Borgarráð - Fundur nr. 5030

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2008, fimmtudaginn 5. júní, var haldinn 5030. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 4. þ.m. um kosningu sjö borgarráðsfulltrúa til eins árs og sjö til vara á fundi borgarstjórnar 3. s.m. R08010159

2. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er kosinn formaður borgarráðs til eins árs með samhljóða atkvæðum. Hanna Birna Kristjánsdóttir er kosin varaformaður til sama tíma með samhljóða atkvæðum. R08010159

3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 4. þ.m. varðandi sumarleyfi borgarstjórnar. R04060046

4. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 14. maí. R08010006

5. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 26. maí. R08010011

6. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Hlíða frá 27. maí. R08010012

7. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Kjalarness frá 26. maí. R08010013

8. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 28. maí. R08010014

9. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 4. júní. R08010024
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

10. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 20. og 21. maí. R08020092

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 4 mál. R08050125

12. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 29. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 28. s.m., varðandi breytingu á deiliskipulagi útivistarsvæðis í Úlfarsárdal. R06100328
Samþykkt.

13. Samþykkt að kjósa eftirtalda fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn félagsins Miðborg Reykjavíkur frá næsta aðalfundi þess:
Áslaug M. Friðriksdóttir, formaður
Kristín Þorleifsdóttir
Oddný Sturludóttir
R07050002

14. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks varðandi Bitruvirkjun, sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. maí sl. R07100223
Tillagan felld með 6 atkvæðum gegn 1.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokks óskar bókað:

Með því að fella tillögu borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokksins um að stjórn Orkuveitunnar endurskoði ákvörðun sína um að hætta við Bitruvirkjun hefur borgarráð Reykjavíkur lagt blessun sína yfir ákvörðun sem tekin var í fljótfærni og mun kosta Orkuveituna um einn milljarð króna. Tólf ára rannsóknarstarfi starfsmanna er varpað fyrir róða án umræðu og rökstuðnings og fylgt er áliti Skipulagsstofnunar, um mat á umhverfisáhrifum, sem er ekki bindandi fyrir Orkuveitu Reykjavíkur.
Þessi afgreiðsla borgarráðs er synjun á því að unnið verði að atvinnubyggingu fyrir mörg hundruð manns á grundvelli hreinnar endurnýjanlegrar orku og sjálfbærrar þróunar.
Með þessari afgreiðslu gera borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lítið úr orðum forsætisráðherra og formanns sama flokks, en hann hefur sem kunnugt er lýst efasemdum um ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar um að hætta fyrirvaralaust við Bitruvirkjun. Sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa með þessari ákvörðun sinni ákveðið að feta frekar leið borgarstjóra og oddvita F-listans heldur en formanns Sjálfstæðisflokksins.

Borgarráðsfulltrúi Samfylkingar óskar bókað:

Samfylkingin tekur heilshugar undir niðurstöðu stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur. Hún er rökrétt niðurstaða af afdráttarlausu áliti Skipulagsstofnunar og í samræmi við áralanga framsækna stefnu fyrirtækisins á sviði umhverfis- og orkumála hér á landi sem og erlendis. Það er hins vegar furðulegt að meirihlutinn skuli ekki treysta sér til að leggja fram þau ítarlegu gögn sem fyrir liggja í málinu og telji sér til framdráttar að alið sé á óvissu um þær forsendur sem lágu niðurstöðu stjórnar OR til grundvallar.
Sú ákvörðun að fara ekki í frekari rannsóknir á jarðhitasvæðinu við Bitru vegna neikvæðra og óafturkræfra umhverfisáhrifa hugsanlegrar virkjunar þar markar sannarlega tímamót í umhverfismálum. Því fer hins vegar fjarri að hún þýði hægagang í jarðvarmavirkjunum Orkuveitu Reykjavíkur á næstu árum. Orkuveita Reykjavíkur hefur þvert á móti aldrei haft uppi jafn mikil og metnaðarfull áform um virkjun jarðvarma.
Í dag afkasta jarðvarmavirkjanir OR 243 MW sem skiptist þannig að virkjunin á Nesjavöllum afkastar 120 MW og Hellisheiðarvirkjun gefur af sér 123 MW.
Við nýjar virkjanir á Hellisheiði bætast við 90 MW síðar á þessu ári, og svo aftur 90 MW 2010. Á Nesjavöllum er svo til skoðunar að bæta við 45 MW vélasamstæðu. Til viðbótar þessum virkjunum hefur stjórn Orkuveitunnar eins og kunnugt er samþykkt að halda áfram undirbúningi virkjunar í Hverahlíð sem áætluð er 90 MW. Gangi allar þessar áætlanir OR eftir verður raforkuframleiðsla jarðvarmavirkjana fyrirtækisins árið 2012, 558 MW, sem er vel rúmlega tvöfalt það afl sem framleitt er í dag. Auk þessa eru fleiri virkjanakostir á rannsóknarstigi. Því fer þannig víðsfjarri að Orkuveitan sé komin á endastöð í raforkuframleiðslu, þó ekkert verði af Bitruvirkjun.

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Ákvörðun stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 20. maí um að hætta undirbúningsvinnu vegna Bitruvirkjunar og fresta öllum frekari framkvæmdum á svæðinu var tekin með viðhlítandi hætti og greiddu allir stjórnarmenn henni atkvæði sitt. Rétt er að benda á að stöðugar umræður um Bitruvirkjun og virkjanakosti á Hellisheiði hafa átt sér stað innan sem utan stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um hríð. Vitað var hvenær álit Skipulagsstofnunar myndi berast og má því ætla að allir stjórnarmenn hafi verið vel undir það búnir að taka afstöðu til þess á umræddum fundi. Telji borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins að stjórnarmenn í Orkuveitunni hafi tekið umrædda ákvörðun í fljótfærni eða vanrækt skyldur sínar á einhvern hátt er eðlilegt að hann beini skeytum sínum að fulltrúum minnihlutans í stjórn OR, sem eru jafnframt fulltrúar alls minnihlutans í borgarstjórn í stjórn fyrirtækisins og þar með Framsóknarflokksins.
Vegna bókunar Samfylkingarinnar skal tekið fram að farið var ítarlega yfir málið á síðasta fundi borgarráðs en sjálfsagt er að leggja fram öll þau gögn um málið sem einstakir borgarráðsfulltrúar kunna að óska eftir.

Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokks óskar bókað:

Í svari sjálfstæðismanna er ekki gerð nein tilraun til að svara þeim grundvallarspurningum sem lagt er upp með. Að leggja til að borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins beini gagnrýni sinni að fulltrúum minnihlutans er ekkert svar, þar sem lengi hefur legið fyrir að stefna Framsóknarflokksins í orku- og atvinnumálum er ekki sú sama og VG og Samfylkingarinnar. Fyrir liggur að sjálfstæðismenn í Reykjavík hafa ekki enn svarað málefnalegri gagnrýni um sóun verðmæta, fjölda glataðra starfa og misvísandi skilaboða frá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins og formanns sama flokks.

15. Lagt fram bréf ritara framkvæmda- og eignaráðs frá 20. f.m., sbr. samþykkt ráðsins 19. s.m., varðandi stöðu lóðamála og húsbyggjenda í Reykjavík. R08050080

16. Lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. í dag, varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks vegna ummæla framkvæmdastjóra miðborgarmála í fjölmiðlum, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. f.m. R08050033

17. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir tíu veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R08050002

18. Lagðar fram umsagnir skrifstofu borgarstjórnar varðandi umsóknir um rekstrarleyfi fyrir Nýlenduverslun Hemma og Valda, dags. 29. f.m., og þjónustumiðstöð við Skarfabakka, dags. 2. þ.m. R08050002
Samþykkt.

19. Lagt fram svar borgarstjóra frá 2. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks og Samfylkingar varðandi málefni Strætó bs., sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. f.m. R07120008

20. Lagður fram 9. liður fundargerðar borgarráðs frá 30. apríl, sala byggingarréttar á lóð við Njarðargötu/Sturlugötu 8, sem vísað var til borgarráðs á fundi borgarstjórnar 20. f.m. Jafnframt lögð fram bréf Íslenskrar erfðagreiningar ehf. frá 30. apríl og 5., 6. og 19. maí, og bréf S8 ehf. og S10 ehf. og lögmanna þeirra frá 2. og 19. maí og 4. júní. R06050075
Vísað til meðferðar borgarlögmanns.

21. Lagt fram bréf aðalstjórnar Knattspyrnufélagsins Víkings varðandi stækkun á athafnasvæði félagsins, dags. 26. þ.m. R08060004
Vísað til skipulagsráðs, framkvæmda- og eignaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs.

22. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. f.m. í máli nr. E-6639/2007, Jón Sigurðsson og Skúli Magnússon gegn Reykjavíkurborg og Byggingarfélaginu Erus ehf. Jafnframt lagt fram minnisblað borgarlögmanns, dags. í dag. R07090141

23. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra að breytingum á stjórnkerfi og skipuriti Reykjavíkurborgar, dags. 2. júní:

Lagt er til að borgarráð samþykki eftirfarandi breytingar á stjórnkerfi Reykjavíkurborgar í þeim tilgangi að auka skilvirkni, efla þjónustu og styrkja innviði Ráðhússins.
1. Stofnað verði að nýju embætti borgarritara í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. Borgarritari verði sem áður æðsti embættismaður í stjórnkerfinu, að borgarstjóra undanskildum, og fyrsti staðgengill hans. Í því felst að borgarritari hafi í umboði borgarstjóra boðvald gagnvart fagsviðum Reykjavíkurborgar þegar kemur að rekstri Reykjavíkurborgar og eftirfylgd með framkvæmd stefnumála borgaryfirvalda, og hann beri ábyrgð á samhæfingu stjórnsýslunnar allrar. Þá fari borgarritari með samskipti við B-hluta fyrirtæki.
2. Undir borgarritara heyri borgarhagfræðingur, innkaupastjóri, mannauðsstjóri, mannréttindastjóri, þjónustustjóri og forstöðumaður upplýsingatæknimiðstöðvar.
Jafnframt samþykki borgarráð meðfylgjandi skipurit.

Greinargerð fylgir tillögunni. R08060011

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi breytingartillögu:

Í lið 2 í tillögu borgarstjóra falli út orðið mannréttindastjóri.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Vísað til stjórnkerfisnefndar.

24. Lagðar fram umsagnir skrifstofustjóra borgarstjórnar frá 3. þ.m. vegna stjórnsýslukæru rekstraraðila veitingastaðanna Monte Carlo, Laugavegi 34a, og Mónakó, Laugavegi 78. R08030056
Umsagnirnar samþykktar.

25. Lagður fram samstarfssamningur um þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leikskólum og grunnskólum, dags. 22. f.m. R07060103
Borgarráð staðfestir samninginn fyrir sitt leyti.

26. Lagður fram viðauki við samkomulag Reykjavíkurborgar og Háskólans í Reykjavík um uppbyggingu skólans í Vatnsmýri frá 13. febrúar 2007, ódags., ásamt bréfi borgarlögmanns, dags. 3. þ.m. R07020086
Borgarráð staðfestir viðaukann fyrir sitt leyti.

27. Lagt fram minnisblað fjármálastjóra frá 3. þ.m. varðandi tillögu um samræmingu á stefnu varðandi áhættustýringu á lánum sem Reykjavíkurborg ber ábyrgð á. R08010197
Samþykkt.

28. Lagt fram frumvarp að lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg, dags. 28. f.m., ásamt bréfi skrifstofu borgarstjórnar, dags. 3. þ.m. R08060015

29. Lagt fram bréf samgöngustjóra frá 2. þ.m. varðandi umferðarskipulag við Tónlistar- og ráðstefnuhúsið. R07120063
Vísað til umhverfis- og samgönguráðs, skipulagsráðs og stjórnar Faxaflóahafna.

30. Lagt fram bréf Einars Arnar Benediktssonar frá 2. þ.m., þar sem óskað er eftir fjárstuðningi við tónleikahald Bjarkar Guðmundsdóttur og Sigur Rósar í Laugardalnum 28. júní nk. Jafnframt lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:

Lagt er til að borgarráð verði við erindi Einars Arnar Benediktssonar, dags 2. júní 2008 f.h. Bjarkar og Sigur Rósar og að Reykjavíkurborg veiti styrk að fjárhæð 4 m.kr. svo hægt sé að hafa gjaldfrjálsan aðgang að útitónleikum í Laugardal þann 28. júní nk.
Höfuðborgarstofu er falið að annast samningagerð um aðkomu Reykjavíkurborgar og sjá um að tryggja samstarf innan Reykjavíkurborgar um aðstoð við þá þætti framkvæmdarinnar sem tilgreindir eru í erindinu. R08060020

Tillagan samþykkt, fjárveiting komi af liðnum ófyrirséð útgjöld.

Fundi slitið kl. 12.20

Hanna Birna Kristjánsdóttir

Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Kjartan Magnússon Ólafur F. Magnússon
Óskar Bergsson Þorleifur Gunnlaugsson