Borgarráð - Fundur nr. 5022

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð


Ár 2008, fimmtudaginn 10. apríl, var haldinn 5022. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.38. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:


1. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 2. apríl. R08030050

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Miðborgar frá 26. mars. R08010015

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Vesturbæjar frá 3. apríl. R08010016

4. Lögð fram fundargerð innkauparáðs frá 1. apríl. R08010017

5. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 9. apríl. R08010024
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

6. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. R08030154

7. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 2. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breyttu deiliskipulagi í Nauthólsvík. R08040027
Samþykkt.

8. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 9. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna reits 1.140.5, Pósthússtrætisreits. R04110098
Samþykkt.

Bókun borgarráðs:

Borgarráð fagnar nýju og metnaðarfullu deiliskipulagi í Kvosinni. Þessi reitur er einn sá mikilvægasti í Miðborginni og ljóst að einstaklega vel hefur tekist til í þessu umfangsmikla verkefni, sem byggir á niðurstöðu hugmyndaleitar sem Reykjavíkurborg stóð fyrir um þróun svæðisins í kjölfar brunans síðasta vetrardag á síðasta ári. Mjög góð samstaða náðist um vinningstillöguna í þeirri hugmyndaleit, sem nú hefur verið færð í þá tillögu sem hér hefur verið samþykkt í auglýsingu og tekur mið af verndun sögufrægra bygginga samhliða því að tryggja uppbyggingu til eflingar fyrir Kvosina. Samhliða því auglýsingaferli sem nú hefst, verður viðhaft öflugt samráð við eigendur og hagsmunaaðila á reitnum og borgarráð væntir farsællar niðurstöðu og góðrar samstöðu í því ferli. Framkvæmdir og fegrun á þessu svæði hefur mikla þýðingu fyrir Miðborgina í heild og borgarráð fagnar þess vegna einnig þeim upplýsingum sem fram hafa komið að uppbygging á reitnum geti hafist mjög fljótlega og endurgerð eldri húsa á reitnum geti hafist strax á næstu vikum.

9. Lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 27. f.m. varðandi landfyllingu við Ánanaust, ásamt bréfi skipulagsstjóra frá 2. þ.m. R06090260

10. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 8. þ.m. ásamt umsögn skipulagsráðs frá 31. f.m. um frumvarp til skipulagslaga. R08020155
Samþykkt.

11. Lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra og fjármálastjóra Strætó bs. um horfur í rekstri og fjárhag fyrirtækisins, dags. 9. þ.m. R07030007

12. Lagt fram bréf formanns stjórnar Kirkjubyggingarsjóðs frá 2. þ.m., sbr. samþykkt stjórnarinnar 18. f.m., varðandi úthlutanir úr sjóðnum fyrir árið 2008. R08040018
Samþykkt.

13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra framkvæmda- og eignasviðs frá 9. þ.m., þar sem lagt er til að Samtökum aldraðra verði úthlutað byggingarrétti fyrir íbúðir aldraðra á lóðunum nr. 29-31 við Sléttuveg og nr. 2 við Skógarveg, með nánar tilgreindum skilmálum. R08040033
Samþykkt.

14. Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna leggur fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að leita leiða til að afturkalla sölu á fasteigninni að Fríkirkjuvegi 11 þar sem komið hefur í ljós að nýr eigandi á erfitt með að nýta eignina án verulegra breytinga á almenningseign Reykvíkinga, Hallargarðinum.

Greinargerð fylgir tillögunni. R04030143
Frestað.

15. Lagt fram svar borgarstjóra frá 9. þ.m. við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks um Vatnagarð í Úlfarsárdal, sbr. 12. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. f.m. R06100328

Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokks óskar bókað:

Svar borgarstjóra vegna fyrirspurnar um Vatnagarð í Úlfarsárdal er ekki afgerandi, þar sem sagt er að möguleikar á Vatnagarði við Leirtjörn verði kannaðir til hlítar. Spurningar vakna því hvort þetta sé leið meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks til þess að hætta við Vatnagarðinn sem var settur inn í skipulag af frumkvæði Framsóknarflokksins í meirihluta, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.
Óráðlegt var að taka Vatnagarðinn út af skipulagi Úlfarsárdalsins áður en tryggt er að hægt sé að koma honum fyrir við Leirtjörn. Íbúar þessa svæðis vænta þess að Vatnagarðurinn rísi og því er nauðsynlegt að skilaboð borgaryfirvalda til íbúa séu skýr en ekki óljós.

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Svar borgarstjóra felur ekki í sér neina ákvörðun um að falla frá áformum um Vatnagarð í Úlfarsárdal. Öðru nær felst í svarinu að nú sé verið að kanna möguleika á Vatnagarði við Leirtjörn, en það svæði virðist henta ágætlega fyrir svo umfangsmikla þjónustu.

16. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir ellefu veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007. R08040002

17. Lagðir fram úrskurðir dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 31. f.m. vegna veitingahúsanna Monte Carlo, Laugavegi 34a, og Mónakó, Laugavegi 78. R08030056

18. Lagt fram bréf Páls A. Pálssonar hrl. frá 1. þ.m. varðandi dóma í þjóðlendumálum. R03120021

19. Lagt fram bréf samgöngustjóra umhverfis- og samgöngusviðs frá 7. þ.m. varðandi umferðaslys sem varð á Skeiðarvogi 2. s.m. R07120028
Vísað til umsagnar umhverfis- og samgönguráðs.

20. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks um að settur verði á stofn lífskjarahópur, sbr. 39. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. þ.m. Jafnframt lögð fram umsögn borgarhagfræðings frá 9. s.m.
Frestað. R08040025

Borgarráðsfulltrúi Samfylkingar óskar bókað:

Fagnað er jákvæðri umsögn borgarhagfræðings og tekið undir þá hugmynd að útvíkka starfssvið hópsins.

21. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. þ.m.:

Lagt er til að borgarráð samþykki að efna til samkeppni um útfærslu á svæðum á vegum Reykjavíkurborgar í tilefni af 30 ára afmæli Félags íslenskra landslagsarkitekta. Nánari útfærsla og umsjón með samkeppninni verði á vegum umhverfis- og samgöngusviðs í náinni samvinnu við skipulags- og byggingarsvið og framkvæmda- og eignasvið.

Greinargerð fylgir tillögunni. R07090092
Samþykkt.

22. Lögð fram drög að reglum um úthlutanir styrkja á vegum hverfisráða, ásamt bréfi borgarstjóra, dags. 8. þ.m. R08040039
Frestað.

23. Lagt fram bréf Eysteins Yngvasonar frá 31. f.m. varðandi farþegaflutninga til Engeyjar o.fl. R08040041
Vísað til menningar- og ferðamálaráðs.

24. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. í dag:

Borgarráð samþykkir svohljóðandi tillögu íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. febrúar sl.:
Lagt er til að frístundaheimili ÍTR verði rekin á heilsársgrunni frá og með vorinu 2008. Frístundaheimili ÍTR eru 34 talsins og eru starfrækt frá skólabyrjun til skólaloka. Á sumrin rekur ÍTR sumarstarf í hverfum borgarinnar á tæplega 20 stöðum. Heilsárs frístundaheimili verði auk þess rekið fyrir fatlaða einstaklinga.
Þá samþykkir íþrótta- og tómstundaráð að fela framkvæmdastjóra að skipa þriggja manna vinnuhóp til að vinna að undirbúningi þess að frístundaklúbbar fyrir aldurshópinn 9-12 ára verði starfræktir í hverfum borgarinnar til að mæta þörf barnanna á þessum aldri fyrir frístundaþjónustu.
Vinnuhópnum sé ætlað að skila tillögum sínum til íþrótta- og tómstundaráðs fyrir 1. apríl 2008.

Í stað samþykktar frá 3. apríl sl. um 56 mkr. til reksturs frístundaheimila samþykkir borgarráð 75.5 mkr. af liðnum ófyrirséð.
Borgarráð samþykkir jafnframt að fela borgarstjóra að hefja viðræður við félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga um frekari þróun á þjónustu við fötluð börn á aldrinum 10-16 ára og fjárhagslega þátttöku ríkisins í verkefninu.

Jafnframt lögð fram ályktun framkvæmdaráðs Landssamtakanna Þroskahjálpar frá 9. þ.m. R08020135
Tillaga borgarstjóra samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks óska bókað:

Því er fagnað að borgarráð aflétti nú þegar óvissu um frístundastarf fatlaðra næsta sumar og tryggi fjárveitingar til verkefnisins í stað þess að þæfa það með viðræðum við félagsmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þar með hafa hagsmunir fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra verið að fullu tryggðir.

25. Lögð fram drög að samkomulagi ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um húsaleigubætur, dags. 7. þ.m. R05060149

- Kl. 13.00 víkur Júlíus Vífill Ingvarsson af fundi.

Samþykkt borgarráðs:

Borgarráð fagnar samkomulagi milli félagsmálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um hækkun húsaleigubóta. Almennar húsaleigubætur geta nú orðið að allt að 46 þús. á mánuði og með sérstökum húsaleigubótum getur upphæðin farið upp í 70 þúsund. Ljóst er að breytingar á þessum upphæðum hafa gríðarlega þýðingu fyrir leigjendur auk þess sem niðurstaðan er mikilvæg til að styrkja almennan leigumarkað. Gert hefur verið ráð fyrir fjármunum til hækkunar húsaleigubóta í fjárhagsáætlunum Reykjavíkurborgar fyrir árið 2008 og því er ekkert til fyrirstöðu að Reykjavík verði í fararbroddi sveitarfélaga sem munu hækka sérstakar húsaleigubætur. Beinir borgarráð þeim tilmælum til velferðarsviðs og fjármálaskrifstofu að vinna að innleiðingu þeirra breytinga sem nauðsynlegar eru á reglum um sérstakar húsaleigubætur með vísan til ofangreinds samkomulags.

26. Lagt fram svar borgarstjóra við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokks vegna umæla um Framsóknarflokkinn í fjölmiðlum, dags. 9. þ.m., sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 3. þ.m. R08040021

Fundi slitið kl. 13.21

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Ólafur F. Magnússon
Óskar Bergsson Þorleifur Gunnlaugsson