Borgarráð - Fundur nr. 5036

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð


Ár 2008, fimmtudaginn 7. ágúst, var haldinn 5036. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.35. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.


Þetta gerðist:


1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarvogs frá 16. júlí. R08010009

2. Lagðar fram fundargerðir innkauparáðs frá 15. og 22. júlí. R08010017

3. Lagðar fram fundargerðir afgreiðslufunda byggingarfulltrúa frá 22. og 29. júlí og 6. ágúst. R08010024
Fundargerðirnar samþykktar.

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 25. júlí. R08010028

5. Lögð fram fundargerð umhverfis- og samgönguráðs frá 15. júlí. R08010031

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 11 mál. R08070086

7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 16. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 13 við Sóleyjarima. R08070084
Samþykkt.

8. Lagt fram samkomulag Reykjavíkurborgar og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um breytingu og framlengingu á kjarasamningi aðila, dags. 21. f.m. Jafnframt lagt fram minnisblað mannauðsstjóra, dags. í dag.
Borgarráð staðfestir samninginn fyrir sitt leyti. R08070109

9. Lögð fram drög að samningi Reykjavíkurborgar og Vinnuverndar ehf. um trúnaðarlæknisþjónustu, dags. í dag. Jafnframt lagt fram minnisblað mannauðsstjóra, dags. í dag. R08060017
Samþykkt.

10. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar frá 23. f.m. um endurupptöku máls er varðar byggingarleyfi á lóðinni nr. 12 við Laugaveg, sbr. samþykkt skipulagsráðs frá 16. s.m. R08020061
Umsögnin samþykkt, og er því fallist á endurupptöku málsins.

11. Lögð fram greinargerð framkvæmdastjóra og fjármálastjóra Strætó bs. frá 7. f.m. um áhrif verðlagsbreytinga á rekstur Strætó á árinu 2008. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra, dags. 6. þ.m. R08070068
Vísað til umhverfis- og samgönguráðs.

12. Lagður fram ársreikningur Sorpu bs. fyrir árið 2007. R08030006

13. Lagður fram ársreikningur Íþrótta- og sýningarhallarinnar hf. fyrir árið 2007. R08080004

14. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna:

Fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði leggur til að viðræðum við Heilsuverndarstöðina/Alhjúkrun um búsetuúrræði fyrir 20 manns verði slitið og teknar upp viðræður við SÁÁ um úrræðið með það að markmiði að því verði komið fyrir á landi samtakanna í Vík á Kjalarnesi.

Greinargerð fylgir tillögunni. R08060047
Vísað til umsagnar velferðarráðs.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Það er nú endanlega ljóst að húsnæði það sem Heilsuverndarstöð/Alhjúkrun hampaði í tilboði sínu og talin hefur verið veigamikill þáttur röksemdafærslu fyrir því að taka ekki lægsta tilboði, var komið í gjaldþrotaskipti áður en tillaga um úrræðið var lögð fyrir velferðarráð 9. apríl. Gögn sem lögð voru fyrir borgarráð frá Hag ehf. reyndust auk þess einskisverður pappír og var borgarráð þar með blekkt. Þetta er í sjálfu sé næg ástæða fyrir því að slíta samningsviðræðum. Veruleg andstaða er í Norðlingaholti gegn þessari viðamiklu og viðkvæmu starfsemi sem sennilega er betur sett fyrir utan þéttbýlið með hagsmuni þjónustuþega í huga. Svo heppilega vill til að SÁÁ á land við meðferðastöðina Vík á Kjalarnesi sem búið er að skipuleggja og auðvelt væri að byggja þar yfir viðkomandi búsetuúrræði. Það er tímabært að höggva á hnútinn í þessu erfiða máli og borgarfulltrúum er skylt að hafa það í huga að hagsmunir þeirra sem eiga að njóta úrræðisins og hefur ekki verið sinnt í meira en eitt og hálft ár eiga að vera í fyrirrúmi. Búsetuúrræði í tengslum við meðferðarstað á útmörkum borgarinnar væri æskilegur kostur með tilliti til batamöguleika þessa fólks. Það eru því sár vonbrigði að enn skuli málinu vera frestað.

15. Lagt fram bréf umhverfis- og samgöngusviðs frá 16. f.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs 15. s.m., um gjaldskyldu á bílastæðum við götukanta á svæði milli ofanverðs Laugavegar og Skólavörðustígs að Frakkastíg, sbr. einnig bréf framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs frá 9. s.m. R08070088
Samþykkt.

- Kl. 11.00 víkur Gísli Marteinn Baldursson af fundi og Júlíus Vífill Ingvarsson tekur þar sæti.

16. Lagðar fram samþykktir umhverfis- og samgönguráðs frá 15. f.m., skipulagsráðs frá 9. s.m. og stjórnar Faxaflóahafna sf. frá 9. júní sl. varðandi lagningu Mýrargötu og Geirsgötu í stokk, sbr. bréf umhverfis- og samgöngusviðs frá 16. f.m. og hafnarstjóra frá 11. júní sl. Jafnframt lagt fram að nýju bréf samgöngustjóra frá 2. júní sl. varðandi málið.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir:

1. Hvernig hefur meirihlutinn hugsað sér að fjármagna umræddan stokk og hver verður kostnaðarþátttaka ríkis og einkaaðila?
2. Framkvæmdir við Tónlistar- og ráðstefnuhús eru komnar vel á veg. Gera má ráð fyrir því að ýmsar framkvæmdir tengdar núverandi umferðarlausn séu í gangi eða þeim lokið. Verði af fyrirhugaðri lagningu stokks frá Geirsgötu í Ánanaust má búast við því að hluti þeirra framkvæmda hafi verið óþarfur. Sé það raunin, hversu mikið fé hefur þá farið í súginn?

Þá leggur borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna fram svohljóðandi tillögu:

Fulltrúi Vinstri gænna í borgarráði leggur til að metnir verði allir kostir umferðarlausna frá Geirsgötu í Ánanaust með tilheyrandi skipulags- og umhverfismatsvinnu. Þær lausnir sem nefndar hafa verið eru:
1. Öll umferð á plani.
2. Umferð um stokk frá Geirsgötu í Ánanaust.
3. Umferð um göng frá Geirsgötu í Ánanaust.
4. Umferð um göng frá Geirsgötu stystu leið út á Granda.
5. Umferð um brú stystu leið út á Granda.
Þessir kostir verði metnir út frá umhverfis-, skipulags- og kostnaðar- og rekstrarþáttum og tekið verði tillit til mögulegra breytinga á samgöngumáta borgarbúa og þeirra sem borgina heimsækja.

Loks óskar borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna bókað:

Fulltrúi Vinstri grænna í borgarráði telur það óráð að ætla að leggja stokk fyrir bílaumferð frá gamla útvarpshúsinu að Ánanaustum.
Lagning Geirsgötu og Mýrargötu í stokk er afar dýr leið og mun kosta Reykvíkinga á annan tug milljarða, fjármuni sem vel væri hægt að nýta með öðrum hætti nú þegar kreppir að í þjóðfélaginu og staða borgarsjóðs jafnt og reykvískra heimila hríðversnar.
Umferðarspáin sem tillagan byggir á miðast við áframhaldandi samgöngumáta þar sem einkabíllinn hefur forgang en þarfir almenningssamgangna, hjólandi og fótgangandi, sitja á hakanum. Það er tímanna tákn að á sama fundi og meirihlutinn leggur til þessa rándýru leið er lögð fram tillaga um það að skera niður þjónustu Strætó bs. Þjónustu sem þvert á móti þarf að stórauka til að gera borgina lífvænlegri og samgöngur ódýrari. Í lifandi og mannvænlegum miðborgum eru ekki rampar og stokkar í þágu einkabílsins heldur öll umferð á sama plani, almenningsfarartæki, hjól, gangandi og akandi, á jafnréttisgrundvelli. Bílaumferðin er hæg borgarumferð sem er stýrt með gönguljósum og öðrum aðferðum. Það er liðin tíð að einkabíllinn eigi rétt á því að fara alls staðar óhindrað um, hratt og ávallt á kostnað annarra ferðamáta. Samgönguskipulag framtíðar á að gera alla kostir jafn réttháa. Því er það lífsspursmál fyrir borgina að styrkja og efla möguleika annarra samgöngumáta en einkabílsins. Það verður ekki gert öðruvísi en með því að breyta forgangsröðun og hverfa frá lausnum fortíðar sem byggja á gamaldags bílaborgarhugmyndum og rista lífæðar í sundur. Stokkur undir Geirsgötu og Mýrargötu er dæmi um rándýrt mannvirki sem snýst aðeins um einkabílinn en ekki um lífið í miðborginni. Hugmyndir um slíka framkvæmd, nú þegar þrengir að, eru skýrt dæmi um brenglað verðmætamat og gamaldags skipulagsstefnu. R07120063

Frestað.

17. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir tíu veitinga- og gististaða, sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R08070004

18. Lagt fram bréf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 11. f.m., þar sem óskað er nýrrar umsagnar um umsókn rekstraraðila veitingastaðarins Óðals um undanþágu frá banni við nektarsýningum. R07090009
Frestað.

19. Lagt fram bréf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 11. f.m., þar sem óskað er nýrrar umsagnar um umsókn rekstraraðila veitingastaðarins Vegas um undanþágu frá banni við nektarsýningum. R07090009
Frestað.

20. Lögð fram að nýju drög að endurskoðuðum reglum um gerð fjárhagsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, dags. 30. júní sl., ásamt bréfi fjármálastjóra frá 1. f.m. Jafnframt lögð fram bréf fjármálastjóra frá 16. f.m. og dags. í dag varðandi breytingar á greinum 3.2 og 4.3 í drögunum. Þá er lögð fram umsögn innri og ytri endurskoðenda, dags. í dag. R08010050

- Kl. 11.55 víkur Kjartan Magnússon af fundi og Jórunn Frímannsdóttir tekur þar sæti.

Reglurnar samþykktar með þeim breytingum sem lagðar eru til. Jafnframt samþykkt að reynslan af reglunum skuli metin að ári liðnu og þær endurskoðaðar þá ef þörf er á.

21. Lögð fram drög að samningi Reykjavíkurborgar, Valsmanna hf. og Knattspyrnufélagsins Vals, dags. 6. þ.m. ásamt bréfi borgarlögmanns, dags. s.d. R05060067
Samþykkt.

22. Lagt fram að nýju bréf Samtaka iðnaðarins frá 10. f.m. þar sem óskað er eftir að verksamningar Reykjavíkurborgar til lengri tíma en þriggja mánaða verði verðbættir. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra, dags. 6. þ.m. R08070059
Frestað.

23. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði, dags. 5. þ.m.
Samþykkt að veita styrki sem hér segir, er færist af liðnum ófyrirséð útgjöld: R08010032
Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur, 800 þ.kr. vegna öryggisgæslu á úthlutunardögum.
Skákfélagið Hrókurinn, 650 þ.kr. vegna skákhátíðar á Grænlandi.

24. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra ÍTR frá 1. þ.m. varðandi gerð samnings við Golfklúbb Reykjavíkur um uppbyggingu og viðhald golfvalla í Reykjavík og fjármögnun á árunum 2009-2013. R04100094
Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundaráðs.

25. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 5. þ.m. þar sem lagt er til að Magnús Skúlason taki sæti Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur í skipulagsráði og að Sigurður Þórðarson verði varamaður í stjórn Faxaflóahafna sf. í stað Ólafar Guðnýjar. R08010168
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfullrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska bókað:

Borgarstjóri hefur orðið ber að fordæmislausri framkomu gagnvart fyrrverandi samherja og aðstoðarmanni sínum fyrir þær sakir einar að bíða með yfirlýsingar í viðkvæmu skipulagsmáli þar til fagleg úrvinnsla þess hefði farið fram í skipulagsráði. Með þessari ómálefnalegu framgöngu hefur borgarstjóri jafnframt vakið umræðu um ákvæði sveitarstjórnarlaga um skilyrði þess að víkja kjörnu nefndarfólki til hliðar gegn vilja þeirra. Sjálfstæðisflokkurinn verður að axla ábyrgð á þessu eins og öðru. Minnihlutinn situr hjá.

Borgarstjóri óskar bókað:

Það er með ólíkindum að minnihlutinn í borgarstjórn reyni að gera kosningu fulltrúa í nefndir á vegum F listans tortryggilega. Það eru fullkomlega málefnaleg rök fyrir því að kjósa nýja fulltrúa í þeim tveimur nefndum sem um ræðir. Í skipulagsráði eru til umfjöllunar veigamikil og stefnumótandi mál sem eru grundvöllur að málefnasamningi F-lista og Sjálfstæðisflokks. Í því ljósi er afar mikilvægt að þeir sem sitja í umboði meirihlutans njóti fullkomins pólitísks trúnaðar. Viðkomandi fulltrúi hefur ekki starfað með F-listanum að undanförnu. Nauðsynlegt samstarf og samráð milli fulltrúans og þess framboðs sem hann situr í umboði fyrir er þannig ekki fyrir hendi.

26. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

Undirritaður leggur til að Sóley Tómasdóttir taki við af Hermanni Valssyni í ÍTR og Hermann Valsson taki við af Sóleyju Tómasdóttur í leikskólaráði. Jafnframt verði Hermann Valsson varamaður í ÍTR. Meðfylgjandi er ósk þeirra beggja um þessa ráðstöfun. R08010173

Samþykkt.

27. Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokks leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Reykjavíkurborg hefur gert samning við litháískt fyrirtæki um byggingu Sæmundarskóla á grundvelli lægsta tilboðs. Munur á milli litháíska fyrirtækisins og íslensks fyrirtækis var aðeins 2#PR eða u.þ.b. 30 milljónir. Þessi litli munur á milli tilboða vekur upp spurningar hvort lægsta tilboð í þessu tilviki sé í raun það hagstæðasta. Samskipti aðila af ólíku þjóðerni eru í eðli sínu flóknari og tímafrekari heldur en gerist og gengur og því þarf að leggja meiri vinnu og fjármuni í umsjón, eftirlit og túlkaþjónustu heldur en ef um íslenskt fyrirtæki væri að ræða. Ekki má misskilja fyrirspurnina á þann veg að íslenskir framkvæmdaaðilar sniðgangi skilmála EES samningsins, heldur hitt að aðeins 2#PR munur á milli tilboða er það lítill að lægsta tilboð þarf ekki að vera það hagstæðasta. Var það skoðað af innkauparáði og framkvæmda- og eignasviði hvort aukin umsýsla og áhætta við samninginn hefði aukinn kostnað í för með sér? Var lægsta tilboð í Sæmundarskóla í raun það hagstæðasta eða hefði verið hagstæðara fyrir borgina að taka næstlægsta tilboðinu vegna minni áhættu og skilvirkari samskipta? R08050003


Fundi slitið kl. 13.15

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Dagur B. Eggertsson Hanna Birna Kristjánsdóttir
Jórunn Frímannsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Óskar Bergsson Þorleifur Gunnlaugsson