjóri hafi látið kanna málavexti ofangreinds máls í kjölinn og hvernig borgarstjóri hyggst bregðast við því að hugsanlega varði það við samþykktar reglur Reykjavíkurborgar. R08080088
28. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins þriðjudaginn 26. ágúst segir borgarstjóri: „Flugvöllurinn er fastur í Reykjavík á þeim stað sem hann er, samningsbundinn á milli ríkis og borgar til 2024.“ Þar sem legið hefur fyrir um árabil að samstaða er um að skipulagsvaldið sé og verði áfram í höndum borgarinnar vekja orð borgarstjóra furðu hvað þetta varðar. Óskað er eftir því að borgarstjóri leggi fram þau gögn sem hún vísar í í umræddum fréttatíma til að draga úr þeirri óvissu sem nýmyndaður meirihluti hefur skapað varðandi framtíð Vatnsmýrarinnar.
Þá leggur Ólafur F. Magnússon fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í kosningu meðal Reykjavíkinga um flugvallarmálið árið 2001 var lítil þátttaka sem m.a. stafaði af hvatningu borgarfulltrúa úr Sjálfstæðisflokki um að hunsa kosninguna. Óskað er upplýsinga um hvernig atkvæði féllu í flugvallarkosningunni árið 2001 og hversu hátt hlutfall kosningabærra manna greiddi atkvæði með brottflutningi Reykjavíkurflugvallar? Telja borgaryfirvöld það verjandi að byggja áætlanir um flutning Reykjavíkurflugvallar á svo litlu hlutfalli Reykvíkinga þegar það er ljóst að meirihluti Reykvíkinga og yfirgnæfandi meirihluti landsmanna er á móti flutningi Reykjavíkurflugvallar til Keflavíkur? Munu borgaryfirvöld fallast á að atkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar verði endurtekin þannig að ákvörðun í málinu verði byggð á meirihlutavilja Reykvíkinga?
Fyrirspyrjandi óskar svara ef hægt er fyrir næsta borgarstjórnarfund þegar hann flytur tillögu um málið. R08010121
- Kl. 12.05 víkur Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir af fundi.
29. Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í samþykktum um stjórn Reykjavíkurborgar í 49. grein segir að kjósa skuli sjö borgarfulltrúa í borgarráð og jafnmarga til vara. Jafnframt segir að borgarfulltrúar séu einir kjörgengir sem aðalmenn í borgarráði. Ekki er þess getið sérstaklega hvaða hæfisskilyrði þurfi að uppfylla til að geta verið varamaður í borgarráði. Hverju sætir að umrædd regla er svo óljós sem raun ber vitni um? Uppfyllir varamaður Framsóknarflokksins í borgarráði fyrirliggjandi skilyrði? Hverju sætir að þrengri hæfisskilyrði eiga við um formenn ráða borgarinnar en varafulltrúa í borgarráði. Er ekki eðlilegt að við mat á hæfi varafulltrúa í borgarráði séu í það minnsta gerðar sömu kröfur? R08010159
30. Lagt fram bréf Ólafs F. Magnússonar, dags. í dag, um tilnefningu áheyrnarfulltrúa og varaáheyrnarfulltrúa í fagráð og hverfisráð Reykjavíkurborgar. R08080089
31. Ólafur F. Magnússon leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
1. Hver var ferða- og dagpeningakostnaður stjórnarmanna og helstu embættismanna í fyrirtækjum Reykjavíkurborgar (Orkuveitu Reykjavíkur (að meðtöldu REI) Faxaflóahafna og Malbikunarstöðvarinnar) árin 2005, 2006, 2007 og 2008? Einnig er spurt um símakostnað stjórnar- og embættismanna fyrirtækja borgarinnar árin 2005, 2006, 2007 og 2008. Hversu margir starfsmenn þessara fyrirtækja hafa meira en 700 þúsund krónur í mánaðarlaun?
2. Einnig er óskað eftir að lagður sé fram að nýju ferða- og dagpeningakostnaður borgarfulltrúa, varaborgarfulltrúa og helstu embættismanna borgarinnar árin 2005, 2006, 2007 og 2008.
3. Ennfremur er óskað eftir að gerð sé grein fyrir símakostnaði borgarfulltrúa, varaborgarfulltrúa og helstu embættismanna borgarinnar árin 2005, 2006, 2007 og 2008.
4. Hvenær hóf Reykjavíkurborg að greiða 1. varaborgarfulltrúum framboða í Reykjavík sérstök laun og hver voru rök fyrir þessari ákvörðun?
5. Hver eru laun fyrstu varaborgarfulltrúa sérhvers framboðs í dag og hver væru þau ef þeir fengju aðeins greidd nefndarlaun eins og áður tíðkaðist? Hvaða fríðindi önnur en greiðslu fyrir símakostnað hafa 1. varabogarfulltrúar hvers framboðs umfram aðra varamenn í borgarstjórn?
6. Loks er sérstaklega óskað eftir upplýsingum um ferða- og dagpeninga, veislu- og risnukostnað sérhvers borgarstjóra árin 2005, 2006, 2007 og 2008. R05110132
Fundi slitið kl. 12.20
Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Hanna Birna Kristjánsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson Kjartan Magnússon
Oddný Sturludóttir Svandís Svavarsdóttir