Borgarráð - Fundur nr. 5025

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2008, miðvikudaginn 30. apríl, var haldinn 5025. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.45. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Jórunn Frímannsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 23. apríl. R08010014

2. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 22. apríl. R08010017

3. Lögð fram fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 18. apríl. R08020092

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska eftir formlegu áliti borgarlögmanns á því hvort tillaga Kjartans Magnússonar, Ástu Þorleifsdóttur og Júlíusar Vífils Ingvarssonar um REI sem lögð var fram á síðasta fundi Orkuveitu Reykjavíkur eigi ekki að vera á verksviði eigendafundar þar sem tillagan felur í sér eðlisbreytingu frá samþykktum síðasta eigendafundar.

4. Lagt fram minnisblað mannauðsstjóra varðandi meginefni nýs kjarasamnings launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands, dags. í dag. R08040140

5. Lögð fram drög að samningi Reykjavíkurborgar og Knattspyrnufélagsins Fram um uppbyggingu íþróttamannvirkja á íþróttasvæði félagsins í Úlfarsárdal, ásamt bréfi framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 29. þ.m. Jafnframt lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 25. s.m. R04020155
Borgarráð staðfestir samninginn fyrir sitt leyti.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:

Fulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna fagna því að verið sé að ganga til samninga við Fram um uppbyggingu íþróttamannvirkja fyrir Úlfarsárdal og Grafarholt. Samningurinn er byggður á viljayfirlýsingu frá því í mars 2004 og því hafa tildrög hans legið fyrir frá þeim tíma. Það sem hins vegar varpar skugga á þennan ánægjulega atburð er að ekki hefur verið gert ráð fyrir fjármunum til þessara framkvæmda í þriggja ára áætlun Reykjavíkurborgar, sem samþykkt var í febrúar sl. Á þeim tíma bentu fulltrúar minnihlutans á að verið væri að skera niður fjármagn til íþróttamannvirkja en meirihlutinn gerði ekkert með þær ábendingar og sakaði fulltrúa minnihlutans um ósannindi. Engu að síður var það staðfest að niðurskurður til íþróttamannvirkja er staðreynd. Nú er meirihlutinn að undirrita samninga um uppbyggingu íþróttamannvirkja langt umfram þær fjárheimildir sem eru fyrir hendi og samþykktar voru af þeim sjálfum fyrir tæpum þremur mánuðum. Þriggja ára áætlun meirihluta Sjálfstæðisflokks og F-lista dæmir sig nú sjálf úr leik því hún nær því ekki að verða þriggja mánaða gömul, þegar forsendur hennar bresta.
Að því tilefni vakna upp spurningar hvort taka þarf upp þriggja ára áætlun borgarinnar, þar sem ljóst er að höfundar hennar, meirihluti Borgarstjórnar Reykjavíkur, ætlar ekki að vinna samkvæmt henni.

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir ánægju sinni með framlagðan samning milli Reykjavíkurborgar og Knattspyrnufélagsins Fram. Samkvæmt samningnum verður ráðist í viðamikla uppbyggingu íþróttamannvirkja í nýjum og ört vaxandi hverfum borgarinnar, Grafarholti og Úlfarsárdal. Ánægjulegt er að þannig takist í verulegum mæli að byggja íþróttamannvirki samhliða uppbyggingu í viðkomandi hverfum, a.m.k. hvað varðar Úlfarsárdal. Samningurinn felur í sér byggingu íþróttahúss, lagningu gervigrasvallar, keppnisvallar, grasæfingasvæða auk annarrar aðstöðu.
Rétt er að fram komi að þriggja ára áætlun er stefnumótandi áætlun og í henni felast ekki beinar fjárskuldbindingar. Þegar málið er skoðað í heild sinni, kemur fram að útgjöld vegna samningsins skiptast á sjö ár og Reykjavíkurborg fær veruleg verðmæti á móti fjárframlögum sínum vegna uppbyggingar í Úlfarsárdal. Þannig eignast Reykjavíkurborg t.d. núverandi fasteignir og lóðir Fram við Safamýri og fær þannig veruleg verðmæti á móti fjárframlögum. Þá mun nýtt íþróttahús Fram nýtast grunnskólastarfi í Úlfarsárdal og með þeim hætti sparast verulegir fjármunir, sem ella færu í stofnframkvæmdir við skólaíþróttahús. Áætlað er að sá sparnaður gæti numið 380 milljónum króna. Með þessum samningi við Fram er komin farsæl niðurstaða í mál, sem unnið hefur verið að árum saman, og geta báðir viðsemjendur vel við unað. Harmað er að fulltrúar Framsóknarflokksins, Samfylkingar og Vinstri grænna skuli nú reyna að gera slíka niðurstöðu tortryggilega.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:

Það er merkileg yfirlýsing að meirihlutinn skuli ekki líta á þriggja ára áætlun sem beina fjárskuldbindingu fyrir borgarsjóð og að stefnumótandi áætlun um fjármál sé eitthvað annað en fjárhagsáætlun. Það segir meira en mörg orð um getu meirihlutans í umsýslu almannafjár. Þar sem meirihlutinn gerir því skóna, að minnihlutinn sé að gera samninginn við Fram tortryggilegan er rétt að ítreka það sem kemur fram í fyrri bókun að samningnum er fagnað. Hér er einfaldlega bent á að þriggja ára fjárhagsáætlun meirihlutans er fallin um sjálfa sig eftir aðeins þrjá mánuði.

6. Lagt fram svohljóðandi svar borgarstjóra við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks um starf mannréttindastjóra, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. apríl:

Meirihluti Borgarstjórnar Reykjavíkur leggur áherslu á ábyrgð Reykjavíkurborgar sem stjórnvalds, atvinnurekanda, veitanda þjónustunnar og samstarfsaðila gagnvart jöfnum rétti íbúa í víðum skilningi.
Fyrirhugaðar skipulagsbreytingar borgaryfirvalda á sviði mannréttindamála miða ekki að því að draga úr áherslu borgaryfirvalda á mannréttindi eins og látið er í veðri vaka í fyrirspurn minnihlutans. Þvert á móti verður með ráðningu þess sem vinnur að mannréttindamálum á skrifstofu borgarstjóra stuðlað að markvissara starfi í þágu íbúa í borginni – meðal annars með nánu samstarfi við aðra sérfræðinga á skrifstofu borgarstjóra, mannauðsskrifstofu, velferðarsviði, menntasviði, leikskólasviði, íþrótta- og tómstundasviði og menningar- og ferðamálasviði.
Með fyrirhugaðri staðsetningu málefna mannréttinda á skrifstofu borgarstjóra er stuðlað að því að ætíð sé tekið sérstakt mið af mannréttindum við ákvarðanatöku borgaryfirvalda. Sá sem stýrir starfi mannréttindamála á skrifstofu borgarstjóra mun leiða starf mannréttindafulltrúa á öllum fagsviðunum. Starfið verður auglýst laust til umsóknar á næstunni.
Það er hins vegar alvarlegt umhugsunarefni að í tíð fráfarandi meirihluta var enginn starfsmaður á mannréttindaskrifstofu í heilan mánuð. Skrifstofu sem þáverandi meirihluti vildi þenja út í stórt svið hjá borginni með tugmilljóna króna rekstrarkostnaði, sem aðallega skyldi felast í mannaráðningum í pólitískri yfirbyggingu í stjórnkerfinu, ásamt verkefnum tengdum sérstökum áhugamálum fyrrverandi formanns mannréttindaráðs. Að mati borgarstjóra var þar um óvönduð vinnubrögð og vafasama ráðstöfun fjármuna að ræða á kostnað borgarbúa og þeirrar þjónustu sem borgin telur sig skuldbundna til að veita öllum borgarbúum.
Með fyrirhuguðum skipulagsbreytingum hyggst núverandi meirihluti veita fjármunum í mannréttinda- og velferðarmálum til borgarbúa en ekki til útþenslu stjórnkerfisins. Því er sérstaklega vísað á bug að meirihlutinn beri mannréttindi síður fyrir brjósti en minnihlutinn þó sumir í minnihlutanum virðist líta á sig sem sjálfskipaða talsmenn mannréttindamála í Reykjavík. R06060195

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks óska bókað:

Borgarstjóri lýsir með svari sínu fádæma mannfyrirlitningu þar sem hann beinir sérstaklega spjótum sínum að persónu fyrrverandi formanns mannréttindaráðs og dylgjar um að til hafi staðið að veita fé samkvæmt áhugamálum formannsins og þar með ekki á faglegum forsendum. Borgarstjóri hefur ítrekað gerst sekur um vanþekkingu á málaflokknum, dylgjur og ómálefnalegan málflutning en nú tekur steininn úr.
Í svarinu liggur fyrir að til stendur að nýta ekki þegar samþykkt fjárframlag til málaflokksins sem borgarstjóri sjálfur stóð að. Fyrir hafði legið að styrkja mannréttindamál borgarinnar með því að ráða fólk til starfanna en hér kemur fram að borgarstjóri vill leggja málaflokkinn niður og koma málunum fyrir í einni skúffu á eigin skrifstofu. Næst á dagskrá hlýtur að vera að mannréttindastefna borgarinnar fari á dagskrá í heild og meirihluti Sjálfstæðisflokksins stígi skrefið til fulls og hafni stefnunni í núverandi mynd.
Hundrað daga meirihlutinn samanstóð af mörgum einstaklingum, sem voru sammála um að vinna faglega að málaflokknum og byggja á samþykktri mannréttindastefnu borgarinnar. Borgarstjóri átti aðild að þeim meirihluta en talaði ekki samkvæmt sinni sannfæringu þá.
Borgarstjóra til upplýsingar snúast mannréttindamál hvorki um persónuleg áhugamál einstaklinga né óbeit hans sjálfs á málaflokknum eða þeim persónum sem um ræðir. Reykjavíkurborg er illa sett með borgarstjóra sem ítrekað leggst svo lágt í sínum málflutningi.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Ótrúlega rætin bókun borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks er framhald þeirrar vanstilltu umræðu sem fram hefur farið í fjölmiðlum undanfarna daga um mannréttindamál og ábyrga og yfirvegaða stefnu meirihluta borgarstjórnar í málaflokknum. Í fjölmiðlaumræðunni og greinaskrifum hefur verið farið langt yfir velsæmismörk og ummæli fyrrverandi formanns mannréttindaráðs í garð borgarstjóra eru honum til lítils sóma. Pólitískur þroski borgarfulltrúa sem lýsa því yfir að borgarstjóri hafi óbeit á manréttindamálum er verulega dreginn í efa og ekki hægt með nokkru móti að elta ólar við slíkar upphrópanir.
Fyrirhugaðar skipulagsbreytingar borgaryfirvalda á sviði mannréttindamála miða ekki að því að draga úr áherslu á mannréttindi eins og minnihlutinn lætur í veðri vaka. Þvert á móti verður stuðlað að markvissara starfi á sviði mannréttindamála í þágu Reykvíkinga, m.a. með nánu samstarfi við aðra sérfræðinga á skrifstofu borgarstjóra, mannauðsskrifstofu og mannréttindafulltrúa á hinum ýmsu fagsviðum borgarinnar. Núverandi meirihluti hefur mikinn metnað á sviði mannréttindamála en hann vill jafnframt sýna ábyrgð í fjármálum. Sporna þarf gegn sjálfvirkri útgjaldaaukningu í stjórnkerfinu og ekki fjölga þar störfum nema að vel athuguðu máli.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Er nýr meirihluti búinn að gera áætlun um hvernig þeir ætla að verja 85 milljóna króna samþykktu fjárframlagi til mannréttindamála á þessu ári?
Er búið að ákveða að ráða ekki mannréttindaráðgjafa til að vinna með mannréttindastjóra?
Hvaða dag sagði mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar upp störfum?
Hvenær er áætlað að auglýsa starf mannréttindastjóra laust til umsóknar?
Eru áætlanir uppi um að flytja starf mannréttindastjóra á velferðarsvið?
Hverjir hafa verið skipaðir mannréttindafulltrúar á fagsviðum borgarinnar?
Hver eru önnur starfsheiti þessara einstaklinga og í hvað miklu starfshlutfalli eru þeir sem mannréttindafulltrúar?
Eru til starfslýsingar um þessi störf?
Svar óskast fyrir fund borgarstjórnar 6. maí nk.

7. Lögð fram fundargerð fundar fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarfulltrúa frá 22. þ.m., ásamt þeim tillögum sem lagðar voru fram á fundinum. R08040127

Borgarráð samþykkir að vísa tillögum, sem lagðar voru fram á fundi fulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarfulltrúa 22. apríl sl., til meðferðar í fagráðum borgarinnar með þeim hætti sem fram kemur í fundargerð fundarins. Borgarráð hvetur ráðin til að gefa flutningsmönnum tillagnanna færi á því að kynna þær við framlagningu þeirra. Þá verði borgarráði tilkynnt um afgreiðslu tillagnanna um leið og hún liggur fyrir í viðkomandi ráði. Skrifstofa borgarstjórnar taki saman yfirlit yfir afgreiðslu tillagnanna í fagráðum og kynni það bæði fyrir borgarráði og Reykjavíkurráði ungmenna fyrir árslok.

8. Lagður fram dómur Hæstaréttar í máli nr. 366/2007, Eignarhaldsfélagið Portus hf., Reykjavíkurborg og Ríkiskaup gegn Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. og Klasa hf. R06050055

9. Lagt fram samkomulag framkvæmda- og eignasviðs og S10 ehf., dags. 2. þ.m., um kaup félagsins á byggingarrétti á lóð hverfastöðvar framkvæmda- og eignasviðs við Njarðargötu, er sameinast á lóðinni nr. 8 við Sturlugötu. Jafnframt lagt fram bréf aðstoðarsviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 8. s.m., sbr. samþykkt framkvæmda- og eignaráðs 7. s.m. Þá er lagt fram bréf rektors Háskóla Íslands, dags. 23. s.m. Loks er lagt fram minnisblað borgarlögmanns, dags. 23. s.m. R06050075

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir framlagt samkomulag enda verði bætt inn í samkomulagið ákvæði þess efnis að kaupanda sé kunnugt um að breyta þurfi deiliskipulagi varðandi lóðina við Njarðargötu. Kaupanda sé jafnframt kunnugt um að sérstakur stýrihópur á vegum borgarráðs hafi umsjón með vinnu við endurskoðun skipulags í Vatnsmýri í kringum flugvallarsvæðið og að kaupandi muni vinna með borgaryfirvöldum að skipulagningu lóðarinnar.

Tillagan samþykkt með 6 atkvæðum gegn 1.

- Kl. 12.00 víkur Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi.

Borgarráðsfulltrúi Samfylkingar óskar bókað:

Fulltrúi Samfylkingarinnar í borgarráði greiðir atkvæði gegn sölu á lóðinni sunnan við Sturlugötu 8 þó svo að rök mæli með því að lögformlega hafi Reykjavíkurborg rétt á að úthluta lóðinni. Ástæðan er að:
Ekki hefur náðst samkomulag við Háskóla Íslands. Það er til mikils vansa fyrir borgaryfirvöld að gefa sér ekki tíma til að ná sátt við einn stærsta og mikilvægasta vinnustað borgarinnar.
Skipulag svæðisins liggur ekki fyrir. Óljóst er hvort byggingar á þessu svæði samrýmist framtíðaruppbyggingu í Vatnsmýrinni. Samkvæmt þeim tillögum sem nú er unnið eftir liggur fyrirhugað hús á framtíðartengibraut eða götusvæði í Vatnsmýrinni.

Samþykkt borgarráðs:

Borgarráð leggur áherslu á gott samstarf við Háskóla Íslands nú sem fyrr og felur borgarstjóra að koma á viðræðum milli Reykjavíkurborgar og Háskólans um framtíðarþróun og uppbyggingu Háskólasvæðisins og samstarf aðila um skipulag svæðisins með það að markmiði að efla aðstöðu Háskólans á svæðinu og styðja Háskólann í því markmiði að hann skipi sér í flokk með fremstu háskólum í heimi.

10. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, dags. 29. þ.m., varðandi framkvæmdir á Skólavörðustíg, sbr. samþykkt hverfisráðs Miðborgar 28. s.m., sbr. einnig 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. s.m. R08040006

11. Lögð fram umsögn umhverfis- og samgöngusviðs frá 28. þ.m. um fyrirhugaðar breytingar á matvælalögum nr. 93/1995 skv. frumvarpi til laga um endurskoðun á undanþágum frá 1. kafla I. viðauka við EES-samninginn, ásamt bréfi borgarlögmanns, dags. 29. s.m. R08040051
Samþykkt.

12. Lögð fram umsögn borgarlögmanns um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. R08040062
Samþykkt.

13. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

Eins og kunnugt er hafa tveir varaborgarfulltrúar F-listans kosið að starfa með minnihluta þriggja fyrrverandi R-lista flokka gegn meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks í Borgarstjórn Reykjavíkur.
Af þessu tilefni hafa fulltrúar R-lista flokkanna kosið Margréti Sverrisdóttur og Guðrúnu Ásmundsdóttur í ráð og nefndir í stað fulltrúa R-lista flokkanna. Nú hefur hins vegar komið í ljós að Vinstri grænir sem létu af hendi kjörinn fulltrúa í menningar- og ferðamálaráði hafa í staðinn tilnefnt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna í ráðið.
Hér er um að ræða misnotkun á rétti framboða til að tilnefna áheyrnarfulltrúa í ráð og nefndir sem er ætlaður flokkum og framboðum sem ekki hafa nægilegan fjölda borgarfulltrúa til að fá kjörinn fulltrúa í ráð og nefndir borgarinnar. Með þessu móti sitja fleiri fulltrúar minnihluta en meirihluta í ráðinu.
Því er spurt:
Hafa minnihlutaflokkarnir í borgarstjórn tilnefnt fleiri áheyrnarfulltrúa í ráð og nefndir með þessum hætti?
Hversu margir eru áheyrnarfulltrúar minnihlutans í ráðum og nefndum borgarstjórnar og í hvaða ráðum og nefndum borgarstjórnar sitja þeir?
Í hvaða ráðum og nefndum borgarinnar sitja þær Margrét Sverrisdóttir og Guðrún Ásmundsdóttir, varaborgarfulltrúar F-lista?
Hvenær voru þær tilnefndar í þessi ráð og nefndir og af hverjum? R05080100

14. Kynnt er fyrirkomulag á afgreiðslu ársreiknings Reykjavíkurborgar fyrir árið 2007. R08010197

Fundi slitið kl. 12.55

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Björk Vilhelmsdóttir Jórunn Frímannsdóttir
Kjartan Magnússon Ólafur F. Magnússon
Óskar Bergsson Svandís Svavarsdóttir