No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2008, fimmtudaginn 17. júlí, var haldinn 5035. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.35. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Hermann Valsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Fundarritari var Gunnar Eydal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 11. júní. R08010006
2. Lagðar fram fundargerðir heilbrigðisnefndar frá 4. júní og 9. júlí. R08030050
3. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 8. júlí. R08010017
4. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 16. júlí. R08010024
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
5. Lögð fram fundargerð umhverfis- og samgönguráðs frá 9. júní. R08010031
6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R08060099
7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 16. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna lóðar nr. 12 við Lækjargötu. R08030130
Samþykkt.
- - kl. 9.50 tekur Gísli Marteinn Baldursson sæti á fundinum.
8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 9. þ.m. sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d. um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi lóðar nr. 14 við Ofanleiti. R08070063
Samþykkt.
9. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 16. þ.m. sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d. um beitingu dagsekta vegna Barmahlíðar 54 til að knýja á um framkvæmdir. R08070073
Samþykkt.
10. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 16. þ.m. sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d. um beitingu dagsekta vegna Lambhóls við Starhaga til að knýja á um framkvæmdir. R08070072
Samþykkt.
11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 15. þ.m. um fyrirheit til Hestamannafélagsins Fáks um úthlutun lóða við Breiðholtsbraut/Vatnsveituveg í Víðidal, sbr. bréf Hestamannafélagsins Fáks frá 11. f.m. Jafnframt lagt fram bréf skipulagssviðs frá 7. þ.m. sbr. samþykkt skipulagsráðs 4. s.m. varðandi málið. R08060064
Samþykkt.
12. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 15. þ.m. varðandi endurgreiðslu á ofgreiddu gatnagerðargjaldi fyrir Kistumel 10. R04020047
Samþykkt.
13. Lagður fram kjarasamningur Reykjavíkurborgar og Sjúkraliðafélags Íslands, dags. 30. júní. Jafnframt lagt fram yfirlit mannauðsskrifstofu, dags. í dag. R08010230
Borgarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.
14. Lögð fram umsögn sviðsstjóra umhverfissviðs frá 4. þ.m. um frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum vegna efnistöku á hafsbotni í Kollafirði, sbr. bréf Skipulagsstofnunar frá 16. f.m. R05110138
Borgarráð samþykkir umsögnina.
Bókun borgarráðs:
Umfjöllun og ákvarðanataka um nýtingu einstakra náma – og hugsanlegar skorður þar á – mun fara fram í tengslum við veitingu iðnaðarráðuneytisins á nýtingarleyfi. Borgarráð vill þó á þessu stigi árétta fyrri mótmæli við frekari efnistöku á eftirfarandi stöðum í Kollafirði:
1. Þerney og Leirvogur
Frekari efnistöku er mótmælt í tveimur námum skammt sunnan Þerneyjar og í Leiruvogsnámu vegna skipulegra hagsmunaárekstra vegna væntanlegrar legu Sundabrautar.
2. Gufunesnáma
Frekari efnistöku er mótmælt úr Gufunesnámu þar sem fyrirhugað er að útbúa landfyllingar við Gufunes skv. aðalskipulagi borgarinnar.
Þessi mótmæli voru m.a. sett fram með skýrum hætti af hálfu Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar í tengslum við fyrirspurn um matskyldu frekari efnistöku í Kollafirði árið 2005.
15. Lagt fram bréf samgöngustjóra frá 25. f.m. varðandi verkefnalýsingu og kostnaðaráætlun vegna lestarsamgangna milli Keflavíkurflugvallar og miðborgar Reykjavíkur. R08020113
Samþykkt.
16. Lagt fram svar borgarstjóra við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júlí. R08070040
17. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 11. þ.m. um nýtt lyfsöluleyfi að Seljavegi 2, sbr. bréf heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins frá 25. f.m. R08060112
Samþykkt.
18. Lagt fram bréf Samtaka iðnaðarins frá 10. þ.m. þar sem óskað er eftir að verksamningar Reykjavíkurborgar til lengri tíma en þriggja mánaða verði verðbættir. R08070059
Vísað til umsagnar fjármálastjóra.
19. Lagt fram bréf sviðsstjóra leikskólasviðs frá 10. þ.m. um hækkun á fjárveitingu til leikskólasviðs vegna einkarekinna leikskóla um 72,7 m.kr. vegna 2007 og 2008. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 16. þ.m. R08010198
Samþykkt.
20. Lagður fram ársreikningur Orkuveitu Reykjavíkur fyrir árið 2007, dags. 13. mars sl. Jafnframt er vísað til kafla 4.7 í skýrslu fjármálaskrifstofu frá 16. maí með framlagningu ársreiknings Reykjavíkurborgar, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. maí sl. R08070005
21. Lögð fram umsögn fjármálastjóra, ódags., um útboð Strætó bs. á akstri. R08070045
Borgarráð samþykkir umsögnina með 6 atkvæðum gegn 1.
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Vinstri græn leggjast eindregið gegn auknum útboðum Strætó bs. Kerfisbreytingar geta aðeins átt sér stað í samráði við starfsfólk og samtök þess. Útboð fela í sér skerðingu á kjörum starfsfólks undir formerkjum sparnaðar og hagræðingar. Slíka framkomu getur borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna engan veginn sætt sig við. Útboð felur enn fremur í sér enn eitt skref í átt til einkavæðingar á almenningssamgöngum. Almenningssamgöngur eru ein af grunnstoðum öflugs borgarsamfélags og brýnt að sú sýn sé höfð að leiðarljósi til framtíðar.
Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Dapurlegt er að lesa bókun Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, sem lýsir fádæma vanþekkingu á viðfangsefninu. Nálega helmingur leiða Strætó bs. hefur verið boðinn út um langt árabil, mestmegnis á stjórnartíma R-listans en Vinstri græn fóru með stjórnarformennsku í Strætó á þeim tíma. Árangur þeirrar stjórnunar var enginn og farþegum fækkaði jafnt og þétt. Í akstursútboðinu sem nú er samþykkt er nokkrum leiðum bætt við þann akstur sem fyrirtæki í almennningssamgöngum sinna. Sú aukning er svo óveruleg að áfram eru hlutföll milli Strætó bs. og einkaaðila um það bil jafnstór. Það er glæný afstaða Vinstri grænna að sparka einkaaðilum, sem keyrt hafa strætó árum saman fyrir byggðasamlagið, út. Með útboðinu gefst hinsvegar tækifæri til að auka verulega gæði vagnanna og setja margvíslegar kröfur um aðgengi og umhverfi. Það mun vonandi vera lóð á þær vogarskálar meirihlutans í borgarstjórn að auka enn frekar hlut almenningssamgangna í borginni, sem Vinstri grænum mistókst svo hrapalega í þeirra stjórnartíð.
22. Lagt fram minnisblað fjármálastjóra frá 15. þ.m. um styrki vegna fasteignaskatta hjá Reykjavíkurborg. R08070026
23. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði, dags. 7. þ.m. Borgarráð samþykkir að veita styrki sem hér segir:
Georg Erlingsson, 150 þ.kr, vegna draggkeppni Íslands.
MS-félagið, 3,1 m.kr., vegna fasteignaskatta.
Leiðangur ehf., 2,5 m.kr., vegna fjallaferða hreyfihamlaðra.
Framtíðarorka ehf., 300 þ.kr., vegna ráðstefnu um vistvænar orkulausnir í samgöngumálum.
Sjóminjasafnið Víkin, 10 m.kr., vegna kostnaðar við innanhússframkvæmdir. R08010032
24. Lögð fram að nýju drög að endurskoðuðum reglum um gerð fjárhagsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, dags. 30. f.m., ásamt bréfi fjármálastjóra frá 1. þ.m. Jafnframt lagt fram bréf fjármálastjóra frá 16. þ.m. með breytingu á gr. 4.3. R08010050
Vísað til umsagnar ytri endurskoðenda og innri endurskoðanda.
25. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:
Lagt er til að viðræðum við Heilsuverndarstöðina/Alhjúkrun um búsetuúrræði fyrir 20 manns verði slitið og teknar upp viðræður við SÁÁ um úrræðið með það að markmiði að því verði komið fyrir á landi samtakanna í Vík á Kjalarnesi.
Greinargerð fylgir tillögunni. R08060047
Frestað.
26. Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks leggja fram svohljóðandi ítrekun á fyrirspurn:
Í ljósi frétta af háskalega fámennri vakt lögreglu í miðborginni um helgar ítrekar minnihluti borgarráðs athugasemdir sínar við að í vinnu nefndar borgarstjóra að miðborgarmálum skuli ekki hafa verið kallað eftir aukinni og sýnilegri löggæslu, sbr. bókun minnihlutans á fundi borgarráðs 3. júlí sl. Þá er ítrekað að minnihlutinn lagði á sama fundi fram neðangreinda fyrirspurn, að gefnu tilefni:
„Óskað er eftir því að kannað verði hvernig þróun mannafla lögreglunnar á miðborgarvakt hefur orðið frá því síðasta sumar en síðasta haust var kynnt að sýnileg löggæsla yrði efld í miðborginni.“
Furðu vekur að borgarráði hafi ekki verið svarað og mat lagt á þá stöðu sem uppi er í löggæslumálum borgarinnar því engin ein aðgerð er mikilvægari í málefnum miðborgarinnar en að tryggja aukna og sýnilega löggæslu. Staðan í þeim efnum er grafalvarleg ef marka má fréttatilkynningu sem fór frá skrifstofu borgarstjóra í gær. Þar segir að „samkvæmt heimildum frá lögregluembættinu voru aðeins níu lögregluþjónar á vakt í miðborginni aðfaranótt 6. júlí sl. Tólf lögregluþjónar voru á vakt aðfaranótt 12. júlí og fjórtán aðfaranótt 13. júlí.“ Ekki verður annað séð en að þetta séu enn lægri tölur en Stefán Eiríksson lögreglustjóri hefur gefið upp í fjölmiðlum. Ljóst er að miðað við þessa stöðu er ekki aðeins alls ófullnægjandi miðborgarvakt heldur má vera ljóst að viðvera sýnilegrar lögreglu um helgar í hverfum borgarinnar og nágrannasveitarfélaga er lítil sem engin. Löggæsla er grundvallar almannaþjónusta. Því hlýtur að verða að knýja á um skýr svör og tafarlausar úrbætur af hálfu dómsmálayfirvalda. R08040020
Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi bókun:
Athygli er vakin á því að borgarstjóri mun eiga fund á morgun (föstudag) með dómsmálaráðherra um öryggismál í miðborginni, sérstaklega varðandi aukna og sýnilegri löggæslu í miðborginni um helgar. Þetta er annar fundur borgarstjóra með dómsmálaráðherra á stuttum tíma um öryggismál í miðborginni. Það er í takt við málefnasamning núverandi meirihluta um aukna og sýnilegri löggæslu í miðborginni og öðrum hverfum borgarinnar og þétta og markvissa vinnu borgarstjóra og aðgerðahóps á hans vegum í málefnum miðborgarinnar. Sú vinna hefur m.a. leitt til þess að á vegum borgaryfirvalda aðstoða nú 6 svokallaðir miðborgarþjónar lögregluna og rekstraraðila við löggæslu í miðborginni. Borgaryfirvöld hafa haft samráð við íbúa, hagsmunaaðila, lögreglu, slökkvilið og fleiri sem koma að málefnum miðborgar og viðræður við dómsmálaráðherra hafa verið jákvæðar þar sem lýst hefur verið yfir ánægju með framtak og frumkvæði borgaryfirvalda og vilja til áframhaldandi samráðs og samstarfs.
Gagnrýni minnihlutans á vinnu meirihlutans kemur kemur úr hörðustu átt, því núverandi meirihluti hefur unnið ötullegar að málefnum miðborgarinnar en nokkur annar meirihluti í borginni. Meint fyrirspurn minnihlutans hefur ekki verið lögð fram með formlegum hætti en henni hefur í raun verið svarað með nýjustu aðgerðum og fyrri aðgerðum meirihlutans í öryggismálum miðborgarinnar.
Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er undarlegt að borgarstjóri velji að leggjast í hnútukast í stað þess að taka undir áhyggjur minnihlutans á skorti á aukinni og sýnilegri löggæslu. Hin ósvaraða fyrirspurn sem lögð var fram fyrir hálfum mánuði kemur skýrt fram í fundargerð þótt hún sé þar færð til bókar sem bókun en ekki fyrirspurn.
Borgarstjóri leggur fram svohljóðandi bókun:
Bókun borgarstjóra felur í sér leiðréttingar á þeirri fjarstæðukenndu staðhæfingu minnihlutans að borgarstjóri hafi ekki kallað eftir aukinni og sýnilegri löggæslu í miðborginni. Þessi öfugmæli eru í besta falli hnútukast en umfram allt ósannindi.
Fundi slitið kl. 12.45
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Hermann Valsson Júlíus Vífill Ingvarsson
Kjartan Magnússon Óskar Bergsson