Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2008, fimmtudaginn 15. maí, var haldinn 5027. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.35. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 30. apríl. R08030050
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 8. maí. R08010014
3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 9. maí. R08010016
4. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 13. maí. R08010017
5. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 14. maí. R08010024
6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R08040112
7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 8. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs 7. s.m., varðandi breytingu á deililskipulagi Fálkagötureits, reitir 1.553.0, 1.553.1, 1.553.2 og 1.554.2. R07110183
Samþykkt.
8. Lagt fram skipurit umhverfis- og samgöngusviðs ásamt bréfi sviðsstýru, dags. 7. þ.m.
Samþykkt. R08050039
9. Lögð fram drög að vinnureglum vegna fjárnáms- og nauðungarsölubeiðna á lóðum án lóðarleigusamninga, ódags., ásamt bréfum skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs, dags. 3. f.m., og ritara framkvæmda- og eignaráðs, dags. 6. þ.m., sbr. samþykkt ráðsins 28. f.m. R08050028
Samþykkt.
10. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 8. þ.m. varðandi breytingu á skilmálum vegna bílskúrs á torglóð Brekkubæjar. R08050046
Samþykkt.
11. Lögð fram umsögn borgarlögmanns frá 9. þ.m. varðandi umsókn um flutning lyfjabúðar frá Þönglabakka 1 að Álfabakka 14. R08050031
Samþykkt.
12. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. 13. þ.m., yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir 10 veitinga- og gististaða, sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R08050002
13. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra KR frá 9. þ.m. varðandi breytingar og umbætur á æfingasvæði við Starhaga. R08050048
Vísað til íþrótta- og tómstundaráðs, umhverfis- og samgönguráðs og skipulagsráðs.
14. Lögð fram umsögn lögfræðings velferðarsviðs frá 9. þ.m. um þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda, sbr. bréf félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 22. f.m. R08040120
Samþykkt að fela borgarlögmanni að veita umsögn með vísan til umsagnar lögfræðings velferðarsviðs.
15. Lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E3326/2007, Þorsteinn H. Kúld gegn Reykjavíkurborg. R07050054
16. Lagðar eru til eftirfarandi breytingar á skipan í nefndir og ráð:
Rósa Kristín Stefánsdóttir taki sæti Jórunnar Frímannsdóttur í hverfisráði Laugardals, varamaður í stað Rósu Kristínar verði Sólveig Halldórsdóttir.
Kristján Guðmundsson taki sæti Jórunnar Frímannsdóttur í skipulagsráði.
Júlíus Vífill Ingvarsson taki sæti Kristjáns Guðmundssonar í framkvæmda- og eignaráði.
Benedikt Geirsson taki sæti Mörtu Guðjónsdóttur í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar og gegni þar jafnframt formennsku.
Vilhjálmur Andri Kjartansson taki sæti Benedikts Geirssonar í innkauparáði.
Kristín Þorleifsdóttir taki sæti Jakobs Frímanns Magnússonar í menningar- og ferðamálaráði.
Halla Bergþóra Pálmadóttir taki sæti Jakobs Frímanns Magnússonar í hverfisráði Miðborgar. R08010168
Vísað til borgarstjórnar.
17. Lagt fram bréf fjármálastjóra varðandi greiðslu tafabóta vegna framkvæmdar samnings Reykjavíkurborgar, Knattspyrnufélagsins Vals og Valsmanna hf. um Hlíðarendasvæðið. R05060067
18. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar yfir styrkumsóknir sem borist hafa borgarráði, dags. 9. þ.m. R08010032
Samþykkt að veita styrki sem hér segir:
Atli Heimir Sveinsson, 450 þkr. vegna afmælistónleika.
Félag um foreldrajafnrétti, 500 þkr. til uppbyggingar á aðstöðu.
Pólýfónfélagið, 400 þkr. til hljóðvinnslu á gömlum upptökum.
Þorgerður Ragnarsdóttir, 250 þkr. til framhaldsrannsóknar á áhrifum breytts afgreiðslutíma áfengisveitingastaða í Reykjavík.
Jet ehf., 1 mkr. vegna alþjóðlegs knattspyrnumóts fyrir lengra komna.
19. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 14. þ.m. varðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks um stjórnarfund Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. apríl sl. R07100293
Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks óska bókað:
Staðfest er að meirihlutinn í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fór ekki með tillögu um framtíð REI með réttum hætti með því að leggja hana fyrir stjórnina. Fulltrúar minnihlutans gerðu athugasemdir við að tillagan væri ekki í samræmi við samþykktir eigendafundar í bókun á stjórnarfundi. Borgarlögmaður staðfestir nú þann skilning minnihlutans að tillögu af þessu tagi beri að afgreiða á vettvangi eigendafundar. Það er mikilvægt að stjórnarformaður geri sér vel grein fyrir þeim lagaramma sem Orkuveita Reykjavíkur starfar innan og þekki samþykktir og reglur fyrirtækisins.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Rétt er að vekja athygli minnihlutans á því að allar tillögur, sem afgreiða þarf á eigendafundi Orkuveitu Reykjavíkur, þarf fyrst að fjalla um á fundi stjórnar fyrirtækisins. Því er eðlilegt að tillögur af þessu tagi séu fyrst teknar til umfjöllunar á stjórnarfundi Orkuveitunnar og síðan vísað til eigendafundar. Eins og fram kemur í svari borgarlögmanns er það í fullu samræmi við hlutverk og skyldur stjórnar Orkuveitunnar að beina tillögum til eigendafunda, sem varða hagsmuni fyrirtækisins og kalla á nýjar samþykktir eigendafundar.
20. Formaður borgarráðs gerir grein fyrir viðræðum sem fram hafa farið við forsvarsmenn UMFÍ vegna lóðarinnar að Tryggvagötu 13. R08050037
21. Lögð fram svör borgarstjóra, dags. 14. þ.m., við fyrirspurnum borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks um ráðningu verkefnisstjóra Miðborgar, launakjör starfsmanna og stjórnkerfi Reykjavíkurborgar, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 8. þ.m. R08050033
Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Jakob Frímann Magnússon nýráðinn framkvæmdastjóri miðborgarmála fjallaði um borgarmál í umræðuþáttunum Vikulokunum 10. maí og Mannamáli 11. maí. Ummæli embættismannsins gefa tilefni til þess að óska eftir áliti borgarlögmanns á því hvort hann geti sinnt sínum störfum eðlilega í þágu borgarstjórnar í ljósi þess að hann hefur lýst yfir afgerandi skoðun á tilteknum borgarfulltrúa. Er þar vísað í ummæli embættismannsins í Mannamáli sunnudaginn 11. maí. Einnig er spurt hvort ummæli sama embættismanns í þeim þætti og Vikulokunum 10. maí kunni að varða með einhverjum hætti reglur um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar. Vísað er sérstaklega í áminningarkafla í reglunum en jafnframt 3. grein stjórnsýslulaganna um vanhæfi. Umrædd ummæli eru meðfylgjandi.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks o gVinstri grænna óska bókað:
Í svari borgarstjóra vegna fyrirspurnar um hversu margir yfirmenn í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar heyra beint undir borgarstjóra kemur fram að 20 æðstu yfirmenn borgarinnar heyra beint undir borgarstjóra. Því til viðbótar situr borgarstjóri í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. B-hluta fyrirtækin eru 10 og er borgarstjóri yfir þeim stjórnum sem þeim stýra. Þetta vekur upp spurningar um skilvirkni stjórnkerfis Reykjavíkurborgar þegar í ljós kemur að um 20 meginstjórnendur heyra beint undir borgarstjóra auk þess sem B-hlutafyrirtæki og aðrar stjórnarathafnir þurfa að njóta starfskrafta borgarstjórans?
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska bókað:
Svör borgarstjóra hrekja það í engu að ráðning framkvæmdastjóra Miðborgar var pólitísk ráðning á sérkjörum.
Því er mótmælt að Miðborg Reykjavíkur hafi hnignað á undanförnum árum. Þvert á móti voru öll verslunarpláss við Laugaveg í fullum rekstri fyrir síðustu jól auk þess sem Skólavörðustígur og hliðargötur hafa blómstrað. Þá eru í undirbúningi stærstu uppbyggingarverkefni sögunnar í Miðborginni og nægir þar að nefna Tónlistar- og ráðstefnuhús, verslunarkjarna á Barónsreit og húsnæði Listaháskóla Íslands á Vegas-reit en samningar um tvö síðastnefndu málin náðust í tíð hundrað daga meirihlutans, eins og kunnugt er.
Skipulag og uppbygging við Laugaveg var hins vegar sett í uppnám með kaupum á Laugavegi 4 og 6 og óljósum yfirlýsingum og stefnu varðandi uppbyggingu meirihlutans á öðrum reitum. Afraksturinn hefur verið sá að fjöldi verslunarplássa stendur nú auður í óvissu. Óvissa er það versta sem fyrir Miðborgin hefur komið og henni þarf að eyða. Áhuginn á Miðborginni virtist ekki vakna fyrr en minnihlutinn benti á með blaðamannafundi að ítarleg skýrsla með tillögum um miðborgarmál hafði legið óhreyfð á borðum meirihlutans mánuðum saman.
Vandinn sem vísað er til vegna ráðningarinnar er því að ýmsu leyti heimatilbúinn. Þá er ljóst að nýráðinn framkvæmdastjóri Miðborgarinnar sem ráðinn var af borgarstjóra án auglýsingar hefur kosið að taka sér hlutverk pólitísks talsmanns borgarstjóra fremur en faglegs embættismanns sem allir borgarfulltrúar eiga að geta treyst. Svör borgarstjóra undirstrika að viðkomandi starfsmaður er ráðinn inn á launum sem eru mun hærri en sambærilegra verkefnisstjóra hjá Reykjavíkurborg sem eru á bilinu 322-453 þúsund krónur sem og annarra sérfræðinga á skrifstofu borgarstjóra sem hafa meðallaun 458 þúsund krónur. Raunar eru kjör hins nýja starfsmanns umtalsvert hærri en skólastjóra, leikskólastjóra og framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðva í hverfum borgarinnar sem fara með umfangsmikinn rekstur og mannaforráð en það gerir framkvæmdastjóri Miðborgarinnar ekki. Að þessu leyti blasir jafnframt við að starfið er ekki sambærilegt við starf miðborgarstjóra sem lagt var niður árið 2005 enda bar miðborgarstjóri fjárhagslega ábyrgð og fór með viðameiri verkefni, eins og samanburður starfslýsinga ber ljóslega með sér. Því er fagnað að viðurkennt er að áframhaldandi seta viðkomandi starfsmanns í menningar- og ferðamálaráði og hverfisráði Miðborgar geti valdið hagsmunaárekstrum og að hann hafi sagt af sér þeim störfum.
Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Í bókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks eru rangfærslur sem þarfnast leiðréttingar.
Árið 2005 voru laun miðborgarstjóra hin sömu og aðstoðarmanns borgarstjóra en verða nú nokkru lægri.
Ráðning framkvæmdastjóra miðborgarmála var hvorki pólitísk né á sérkjörum. Það liggur fyrir að fyrrum miðborgastjóra í tíð R-listans, Kristínu Einarsdóttur, var boðið að taka að sér starf framkvæmdastjóra miðborgarmála áður en leitað var til Jakobs F. Magnússonar. Sú staðreynd vitnar um að ekki var um pólitíska ráðningu að ræða. Fyrrum miðborgarstjóri var á sömu launum og aðstoðarmaður borgarstjóra árið 2005. Nýr miðborgarstjóri er á sömu launum og framreiknuð laun fyrrum miðborgarstjóra.
Það er gróf rangfærsla að starf nýráðins framkvæmdastjóra miðborgarmála sé sambærilegt við áðurnefnda verkefnisstjóra eins og kemur skýrt fram í svörum við fyrirspurnum minnihlutans. Starf nýráðins framkvæmdastjóra miðborgarmála er fyllilega sambærilegt við starf fyrrum miðborgarstjóra í tíð R-listans og kjörin sambærileg. Ótrúlegt er að sjá slíkar staðhæfingar koma frá þeim stjórnmálaflokkum sem búið hafa til fjölda hátekjustarfa hjá borginni á liðnum árum. Tugir starfa hjá borginni eru miklu hærra launuð en starf framkvæmdastjóra miðborgarmála.
Nýráðinn framkvæmdastjóri miðborgarmála hefur sagt af sér nefndarstörfum til að taka af allan vafa í því sambandi þó að ekki liggi fyrir formlegt álit að um hagsmunaárekstra sé að ræða. Því hefur þegar verið svarað af hverju staðan var ekki auglýst og fullt samráð var haft við embættismenn borgarinnar í ráðningarferlinu.
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska bókað:
Ekki þýðir að elta ólar við veika málsvörn í þessu máli. Það er þó furðulegt að tala um að tilteknir stjórnmálaflokkar hafi búið til hálaunastörf hjá Reykjavíkurborg. Æðstu embættismenn heyra undir kjaranefnd sem tekur mið af sambærilegum störfum hjá ríkinu. Hvorki þeir né stjórnmálamenn fjalla því um þeirra laun. Það gilti hins vegar um launin sem nýjum framkvæmdastjóra Miðborgar voru skömmtuð. Frá því getur borgarstjóri ekki hlaupist.
Borgarstjóri óskar bókað:
Fullyrðingar borgarráðsfulltrúa minnihlutans um að borgarstjóri hafi komið að launamálum nýráðins framkvæmdastjóra miðborgarmála eru fráleitar. Ráðning hans fór fram eftir leikreglum hjá Reykjavíkurborg og var séð um hana hjá skrifstofu borgarstjóra og mannauðsstjóra. Launin voru ákvörðuð af embættismönnum en ekki borgarstjóra.
Fundi slitið kl. 11.10
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Kjartan Magnússon
Óskar Bergsson Svandís Svavarsdóttir