Borgarráð - Fundur nr. 5033

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2008, fimmtudaginn 3. júlí, var haldinn 5033. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.37. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram fundargerðir hverfisráðs Árbæjar frá 5. og 19. júní. R08010007

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 5. júní. R08010010

3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 2. júlí. R08010024
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

4. Lögð fram fundargerð stjórnar Sorpu bs. frá 20. júní. R08010027

5. Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 25. júní. R08010065

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, 1 mál. R08060099

- Kl. 9.43 tók Júlíus Vífill Ingvarsson sæti á fundinum.

7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 2. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna reits 1.140.5, Pósthússtrætisreits. R04110098
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 2. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 19. mars, varðandi breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins vegna nýrra byggingarreita í Suður-Mjódd. R08070014
Samþykkt.

9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 30. f.m.:

Borgarráð samþykkir að framlengja starfsemi sérstakra miðborgarþjóna um 10 vikur. Gerður var samningur við Öryggismiðstöðina um þriggja vikna tilraunaverkefni og er lagt til að sá samningur verði framlengdur. Miðborgarþjónar verði þannig að störfum á vegum Reykjavíkurborgar til og með 14. september nk. Kostnaður, 3 m.kr., greiðist af lið 09204 á skrifstofu borgarstjóra.

Greinargerð fylgir tillögunni. R08040020
Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks óska bókað:

Sjálfsagt er að framlengja tilraun um miðborgarþjóna í tíu vikur. Mikilvægt er að borgarráð árétti að þessi tilraun dregur hvergi úr mikilvægi þess að auka og efla sýnilega löggæslu í Miðborginni. Óskað er eftir því að kannað verði hvernig þróun mannafla lögreglunnar á miðborgarvakt hefur orðið frá því síðasta sumar en síðasta haust var kynnt að sýnileg löggæsla yrði efld í Miðborginni. Jafnframt að aflað verði formlegrar umsagnar lögreglu höfuðborgarsvæðisins og Landssambands lögreglumanna um tilraunina þegar reynsla verður komin á hana.

10. Lagðar fram að nýju stöðuskýrsla aðgerðarhóps um Miðborg Reykjavíkur og skýrsla starfshóps um öryggismál á skemmtistöðum, dags. í júní 2008. R08040020

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska bókað:

Þakka ber fyrir það sem vel er gert í málefnum Miðborgarinnar. Tillögur og greining skýrslunnar „Reykjavík, betri Miðborg allan sólarhringinn“ lá fyrir um miðjan janúar sl. og lá óhreyfð allt þar til minnihluti borgarstjórnar þrýsti á um umfjöllun um hana með blaðamannafundi í byrjun apríl. Í kjölfarið boðaði meirihlutinn að tekinn yrði afstaða til tillagna skýrslunnar fyrir byrjun maí. Það hefur einnig dregist og nú er kominn júlí. Á einum samráðsfundi sem haldinn var með fulltrúa minnihlutans fyrir um tveimur mánuðum lagði fulltrúi minnihlutans ríkasta áherslu á sýnilega löggæslu, að forgangsverkefni væri að útfæra reykingabann á skemmtistöðum þannig að ónæði færðist í minni mæli út á göturnar og síðast en ekki síst að taka af skarið um stefnu borgarinnar varðandi veggjakrot. Í fyrirliggjandi skýrslu er hvergi vikið að sýnilegri löggæslu eða útfærslu reykingabanns og stefnumótun um veggjakrot er ýtt fram á haust. Vonast er til að úr þessu verði bætt.

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Það kemur úr hörðustu átt þegar minnihluti R-lista flokkanna sakar núverandi meirihluta F- og D-lista um dáðleysi í miðborgarmálum. Verkin tala um hið gagnstæða.

11. Lagður fram ársreikningur Félagsbústaða hf. fyrir árið 2007. R08070006

12. Lagður fram ársreikningur Faxaflóahafna sf. fyrir árið 2007. R08030062

13. Lagt fram svar borgarstjóra frá 23. f.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Samfylkingar um sölu Orkuveitu Reykjavíkur á jörðinni Hvammsvík, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. s.m. R08060042

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:

Í svari borgarstjóra vegna fyrirspurnar um fyrirhugaða sölu Hvammsvíkur kemur fram að stefna meirihlutans sé að Orkuveitan sinni kjarnastarfsemi. Ekki sé búið að taka ákvörðun um að selja aðrar jarðir að svo stöddu og slíkt ekki útilokað. Jafnframt gerir borgarstjóri lítið úr þeim áhyggjum að grenndarréttur nýs eiganda geti takmarkað nýtingarmöguleika Orkuveitunnar á jörðinni. Þegar tilboð í jörðina eru skoðuð kemur í ljós að hæsta tilboð í jörðina er 230 milljónir króna. Það vekur upp spurningar hvort það verð nægi fyrir kostnaði við golfvöll og veiðitjarnir sem eru í landinu burtséð frá öðrum gögnum og gæðum sem jörðinni fylgja. Þegar svör borgarstjóra eru tekin saman þá kemur í ljós að meirihlutinn hefur ekki aðeins sett jörðina Hvammsvík á sölu heldur breytt um stefnu varðandi útivistarsvæði Reykvíkinga á jörðum sem keyptar voru til orkuvinnslu. Þessi stefnubreyting skapar óvissu um hvað verður um önnur útivistarsvæði Reykvíkinga. Óháð stefnubreytingu meirihlutans um að selja útvistarsvæði Reykvíkinga þá getur það varla talist góður tími til að selja jarðir þegar horft er til stöðu efnahagsmála og samdráttar í efnahagslífinu þar sem verð á fasteignum og jörðum er að lækka.

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Það var ákvörðun stjórnar OR að hefja söluferli á Hvammsvík og um það full samstaða í stjórninni, þ.m.t. fulltrúa Óskars Bergssonar í stjórn OR. Þrátt fyrir samhljóða samþykkt stjórnar OR um að falla frá Bitruvirkjun sættir fulltrúi Framsóknarflokksins sig illa við góðan framgang núverandi meirihluta í orku- og umhverfismálum.
Mikil ósamstaða og hik í ákvarðanatöku einkenndi afstöðu minnihlutans þegar ákvörðun stjórnar OR um Bitruvirkjun var staðfest í borgarráði. Núverandi meirihluti efnir fyrirheit sín í umhverfismálum og minnir á innistæðulaus loforð Samfylkingar um „Fagra Ísland“.

14. Lagt fram að nýju bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 13. f.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 11. s.m., um gerð þjónustusamnings til þriggja ára við Félag heyrnarlausra. R08060071
Samþykkt.

15. Lagt fram bréf formanns stýrihóps um búsetuúrræði eldri borgara frá 25. f.m. ásamt tillögu að sérskilmálum um úthlutun lóða til félaga og samtaka eldri borgara. Samþykkt. R07110105

16. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 1. þ.m.:

Lagt er til að Reykjavíkurborg veiti Félagi eldri borgara í Reykjavík, kt. 490486-3999, fyrirheit um úthlutun lóðar við Gerðuberg undir allt að 50 íbúðir og úthlutun lóðar við Árskóga í Suður-Mjódd undir allt að 60 íbúðir.

Greinargerð fylgir tillögunni. R08010196
Samþykkt.

17. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmdasviðs frá 25. f.m. þar sem lagt er til að Félagsstofnun stúdenta verði úthlutað byggingarrétti fyrir námsmannaíbúðir á lóð nr. 18-22 við Skógarveg. R08040033
Samþykkt.

18. Lagt fram bréf aðstoðarsviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 25. f.m. þar sem lagt er til að Reykjavíkurborg falli frá forkaupsrétti að Selásbletti 17AB. R08040042
Samþykkt.

19. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 25. þ.m. þar sem óskað er heimildar borgarráðs til að ganga frá endurgreiðslu kostnaðar vegna hönnunarvinnu að Iðunnarbrunni 6. Samþykkt. R06100328

20. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir átta veitinga- og gististaða, sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R08060001

21. Lagt fram bréf félags- og tryggingamálaráðuneytisins frá 30. f.m. þar sem óskað er eftir að Reykjavíkurborg gerist móttökusveitarfélag tveggja pólitískra flóttamanna.
Samþykkt og vísað til meðferðar velferðarsviðs. R08060123

22. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 30. f.m.:

Borgarráð samþykkir að veita 30 m.kr. til að auka umferðaröryggi í Háaleitishverfi og Laugardal. Upphæðin skiptist með þeim hætti að 20 milljónir renni til aðlögunar 30 km svæðis á Háaleitisbraut árið 2008. Tíu milljónir renni til aðgerða í því skyni að lækka umferðarhraða umhverfis Laugalækjaskóla á árunum 2008 til 2009. Frumhönnun á þrengingu og sveigju í því skyni að lækka umferðarhraða á Háaleitisbraut liggur fyrir. Upphæðin færist af liðnum ófyrirséð útgjöld.

Greinargerð fylgir tillögunni. R07120028
Samþykkt.

23. Lögð fram drög að reglum um gerð fjárhagsáætlunar hjá Reykjavíkurborg, dags. 30. f.m., ásamt bréfi fjármálastjóra, dags. 1. þ.m. R08010050
Frestað.

24. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks um að settur verði á stofn lífskjarahópur, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. apríl sl. Jafnframt lögð fram greinargerð borgarhagfræðings frá 30. f.m. R08040025
Frestað.

25. Lagt fram erindi framkvæmdastjóra Strætó bs. frá 28. maí sl. varðandi verkefnið „Námsmannakort í strætó“. Jafnframt lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra og fjármálastjóra Strætó bs. frá 2. þ.m. Þá er lögð fram umsögn fjármálastjóra, dags. í dag. Loks er lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 2. þ.m.:

Borgarráð samþykkir að halda áfram niðurgreiðslum í strætó fyrir námsmenn í Reykjavík, skólaárið 2008 til 2009. Viðbótarkostnaður vegna verkefnisins er samtals 270 m.kr. Kostnaður fyrir haustið 2008, 192 m.kr., verði færður af liðnum ófyrirséð. Áætlað verði fyrir kostnaði vorið 2009, 78 m.kr., í fjárhagsáætlun 2009.

Greinargerð fylgir tillögunni. R07030007
Tillaga borgarstjóra samþykkt.

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Meirihlutinn í Borgarráði Reykjavíkur fagnar samstöðu um að haldið verði áfram með Námsmannakort í Strætó fyrir framhalds- og háskólanema í Reykjavík og flestum öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið tókst vonum framar veturinn 2007-2008, eins og fjölgun farþega um eina milljón á ársgrundvelli ber skýrt vitni um. Í könnun meðal framhalds- og háskólanema kom einnig fram að 80#PR þeirra sögðust nota strætó oftar vegna verkefnisins og 96#PR þeirra telja að námsmannakortin hafi hvetjandi áhrif á nemendur til aukinnar notkunar. Nú þegar olíuverð fer hækkandi og áhersla á umhverfisvæna samgöngumáta hefur aldrei verið meiri, standa vonir til þess að námsmönnum í strætó fjölgi enn frekar næsta vetur. Fleiri forgangsakreinar strætó, merkingar biðstöðva og betri þjónusta fyrirtækisins munu svo vonandi einnig skila sér í fjölgun annarra farþega. Meirihlutinn vinnur nú að áætlun um það með hvaða hætti verði best staðið að tilraunaverkefni um gjaldfrjálsan aðgang annarra hópa að strætó, eins og lofað er í málefnasamningi meirihlutans.

26. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í morgun byrjuðu jarðýtur að ryðja og slétta svæði milli Bauganess og Skildinganess. Óformleg fyrirspurn hefur leitt í ljós að skipulagsstjóra er ekki kunnugt um málið.
a) Hvaða framkvæmdir eru þetta?
b) Hver ber ábyrgð á þeim?
c) Hafa þær verið grenndarkynntar? R08070024

27. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Fram hefur komið í fjölmiðlum að húsnæði það sem Heilsuverndarstöðin fyrirhugar að hýsi búsetuúrræði að Hólmavaði 1-11 er í eigu fyrirtækisins Í skilum ehf. sem er til gjaldþrotaskipta. Á fundi borgarráðs í síðustu viku var lögð fram yfirlýsing þar sem vísað er í samkomulag Heilsuverndarstöðvarinnar og Hags ehf. um að umrætt húsnæði sé til reiðu. Á grundvelli þeirrar yfirlýsingar var tillögu Vinstri grænna um að fresta samningum við Heilsuverndarstöðina vísað frá. Þar sem Hagur er ekki þinglýstur eigandi húsnæðisins er þess óskað að leitað verði upplýsinga um stöðu málsins til að hagsmunir Reykjavíkurborgar séu að fullu tryggðir. R08060047

28. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði, dags. 1. þ.m. Samþykkt að veita styrki sem hér segir:
Hestamannafélagið Fákur, 5 m.kr. vegna kostnaðar við Íslandsmót.
Saman-hópurinn, 150 þ.kr. vegna dreifingar á sumarplakati.
Vitinn - verkefnastofa, 200 þ.kr. vegna nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda.
Kemur af liðnum ófyrirséð útgjöld. R08010032

Fundi slitið kl. 13.15

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Júlíus Vífill Ingvarsson
Óskar Bergsson Svandís Svavarsdóttir