Borgarráð - Fundur nr. 5021

Borgarráð

B O R G A R R Á Ð

Ár 2008, fimmtudaginn 3. apríl, var haldinn 5021. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.40. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð eigendafundar Orkuveitu Reykjavíkur frá 15. febrúar. R08020093

2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Breiðholts frá 25. mars. R08010008

3. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis frá 17. mars. R08010011

4. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Laugardals frá 26. mars. R08010014

5. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 2. apríl. R08010024
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

6. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 6. og 13. mars. R08020092

7. Lögð fram fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. frá 28. mars. R08010026

8. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 28. mars. R08010028

9. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 7 mál. R08030154

10. Lögð fram umsögn slökkviliðsstjóra um frumvarp til laga um breytingar á lögum um brunavarnir nr. 75/2000, með síðari breytingum, dags. 31. f.m. R08020154
Samþykkt.

11. Lögð fram skýrsla Brunamálastofnunar vegna bruna við Lækjartorg, dags. í apríl 2008. R07040086
Slökkviliðsstjóra falið að vinna tillögur til borgarráðs um aðgerðir til að fylgja eftir ábendingum sem fram koma í skýrslunni.

12. Lögð fram skýrsla Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. um kortlagningu auðra bygginga í miðborg Reykjavíkur, dags. í apríl 2008. Jafnframt lagt fram kort skipulags- og byggingarsviðs yfir autt húsnæði í miðborginni, ódags. Þá eru lagðar fram tillögur slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa, ódags., um aðgerðir. R08040005
Tillögur slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa samþykktar.

Bókun borgarráðs:

Borgarráð þakkar embætti slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa mikla og góða vinnu vegna auðra bygginga í Miðborginni. Borgarráð er einhuga í þeirri afstöðu sinni hversu mikilvægt er að bregðast hratt og örugglega við því ástandi sem ríkt hefur í Miðborginni og til sérstakrar umræðu hefur verið að undanförnu. Það er gert með þeirri vinnu sem hér hefur verið kynnt. Borgarráð bendir á að svæðið sem athugun slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa nær til, tekur yfir mun stærra svæði en aðeins nágrenni Laugavegar, Hverfisgötu og Kvosar. Fjöldi auðra húsa sem nefndur er í umræddri skýrslu tekur mið af þessu og því að þarna var um að ræða óformlega talningu, sem byggði hvorki á upplýsingum frá eigendum eða tók mið af skipulagslegri stöðu eignanna. Slík skoðun hefur verið unnin á vettvangi skipulagssviðs og sýnir sem betur fer að umrædd hús standa ekki öll auð vegna vanrækslu, heldur er ástæða þessa oft uppbygging, endurgerð eða eigendabreytingar. Þrátt fyrir það ítrekar borgarráð þá afstöðu sína að fast sé haldið á eftirliti og aðgerðum á þessu svæði, þannig að tryggt sé að sem fæst hús standi auð í miðborg Reykjavíkur og öryggi þeirra og umhverfi þeirra sé tryggt.

13. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 2. þ.m. þar sem kynntur er aðgerðahópur borgarstjóra í málefnum miðborgarinnar. Jafnframt lagt fram erindisbréf hópsins, dags. s.d. R08040020

14. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 2. þ.m. þar sem kynnt er fyrirhuguð ráðning verkefnisstjóra miðborgar til eins árs. R08040015

15. Lögð fram lokaskýrsla samráðshóps borgarstjóra um betri Miðborg, dags. í janúar 2008, ásamt bréfi borgarstjóra, dags. 2. þ.m. R08020088
Samþykkt að fela borgarstjóra, Jórunni Frímannsdóttur og Degi B. Eggertssyni að yfirfara tillögur samráðshópsins og leggja fyrir borgarráð tillögur um framgang þeirra fyrir apríllok.

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks fagna því að skýrsla samráðshóps um betri Miðborg hafi nú verið lögð fram í borgarráði og að aðgerðarhópur í málefnum Miðborgar hafi verið skipaður og taki nú þegar til starfa undir forystu borgarstjóra. Verkefnisstjóri Miðborgar verður ráðinn á skrifstofu borgarstjóra, þar sem átak í málefnum Miðborgar verður sérstakt forgangsverkefni og þannig áhersla lögð á betri umgengi og eftirlit í Miðborginni. Í samstarfi við embætti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins verði unnið að því að öryggismálum í Miðborg Reykjavíkur verði komið í betra horf. Þeim sem komu að vinnu á skýrslunni eru þökkuð afar góð störf. Samkvæmt erindisbréfi aðgerðarhóps um Miðborg Reykjavíkur mun hópurinn fara yfir fyrirliggjandi tillögur í skýrslunni og hafa þær til hliðsjónar í störfum sínum eins og kostur er. Borgarstjóri og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks harma aftur á móti að minnihlutinn í Borgarstjórn Reykjavíkur hafi viðhöfð þau óvönduðu vinnubrögð að kynna skýrslu samráðshópsins um betri Miðborg áður en hún var lögð fram í borgarráði. Skýrslan var unnin að ósk fyrrverandi borgarstjóra, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, en ekki að frumkvæði núverandi minnihluta, eins og ranglega hefur verið greint frá í fjölmiðlum. Minnihlutanum hefði verið í lófa lagið að biðja um að skýrslan yrði lögð fram í borgarráði áður en hún yrði kynnt í fjölmiðlum, eins og raunar stóð til að gera og minnihlutanum mátti vera kunnugt um.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsókarflokks óska bókað:

Ljóst er að þessi ágæta skýrsla lá fyrir 19. janúar 2008 og var því fyrirliggjandi þegar núverandi meirihluti var myndaður. Það er harmað að skýrslan og tillögurnar sem í henni felast hafi ekki verið kynntar fyrr. Furðulegt er að taka ekki efnislega afstöðu til tillagna skýrslunnar og stofna þess í stað nýja og heldur fjölmennari nefnd embættismanna um Miðborgina. Það er þó til bóta að stefnt sé að því að borgarráð taki afstöðu til málsins fyrir lok apríl.

16. Lögð fram svör innri endurskoðanda frá 31. f.m. við fyrirspurnum um framkvæmdir við Laugardalsvöll ásamt fylgiskjölum, sbr. 15. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. febrúar sl., 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. f.m. og 30. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. s.m. R08020127

- Kl. 12.28 víkja borgarstjóri og Kjartan Magnússon af fundi.

Samþykkt borgarráðs:

Borgarráð samþykkir á grundvelli þegar framlagðs tilboðs að vegna viðbótarkostnaðar við framkvæmdir verði KSÍ greiddar 230 mkr. nú þegar auk vaxta og verðbóta. Þá muni lokauppgjör fara fram þegar framkvæmdasvið hefur yfirfarið lokaskýrslu KSÍ um framkvæmdina og sundurliðun vegna aukakostnaðar. Borgarráð samþykkir framlagða tillögu innri endurskoðanda en leggur áherslu á að í því felst hvorki viðurkenning á þátttöku Reykjavíkurborgar í viðbótarkostnaði eða aukaverkum sem KSÍ ákvað einhliða, án samþykkis á formlega réttum vettvangi né vilyrði um viðbótargreiðslur í tengslum við yfirferð á lokaskýrslu KSÍ, um framkvæmdina sem getur bæði leitt til hækkunar eða lækkunar á ofangreindri upphæð. Er það von borgarráðs að þessi samþykkt geti innsiglað sátt milli aðila um uppgjör vegna þessarar mikilvægu framkvæmdar.

17. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 19. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um úthlutun styrkja úr húsverndarsjóði Reykjavíkur fyrir árið 2008. R08030128
Samþykkt.

Bókun borgarráðs:

Framlög úr húsverndarsjóði að þessu sinni eru 50#PR hærri en þau hafa áður verið í samræmi við fjárhagsáætlun sem lögð var fram í desember 2007. Upphæðin hafði staðið í stað að krónutölu allt frá árinu 1994. Fagnað er þeim áformum að þessi breyting verði sérstaklega kynnt og jafnframt áréttað mikilvægi þess að upphæðirnar í sjóðinn fylgi verðlagshækkunum hér eftir hið minnsta.

18. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 19. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um breytingu á deiliskipulagi Naustareits. R07110115
Samþykkt.

19. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 19. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skarfabakka vegna lóðar nr. 1-3 við Korngarða. R08030129
Samþykkt.

20. Lagt fram bréf skipulagsstjóra frá 19. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., um auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.141.2 vegna lóðar nr. 12 við Lækjargötu. R08030130
Samþykkt.

21. Lögð fram áskorun íbúa og rekstraraðila við Skólavörðustíg, dags. 2. þ.m., varðandi tilhögun umferðar o.fl. við götuna. R08040006
Vísað til umhverfis- og samgönguráðs.

- Kl. 12.55 tekur Kristján Guðmundsson sæti á fundinum.

22. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 12. f.m., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs 8. febrúar sl., þar sem lagt er til að frístundaheimili ÍTR verði rekin á heilsársgrunni frá og með vorinu 2008, og óskað eftir fjárveitingu til verkefnisins. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra, ódags.
Samþykkt með þeim hætti sem fram kemur í umsögn fjármálastjóra. Fjárveiting, 56 mkr., fari af liðnum ófyrirséð. R08020135

23. Lögð fram samantekt framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs um húsnæðismál frístundaheimila, frístundamiðstöðva og félagsmiðstöðva, dags. 31. f.m. R08040011

24. Lögð fram tillaga íþrótta- og tómstundaráðs frá 31. f.m., sbr. bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs dags. s.d., um að frá og með 1. júní nk. verði barnagjald í sundlaugum Reykjavíkur miðað við 6-18 ára aldur. R08040001
Samþykkt.

25. Lögð fram skýrsla starfshóps um framtíðarskipulag Seljahlíðar, heimilis aldraðra, dags. í janúar 2008. Jafnframt lagt fram bréf sviðsstjóra velferðarsviðs frá 31. f.m., sbr. samþykkt velferðarráðs 26. s.m. R08030158

26. Lögð fram umsögn umhverfis- og samgöngusviðs um framtíðarlausnir í úrgangsmálum á Suðvesturlandi, dags. 6. f.m., ásamt bréfi umhverfis- og samgöngusviðs frá 13. s.m., sbr. samþykkt umhverfis- og samgönguráðs frá 11. s.m.
Samþykkt. R07050065

27. Lagt fram bréf borgarlögmanns, dags. í dag, varðandi umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum á auðlinda- og orkusviði. Jafnframt lögð fram umsögn Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 2. þ.m. R08030021
Samþykkt með 6 samhljóða atkvæðum.

Borgarráðsfulltrúi Vinstri grænna óskar bókað:

Fagnað er viðleitni þeirri sem fram kemur í frumvarpinu í þá veru að halda orkuauðlindunum í almenningseign. Frumvarpið kemur vissulega í veg fyrir einkavæðingu þeirra orkufyrirtækja sem nú eru alfarið í eigu opinberra aðila en þó aðeins að 2/3. Í því sambandi má benda á að engin samkeppnis- eða hagkvæmnisrök hníga að því að sérleyfisstarfsemi sé í einkaeign. Hins vegar er varað við þeim atriðum frumvarpsins þar sem boðuð er meiri aðkoma einkaaðila að orkufyrirtækjunum en áður hefur þekkst. Í raun gæti orðið um að ræða einkavæðingu á framleiðslufyrirtækjum þar sem sérstök eignarhaldsfélög yrðu mynduð um auðlindina til að halda henni eftir. Þetta þýðir mögulega einkavæðingu á Landsvirkjun, Rarik, Orkubúi Vestfjarða og Hitaveitu Suðurnesja, þar sem stofnuð yrðu félög um auðlindina sem yrði svo hugsanlega leigð áfram til einkaaðila. Sérstakar áhyggjur vekur umfjöllun 4. greinar þar sem opnað er á að einkaaðili eignist hlut í Landsneti sem er sannarlega vegakerfi orkunnar og ætti að vera í eigu opinberra aðila hér eftir sem hingað til. Vakin er athygli á því að með frumvarpinu er takmarkaður réttur sveitarfélaga til að skipa veitumálum sínum með hagkvæmum hætti í einu móðurfyrirtæki en með því er krafist fyrirtækjaaðskilnaðar í stað bókhaldsaðskilnaðar milli sérleyfis- og einkaleyfisstarfsemi á raforkusviði. Spurning er hvort tryggt sé að ríkið sé skaðabótaskylt gagnvart viðkomandi sveitarfélögum ef sýnt verður framm á að fjárhagslegt óhagræði skapist af aðskilnaðinum.

28. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar frá 27. f.m. yfir umsagnir um rekstrarleyfi tveggja veitingastaða, sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. R08030002

29. Lagt fram minnisblað skrifstofu borgarstjóra um verkefnið 1, 2 og Reykjavík, dags. í dag. R07110163

30. Lögð fram umsögn fjármálastjóra og sviðsstjóra framkvæmda- og eignasviðs, ódags., um framkvæmd könnunar á kostum þess að sveitarfélög stofni með sér sameiginlegt fasteignafélag, sem samþykkt var af stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. 27. nóvember sl. R05010143
Vísað til Lánasjóðs sveitarfélaga.

31. Lögð fram að nýju drög að samningi Reykjavíkurborgar og Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar um greiðslu höfundagjalda, ódags., ásamt bréfi borgarlögmanns, dags. 25. f.m. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra frá 1. þ.m.
Samþykkt. R08030113

32. Lögð fram tímaáætlun fjármálaskrifstofu vegna ársreiknings 2007 og árshlutauppgjörs 2008. R08010197

33. Lagt er til að Hallgrímur Egilsson taki sæti varamanns í hverfisráði Breiðholts í stað Ernu Ingólfsdóttur. R08020023
Vísað til borgarstjórnar.

34. Lagt fram minnisblað innri endurskoðanda frá 31. f.m. varðandi innri endurskoðun hjá félögum í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar. R07090014
Borgarráð ítrekar fyrri samþykkt sína um málið frá 25. október s.l.

35. Lagt fram bréf samgönguráðherra frá 11. f.m., þar sem óskað er tilnefningar í samráðsnefnd samgönguráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um Reykjavíkurflugvöll. R06020002

36. Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar frá 31. f.m. um endurupptöku útsvarsmáls, þar sem lagt er til að beiðni um endurupptöku verði synjað. R08010112
Umsögn skrifstofu borgarstjórnar samþykkt.

37. Lögð fram drög að svari borgarráðs við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis frá 22. febrúar sl. um málefni Orkuveitu Reykjavíkur og fyrirætlanir um sameiningu Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy, dags. í dag. Þá eru lagðar fram athugasemdir borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks við drögin, dags. í dag. R07100223

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks óska bókað:

Minnihlutinn hefur í sérstökum athugasemdum til umboðsmanns Alþingis rakið allnokkur dæmi um afar skýra framsetningu tiltekinna borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á því að borgarstjóri þáverandi hafi verið umboðslaus á fundinum í stjórn Orkuveitunnar 3. október sl. Þegar aðdragandi þess fundar er rakinn í drögum að svörum til umboðsmanns segir hins vegar aðeins: “Í ljósi þeirrar umræðu sem síðar fór fram má ætla að fundarmenn sem sátu meirihlutafundinn hafi upplifað það sem fram fór á fundinum með nokkuð ólíkum hætti.” Verður ekki hjá því komist að benda á hversu útvatnað orðalagið er í svardrögunum og augljóst að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tala ekki eins skýrt nú eins og þeir gerðu í ofannefndum dæmum. Það endurspeglar það pólitíska vandræðaástand sem varir í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fulltrúar minnihlutans telja það afar brýnt að öllum staðreyndum sé til haga haldið við svörin til að sem skýrust mynd verði dregin upp af því sem fram fór á fundinum og skilningur verði eins glöggur og unnt er án þess að pólitískur veruleiki dagsins drepi málum á dreif.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Það veldur miklum vonbrigðum með hvaða hætti borgarráðsfulltrúar minnihlutans kjósa að bregðast við því svari sem hér liggur fyrir til umboðsmanns Alþingis. Ljóst má vera að tilgangur þeirra er einungis að reyna að draga athyglina frá aðalatriðum málsins og nýta sér það til persónulegra skeytasendinga. Spurning umboðsmanns fjallar um það hvort fyrrverandi borgarstjóri hefði mátt ætla að hann hefði umboð meirihluta borgarstjórnar til þeirrar ákvörðunar sem hér um ræðir. Eins og kemur fram í svarinu til umboðsmanns komu ýmsar efasemdir fram á fundum meirihluta og minnihluta. Engin formleg atkvæðagreiðsla fór fram um málið og í svarinu segir að ,,í ljósi þeirrar umræðu sem síðar fór fram má ætla að fundarmenn sem sátu meirihlutafundinn hafi upplifað það sem fram fór á fundinum með nokkuð ólíkum hætti.“ Þetta er í fullu samræmi við það sem allir fulltrúar þáverandi meirihluta hafa sagt og ekkert nýtt að einstakir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi kveðið fast að orði í REI málinu og lýst efasemdum sínum með afgerandi hætti. Þegar litið er á stuðning flokka í Borgarstjórn Reykjavíkur við samruna GGE og REI verður að horfa til þess að Samfylkingin studdi málið heilshugar og hefur aldrei dregið í land með þann stuðning. Sama má segja um Framsóknarflokkinn. Fulltrúi Vinstri grænna sat hjá. Þegar umboðsmaður spyr hvort meirihluti hafi verið innan Borgarstjórnar Reykjavíkur, hlýtur að vera litið til þessarar staðreyndar. Með þessu séráliti sínu tekur minnihlutinn sorglega beygju útaf þeirri braut sem allir flokkar hafa reynt að fylgja í eftirmálum REI málsins, þar sem reynt hefur verið að læra af málinu, bæta verkferla og vinna málefnalega að hagsmunum borgarbúa.

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks óska bókað:

Það sýnir hversu rammvilltur Sjálfstæðisflokkurinn er í eigin pólitísku öngstræti þegar hann leitar skjóls á bak við meinta afstöðu minnihlutans til REI-málsins þegar umboð borgarstjóra á stjórnar- og eigendafundi Orkuveitunnar 3. október 2007 er annars vegar. Hvorki fulltrúar Samfylkingar né Vinstri grænna gáfu upp afstöðu sína fyrirfram en studdu tillögu um frestun á fundinum. Þessa er ekki getið í drögum að svari til umboðsmanns. Frestunartillagan var felld. Ekki þarf að rifja upp að mikilvægum upplýsingum var leynt fyrir stjórn Orkuveitunnar. Það kemur ekki skýrt fram í svari en hefði eitt og sér átt að vera frágangssök. Það er því fráleitt fyrir meirihlutann að ætla að leita skjóls í því að fulltrúi Samfylkingarinnar hafi greitt atkvæði með og fulltrúi VG hafi setið hjá þegar tillögurnar á stjórnar- og eigendafundinum voru bornar upp. Varla er átt við að þáverandi borgarstjóri hafi reitt sig á nýjan meirihluta Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, Samfylkingar og Framsóknarflokks í málinu. Sé það hugsunin er hún einnig röng því augljóst er að þessir fulltrúar eru sex en ekki átta, sem þarf til að mynda meirihluta í Borgarstjórn Reykjavíkur.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óskað bókað:

Allar upplýsingar þessa máls liggja fyrir og fulltrúar minnihlutans hafa ekki bent á neitt rangt í því svari sem hér er lagt fram til umboðsmanns Alþingis. Það er ekkert nýtt að fulltrúar Samfylkingarinnar hafi stutt málið, t.d með háttstemdum yfirlýsingum á borð við 50 milljarða króna hagnaðarvon Dags B. Eggertssonar borgarfulltrúa. Það sama hafa borgarfulltrúar Framsóknarflokks gert. Nú hafa fulltrúar þessara tveggja flokka og fulltrúi Vinstri-grænna loks náð saman í efnisatriðum þessa máls og það eitt hlýtur að vekja athygli. Varðandi meirihluta borgarstjórnar, þá gefur minnihlutinn sér það í sinni bókun að allir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu greitt atkvæði gegn málinu. Sú afstaða liggur hvergi fyrir, enda aldrei greitt atkvæði um málið, eins og fram kemur í svari umboðsmanns Alþingis. Málflutningur minnihlutans í þessu máli er því hvorki sannfærandi né sanngjarn, enda virðist tilgangurinn einungis vera sá að snúa út úr og dylgja með orð og afstöðu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks óska bókað:

Það er nýtt að ekki hafi allir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins nema Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson verið andsnúnir REI-málinu. Voru sexmenningarnir ekki sex?

Drög að svari borgarráðs samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.

38. Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokks leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

Í kvöldfréttatíma ríkissjónvarpsins s.l. mánudag um ástandið í Miðborg Reykjavíkur fullyrti borgarstjóri að Framsóknarflokkurinn hefði gengið lengst í þjónustu sinni við verktaka og auðmenn og mátti skilja að ástandið í Miðborg Reykjavíkur væri því um að kenna.
Ummæli borgarstjóra voru eftirfarandi:
Það hafa orðið þau umskipti í borginni að í fyrsta skipti í langan tíma er sá flokkur sem lengst hefur gengið í þjónustu við verktaka og auðmenn, Framsóknarflokkurinn ekki í meirihluta í Reykjavík. Og ég held að þess muni sjást stað í skipulagsmálunum og uppbyggingunni þar að við erum að gæta hagsmuna borgarbúa en ekki einhverra tiltekinna sérhagsmunahópa eða flokksmanna, eða verktaka eða annara sem (hafa) mikla umsýslu og fé undir höndum.
Vegna þessarar ummæla voru eftirfarandi spurningar lagðar fyrir borgarstjóra á fundi borgarstjórnar þann 1. apríl s.l.:
Hvað á borgarstjóri við þegar hann segir að Framsóknarflokkurinn hafi gengið lengst í þjónustu sinni við verktaka og auðmenn?
Hvaða auðmenn eða verktakar eru það sem Framsóknarflokkurinn gengur svo langt í þjónustu sinni við að mati borgarstjóra og hvernig tengist það niðurlægingu Miðborgarinnar?
Borgarstjóri svaraði ekki fyrirspurninni þegar hún var lögð fram, en lét þau orð falla seinna á sama fundi að ummælin beindust ekki að sitjandi borgarfulltrúa, heldur Framsóknarflokknum. Með öðrum orðum þá hefur borgarstjóri tekið einn framsóknarmann út fyrir sviga í ásökunum sínum en um leið ásakað allt það fólk sem myndar Framsóknarflokkinn um að ganga sérstaklega erinda auðmanna og verktaka í Miðborg Reykjavíkur. Ég sem kjörinn fulltrúi Framsóknarflokksins í Reykjavík geri þá kröfu að borgarstjóri rökstyðji þær aðdróttanir sem í orðum hans liggja og leggi fram sannanir máli sínu til stuðnings. Það á ekki að líðast í Borgarstjórn Reykjavíkur að flokkar jafnt sem borgarfulltrúar þurfi að sitja undir órökstuddum fullyrðingum um meinta spillingu og sviksemi við borgarbúa.
Ég krefst rökstuðnings borgarstjóra og sannana fyrir þessum ummælum eða að hann dragi ummæli sín til baka og biðjist afsökunar. R08040021

39. Borgarráðsfulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Framsóknarflokks leggja fram svohljóðandi tillögu:

Borgarráð samþykkir að setja á stofn lífskjarahóp sem hafi það hlutverk að fara yfir gjaldtöku af hendi borgarinnar sem heimilin bera og gera tillögur til að draga úr mismunun og auka jöfnuð. Hópnum er ætlað að greina hvernig borgin geti komið til móts við breytt efnahagsumhverfi fjölskyldnanna. Í starfi hópsins verði sérstök áhersla lögð á möguleika og tækifæri barna og ungmenna í borginni. Hópurinn verði skipaður borgarfulltrúum en njóti fulltingis og leiðsagnar embættismanna eftir því sem þurfa þykir. Hópurinn skili tillögum fyrir 15. maí 2008. R08040025

Frestað.

Fundi slitið kl. 16.00

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Dagur B. Eggertsson Gísli Marteinn Baldursson
Hanna Birna Kristjánsdóttir Kristján Guðmundsson
Óskar Bergsson Svandís Svavarsdóttir