Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2008, fimmtudaginn 10. júlí, var haldinn 5034. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.35. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon, Marsibil Sæmundardóttir, Sóley Tómasdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Fundarritari var Gunnar Eydal.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 27. júní. R08010018
2. Lögð fram fundargerð menntaráðs frá 2. júlí. R08010022
3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 9. júlí. R08010024
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
4. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 4. júlí. R08010028
5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R08060099
6. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 9. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um breytingu á deiliskipulagi Laugavegs 4 og 6 vegna reits 1.171.3. R07080072
Samþykkt.
Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Fagnaðarefni er hversu vel hefur tekist til við undirbúning uppbyggingar við Laugaveg 4 og 6. Metnaður, mannlíf og virðing fyrir sögunni eru einkenni þeirra áforma sem borgarráð samþykkir í dag. Mikilvægt er að verndun og uppbygging geti haldist jafn vel í hendur og verður á Laugavegi 4-6, þar sem blómleg verslun mun geta þrifist í húsum sem endurspegla gamla og fallega götumynd. Með þessari tillögu er staðið við fyrirheit sem meirihlutinn hefur gefið um að snúa vörn í sókn við Laugaveginn, með öflugri uppbyggingu og fegrun á öllu umhverfi Miðborgarinnar, samhliða því sem staðinn er vörður um mikilvæg menningarverðmæti. Tillagan markar þannig tímamót í skipulagi Laugvegar og Miðborgar og er í góðu samræmi við stefnu og aðgerðir meirihlutans og framsýni hans í skipulags- og umhverfismálum.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Því er fagnað að loks hilli undir að hreyfing fari að komast á endurgerð húsanna við Laugaveg 4 og 6. Af gögnum málsins er ljóst að heildarfjárútlát Reykjavíkurborgar af verkefninu á Laugavegi 4 og 6 getur orðið meira en milljarður króna og fórnarkostnaðurinn sem falla mun á borgarsjóð verður ekki undir hálfum milljarði en ekki um 200 milljónir eins og formaður skipulagsráðs hefur haldið fram í fréttum. Eignirnar voru keyptar á yfirverði, 580 m.kr, og miðað við kostnaðaráætlun Minjaverndar og Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen frá janúar sl. og þann kostnað sem nú hefur verið lagður í skipulag og hönnun má gera ráð fyrir að 400-500 milljónir króna verði lagðar til endurbyggingar og hönnunar. Endanlegt söluverð verkefnisins ræðst af aðstæðum á markaði og þeim tímapunkti sem valinn verður til útboðs eða sölu. Byggt á sömu gögnum og áður hefur verið vísað til og miðað við góðar aðstæður á markaði má gera ráð fyrir að selja megi gömlu húsin fyrir um 140 milljónir króna (m.v. 350.000 kr./m2), selja megi tilbúnar nýbyggingar á um 240 milljónir króna (m.v. 300.000 kr./m2) og fá megi 141 m.kr. fyrir eignarhlut á Skólavörðustíg 1a (m.v. 300.000 kr./m2). Samandregið verða fjárútlát Reykjavíkurborgar því á bilinu 1.000-1.100 milljónir króna og söluverð eignanna allt að 520 milljónum króna þannig að mismunurinn, fórnarkostnaður Reykjavíkurborgar, verður hálfur milljarður króna. Þá er ótalinn fjármagnskostnaður vegna fjárbindingarinnar sem í verkefninu felst.
Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Ef húsin við Laugaveg 4 og 6 hefðu ekki verið keypt hefði risið á reitnum hótelbygging sem varpað hefði skugga á götuna og verið áberandi í umhverfinu. Meirihluti F- og D-lista tók því upplýsta ákvörðun um að kaupa húsin og freista þess að láta uppbyggingu og verndun haldast í hendur, borgarbúum öllum til heilla. Tillagan sýnir að það hefur tekist. Frá því að ákvörðun um kaup þessara húsa var tekin hafa fulltrúar minnihlutans hins vegar fundið henni flest til foráttu, ef ekki með skipulagsrökum þá með fjárhagsrökum. Það er því ekkert nýtt að minnihlutinn geri mun meira úr þessum kaupum en efni standa til. Endanlegur kostnaður er áætlaður mun lægri og sannarlega þess virði að tryggja farsæla uppbyggingu á þessum mikilvæga miðborgarreit.
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra:
Borgarráð samþykkir að gefa knattspyrnufélaginu Víkingi fyrirheit um stækkun athafnasvæðis félagsins eftir að núgildandi leigusamningur við gróðrastöðina Mörk rennur út, árið 2016. Um er að ræða lóð á svæði gróðrastöðvarinnar að Stjörnugróf 18. Jafnframt samþykkir borgarráð að beina því til skipulagsráðs að það láti kanna möguleika á nýrri staðsetningu gróðrastöðvarinnar Markar í samráði við eigendur hennar. Fyrirheitið er með fyrirvara um ákvarðanir sem kunna að verða teknar varðandi stækkun athafnasvæðis félagsins í framkvæmda- og eignaráði, skipulagsráði og íþrótta- og tómstundaráði. Enn fremur er fyrirvari vegna breytinga á deiliskipulagi, sem nauðsynlegar eru í þessu skyni.
Greinargerð fylgir tillögunni. R08060004
Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.
8. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks um að settur verði á stofn lífskjarahópur, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. apríl sl. Jafnframt lögð fram að nýju greinargerð borgarhagfræðings frá 30. f.m.
Borgarráð samþykkir að tilnefna Jórunni Frímannsdóttur, Mörtu Guðjónsdóttur, Björk Vilhelmsdóttur og Þorleif Gunnlaugsson í starfshóp um málið. Borgarhagfræðingur starfi með hópnum. R08040025
9. Lögð fram drög að endurskoðuðum reglum um gerð fjárhagsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, dags. 30. f.m., ásamt bréfi fjármálastjóra, dags. 1. þ.m. R08010050
Frestað.
10. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 8. þ.m., ásamt reglum um slysatryggingar barna í skipulögðu starfi á vegum Reykjavíkurborgar, dags. s.d. R08070046
Samþykkt.
11. Lagt fram svar borgarstjóra frá 8. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks um framkvæmdir á svæði milli Bauganess og Skildinganess, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. júlí. R08070024
12. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 26. f.m. varðandi tillögu að rekstri þjónustusíma ásamt greinargerð, sbr. samþykkt ráðsins 25. s.m. R08070041
13. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 6. þ.m. vegna fyrirspurnar borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingar og Margrétar Sverrisdóttur um hreinsun og fegrun Miðborgar Reykjavíkur, sbr. 14. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. júní. R08040020
Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:
Það hlýtur að vera kappsmál allra borgarbúa að Reykjavík sé hrein og fögur borg. Hreinsunarátak er því af hinu góða, en öllu má ofgera. Átak það sem kennt hefur verið við Miðborgina nú á vormánuðum virðist hafa farið úr böndunum, þar sem grá málning þekur nú áratuga gömul listaverk sem ekki verða aftur fengin. Hafi þær svipmótsbreytingar sem um ræðir talist byggingarleyfisskyldar hlýtur að hafa verið um hefðbundnar óleyfisframkvæmdir að ræða sem ber að meðhöndla sem slíkar. Ekki er vitað til þess að borgaryfirvöld ráðist í breytingar á óleyfisframkvæmdum – öðrum en þessum – án formlegs samþykkis sveitarstjórnar eða samráðs við eigendur skv. byggingarreglugerð. Brýnt er að borgaryfirvöld gæti ávallt meðalhófs í aðgerðum sínum sem og andmælaréttar viðkomandi húseigenda sem ella gætu óskað bóta úr hendi borgarinnar.
Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Hreinsunar- og fegrunarátak í Miðborginni var nauðsynlegt og hefur þegar skilað miklum árangri á mjög skömmum tíma. Miðborg Reykjavíkur hefur ekki verið fegurri eða hreinni um langt árabil sem er í samræmi við skýr loforð borgarstjóra og meirihlutans um að vinna hratt og örugglega að þessum mikilvægu umbótum. Í upplýsingum frá embættismönnum borgarinnar kemur fram að í tveimur tilvikum virðist hafa verið málað yfir verk á húsveggjum fyrir mistök. Það er miður, en breytir engu um þann mikla árangur sem borgarbúar hafa orðið vitni að á undanförnum vikum og mánuðum. Um leið og meirihlutinn heitir því að halda áfram hreinsun og fegrun borgarinnar, er komið á framfæri þökkum til allra þeirra fjölmörgu starfsmanna Reykjavíkurborgar sem að þessu átaki hafa komið og sinnt því af kostgæfni og krafti.
14. Lagður fram dómur Héraðsdóms í máli E-8103/2007, Guðrún Ólöf Sumarliðadóttir gegn Reykjavíkurborg og Sjóvá Almennum tryggingum hf. til réttargæslu. R07030049
15. Lagt fram bréf formanns undirbúningsnefndar um 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar 17. júní 2011 og undirbúning og framkvæmd hátíðar í því tilefni. R08070019
Vísað til meðferðar borgarstjóra.
16. Rætt um útboð á akstri Strætó bs. R08070045
Frestað.
17. Lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra Gagnaveitu Reykjavíkur frá 30. f.m. varðandi kynningu fyrir borgarráð á framkvæmdaáætlun, sbr. samning Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur um lagningu, þróun og rekstur opins grunnnets fjarskipta í Reykjavík frá 7. júlí 2005. R04100377
18. Rætt um málefni Sjóminjasafnsins Víkurinnar og starfsemi þess kynnt. R06010221
19. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Minjaverndar frá 2. þ.m. varðandi framtíð og staðsetningu Gröndalshúss. R08030071
20. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 4. þ.m. varðandi kaup á lóðarspildu að Hverfisgötu 68A. R06060017
Samþykkt.
21. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir fjögurra veitinga- og gististaða, sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R08070004
22. Lagt fram bréf aðstoðarsviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs, ódags., varðandi aukið hlutafé um 40 milljónir vegna undirbúnings framkvæmda að Austurstræti 22. R07040086
Samþykkt.
23. Lagt fram bréf aðstoðarsviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs, ódags., varðandi heimild til undirbúnings að endurbyggingu Lækjargötu 2 og ráðstöfun 20 m.kr. til verksins af fjárfestingarlið. R07040086
Samþykkt.
24. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 8. þ.m., um ráðningu mannréttindastjóra þar sem lagt er til að Anna Kristinsdóttir verði ráðin í stöðuna. Tillagan er gerð í samræmi við niðurstöðu ráðgjafahóps sem mat Önnu hæfasta umsækjenda um stöðuna. R08070040
Borgarráð samþykkir tillögu borgarstjóra.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Því er fagnað að óvissu um stöðu mannréttindastjóra er loks eytt með farsælli ráðningu Önnu Kristinsdóttur. Jafnmikilvægt er að í kjölfar ráðningarinnar verði kyrrstaðan í málaflokknum rofin og þeim metnaði sem birtist í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2008 fylgt eftir. Framkvæmd og innleiðing mannréttindastefnunnar verður því aðeins að hæft starfsfólk fáist til starfa. Ljóst er að eitt stöðugildi dugar ekki til að halda utan um þennan mikilvæga málaflokk. Brýnt er að til viðbótar við mannréttindastjóra fáist skýrt umboð til að ráða inn fleiri sérfræðinga í þeim málaflokkum sem stefnan nær til eins og fjárheimildir eru fyrir.
25. Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Í viðtali við borgarstjóra í 24 stundum þann 5. júlí sl. vegna ráðningar mannréttindastjóra segir hann að hann telji hag fatlaðra, aldraðra, barna og öryrkja stundum vilja gleymast í umræðum um manréttindamál. Af þessu tilefni er óskað eftir svari borgarstjóra við eftirfarandi spurningum:
1. Hvaða hagsmunahópar eru það sem hafa verið fyrirferðarmestir á kostnað þeirra hópa sem borgarstjóri telur upp í viðtalinu?
2. Telur borgarstjóri nauðsynlegt að forgangsraða þeim hagsmunahópum sem mannréttindastefnan nær til eða telur hann raunhæft að vinna samkvæmt mannréttindastefnunni í heild sinni og gæta hagsmuna allra þeirra hópa sem hún nær til á sama tíma? R08070040
Fundi slitið kl. 12:20
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Kjartan Magnússon
Marsibil Sæmundardóttir Sóley Tómasdóttir