Borgarráð - Fundur nr. 5028

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2008, fimmtudaginn 22. maí, var haldinn 5028. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 9. apríl. R08010006

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 7. maí. R08010008

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 16. apríl. R08010010

4. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 20. maí. R08010017

5. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 21. maí. R08010024
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

6. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 16. maí. R08010026

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 9. maí. R08010028

8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. R08040112

9. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 15. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 14. s.m., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi á athafnasvæði A3 á Hólmsheiði. R07080076
Samþykkt

Bókun borgarráðs:

Borgarráð fagnar þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir í tillögu um skipulag athafnasvæðis við Hólmsheiði. Tillagan er nú lögum samkvæmt send aftur í auglýsingu, en hún hefur tekið verulegum breytingum með hliðsjón af athugasemdum Skógræktar Reykjavíkur. Borgarráð fagnar þeim breytingum og telur að með þeim sé vel komið til móts við sjónarmið skógræktar og græns svæðis í nábýli við athafnasvæðið.

10. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 15. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 14. s.m., um auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi settjarnar við Suðurlandsveg. R08050067
Samþykkt.

11. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 8. þ.m. varðandi undanþágu frá bílastæðakröfu við Hestháls 2-4. R08050050
Samþykkt.

12. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 8. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 7. s.m., varðandi heimild til beitingar dagsekta vegna tafa við byggingarframkvæmdir á lóð nr. 95 við Ólafsgeisla. R08050051
Samþykkt.

13. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 14. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs s.d., um tillögur að tilfærslum innan fjárhagsáætlunar velferðarsviðs. R08050070
Samþykkt.

14. Lögð fram skýrsla samráðshóps um forvarnir gegn spilakössum og spilasölum, dags. 8. apríl sl., ásamt bréfi sviðsstjóra velferðarsviðs frá 16. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 14. s.m. R07040111
Skipulagsþætti tillagna í skýrslunni vísað til skoðunar skipulagsráðs.

15. Lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 15. þ.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 14. s.m., um gerð þjónustusamninga til þriggja ára við Stígamót, Vímulausa æsku og MS-félagið. R08050073
Samþykkt.

16. Lögð fram samþykkt hverfisráðs Breiðholts varðandi félagsstarf eldri borgara í Gerðubergi frá 7. þ.m. Jafnframt lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 15. s.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 14. s.m. R08050071
Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálaráðs og velferðarráðs.

17. Lögð fram bréf fræðslustjóra frá 16. þ.m., sbr. samþykkt menntaráðs 28. f.m., þar sem óskað er eftir samtals 6 mkr. viðbótarfjárveitingu á þessu ári vegna tilraunatónlistarkennslu í Grafarholti og Norðlingaholti. R08050077
Samþykkt. Komi af liðnum ófyrirséð útgjöld.

18. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 16. þ.m., sbr. samþykkt menntaráðs 28. f.m., varðandi breytingar á reglum um styrkveitingar vegna fasteignaskatta og atvinnulóðarleigu til einkarekinna skóla. R07030027
Vísað til umsagnar fjármálastjóra.

19. Lagt fram bréf fræðslustjóra frá 16. þ.m., sbr. samþykkt menntaráðs 7. f.m., varðandi eins árs framlengingu á þjónustusamningum við tónlistarskóla o.fl. R04050109
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska bókað:

Minnihluti borgarráðs telur brýnt að bæta starfsumhverfi tónlistarskóla og að samkeppnissjónarmið, fagleg sjónarmið og hagsmunir tónlistarnema verði forsenda fyrir gerð þjónustusamninga í framtíðinni. Reglur um þjónustusamninga þurfa að verða skýrari og marka þarf stefnu til framtíðar. Þá er mikilvægt að bæði nýliðun og fjölbreytileiki í tónlistarnámi og kennslu verði tryggð.
Athygli vekur að meirihlutinn byggir málflutning sinn á yfirlýsingu menntamálaráðherra um að ríkið taki á sig kostnað vegna kennslu á framhaldsstigi og þar með verði áratuga deila leyst. Slík yfirlýsing hefur þó hvergi komið fram sem formleg viðurkenning og því verður ekki séð að nokkuð sé fast í hendi. Fulltrúar minnihluta borgarráðs skora á Sjálfstæðisflokk, sem hefur völdin í menntamálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti og menntaráði Reykjavíkurborgar að leysa þessa deilu sem allra fyrst í stað þess að ýta vandanum á undan sér. Ekki er ljóst hvort og hvernig það fjármagn sem hingað til hefur farið til framhaldsstigsins, mun nýtast grunn- og miðstigi tónlistarnáms. Ekki er ljóst hvernig meirihluti menntaráðs hyggst endurskoða reglur þjónustusamninga og marka sér stefnu til framtíðar í tónlistarfræðslu. Það er forsenda útboðs.
Í ljósi þess að lögfræðingar Ráðhússins telja að framlenging samninganna án útboðs standist lög, er minnihlutinn ekki andvígur tillögu meirihlutans, en af ofangreindum ástæðum sitja fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna og Framsóknarflokks hjá.

20. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Félagsbústaða hf. frá 16. þ.m. varðandi heimild til hækkunar leigu á húsnæði félagsins. R08050079
Vísað til umsagnar velferðarráðs.

21. Lögð fram umsögn umhverfis- og samgöngusviðs frá 13. þ.m. vegna erindis foreldra leik- og grunnskólabarna í Árbænum frá 10. mars sl. varðandi hraðakstur á Selásbraut. R04050115

22. Lögð fram tillaga að nýrri gjaldskrá fyrir sorphirðu í Reykjavík, ásamt greinargerð skrifstofustjóra neyslu og úrgangs, dags. 25. f.m. Jafnframt lagt fram bréf skrifstofustjóra umhverfis- og samgöngusviðs frá 13. þ.m., sbr. samþykkt umhverfis og samgönguráðs 30. f.m. R08050062
Samþykkt.

23. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir 5 veitinga- og gististaða, sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R08050002

24. Lagt fram bréf ritara framkvæmda- og eignaráðs frá 19. þ.m., sbr. samþykkt ráðsins s.d., varðandi kaup á fasteigninni að Lækjargötu 2, ásamt bréfi aðstoðarsviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs, dags. 15. þ.m. og drögum að kaupsamningi, ódags.
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum. R08040095

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Því er fagnað að niðurstaða er nú loks fengin í það söluferli sem staðið hefur í nokkurn tíma um Lækjargötu 2. Kaupin eru afar mikilvæg og í raun nauðsynleg til að tryggja að hægt verður að vinna að uppbyggingu á þessum mikilvæga reit með öflugum og skjótum hætti. Lækjargata 2 er algjört lykilhús á þessu svæði og með kaupunum er tryggt að hægt er að hefja endurbætur við húsið fljótt og örugglega.
Nú er í auglýsingu deiliskipulag fyrir þetta mikilvæga miðborgarsvæði, sem byggist á hugmyndaleit sem fram fór vegna svæðisins í kjölfar brunans. Mjög góð samstaða náðist um vinningstillöguna í þeirri hugmyndaleit sem tekur gott mið af verndun sögufrægra bygginga og uppbyggingu til eflingar fyrir Kvosina.
Pósthússtrætisreiturinn afmarkast af Pósthússtræti, Skólabrú, Lækjargötu og Austurstræti. Hér er um að ræða einn elsta hluta Kvosarinnar. Mörg hús á þessum reit hafa mikið menningar- og byggingarsögulegt gildi. Hér er átt við hús eins og t.d. Apótekið og Hótel Borg, sem teiknuð eru af Guðjóni Samúelssyni, auk þess sem reiturinn hafði að geyma eina elstu götumynd borgarinnar, Austurstræti 20-22 og Lækjargötu 2, en tvö síðarnefndu húsin brunnu síðasta vetrardag, 18. apríl 2007.
Markmið deiliskipulagsins er að sýna byggingararfinum þann sóma sem honum ber en aðlaga húsin jafnframt að nútímaþörfum eins og hægt er. Miðað er við að gömlu húsin verði færð til eldra horfs eða lagfærð. Miklar kröfur eru gerðar til hönnunar og um frágang. Einnig er gert ráð fyrir því að Nýja Bíó verði endurreist á svipuðum stað og það áður stóð.
Kaupin á Lækjargötu 2 eru ein af lykilforsendum þess að þetta metnaðarfulla skipulag fái farsæla afgreiðslu og niðurstöðu.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska bókað:

Það verð sem nú er lagt til að greitt verði fyrir byggingarétt á Lækjargötu 2 er hærra en verðið á Austurstræti 22 sem keypt var fyrir örfáum mánuðum. Miðað við það verð sem greitt er fyrir byggingarétt nú á Lækjargötu 2 og við Austurstræti 22 er ljóst að fyrir Laugaveg 4-6, var greitt mjög hátt verð. Kaupin þá voru ein forsenda myndunar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. Magnússonar. Eindregnar yfirlýsingar um að húsin skyldi kaupa áður en samkomulag náðist við seljendur höfðu án efa áhrif á verðið. Leiða má að því líkur að þessi framganga hafi verulega skert samningsstöðu borgarinnar sem kristallast í því háa verði sem þá var greitt. Nú virðist jafnframt orðið ljóst að framgangan í Laugavegsmálinu hafi haft víðtækari áhrif til hækkunar ef marka má það verð sem nú er greitt fyrir Lækjargötu 2.

25. Lögð fram umsögn samgöngustjóra frá 14. þ.m. um tillögu til þingsályktunar um viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun 2007-2010. R06030005
Samþykkt.

26. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 19. þ.m. varðandi breytingu á skilmálum um úthlutun íbúðarhúsalóða. R08050080
Samþykkt.

27. Lagður fram ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2007 ásamt endurskoðunarskýrslu PricewaterhouseCoopers, dags. í maí 2008. Jafnframt lögð fram skýrsla fjármálaskrifstofu um reikninginn, dags. 16. þ.m. R08010197

28. Lagt fram minnisblað fjármálastjóra til borgarstjóra frá 19. þ.m. varðandi ferðakostnað kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg. R05110132

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska bókað:

Þakkað er fyrir ítarleg gögn um ferðakostnað borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa á árunum 2005-2008. Þau draga fram að allir aðal- og varaborgarfulltrúar hafa litið á það sem hluta af sínum starfsskyldum að sækja þekkingu út fyrir landssteinana, nema einn. Þá er jafnframt mikilvæg sú yfirlýsing borgarstjóra að við þessa ítarlegu skoðun hafi ekkert óeðlilegt komið í ljós.

Borgarstjóri óskar bókað:

Umræða um ráðningu og kjör nýs miðborgarstjóra hefur verið villandi og ómálefnaleg. Vegna óviðunandi ástands í Miðborg Reykjavíkur þurfti að bregðast skjótt við og ráða í nýja stöðu miðborgarstjóra strax í vor, í stað þess að bíða vikum saman á meðan auglýsingaferli stæði yfir. Því var ákveðið að ráða tímabundið í stöðu miðborgarstjóra án auglýsingar og var það gert í fullu samráði við embættismenn borgarinnar. Rætt var við Kristínu Einarsdóttur sem var miðborgarstjóri í tíð R-listans og fleiri aðila áður en rætt var við nýráðinn miðborgarstjóra. Það sýnir hversu fráleitar fullyrðingar minnihlutans í borgarstjórn eru að um pólitíska ráðningu sé að ræða. Það liggur fyrir að fyrrum miðborgarstjóri í tíð R-listans hafði sömu laun og hinn nýráðni miðborgarstjóri eða kr. 710.000. Nýráðinn miðborgarstjóri fær ekki önnur laun enda sagði hann sig frá nefndarstörfum í sömu viku og hann hóf störf.
Yfirstandandi er úttekt á launagreiðslum ásamt ferða- og dagpeningakostnaði hjá Reykjavíkurborg. Hæstu greidd laun um sl. mánaðamót fékk einn borgarfulltrúi minnihlutans. Því hefur hins vegar verið haldið fram að nýráðinn miðborgarstjóri hefði hærri laun en borgarfulltrúar minnihlutans og að hann væri í hópi launahæstu starfsmanna borgarinnar.
Þetta er fráleit fullyrðing í ljósi framansagðs og þeirrar staðreyndar að hátt í fimmtíu starfsmenn borgarinnar höfðu hærri laun en kr. 710.000 um síðustu mánaðarmót.
Þá eru ekki meðtaldir starfsmenn fyrirtækja borgarinnar.
Borgarfulltrúi minnihlutans er einnig með hæsta ferða- og dagpeningakostnað hjá borginni undanfarin 3 ár.
Borgarstjóri vill standa fyrir opinni og lýðræðislegri stjórnsýslu og að launamál og ferðakostnaður hjá borginni og fyrirtækjum hennar sé uppi á borðinu og gegnsær. Borgarstjóri hefur allt að vinna og ekkert að fela í þeim efnum og leggur áherslu á að önnur fyrirtæki í almannaeigu hafi sín launa- og ráðningamál, sem og ferða- og dagpengingamál, opin og aðgengileg.

Fundi slitið kl. 11.30

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Kjartan Magnússon
Óskar Bergsson Svandís Svavarsdóttir